Fallega fólkið

Fallega fólkið

Þetta getur snúist upp í anhverfu sína þegar líðan okkar í hlutverkum lífsins fer að snúast um samanburð við annað fólk. Að við upplifum okkur aðeins í lagi þegar við erum enn duglegri, fallegri og klárari en annað fólk. Þá erum við komin í baráttu sem við munum aldrei sigra og líklegt að við verðum aldrei sátt við okkur sjálf.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
31. ágúst 2014
Flokkar

Tilheyrir þú fallega fólkinu? Ef þú fórst á Timberlake tónleikana ertu kannski falleg og fræg samkvæmt mbl.is og Morgunblaðinu sem birti frétt eftir þessa miklu tónleika þar sem fyrirsögnin var „Fallega fólkið mætti á Timberlake“ og samkvæmt fréttinni var ekki þverfótað á tónleikunum fyrir fallegu og frægu fólki. Já og stúkumegin var svo mikil stemming og stuð að það var eins og í góðu eftirpartíi. Fyrir neðan fréttina birtust síðan myndir af þessu fræga og fallega fólki sem ég kann fæst að nefna. Svo virtist sem margir tækju eftir þessari frétt og létu hana fara fyrir brjóstið á sér. Viðbrögðin gáfu til kynna að fólk léti ekki segja sér hver væri falleg(ur) og hver ekki.

En hvað sem mér eða þér finnst um svona frétt þá var þetta mest lesna fréttin á mbl.is í síðustu viku. Þessi frétt er ein birtingarmynd hins stöðuga samanburðar sem við erum í hvert við annað. Viljandi eða óviljandi. Meðvitað eða ómeðvitað. Stelpur þurfa að vera sætar og mjóar, með stóran barm og strákar vöðvastæltir með þvottabretti. Auðvitað eigum við líka að vera fyndin og klár, dugleg í íþróttum og með mataræðið á hreinu. Já og stunda íhugun og rækta andann og sálina.

Því betur sem þú stendur þig í þessu því líklegra er að þú standist samanburðinn og virði þitt eykst… eða hvað?

Spurningin er, hjá hverjum við erum mikils virði ef við stöndum okkur vel í þessum þáttum? Stöndumst samkeppnina og samanburðinn. Er það hjá okkur sjálfum? Náunganum? Guði?

Hvað gerist ef við hættum að reyna? Tökum ekki þátt í samkeppninni? Klikkum á markmiðunum?

Hvað með þau sem alltaf klikka á þessu? Geta bara ekki tekið mataræðið í gegn og langar ekkert í líkamsrækt? Vita kannski ekkert hvernig hausttískan er árið 2014? Ætli þau séu sáttari? Eða eru þau bara búin að gefast upp á keppninni og upplifa sig hafa tapað hvort sem er. Við gegnum mismunandi hlutverkum í lífinu. Stundum erum við stúkumegin og stundum í almenningnum.  En hvar sem við erum þá líður flestum okkar best ef við þekkjum hlutverk okkar og vitum þá hvernig okkur ber að koma fram og til hvers er ætlast af okkur.

Ég held að leiðinlegasta og eitt erfiðasta starf sem ég hef nokkurn tíma ráðið mig í hafi verið þegar ég vann við afleysingar í heilbrigðisþjónustunni í Gautaborg. Þá fór ég á milli þjónustuíbúða eða heimila og leysti af þar sem vantaði fólk. Það sem gerði þetta starf flókið og erfitt var að ég þurfti að setja mig inn í nýtt starf næstum því á hverjum degi. Ég þekkti ekki starfsfólkið og ég vissi ekki almennilega hvers var krafist af mér á hverjum stað og því var erfitt að eiga frumkvæði og ég þurfti alltaf að spyrja hvað ég ætti að gera næst eða að bíða eftir leiðsögn.  Ég var aldrei hluti af neinu. Alltaf fyrir utan.

Þegar ég síðan kom heim og hitti fjölskylduna eða varði tíma með vinum þá upplifði ég mig örugga á ný. Ég þekkti hlutverkið mitt og kunni það vel.

Í sumum hlutverkunum okkar stöndumst við samkeppnina því við þekkjum leikreglurnar og vitum upp á hár hvernig við eigum að vera og hvað við eigum að gera, til þess að vera í lagi.

Í öðrum hlutverkum upplifum við okkur óöruggari því við vitum ekki hvers er krafist af okkur eða að við upplifum að við stöndumst ekki þær kröfur sem við gerum til okkar sjálfra.

Þetta er eðlilegt og við þekkjum þetta væntanlega öll, þó kannski í mis miklum mæli.

Þetta getur snúist upp í anhverfu sína þegar líðan okkar í hlutverkum lífsins fer að snúast um samanburð við annað fólk. Að við upplifum okkur aðeins í lagi þegar við erum enn duglegri, fallegri og klárari en annað fólk. Þá erum við komin í baráttu sem við munum aldrei sigra og líklegt að við verðum aldrei sátt við okkur sjálf.

Öfgar Karlarnir tveir sem koma inn í musterið til bæna, standa fyrir sitt hvorar öfgarnar.

