Ummyndun - stjórnarmyndun

Ummyndun - stjórnarmyndun

Trúin er líka samfélag og sífelld þjónusta í heiminum. Hún er ekki einkaeign. Þó svo búið sé að einkavæða trúna þarf hún ekki að vera einkamál. Kriststrúin er afl. Hún er þjóðfélagsafl í öðrum skilningi en veraldarvaldið og annars eðlis. Hún er sá veruleiki, það inntak í lífinu, sem veldur grundvallarbreytingu.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.Mark 9:2-9

Í dag er guðspjallið ummyndunin – en ekki stjórnarmyndunin.

Kristur í skæru ljósi að sýna sitt rétta andlit. Hann er frelsari mannanna.

Eins og jafnan hefur fylgt mannkyninu þá setjum við traust á veraldlega leiðtoga. Þeir muni snúa við hag þjóða sinna. Allt muni breytast og batna og verða nýtt og skínandi skært. Sjaldan endist sú tiltrú lengi. En alltaf er hún samt jafnmikilvæg. Veraldarmálin eiga sinn sess. Við veljum fólk og væntum þess að vel verði fyrir þeim þætti lífsins séð, sem snertir ytri aðstæður og kjör. Í dag óskum við nýrri ríkisstjórn alls hins besta. Við væntum þess að störf hennar verði þjóðinni til heilla, að vel verði staðin vaktin fyrir almannahag og heill í landinu. Í kirkjum landsins verður af trúnaði við Guð vors lands og þjóðina beðið fyrir þeim sem vandastörfum gegna í almannaþágu. Stundum finnst mér þó þessi þáttur lífsins verða full yfirþyrmandi. Allt þjóðfélagið, umræðan, líf og hugsun hvers manns fer að snúast um veraldarmálin eins og það sé allt sem velferðin hljóti að byggjast á. Vissulega er það grafalvarlegt mál þegar grundvöllurinn brestur á efnahagssviðinu. Við slíka erfiðleika þrengist sjónhringurinn ósjálfrátt, rétt eins og ef maður meiðir sig. Óþægindin skyggja á annað meðan sársaukinn varir. Þannig er það skiljanlegt, ástandið á okkur undanfarið. Samt er það spurning hvort við getum eða viljum einblína á þetta eitt til lengdar? Finnst okkur það nægja að eyða dögunum og ævinni í meiningarmun í veraldarefnum, þar sem flest markmiðin eru hvort sem er nauðalík? Mér finnst við hljótum að spyrja okkur þess.

Leið heimsins

Það er næsta víst, að meðan við setjum allt traust okkar á þennan heim, þá verðum alltaf við fyrir vonbrigðum. Við verðum aldrei ánægð. En áherslan öll á stundarhag og veraldargengi hefur verið afar áberandi í lífsstíl Vesturlanda undanfarna áratugi. Nú hefur sú stefna leitt okkur í ógöngur. Sú, að stjórnmál og efnahagsmál varði öllu. Það byggist á því að þykja vænna um höfuðsyndirnar en höfuðdyggðirnar. Að ágirnd sé betri en hófsemi, að vantrú sé betri en trúmennska. Að aldrei hafi maður fengið nóg af veraldargæðum. Að ekki komi lífsánægja, lífsfylling út úr því að vera bjargálna, heldur skuli sífellt að teygja sig lengra í von um meiri hamingju. En þegar hennar leitað á röngum forsendum er ekki von á góðu.

Það er eins og með barnið sem fékk fullt herbergi af leikföngum og ýmsu dóti um jólin. Óánægja og eirðarleysi er löngu komið yfir blessað barnið. Sami tómleiki gerir vart við sig hjá fullorðnum líka, þrátt fyrir dýrari búnað og tæki til að gleyma sér við.

Leið trúarinnar

"Hjarta vort er órótt uns það hvílist í þér, ó Guð", sagði Ágústínus kirkjufaðir.

Öll eigum við minningar sem eru okkur heilagar. Getum rifjað upp helgar stundir, sérstakar stundir þar sem okkur hefur fundist við vera nær Guði okkar en venjulega, stundir þar sem er eins og við sjáum lífið og tilveruna skýrar, skiljum allt svo vel. Þetta held ég að sé það persónulegasta við trúna. Það er helgidómur hugans, það eru blikin, leiftrin af nálægð hins hæsta.

Þeir voru kannski ekki að hugsa um slíkt, lærisveinarnir sem gengu á fjallið með meistara sínum. En það rann upp fyrir þeim ljós og þeir fengu að sjá hann í bjartara ljósi en hversdags. Þeir sáu meira af ljósinu sem hann kom með í heiminn, meira af því sem hann var fulltrúi fyrir hér á jörð en þeir áttu lýsingarorð til að tjá atburðinn með. Þeir sáu það sem þá hafði lengi grunað og það sem þeir höfðu tæpast þorað að nefna. Meistari þeirra sem leit út eins og venjulegur maður, hann Jesús frá Nazaret, var Drottinn sjálfur í heiminum. Vafalaust hafði þessi sýn, til viðbótar við margt annað sem þeir kynntust í fylgd með Jesú, þau áhrif að seinna meir brast þá aldrei kjark til að segja frá honum, boða trúna sem þeir höfðu tekið og hafði upp frá því afgerandi áhrif á líf þeirra.

