Styrkur – veikleiki, ímynd – veruleiki

Styrkur – veikleiki, ímynd – veruleiki

Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan og vilja leggja grundvöll að hinu góða samfélagi, góða lífi á traustum grunni hollra gilda. Enda er slíkt samstarf hverfisskólans og sóknarkirkjunnar víðast hvar til fyrirmyndar.

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“

Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“

Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.

Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh. 4,46-53

Konungsmaður

Guðspjallið segir sögu af manni sem leitar á fund Jesú. Hann var konungsmaður, segir guðspjallið. Það er, hann var embættismaður Heródesar konungs, hins grimma og spillta leppkóngs, sem jafnvel Jesús sjálfur uppnefndi með augljósri fyrirlitningu og kallaði ref! Konungsmaður, fulltrúi hins hataða konungs í fátæku, kúguðu samfélagi, búsettur í Kapernaum á bakka Galíleuvatnsins. Allir þekktu hann, hann var maður sem aðrir hlýddu með ugg og ótta, maður sem kunni að skipa fyrir og láta aðra kenna á valdi sínu. Nú skiptir það engu máli, nú er eitt og aðeins eitt sem fyllir huga hans og stýrir skrefum hans er hann hraðar sér á fund meistarans Jesú. Angistin ein knýr hann áfram. Sorgin gerir ekki mannamun og það gerir dauðinn ekki heldur. Afl og auður Heródesar og baktrygging keisarans sjálfs duga ekkert andspænis því. Aðeins sá sem konungsmaðurinn leggur nú allt traust sitt á og nefnir Drottin: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast!“ Konungsmaðurinn fær fyrirmæli sem hann hlýðir þegar í stað:„Far þú, sonur þinn lifir!“ Hann snýst á hæl og hraðar sér heim, í trausti til þess að fyrirheit Drottins séu áreiðanleg. Og hann fær staðfestingu þess: Barnið læknaðist. „Og hann tók trú og allt hans heimafólk.“ segir guðspjallið.

Nú er þessi saga rifjuð upp vegna þess að þetta vald er enn að verki hér í heimi. Enn er hjálpin í nánd, lífs og lausnarorð frelsarans er enn að verki, enn er það trúin sem læknar og reisir upp, enn í dag, á þessum sunnudagsmorgni í vetrarbyrjun árið 2010.

Við eigum flest reynslu af þessum sama frelsara og lífsins orði hans. Nafnið hans hefur verið lagt yfir okkur. Við vorum flest færð honum sem börn, borin á örmum ástvina okkar og kirkjunnar og lögð í faðm frelsarans, signd krossi hans. Og þau fengu að heyra og skynja sama lausnarorð og fyrirheit um líf og framtíð. Hann er enn á ferð á meðal vor og mælir sér móts við mannanna börn.

Kirkjan er slíkur mótsstaður þar sem orðið hans hljómar og bænin á sér athvarf og sál manns hlífðarskjól í áföllum daganna.

Vonartákn og framtíðar

Í dag er minnst merkra tímamóta í kirkjusögu höfuðborgarinnar að 70 ár liðin frá því að Reykjavíkursókn var skipt. Þá varð Reykjavíkurprófastsdæmi til og nýir söfnuðir stofnaðir, Hallgríms-, Laugarness- og Nessöfnuðir, fjórir dugmiklir prestar kjörnir þar til starfa til að byggja upp trúarsamfélag í hverfum borgarinnar. Einn þessara safnaða fékk sérstakt hlutverk sem var að reisa kirkjuna sem nú bregður svo stórum svip yfir höfuðborgina, þjóðarhelgidóminn, Hallgrímskirkju.

Við undrumst þá framsýni sem réði för í stríðsbyrjun þegar grunnur var lagður að nýskipan kirkjumála höfuðborgarinnar. Heimsstyrjöld geisaði, Ísland hernumið, og óvissan algjör um framtíðina. Sjaldan hefur ástandið verið ógnvænlegra í íslensku samfélagi og þá. En menn höfðu hugsjón fyrir því á hvaða grundvelli hið unga, frjálsa Ísland skyldi reist. Það mættum við vel muna nú, 70 árum síðar, við með öll okkar geigvænlegu vandamál í rústum hruns og hamfara.

Við blessum minningu þeirra sem af kærleika og trú lögðu grunn að safnaðarstarfi og uppbygging kirkjulífs hér í borginni mitt í ógnum og óreiðu styrjaldarinnar. Það var vonartákn og stefnumörkun framtíðar hins góða samfélags sem menn vildu reisa á rústunum.

Hvers vegna kirkjur?