Annar er ánægður með sig því hann veit að hann hefur gert það sem honum ber. Hann hefur fylgt reglunum. Hann kann reglurnar og þekkir hlutverkið sitt vel. Hann fastar tvisvar í viku og hefur aldrei klikkað á skattinum.

Hinn er ekki alveg eins öruggur með sig. Hann er í starfi sem fólk lítur niður á og kannski rukkar hann fólk meira en honum ber og græðir þannig á tá og fingri. Kannski er hans helsta synd sú að hann er í þjónustu Rómverja og því álitinn svikari. En eitthvað þarf hann að gera til þess að hafa í sig og á. Það kemur ekki fram hvort hann fasti eða greiði tíundina sem honum ber en hvort sem hann gerir það eða ekki þá er hann ekki sáttur við sjálfan sig. Hann er niðurlútur og veit að hann er ekki álitinn merkilegur pappír og það er augljóst að hann deilir þeirri skoðun.

Báðir þessir menn eru með vonda sjálfsmynd. Báðir eru þeir jafn óöruggir þó það brjótist úr á ólíkan hátt og hvorug leiðin er heilbrigð.

Sá hrokafulli metur virði sitt í samanburðinum. Hann ber sig saman við fólkið í sama samfélagi og hann, og veit að svo lengi sem hann ekki klikkar á neinu þá er hann í lagi. Ég er ekkert viss um að hann telji sig endilega meiri og merkilegri en hinn heldur er það kannski einmitt hans óöryggi sem lætur hann líta þannig út. Ein birtingarmynd óöryggisins og óttans er einmitt hroki. Einn af varnarháttum hins hrædda og óttaslegna er einmitt hroki.

Hinn maðurinn, þessi sem telur sig lítils virði er ekkert heilbrigðari en hinn sjálfsánægði. Hvort það er vegna þess að hann veit að hann lifir ekki heiðarlegu lífi eða vegna þess að það er búið að segja honum svo oft að hann sé ómögulegur, vitum við ekki.

Hvorugur þessara manna býr yfir heilbrigðri sjálfsmynd.

Í frásögunni kemur fram að Jesús segir þessa sögu til þess að reyna að koma vitinu fyrir nokkra karla sem telja sig betri en annað fólk. Menn sem einmitt meta virði sitt í samanburðinum. Hann vill lækka í þeim rostann. Þetta eru líklega réttlátir reglukarlar sem líta svo á að þau sem eru duglegust að fylgja reglunum, séu mest virði.

Jesús reynir með þessari frásögn að snúa hlutunum á hvolf og fá þessa tvo menn til þess að horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni. Hann vill að þeir skilji að heimurinn sé ekki svarthvítur og að Guð elski ekki aðeins þau sem fylgja reglunum og eru örugg í hlutverkum sínum. Jafnvægi Ég held að við getum fundið meira í þessari frásögn en virðist við fyrstu sýn.

Mögulega er lykillinn að sögunni fólginn í því að þessir tveir karlar eru ein og sama manneskjan. Að þessi sjálfsánægða og hrokafulla persóna og hinn sem telur sig einskis virði geti báðar búið í þér og mér. Að þær geti búið í okkur samtímis og að þær geti búið í okkur á mismunandi tímum í lífi okkar. Kannski eru þær mis sterkar eftir því í hvaða hlutverki og aðstæðum við erum í.

Frásaga Jesú endar á því að annar fór heim sáttur við Guð og hinn ekki. Sá sem taldi sig þurfa á Guði að halda til þess að geta bætt sig var sáttur á meðan sá sem vissi að hann gerði hvort eð er allt rétt var ósáttur. Hann þarfnaðist einskis frá Guði og kannski vænti hann því heldur einskins.

Þessi saga minnir á hvað góð og heilbrigð sjálfsmynd er mikilvæg. Hvað við getum eyðilagt mikið fyrir okkur sjálfum, sambandi okkar við Guð og manneskjur þegar sjálfsmyndin er í ójafnvægi.

Það sem Jesús vill einnig segja okkur í dag er að við megum leyfa okkur að vænta einhvers af Guði. Ef við teljum okkur vera með allt á hreinu og þurfum ekki Guð þá munum við aldrei sjá og skilja verk Guðs. Ef við aftur á móti sjáum að við þörfnumst Guðs og leitum Guðs í öllu okkar lífi, þá sjáum við Guð.

Niðurstaðan gæti þá verið sú að góð sjálfsþekking og sjálfsmynd í jafnvægi er grundvöllurinn fyrir því að við eigum heilbrigt samband við Guð.

Hvort sem þú varst stúkumegin með fallega fólkinu á Justin Timerleik tónleikunum síðustu helgi, uppi í sveit að tína ber eða bara heima að horfa á sjónvarpið, þá ertu alltaf fallegust/fallegastur í augum Guðs og vonandi þínum eigin. Það er nefnilega ekki nóg að vera elskuð af náunganum og byggja lífið á samanburði við annað fólk. Þá fer sjálfsmyndin í ójafnvægi. Það er nóg að vera elskuð af Guði, sjálfri/sjálfum þér og þeim sem standa þér næst. Amen.