Aukin menntun stúlkna ávöxtur þróunarsamvinnu

Aukin menntun stúlkna ávöxtur þróunarsamvinnu

Ein af ástæðum þess að stúlkur víða í Afríku fá ekki að ganga í skóla er að það er hlutverk þeirra að vinna flest erfiðustu verkin eins og að sækja vatn.
fullname - andlitsmynd Bjarni Gíslason
07. september 2011
Meðhöfundar:
Karl Jónas Gíslason

Kristniboðssambandið hefur undanfarin ár verið með lestrarverkefni meðal Dasentsmanna í Suður-Eþíópíu. Verkefnið hófst á því að búa til kennslubók á tungumál þjóðflokksins og handbók handa kennurum. Því næst var hafist handa við sjálfa kennsluna. Einn aðalmarkhópurinn í þessu verkefni er stúlkur og konur. En skólaganga stúlkna á svæðinu er mjög takmörkuð og jafnvel engin. Grundvöllur allra framfara og jafnréttis er menntun. Hornsteinn menntunar er lestrarkunnátta og því gefur það augaleið hversu mikilvægt þetta verkefni er.

Rúbite er ung stúlka. Hún kann að lesa og hefur lokið 4. bekk. Í dag er hún kennari innan þessa verkefnis. Hún vill að stúlkurnar í sínu þorpi fái tækifæri til að mennta sig og tekur þátt í vinnu við að búa til fræðslurit um t.d. HIV-eyðni og næringarfræði, á sínu tungumáli. Stúlkum sem áður voru „bara húsmæður“ opnast dyr til menntunar og framfara. Þær fá jafnvel tækifæri til að stunda nám við háskóla verða t.d. kennarar eða hjúkrunarfræðingar. Nokkuð sem fyrir örfáum árum var algjörlega óþekkt. Fræðsla og menntun bætir líf þeirra á svo margan hátt.

Ein af ástæðum þess að stúlkur víða í Afríku fá ekki að ganga í skóla er að það er hlutverk þeirra að vinna flest erfiðustu verkin eins og að sækja vatn. Ef langt er að fara að sækja vatn, sem þarf að gera daglega, fer mikill tími í það og þar með ekki möguleiki að fara í skóla sem er á sama tíma. Þetta er vítahringur vatnsskorts. Brunnur í nánasta umhverfi rífur þennan vítahring og gefur stúlkum tækifæri til skólagöngu. Menntun hefur síðan keðjuverkandi áhrif sem síðar meir getur breytt hugsunarhætti til meira jafnréttis kynjanna.

Vatn er því ekki bara vatn heldur menntun fyrir stúlkur og meira jafnrétti! Þetta staðfesti 12 ára stúlka í þorpinu Mandalika í Malaví þar sem Hjálparstarf kirkjunnar er með vatnsverkefni. Hún tjáði okkur að eftir að brunnurinn kom við þorpið tekur svo stuttan tíma að sækja vatn að hún gat hafið skólagöngu. Þróunarsamvinna ber góðan ávöxt!

Karl Jónas Gíslason , Kristniboðssambandið Bjarni Gíslason, Hjálparstarf kirkjunnar