Í sögunni Ekkó lætur danska skáldkonan Karen Blixen sögupersónu sína svara því: „Ég þekki aðeins eitt einasta hús,“ sagði hann, „þar sem menn geta gengið inn án þess að neinn spyrji þá hverjir þeir séu.“ „Hvers konar hús er það?“ spurði hún. „Það er kirkja,“ sagði hann.“

Við þurfum á slíkum húsum að halda fremur nú en nokkru sinni, helgidómum sem tjá opinn faðm sem ber, þótt bylgjurnar æði, hús þar sem þeirri iðkun og atferli, orði og söng er haldið uppi sem skapar, mótar, nærir samfélag, iðkun sem stuðlar að því uppeldi og mótun kynslóðanna, að virðingin, umhyggjan, náðin og náungakærleikurinn, listin og ljóðið og söngurinn, fegurðin og friðurinn eigi sér skjól og vörn, þar sem orð frelsarans hljómar og er lært og numið og þar sem birta vonarinnar skín fyrir augum. Kirkjurnar í Reykjavík, eins og um landið allt, hafa veitt slíkt skjól og athvarf og vonarríka framtíðarsýn. Framtíðarsýn og samfélagssýn á grundvelli traustra viðmiða, og virðingar fyrir því sem við eigum sameiginlegt sem manneskjur í þessu landi, þrátt fyrir allt sem aðskilur.

Ímyndir og veruleiki

Nú er hart tekist á um ímyndir og hugmyndir. Það er svo sem ekkert nýtt.

Hallgrímssöfnuður valdi dánardag Hallgríms Péturssonar, 27. október, sem kirkjudag safnaðarins. Á þeim degi var sungin messa og safnað til kirkjubyggingarinnar. Kvenfélagið, sem alltaf var í fararbroddi hollvina kirkjunnar, seldi merki eða gekkst fyrir kaffisölu til ágóða fyrir kirkjuna.

Ég minnist sérstaklega guðsþjónustu sem haldin var undir berum himni í þaklausu kirkjuskipi Hallgrímskirkju. Þetta var snemma á 7. áratugnum, einungis gólfplatan komin og útveggir hliðarskipanna. Ég var nýfermdur og þarna stóð fermingarfaðir minn, séra Jakob Jónsson á miðju gólfinu, og kirkjukórinn og fjölmennur söfnuður. En svo gerði hryðju og fólkið leitaði sér skjóls undir vinnupöllunum til hliðanna. Daginn eftir birtist mynd í einu dagblaða bæjarins. Þetta gríðarstóra gólf og séra Jakob einn, ekki aðra sálu að sjá. Og boðskapur myndarinnar fór ekki milli mála, svona er kirkjan, óskiljanlegar athafnir og iðkun, einmana prestur, - ekkert fólk!

Þessari ímynd er enn gjarna haldið á lofti í fjölmiðlum og í netheimum. Klifað er á vanda Þjóðkirkjunnar, um flótta úr Þjóðkirkjunni og almennt vantraust á kirkjunni, um almenna kröfu um aðskilnað. Allt þetta má vissulega lesa á mælikvarða þjóðarpúlsins. Það er þó aðeins mæling hins nærsýna tíðaranda á þeirri stund sem hann fer fram en ekkert breytist jafnhratt og hann. Og ábyrgðarhluti er að taka afdrifaríkar ákvarðanir á grundvelli hans. Það að hér er Þjóðkirkja hefur tjáð samskilning um grundvallarviðmið samfélagsins. Þjóðkirkjan er enn víðtækasta fjöldahreyfing þessa lands. Hún er ekki rekin af ríkinu heldur frjálst trúfélag, en sem er í sérstöku sambandi, samstarfi við ríkið, í gagnrýnni samstöðu með þjóðríkinu og þjóðinni. Fyrirkomulag samskiptanna er eðlilegt og sjálfsagt að ræða.

Um daginn fann ég í fórum mínum mynd sem var tekin hér undir norðurvegg Hallgrímskirkju á haustkvöldi á níunda áratug aldarinnar. Ég er þarna með föður mínum og 6 ára syni. Gamli maðurinn sveiflar fimlega planka, ég er með hamar í hendi, drengurinn horfir aðdáunaraugum á afa sinn. Í bakgrunni má sjá mótatimburstafla og fólk að verki.

Á áratugalöngum byggingartíma Hallgrímskirkju var iðulega kallað eftir sjálfboðaliðum svo sem til að naglhreinsa og taka til á byggingasvæðinu. Og ungir sem aldnir brugðust við.

Þegar rætt er um sóknargjöld trúfélaga og fjármál Þjóðkirkjunnar þá er rétt að minna á að kirkjur eru reistar af fólkinu, ekki ríkinu, söfnuðirnir eru sjálfstæð félagasamtök sem reist hafa og reka kirkjubyggingarnar, sannarlega oft með stuðningi hins opinbera. En jafnvel þjóðarhelgidómurinn, Hallgrímskirkja, er af miklum hluta reistur af gjafafé og sjálfboðastarfi hinna mörgu. Um hvaða opinberar byggingar verður það annars sagt í dag?

Skólinn og kirkjan

Fyrstu níu starfsárin átti Hallgrímssöfnuður sér skjól fyrir starf sitt í bíósal Austurbæjarskólans, sem nú fagnar 80 ára afmæli. Við sendum Austurbæjarskóla hugheilar heillaóskir úr Hallgrímskirkju, þakklát fyrir samstarf kirkju og skóla fyrr og síðar. Og við biðjum skólum landsins blessunar um ókomna tíð og treystum því og biðjum þess að áfram megi ríkja samskilningur og gagnkvæm virðing milli kirkju og skóla. Það er mikilvægara nú en nokkru sinni.

