Að fylla góðmennsku á mal sinn

Að fylla góðmennsku á mal sinn

Þegar ég byrjaði hugleiða texta guðspjalls þessa þriðja sunnudags í föstu þá vissi ég hreint ekki hvað ég ætti við hann að gera. Þessi orðræða sem dregur fram efaraddir þeirra sem upplifa eitthvað gott, sem glíma við að skilja og túlka framandi veruleika máttarverks.

Þegar ég byrjaði hugleiða texta guðspjalls þessa þriðja sunnudags í föstu þá vissi ég hreint ekki hvað ég ætti við hann að gera. Þessi orðræða sem dregur fram efaraddir þeirra sem upplifa eitthvað gott, sem glíma við að skilja og túlka framandi veruleika máttarverks.

Þau eru að reyna að skilja það sem er að eiga sér stað en finna ekki hvernig þau geta fellt það í samhengi þeirrar hugsunar sem ráðandi er á þeirra tíma.

Já ég var engan veginn viss hvað ég ætti við þetta að gera og leitaði í ritninguna eftir frekari opnun til umfjöllunar og datt niður á hreint magnaðan texta úr spádómsbók Jesaja 30: 15-17

„fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur ykkar vera“ En þér vilduð þetta ekki heldur sögðuð „Nei, vér viljum þeysa fram á hestum“ …. „vér viljum ríða fráum fákum“

og Jesaja heldur áfram

… þessvegna munu þeir fráir sem elta yður Eitt þúsund skjálfa vegna hótunar eins manns og fyrir hótunum fimm manna munuð þér flýja uns þeir sem eftir verða líkjast merkistöng á fjallstindi eða gunnfána á hól.

Þessi texti fannst mér tala til mín sem Íslendings á tuttugustu og fyrstu öldinni. Svona skömmu eftir að við höfðum öll hlaupið yfir okkur í leitinni að gullkálfinum. Ætlast áfram svo hratt og hátt að okkur bar lengra en við áttum inneign fyrir, hlupum uppaf stiganum ef svo að orði komast, sáumst ekki fyrir og féllum svo hátt og hart svo undan svíður.

Og ég varð aftur hugsi yfir guðspjallatextanum sem fyrir okkur liggur. Orðfærið svo sterkt og tamt þeim sem þarna töluðu saman, en mér og okkur á tuttugustu og fyrstu öldinni er tal um illa anda allsendis framandi. Við þykjumst jú yfir það komin í hugsun að ímynda okkur að illir andar búi sér bólstað í mönnum og valdi veikindum og fötlun eins og fólk ætlaði að væri í tilviki þess sem var mállaus og guðspjallið greinir frá. Frammi fyrir þeim vanda að kunna ekki skil á eða hafa skilning á því afhverju málleysi hrjáði blessaðan manninn þá var það skýrt með illum anda. Í samtíma Jesú, þarna fyrir 2000 árum, var svo mikið af erfiðum veikindum og mannlegum vanda útskýrt sem verk illra anda. Mikið af veikindum og fötlun var útskýrt þannig að illur andi hefði tekið sér bólstað í og skemmt eða skert færni viðkomandi til líkama eða sálar. Og hinn veiki var vegna þessa álitinn óhreinn og oft útskúfaður án þess að hann hefði þó nokkuð til þess unnið sjálfur. Saklaus var hann sakfelldur ef svo má segja.

Langveikir og viss hópur fatlaðra áttu undir högg að sækja vegna einhvers sem þau höfðu ekkert haft um að segja. Þau voru skilin frá og haldið aðgreindum frá samfélagi hinna. Skilin frá samfélagi þeirra sem álitu sig heil og litu út fyrir að vera heil þar sem þau gátu aflað sér afkomu, tjáð sig og tekið á sig samfélagsskyldur. Aðrir sem voru á virkum aldri en ófærir til þátttöku á sama veg, voru settir hjá og réttlætingin var þessi: Jú þau hlutu að vera haldin illum öndum eða einhverju sem hinir vildu verjast.

Grimmur heimur það! Umræðan í guðspjallinu ögrar þessari hugsun með því að þegar Jesús vann góðverk sem þeir gátu ekki skilið, læknaði málleysið, þá hröpuðu einhverjir til að álykta að hann ynni kraftaverk sitt í krafti illra afla. Að hann ynni gott með fulltingi hins illa. Frekar en að horfast í augu við það þau skildu þetta ekki þá var gripið til þess sem nærtækast þótti. Það hlaut bara að vera í krafti hins illa sem hann ynni þó það væri gott sem hann væri að gera.

