Dymbilvika og páskar

Dymbilvika og páskar

Í trúariðkun kirkjunnar mynda bænadagarnir eina heild með páskum, allt frá messu á skírdagskvöldi þar sem síðustu kvöldmáltíðar Jesú Krists með lærisveinunum er minnst, til kvöldbæna að kveldi páskadagsins þar sem rifjuð er upp frásagan um lærisveinanna í Emmaus sem það kvöld buðu hinum upprisna Drottni inn til sín án þess að þekkja hann, en þegar hann braut með þeim brauðið lukust augu þeirra upp og þeir sáu að það var Jesús.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
02. apríl 2015

Um allan heim nálgast þau sem játa kristna trú vikuna frá pálmasunnudegi til páskasunnudags með sérstökum hætti ár frá ári. Þessi vika, kölluð Dymbilvika vegna trékólfsins sem settur var áður fyrr í kirkjuklukkur til að gera tóninn daufari, heitir einnig Kyrravika, þó að almannarómur á Íslandi kalli hana í seinni tíð páskaviku. Hin heilaga kyrravika hefur alla tíð haft algjöra sérstöðu í trúariðkun kristninnar. Hámark vikunnar eru dagarnir þrír, skírdagur, föstudagurinn langi og laugardagurinn fyrir páska, sem oft eru kallaðir bænadagarnir.

Í trúariðkun kirkjunnar mynda bænadagarnir eina heild með páskum, allt frá messu á skírdagskvöldi þar sem síðustu kvöldmáltíðar Jesú Krists með lærisveinunum er minnst, til kvöldbæna að kveldi páskadagsins þar sem rifjuð er upp frásagan um lærisveinanna í Emmaus sem það kvöld buðu hinum upprisna Drottni inn til sín án þess að þekkja hann, en þegar hann braut með þeim brauðið lukust augu þeirra upp og þeir sáu að það var Jesús.

Í sameiginlegu helgihaldi Dymbilvikunnar og í persónulegu trúarlífi hafa söfnuðir og einstaklingar fetað með Kristi veg þjáningarinnar að skelfingu krossfestingarinnar, staðið ráðvilt með lærisveinunum eftir að hann var lagður í gröf og hlaupið fagnandi á eftir konunum að hinni opnu gröf páskaundursins. Um leið og þau fylgja Kristi fylgjast þau með því sem gerist í þessum heimi á hverjum tíma allt um kring og minnast þess og biðja fyrir því.

Þetta er helgasta vika kirkjuársins vegna þess sem hér var rakið. Þar má laugardagurinn heldur ekki gleymast vegna þess að það er dagurinn sem Jesús dvaldi í dauðraríkinu uns hann reis upp með morgunsól páskadagsins og sleit fjötur dauðans. Laugardagurinn er því stundum kallaður hinn helgi laugardagur, sabbatum sanctum. Í kirkjum landsins, eins og um allan heim, fer fram fjölbreytilegt helgihald á þessum tíma. Ástæða er til að hvetja þau öll til þátttöku sem annt er um trú og kirkju. Ekki aðeins sín vegna heldur einnig allra hinna. Fyrir utan hefðbundið helgihald má svo ekki gleyma því að margir tónleikar í kirkjum geta verið sannkallaðar bæna- og tilbeiðslustundir. Í hrynjanda mannlífsins þarf dálítið að hafa fyrir því að minnast þessara tilefna Dymbilvikunnar. Það er vegna þess að fólk vill af eðlilegum ástæðum reyna að nota svo marga frídaga í röð til þess að hvílast frá verkum sínum, sinna fjölskyldunni, skipta um umhverfi, stunda útivist eða gera eitthvað allt annað en hið daglega líf býður upp á.

Það eru til ýmsar leiðir til þess að gefa sér tóm til að minnast þess innan kirkju sem utan hver gaf okkur alla þessa frídaga. Væntanlega munu kirkjur og söfnuðir einnig bregðast við breytilegum aðstæðum í auknum mæli. En þó að margur komist ekki til kirkju vegna aðstæðna sinna má ekki gleyma því að sérhver sá er trúir ber alltaf með sér sinn eigin litla helgidóm hjartans og Jesús vitjar hans eins og annarra Guðs húsa sérstaklega þegar þar er bænagjörð og lofsöngur. Þann helgidóm má sem best opna á samverustundum fjölskyldunnar og gera heimili sitt að kirkju.

Guð gefi lesaranum blessaða bænadaga og gleðilega páska.