Arna, Andri Snær og draumalandið

Arna, Andri Snær og draumalandið

Við erum í draumasætinu. Þú ert draumur Guðs og þarft ekki annað en viðurkenna þá stöðu þína. En trú hefur afleiðingar, gefur forsendur barnauppeldis og gildi til náttúrunýtingar.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: "Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?" Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: "Nú á einhver yðar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?" Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: "Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða." Guðspjallið Lúk. 14.1-11
Vinsældir bóka á Borgarbókasafninu á hverjum tíma mælast í lengd biðlista bókanna. Þegar margir skrá sig á biðlista einhverrar bókar er sótt í þá bók. Þeim mun lengri listi þeim mun vinsælli bók.

Draumalandið Hvaða bækur skyldu vera þær eftirsóttustu þessa dagana? Ég komst að því fyrir tilviljun í vikunni. Bóksafnsfræðingur á safninu upplýsti, að listarnir væru eiginlega listar draumanna. Vinsælustu bækurnar væru tvær og væru báðar bækur um draumalandið. Önnur er eftir Örnu Skúladóttur og heitir Draumaland – svefn og svefnvenjur barna frá fæðingu til tveggja ára aldurs. Þetta er fín bók, leysir úr mörgum spurningum foreldra og aðstandenda smábarna, er hin besta lesning og veitir hollráð. Ég get mælt með bókinni, hef skautað í gegnum hana og veit að hún er hagnýt. Svo er önnur bók á ofurbiðlista Borgarbókasafnsins, sem ber líka draumalandstitil. Það er bók Andra Snæs Magnasonar: Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð. Þetta er bók um margt, ekki síst afstöðu okkar Íslendinga til náttúrunýtingar, meðferðar auðlinda, um góða atvinnusköpun og hvað sé raunveruleiki. Þetta er bók til íhugunar og ég las ekki í striklotu. Hún er ljómandi til slumpalestrar og eiginlega jórturs. Höfundurinn er fyndinn, fundvís á óvænt sjónarhorn og ekki er annað hægt en hrífast af þeirri elsku til náttúrunnar og siðferðilegu djúphygli, sem Andri Snær miðlar. Mál- og matar-þing Þá er það guðspjallstexti dagsins. Jesú hafði verið boðið í hús til að borða, en líka til að funda með fólki. Þetta var máltíð en þó líka málþing. Jesús var aðalfyrirlesarinn.

Svona matarmálþing var opinber samkoma. Fólki af götunni var heimilt að koma inn, fylgjast með, leggja fram spurningar og taka þátt í viðburðinum. Jesús hefur væntanlega séð alla sem komu og einhverjir hafa reynt að ná sér í góð sæti. Það varð honum tilefni til að tala um hegðun fólks. Jesús lét sér aldrei nægja að aðeins hið ytra, hvorki atferli eða hluti. Hann beindi alltaf athygli að afstöðunni á bak við gerðir mannanna. Það, sem þú gerir, segir hver þú ert.

Jesús sá fólk, sem reyndi að hlamma sér í góð sæti, fara lengra en því bar samkvæmt einhverri goggunarröð þeirrar samtíðar. Hann notaði tilefnið til að spyrja um hvaða stól fólk vildi ná og siðferði, sem tengdist þeirri stólasókn. Heilræði hans var að raða sér neðarlega, reyna ekki sjálfur að olnboga sig áfram, heldur láta þau, sem efndu til samkvæmisins leiða til upphefðarsætis.

Hvað er besti stóllinnt? Hvað kemur þetta við okkar sögu? Er þetta ekki bara úrelt stéttaskiptingarmál? Getur ekki verið að við séum í matarmálþingi veraldar á fullu í að streitast við að komast í óþarfa stóla, leggjum mikið á okkur að uppfæra okkur.

Mér sýnist að auðmýkt í samskiptum sé ekki hátt skrifuð og eiginlega afskrifuð sem aumingjaskapur. Til að koma sér áfram þurfa menn að temja sér kokhreysti, belgja egóið, hrósa sér sjálfir, tala um sig, verk sín, tækin sín, afrek sín í belg og biðu, láta ekkert tækifæri ónotað til að beina sjónum og ljósum að eigin lífi og eignum.

Eldri kynslóðir Íslendinga fengu mjög ákveðna þjálfun í að forðast drýldni. Móðir mín sagði gjarnan og þá í varnaðarskyni, þegar hún hlustaði á montrassana: “Ef ég hrósa mér ekki sjálfur er mín dýrð engin!” En samfélagsviðmið breytast og nú er sjálfsdekrið hætt að vera löstur og á góðri leið með að breytast í dyggð. Auðmýktarsnauð sjálfhverfa birtist okkur í glansritum og slúðurblöðum. Getur verið að orð Jesús eigi við? Ég held það. Jesús stakk í okkur öll. Við viljum meira, viljum sölsa undir okkur það, sem við eigum ekki tilkall til, viljum fá sem mest fyrir sem minnst. Sá vinnur, sem á mest og hefur verið útsmognastur. Einu gildir hvort og á hversu mörgum hefur troðið, hversu margir misstu vinnu og hvaða brögðum var beitt.

Hver ert þú? Hvað viltu? Skiptir þig ekki máli að líf þitt sé í jafnvægi, að gildi stýri því hvernig þú umgengst börnin þín, maka þinn, foreldra, vini og kunningja? Viltu ekki, að vinnustaðurinn þinn sé ábyrgur, að vinnuframlag þitt sé metið að verðleikum, hæfni þín í verkum skori betur en hversu slungin(n) þú sért í að koma þér ofar í goggunarröðinni? Viltu ekki að leikreglurnar séu skýrar og þau, sem tækla á röngum stöðum og með rangindum séu dæmd og jafnvel rekin út af þegar siðleysið og ofbeldið er komið út fyrir hið boðlega?