Íslensk þjóðmenning er byggð á kristindómnum. Kerfisbundið virðist vera unnið að því að fela þá staðreynd og víða ráð för skefjalausir fordómar gagnvart og andúð á trú, sérílagi kristni og Þjóðkirkju. Trúfrelsi er skilgreint sem útilokun trúar frá hinu opinbera rými, uppeldi, kennslu. Sem mun þó einungis stuðla að fáfræði, fordómum og andlegri örbirgð. Það má sannarlega sjá í drögum að samþykkt Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, sem krefst þess að lokað verði á aðkomu kirkjunnar að skólunum, kirkjuferðir verði bannaðar og sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi sömuleiðis. Ættarmótið leynir sér ekki!

Mannréttindaráð vill banna það að Gídeonfélagið megi afhenda grunnskólabörnum Nýjatestamentið að gjöf. Á vettvangi skólans skal börnunum meinað að kynnast því riti sem er lykillinn að skilningi á listum og bókmenntum heimsins, og kristinni trú og sið Íslendinga, - og sem grunnskólinn á reyndar að lögum að byggja á og fræða um. Nú þykir út frá forsendum mannréttinda brýnt að halda þeirri bók fjarri skólabörnum og leggja hana að jöfnu við auglýsingabæklinga.

Eins skal í nafni mannréttinda ekki lengur kalla til presta og djákna þegar áföll verða heldur svonefnda „fagaðila“. Með þessu er gert lítið úr menntun og reynslu kirkjunnar þjóna hvað varðar sálgæslu og samfylgd við syrgjendur, og sem flestir Íslendingar kjósa reyndar að þiggja. Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna og útilokun þeirra frá því að sinna starfi sínu. Allt ber þetta að sama brunni. Það hefur verið gott að finna og sjá að fjölmargir foreldrar og skólamenn hafa andmælt þessum hugmyndum. Guði sé lof fyrir það fólk sem heldur vöku sinni. Það er vegið er að rótum trúar, siðar og hefða. Við þurfum síst á því að halda á háskatímum.

Þjóðkirkjan virðir skólann og forsendur hans og hefur átt gott samstarf við skólann um fræðslu, sálgæslu, forvarnir, lífsleikni. Samstarf kirkju og skóla er mikilvægt í grenndarsamfélaginu því báðar þessar stofnanir vilja hag barna og unglinga sem bestan og vilja leggja grundvöll að hinu góða samfélagi, góða lífi á traustum grunni hollra gilda. Enda er slíkt samstarf hverfisskólans og sóknarkirkjunnar víðast hvar til fyrirmyndar og báðum til heilla, sérstaklega börnunum. Kirkja og skóli hafa hagsmuni þeirra framar öllu að leiðarljósi.  

Trú sem ber uppi

„Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast!“

Í þessu hrópi er hinn valdamikli konungsmaður sterkari en nokkru sinni. Þegar mennska hans svo að segja brýst í gegn, hjarta hans lýkst upp í samlíðan, umhyggju, ást. Styrkur einstaklinga og þjóða felst í því. Við erum nefnilega þegar allt kemur til alls varnalausar manneskjur, brothættar sálir, brothætt samfélög. Það kenna okkur börnin og þau veiku, öldruðu, deyjandi. Og Drottinn, sem Guð sendi til að frelsa heiminn, sem gaf líf sitt í dauða á krossi.

Sænska skáldið Per Lagerquist orðar þetta svo:

Á jörðu mest er ekki bitrir brandar en barmur hlýr og snerting mjúkra handar, já, mjúkt og hlýtt er allt, sem sterkast er: Hið opna fang og hjartans varmi hljóður og himins blær og lófi þreyttrar móður, það allt sem fæðir fræ nýs lífs af sér. (þýð.Sbj.Ein.)

„Far þú. Sonur þinn lifir!“ Margt hefur áreiðanlega bærst í brjósti konungsmannsins er hann hraðaði sér heim, efi, ótti, von og trú. Allt það þekkjum við mæta vel hvert og eitt, og sem þjóð. Óttinn situr við hjartarætur okkar. Kaldhæðnin, reiðin og afskiptaleysið takast á. Látum það ekki ná tökum á okkur, látum trúna og vonina stýra skrefum okkar, já, og kærleikann til Guðs og manna.

Sjáum fyrir okkur konungsmanninn á leið sinni heim! Framundan glitraði Galíleuvatnið. Skyldi hann hafa þá hugsað til þess þegar hann var að kenna drengnum sínum að synda og sagði við hann sefandi en ákveðið: „Ekki brjótast um, slakaðu á, leyfðu vatninu að bera þig!“ Og það bar. Og svona er trúin, að leggja sig á vald hans sem er Orð lífsins, frelsarinn Drottinn. Armar hans bera, faðmur hans umlykur, því megum við treysta, hvað sem að höndum ber.