Frelsi á friðarskóm

Frelsi á friðarskóm

Þessar tillögur þarf að ræða  og skoða með mannréttindi og mannvirðingu að brynju og með friðarskó á fótum.  Hvenær erum við að tala um skólaskyldu og hvenær um frístundaiðju?  Hver eru mörk mannréttinda til trúar og frelsis frá trú? Hverju mega foreldrar ráða fyrir börn sín og hvað eiga nefndir og ráð og ríkisvald að ráða?

I.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um trúfrelsi í skólum Reykjavíkurborgar. Kveikjan að þessari umræðu er greinargerð Mannréttindaráðs borgarinnar með tillögum í fimm liðum þar sem reynt er að greina sem mest á milli Þjóðkirkjunnar annars vegar og leikskóla, skóla og frístundaheimila hins vegar. Í fyrsta liðnum er fjallað um fermingarfræðslu og fermingarferðalög, í öðrum um heimsóknir með trúarrit eða auglýsingabæklinga í skóla, þá um að ekki megi nota húsnæði skóla undir starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma. Fjórða atriðið snýr að skólaheimsóknum í „bænahús“ sem svo eru nefnd og að bænir, sálmasöngur og list í trúarlegum tilgangi sé ekki leyfð. Síðasta atriðið lýtur að áfallaráðum stofnana borgarinnar og mælist mannréttindaráð til þess að fengnir verði „fagaðilar“ til að sitja í slíkum ráðum í stað fólks á vegum trúar- og lífsskoðunarfélöga.

Þessar tillögur hafa vakið kröftug viðbrögð og sýnist sitt hverjum. Mörgum þykir að of langt sé gengið í að úthýsa kristinni trú og hefðum úr skólakerfinu og að minnihlutinn sé að kúga meirihlutann. Aðrir eru þakklátir þessum nýju tillögum og telja að með þeim séu skýrar reglur dregnar sem undirstriki virðingu og mannréttindi fyrir öllum samfélagshópum. Margir hafa gengið fram í kaldhæðni og reiði í bloggi og fésbók, velt fyrir sér hvað eigi að banna næst, talað um öfgar og kúgun. Og á báða bóga, hinn trúaða og trúlausa sárnar fólki vanhugsuð orð.

Trúin skipar stóran sess í lífi margra og er það dýrmætasta sem margir eiga. Mannréttindi eru líka dýrmæt gildi í hverju því samfélagi sem kennir sig við lýðræði, umburðarlyndi og virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Barnasáttmáli SÞ leggur áherslu á rétt barna til frjálsrar tjáningar í menningu og listum. Þar er talað um mikilvægi þess að vernda rétt barna til trúar. Réttur foreldra til að hafa áhrif á það sem þau telja barni sínu fyrir bestu eru mikilvæg mannréttindi. Menntun barna á að miða að því samkvæmt barnasáttmálanum að undirbúa barn til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi, í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis karla og kvenna og vináttu milli allra þjóða, þjóðhátta-, þjóðernis- og trúarhópa, og fólks af frumbyggjaættum. Hvernig á að leysa þann samskiptahnút sem kominn er upp í tengslum skóla og kirkju? Eiga að vera samskipti milli þessara tveggja mikilvægu stofnana? Og ef svo er, hvernig eiga þau tengsl að vera?

II.

Í mínum þungu þönkum um frelsi til trúar og frá trú í íslenskum samtíma fletti ég upp á lestrum dagsins og velti því fyrir mér hvernig Guðs orð rími við þennan veruleika. Og þar talar Efesusbréfið um ljós og myrkur, gæsku og vonsku með mjög heimslitakenndu orðalagi:

Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.

Ég veit ekki um ykkur, en það fer um mig þegar ég les þennan texta

Ekki síst þegar ég er með höfuðið fullt af spurningum dagsins um boðaðar breytingar í borginni.

Mér finnst þetta verulega óþægilegt innlegg inn í umræðuna.

Ég trúi því að til sé illt í heiminum,

sem lýsi sér í grimmd, heimsku og hræðslu mannanna.

En hin persónulega og goðsagnakennda mynd af djöflinum

með vélabrögð sín, horn og klaufir

hefur ekki lengur merkingu fyrir mér.