Draumland Jesú Jesús vill að mennskan ríki í samskiptum fólks. Það er draumlandið, sem hann dregur upp í guðspjalli dagsins. Martröð allra alda, allra hópa, allra kynslóða, alls fólks, líka þín, er að fólk er á flótta frá mennsku sinni, frá sjálfu sér. Líf á kostnað annarra, á kostnað einhverra auðlinda sem egóistarnir vilja einir njóta í botn, leiðir til óhamingju. Því miður yfirsést alltof mörgum hin einfalda lífsviska, að hamingjan er heimafengin, verður til innan í okkur og í samskiptum. Fólkið, sem hamast í glamúr, glysi og sækir í athygli, mun fyrr eða seinna springa en því miður oft of seint, því flest er þá tapað sem hefur eitthvað gildi.

Við líka sköpum draumlandið Ég staldraði við þessi tíðindin úr Borgarbókasafninu. Land drauma, á heimilum okkar og í heimili náttúrunnar, sem elur okkur. Hvort tveggja varðar okkur, framtíðina sem okkur ber að vinna að og fórna okkur fyrir. Fjölda fólks er ekki sama um hvernig farið er með ungbörnin, les Örnubókina og reynir að afla sér þekkingar og meiri færni. Það er líka þarft að íhuga opið bréf Andra Snæs um gildi og gæði. Allt þetta varðar þig og þitt. Hvað viltu með lífið, er ekki ráð að stoppa og spyrja um hvað þig raunverulega dreymir um í lífinu?

Andri Snær minnir hnyttilega á: “Kannski hefur maður þvert á móti of sjaldan fundið upp hjólið.” Það merkir, að við þurfum sjálf að uppgötva hið einfalda, verðum sjálf að stoppa til að hugsa hvað gefi lífinu gildi. Það velur enginn lífið fyrir þig. Enginn lifir því fyrir þig. Enginn getur fært þér hamingjuna, ef þú uppgötvar ekki það meginhjól sjálfur eða sjálf. Enginn getur selt þér gleðina ef þú ræktar ekki gleðina hið innra. Enginn getur fært þér friðinn ef þú vilt ekki eiga frið við eigið sjálf, við aðra og við Guð.

Við þurfum að leyfa draumum okkar að komast upp í vitundina, hlusta vandlega á þá og verðum sjálf að nefna drauma okkar. Það hefur nú löngum verið sagt að fólk þurfi að vanda sig við draumana sína því þeir rætast yfirleitt! Við megum helst ekki enda í sporum konungsins sem óskaði sér að allt, sem hann snerti, yrði að gulli. Óskin rættist en svo uppgötvaði hann hversu hræðilegur sá draumur var þegar hann var orðinn svangur. Þá varð brauðið, kjötið, fæðið allt að gulli og það var ekki auðmelt.

Draumaland Guðs Martin Luther King dreymdi draum, ræddi um hann og orð hans urðu til nokkurs. Desmond Tutu er annar sem hefur rætt um draum sinn sem rættist líka í lífi þjóðar hans. Okkur dreymir öll drauma og þurfum að vanda okkur við þá iðju svo draumarnir okkar rætist. Draumarnir verða að vera raunhæfir og varða lífsgæði. Martraðir eru hræðilegar hvort sem er á nóttu eða í dagsljósi lífsins.

Síðan er einn sem dreymir stærsta drauminn sem til er. Hver skyldi það vera? Það er Guð. Draumfarir Guðs eru góðar, varða velferð heimsins, að menn fari vel bæði með börn, náttúru, hvert annað. Guð var tilbúinn til að láta draum sinn rætast, taka afleiðingum, kom sjálfur til að leyfa okkur að fá innsýn í eðli þess draums, fá hlutdeild í ríkidæmi hans. Í hinum guðlegu draumförum kemur þú reglulega við sögu. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, allar stundir, dreymir að þú sért ástvinur Guðs, að þú sért hamingjusamur og hamingjusöm, takir mið af gildum í afstöðu til fjölskyldu þinnar, til vinnufélaga, skólafélaga, þeirra sem eru í kirkjunni í dag, allra – og takir mið af því sambandi í ábyrgri afstöðu til sjálfs þín og sjálfrar þín. Að þú elskir þig vel og hæfilega.

Jesús Kristur opinberaði hina draumkenndu elskugerð veraldar, hvers við þörfnumst til að lifa vel og án þess að flækjast í einhvera martröðina. Speki Jesú á þessum sunnudegi varðar það, að við þurfum ekki að flýja neina ógn hvorki innan frá, í náttúrunni eða mannfélaginu. Við þurfum ekki að sperra okkur við að ná einhverju uppáhaldssæti, heldur erum við þegar í draumasætinu. Þú ert elskuð og elskaður, þú ert draumur Guðs og þarft ekki annað en viðurkenna þá stöðu þína. En trú hefur víðtækar afleiðingar. Guðstrúin gefur forsendur og styrk til barnauppeldis, en líka gildi sem nýta má í nýtingu náttúrunnar. Draumur landsins rætist og unga fólkið verður draumafólk.

Lexían Orðskv. 16.16-19 Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs. Braut hreinskilinna er að forðast illt, að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar. Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.

Pistillinn Ef. 4.1-6 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.