Sérstakt finnst ykkur ekki? Eins og auðveldara sé að finna nærveru ills, illra hneigða eða undirförli en hitt reikna með krafti kærleika og góðvildar. Samt var kærleikur ekki framandi þessu fólki. Trúarlífið miðaðist við að veita kærleikanum brautargengi. En leiðin var mikið vörðuð baráttunni við hið illa, kærleikurinn fengi framgang með því að hemja hið illa, hlíta lögum og lofum lögmáls og trúarhefða.

Öll hugsun var baraáttu skilgreind og orðfærið gjarnan tekið úr orustum eða átökum stríðandi afla. Enn má reyndar finna slíku stað í trúararfi okkar og í orðfæri samtíma okkar. Og oft verðum við svo upptekin af að takast á við brestina að við ræðum lítt hið góða. Við leiðum þá aðeins líkum að hinu góða og gefum okkur að handan baráttunnar muni gott bíða okkar og góðs vera að vænta. Hið illa fær athyglina.

En á þetta að vera svo? Hvað er það sem Kristur er að tala um í textanum? Hann tekst á við þessa hugsun og segir hreint út að hún beri með sér villu. Því hún feli í sér sundurþykkju og standist ekki skoðun. Illt sem vinnur gott getur ekki staðist skilgreiningu þess að vera illt og mun því sundrast. – Hugsunin gengur ekki upp. Í slíkri hugsun er vitlaust gefið í byrjun og þau sem þannig hugsa lenda í öngstræti.

Í samhengi því sem guðspjallamaðurinn Lúkas býr þessari frásögn, er stöðugt verið að brýna fólk til góðs og benda með dæmisögum og líkingum á að við vinnum hinu góða farveg með því að rækta gott í okkur. Það er dregið fram að gott er ekki víkjandi í mannfélagi heldur er það til staðar og við þurfum að lyfta því upp.

Ef maður kemur til vinar um nótt og biður hann greiða þá greiðir vinur götu vinar síns. Já og hann greiðir jafnvel einnig götu þess sem þekkir ekki, hjálpar þeim sem biður um hjálp. Kærleikurinn er til staðar jafnvel á meðal brotinna manna og misvitra. Já við þurfum að gæta að hvernig við lítum hvert annað, við þurfum að gæta þess að ætla öðrum ekki illt að óreyndu. Þegar auga þitt er heilt þá er líkaminn bjartur en sé það spillt þá er og líkami þinn dimmur. (Lk 11:34b)

Gata hins góða greiðist ekki best með því sem frá er rutt heldur með því sem við ræktum innra með okkur og höldum á lofti. Hér er gott að muna orðtakið sem kvennahreyfingar samtímans hafa haldið á lofti og notað til að minna á mikilvægi þess að gefa góðan gaum að orðum okkar og að vanda þau: „Málfar mótar“.

Hvaða hugtök notum við til að tjá okkur, lýsa upplifunum okkar eða greina frá því sem fyrir okkur hefur borið. Eru það hugtök sem markast helst af mótlæti, baráttu við ill öfl, einstaklinga eða hópa sem ekki er treystandi? Eða; eru það hugtök sem draga fram styrk traustra og ábyrgra samferðamanna sem við höfum getað hallað okkur að og reitt okkur á þegar erfitt hefur verið undir fæti eða þegar við höfum þurft að standa af okkur ágjöf. „Málfar mótar!“ . Þau orðtök og skilgreiningar sem við notum til að tjá reynslu okkar geta ýmist þrengt að eða gefið rými og aukið veg hins góða.

Kannski þykir ykkur ég vera kominn út úr kortinu með hugleiðingu mína út frá textanum. En ég ætla þó aðeins að halda áfram því það er einn hluti textans sem eftir er. Það er hluti sem ég ætla aðeins að leika mér með og gefa ykkur hugmynd um hvernig má lesa og úrfæra.

Þetta er hlutinn um óhreina andann sem fer útaf manni og snýr svo aftur og finnur allt sópað og prýtt og tekur þá með sér sjö aðra verri og sest þar aftur að, svo hlutur þess manns verður verri en áður var.

Hvernig má útleggja þennan hluta guðspjallsins eða útleggja á hátt sem hefur merkingu í samtíma okkar.

