Hinn óhefti andi

Hinn óhefti andi

Þar sem þessir ávextir andans eflast og dafna þar er hann að verki. Enginn söfnuður getur hins vegar tekið sér vald til að mæla annan á þennan kvarða. Hann er tæki til að finna bjálkann í eigin auga en ekki flísina í auga einhvers annars.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
12. júní 2011

Dr. Hjalti HugasonÁ köldu sumri er hvítasunnan — heitasta hátíð kirkjunnar — runnin upp, hátíð heilags anda og upphafsdagur kristinnar kirkju.

Þetta tvöþúsund ára ævintýri hófst með látum. Lærisveinar Krists, hoknir af ábyrðinni sem í því fólst að „prédika gleðiboðskapinn allri skepnu“, tóku allt í einu að sýna einkennilegt háttarlag. Þeir sem á horfði töldu þá „drukkna af sætu víni“. Löngu síðar spreytti íslenskt sálmaskáld sig á að lýsa atburðinum:

Skyndilega heyrðist hvinur, sem hvasst er veður yfir dynur, og fyllti húsið fljótt hjá þeim... — — Liðu tákn í lofti skæru, sem leifturtungur bjartar væru, og stettust yfir sérhvern þar... — — Allir fylltust anda hreinum, Guðs andi kenndi lærisveinum að tala ókunn tungumál...

Við vitum ekki hvernig þetta gerðist en það upplifðist eins og eldur félli af himni, að losnaði um tunguhaft og eyru opnuðust. Hvernig sem þetta allt saman var kom heilagur andi á óvart, raskaði reglu og olli fólki uppnámi.

Spyrja má hvar og hvernig þessi andi sannleika, endurnýjunar, frelsis og fagnaðar sé að verki í hinni stilltu og prúðu þjóðkirkju Íslands. Er hann ekki frekar að finna í frjálsum, óheftum trúsöfnuðum þar sem hvítasunnuundrið er daglegt brauð?

Andinn er frjáls. Hann starfar þegar og þar sem hann vill. Trú þjóðkirkjunnar er að heilagur andi vinni „náðarverk sitt í sálum kristinna manna með náðarmeðulunum, sem eru: guðs orð, bænin, skírnin og kvöldmáltíðin, eins og segir í Helgakveri.

Svo má líta á þetta frá annarri hlið. Í Galatabréfinu segir að „ávöxtur andans“ sé kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Þar sem þessi fyrirbæri einkenna mannleg samskipti og framkomu er andinn að verki.

Hér er að finna mælistiku sem kristnar kirkjur geta metið sjálfar sig eftir. Þar sem þessir ávextir andans eflast og dafna þar er hann að verki. Enginn söfnuður getur hins vegar tekið sér vald til að mæla annan á þennan kvarða. Hann er tæki til að finna bjálkann í eigin auga en ekki flísina í auga einhvers annars. Loks aðeins þetta: Andinn blæs ekki aðeins í kirkjunni heldur hvarvetna þar sem samskipti bera ofangreind einkenni. Andinn er óheftur!