„Það sem vantar hjá þér fær einhver annar“

„Það sem vantar hjá þér fær einhver annar“

Það er gott að dreifa áhyggjum dagsins - flokka þær niður eftir mikilvægi. Þannig kemst ég hjá því að verja of löngum tíma í það að hafa áhyggjur að einhverju sem ekkert er hægt að hlutast til um. Veðrið er eins og skapið kemur einhverstaðar frá og það fer einhvert.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
28. apríl 2008

Hvað er að? - loksins þegar veðurenglarnir leika við hvern sinn fingur og senda ylgefandi geisla sólar á okkur vetrarþreytt börnin þá skuli sú hugsun læðast aftan að mér eins og þjófur að nóttu að þetta vari ekki lengi.

“Þetta er of gott til að vera satt.“

„Svona veður fær mann bara til að sakna þeirra þegar þeir eru á bak og burt og rigningin tekur við.“

Hvers vegna er ekki hægt að njóta augnabliksins. Er á meðan er! Ég er einn af þessum sem hugsa að þetta er of gott til að vera satt og það mun ekki vara lengi. Samt hef ég á skipulegan hátt sagt við sjálfan mig þegar ég vakna baðaður sólargeislum og dillandi fuglasöng í eyrum og held sem snöggvast að konan sé að tala við mig – að ég skuli í dag njóta augnabliksins. Hvers vegna er ég svo heftur að geta ekki gripið augnablikið og látið þar við sitja. Ég veit að augnablikið varir aðeins fáein sekúndubrot en þær hafa teygt vel úr sér og safnast sama í daga og vikur, mánuði og ár.

Annars er það nú svo að það hefur orðið breyting á veðurfari og hlýrra er en fyrir ekki mjög mörgum árum síðan og við mannfólkið fögnum að sjálfsögðu. Hvað veldur hlýnuninni umfram annað er aftur á móti mun alvarlega og þær afleiðingar sem hún hefur fyrir lífríkið er eitthvað sem er vert að hugsa um.

Ég sá frétt um daginn að bleikjustofninn í Ellíðavatni sé að hruni komin vegna hlýnunar. Ég var ekki viss hvort að ég ætti að taka það á mig en ákvað að gera það. Ég sem manneskja er auðvitað aðeins hluti af miklu stærri heild sem er lífríkið og mér ber að hafa áhyggjur af því. Það er aftur á móti annað hvað ég geri úr áhyggjum mínum. Ég er reyndar þessa dagana að taka mig á hvað varðar heimilisúrgang sem ég hef bara kastað eftir þörfum og ekkert verið að flokka. Ég hef áhyggjur af umhverfinu ekki aðeins af því hvort það verði sólríkt sumar þurrt eða rakt eins og spár segja til um. Ekki hlýrra sumar í 150 ár segja spár!

Það er gott að dreifa áhyggjum dagsins - flokka þær niður eftir mikilvægi. Þannig kemst ég hjá því að verja of löngum tíma í það að hafa áhyggjur að einhverju sem ekkert er hægt að hlutast til um. Veðrið er eins og skapið kemur einhverstaðar frá og það fer einhvert.

Ég er að reyna að temja mér hugsunargang góðrar vinkonu minnar sem er á tíræðisaldri sem setur upp vandlætingarsvip þegar ég kvarta yfir sólarleysi, rigningarleysi og eða snjóleysi, skilningsleysi eða „leysi“ almennt þá segir þessi vinkona mín sem marga fjöruna hefur sopið – „iss það sem vantar hjá okkur eru bara einhverjir aðrir að fá og við eigum bara að gleðjast yfir því.“

Ég skapraunast yfir því að vera ekki eins vel þroskaður og þessi ágæta vinkona mín. Kannski er þetta eigingirni? Það skyldi aldrei vera? En sú hugsun varir bara eitt augnablik!