Ég hef áður nefnt hvernig fólki var tamt að móta hugsun sína út frá baráttu gegn hinu eða þessu sem það taldi ekki vænt góðu mannlífi. Ég bið ykkur að misskilja mig ekki þannig að ég telji ekki að rétt sé að standa gegn illu. Það geri ég og stend með samfélagi réttar og lagasetninga sem vísa veginn frá slíkum villum.

En það er þó ekki nóg að sneiða hjá eða vísa öðrum frá einhverju. Það er ekki nóg að tiltaka að hvað maður skuli ekki gera, eins og lög tilgreina, og láta svo ósagt hvað skal gera. Hér í sögunni er dreginn fram vandi sem skapast getur þegar við, í baráttunni við illt, sköpum innra með okkur tóm. Þegar við verjumst svo vel og hreinsum sálarskotið en gleymum að við þurfum að rækta þar upp gott. Að við þurfum að virkja og nýta til góðs það sem hreinsað er.

Við þurfum að búa kærleikanum stað í hjörtum okkar með því að svara kalli hans, með því að svara kalli trúarinnar. Trúin leyfir ekki að við setjumst bara fyrir og höfum það gott útaf fyrir okkur. Hún kallar okkur til að gæta hags annarra, að vinna hinu góða farveg, efla og næra samferðamenn okkar í lífi sínu og viðfangi. Þar má til dæmis nefna virðingu og viðurkenningu þess sem vel er unnið, að við þökkum fyrir okkur en sækjum ekki fyrst og fremst virðingu eða vegtyllur fyrir okkur sjálf.

Þegar við hreinsum okkur af illri breytni þá þurfum við að svara kalli kærleikans og rækta okkur, að ala með okkur góða breytni til að tóm myndist ekki í vel sópuðu og prýddu sálarskoti okkar. Við erum kölluð til að vera virk á meðal manna til að tala saman, leysa úr og koma fram af djörfung og heiðarleika. Tóm í einangruðu sálarskoti, jafnvel því sem hreint er og prýtt verður fljótt vettvangur efasemda, rangra ályktana, rógburðar eða annars ills. Okkur ber að sækja fram hönd í hönd, hlið við hlið og styrkja eininguna.

Og þá er ég aftur kominn að Jesaja textanum sem ég vitnaði í hér að ofan og fannst tala til mín sem íslendings svo stuttu eftir að við hlupum fram úr getu okkar og færni og hröpuðum svo hátt og hart svo undan svíður.

„fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur ykkar vera“

Kærleikurinn hleypur ekki af sér né leitar fyrst síns eigin. Hann gætir þess að hlaupið skaði ekki aðra. Hann gætir þess að aðrir geti gengið og haldi reisn. Hann stendur gegn synd sjálfbirgnings, synd hrokans sem ætlar sig betri en aðra, synd græðginnar og sjálfselskunnar sem rýfur og brýtur jafnvel hin sterkustu vina og fjölskyldubönd.

Við syndguðum. Við veittum illu brautargengi í gáleysi og offorsi hraðans þegar við vildum helst og aðeins „ríða fráum fákum“, vildum frekar „þeysa fram á hestum“ en ganga hönd í hönd.

Kannski hefði mátt með orðfæri fyrri tíma segja að við höfum verið haldin illum öndum, í það minnsta hvötum sem ekki tóku tillit til annarra eða gættu hags þeirra sem við þó þóttumst vera að gæta.

Nú þurfum við að spyrja og skoða vel hvað hafi fyllt tómið frá falli okkar. Við þurfum að gæta þess hvað leiðir okkur og hverju við veljum að leggja okkur eftir. Þrátt fyrir allt hefur verið hljótt tóm um margt umliðin ár. Tóm sem vekur ugg og kristallast í harðari launadeilum en við höfum lengi átt að venjast.

Hvað skyldi komið í stað þess sem var? Er það kærleikur, heiðarleiki og aðgát í samskiptum og skyldum sem við höfum í störfum okkar og samfélagi. Nú þessum árum eftir þjóðarfall okkar þurfum við að íhuga hvort hreinsun áranna sem umliðin eru hafi orðið til þess að eitthvað meira óheilt hafi vaxið í tómi fálætis. Við þurfum að rækta gott. Við þurfum að fylla hugi og samfélag okkar umhyggju, virðingu og elsku sem allt eru hornsteinar kærleikans sem við erum kölluð til að fylgja.

Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“ Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“Lúk 11:14-28