Við þurfum einnig á slíku að halda. Sérstakar hátíðarstundir eiga sinn sess í lífi okkar. Jólin eru flestum slík sameiginleg hátíð. Og svo höfum við í kirkjunni sakramentin, áþreifanleg, raunveruleg efni og athafnir til að staðfesta nálægð Jesú Krists á meðal okkar. Til þeirra stofnaði hann sjálfur í því skyni að við mættum vera vissari, öruggari í trú okkar og tilveru. Þær eru staðfesting og yfirlýsing hans um það að hann er með okkur á vettvangi jarðlífsins.

Sakramentin

Í messunni á þessum morgni höfum við hvort tveggja, skírn og kvöldmáltíð. Barnið, sem borið var til Krists hér í messunni í dag til að hann blessaði það var í hátíðarskarti. Bragi Þór varí hvítari klæðum en fötin hans munu oftast verða. Hann verður vafalaust einhvern tíma óhreinn í framan og kemur önugur inn frá leikjum sínum. Ég fermdi pabba hans forðum daga, hann var fjörmikill og skemmtilegur drengur... Bragi Þór á í vændum margar helgistundir síðar í lífinu. Ein verður vonandi fermingardagurinn, önnur stundin kannski brúðkaupsdagurinn, þriðja e.t.v. sú að bera barnið sitt til skírnar. Okkur finnst þetta langt inni í framtíðinni. En tíminn er fljótur að líða þegar lífið er gott. Og þess biðjum við honum til handa. Hátíðarstundir; þær eru kannski stopular en þær geta verið okkur afar dýrmætar.

Hinn elskaði sonur

Vafalaust var trúarreynslan á fjallinu lærisveinunum dýrmæt. Trúarreynsla er það alltaf. Þá urðu Klæði Krists skínandi hvít. Rykið sem hafði þyrlast um hann á leiðinni upp hlíðina, svitinn sem hafði valdið því að óhreinindin klístruðust á kyrtilinn, allt horfið eins og dögg fyrir sólu. Heilagleikinn strauk af honum bletti og hrukkur. Skínandi hvítt og fágað allt - eins og hann var í verunni. á fjallinu mikilvæg lærisveinunum. Lærisveinarnir vildu vera þar áfram, staðfesta þennan veruleika hjá sér, vera sælir hjá þeim sem voru heilagir og vissu alla leyndardóma og áttu alla þekking.... vera þarna áfram fjarri eymd ágangi heimsins. En trúin er líka þjónusta í heiminum. Í kirkju Krists togast þetta stundum á. Annarsvegar að vilja vera sem næst Jesú, tilbiðja hann einn og sér eða vera í ljúfum og góðum samsinnandi hópi á bæn. En trúin er líka samfélag og sífelld þjónusta í heiminum. Hún er ekki einkaeign. Þó svo búið sé að einkavæða trúna þarf hún ekki að vera einkamál. Kriststrúin er afl. Hún er þjóðfélagsafl í öðrum skilningi en veraldarvaldið og annars eðlis. Hún er sá veruleiki, það inntak í lífinu, sem veldur grundvallarbreytingu. Nýtt Ísland verður ekki til með hugarfari öfundar, tortryggni, hefndar og fordóma. Það var gamla lífið.

Sjá, allt er orðið nýtt

Umbreytingin, lífsbyltingin, gerist með öðrum formerkjum. „Sjá allt er orðið nýtt“ segir í Opinberunarbókinni. Það verður þegar „réttur þinn og ríki fær öll ráð á vorri jörð“ eins og Sigurbjörn biskup biður um. Það verður þegar höfundur lífsins fær að umbreyta okkur og ummynda, gera okkur að nýju fólki, gefa okkur nýtt hjarta. Það verður þegar rættlæti hans og miskunnsemi fær að ráða okkur, þegar friður hans og kærleikur gerir okkur ný. Síðasta versið í bænarsálminum er í sjálfu sér einnig opinberun:

Þá allt sem lifir lofar þig og lýtur þinni stjórn og brosir heiðum himni við í helgri þakkarfórn.

Guð starfar og vill ætíð helga líf okkar. Hann gefur lífi okkar æðri tilgang. Hann býður okkur einnig samfylgd í gegnum lífið og síðan fá okkur skínandi hvítan skrúða að því loknu. Því að hann vill sannarlega strjúka burtu óhreinindin, sletturnar, sem fallið hafa á okkur á leiðinni. Í Jesú nafni. AMEN.