“Andaverur vonskunnar í himingeimnum” og “heimsdrottnarar þessa myrkurs” sem nefndir eru í textanum eru frekar fastagestir í fantasíubíómyndum en í prédikunum Þjóðkirkjupresta.

Djöflarnir og drottnararnir sem bregða okkur böndum í nútímanum,

Verða til af völdum mannanna,

Við berjumst við afleiðingar slíkra djöfla í skuggahliðum blindrar auðvaldshyggju, fasisma, feðraveldis, alræðishyggju, neysluhyggju, kynþáttahyggju, kynhneigðarhyggju og náttúruníðslu.

En sú barátta er innan þessa heims og við verur af holdi og blóði sem misnota völd og meta líf annarra lítils.

Efesusbréfið sem textinn er tekinn úr er kennt Páli postula en að öllum líkindum ritað nokkru eftir dauða Páls. Í þessum fáu línum hefur hinum óþekkta höfundi tekist að bregða upp fyrir okkur mynd af hinum kristna trúmanni albúnum til orrustu í búningi rómversks fótgönguliða. Hann er búinn belti sannleikans og með alvæpni Guðs í hendi. Hinn kristni er í brynju úr réttlæti. Hann er með hjálm hjálpræðisins á höfðinu og ber fyrir sig skjöld trúarinnar sem ver hann fyrir örvum illskunnar.

Og ég velti því fyrir mér hvort þessi rómverski fótgönguliðabúningur sé heppilegur fyrir hinn kristna Þjóðkirkjumann sem vill ræða um samband skóla og kirkju, trúar og trúleysis. Á fara fram í þessa umræðu með brugðnum brandi eins og þau sem í hlut eiga séu “andaverur vonskunnar í himingeimnum”? Eru þetta “logandi skeyti hins vonda” sem Mannréttindaráðið hefur sent á okkur? Er verið að vega að kirkju og kristni á Íslandi eins og margir vilja meina? Eru himnarnir að hrynja yfir okkur? Hversu kristinn á skólinn að vera? Væri ef til vill betra að leita fanga í fyrri ritningarlestri dagsins sem við lásum og sungum um áðan og “koma fagnandi til Síon”?

III.

Það er athyglisvert að bera tillögur Mannréttindaráðs saman við skýrslu samstarfshóps um samskipti skóla við trúar- og lífsskoðunarfélög í borginni, en þessi skýrsla var unnin á árinu 2007 og samkvæmt ráðinu liggur hún til grundvallar tillögunum. Skýrsluna er auðvelt að finna á vef Reykjavíkurborgar. Hún byggir á margvíslegum könnunum um stöðu mála, skilgreina samstarf og móta stefnu um það hvernig hlutirnir eigi að verða í framtíðinni. Lögð er áhersla á í skýrslunni að virða skuli rétt barna og fjölskyldna þeirra til trúar eða trúleysis og að samstarf skóla við trúar- og lífsskoðunarhópa skuli vera á forsendum skólanna. Þar er líka talað um að forðast eigi að jaðarsetja börn með því að taka þau út úr hóp.

Eitt af því sem er ólíkt með skýrslunni og greinargerð Mannréttindaráðsins frá því nú í nóvember, er að nú þremur árum seinna eiga sömu viðmið að gilda um frístundaheimilin og skólana og leikskólana. Annað sem greinir að stefnumótun borgarinnar 2007 og 2010 er að þá var gert ráð fyrir að samstarf við trú og lífsskoðunarfélög væru á valdi hvers skóla fyrir sig, en nú eiga almennar reglur að gilda fyrir alla skóla. Hið þriðja er að tillögur Mannréttindaráðsins eru róttækari, þar eru fermingarferðalög á skólatíma gagnrýnd og sérstökum sjónum beint að áfallaráðum stofnana borgarinnar. Það er líka athyglisvert að þótt mannréttindaráðið fylgi ályktunum skýrslunnar frá 2007 í því að tala almennt um trúar- og lífsskoðunarhópa en ekki samband kirkju og skóla þá eru tillögunum frá því nú í október fyrst og fremst beint að umsvifum Þjóðkirkjunnar í skólum. Það er enginn að dreifa Kóraninum í skólum, en Gídeonmenn dreifa Nýja Testamentinu til 10 ára barna. Ég veit ekki til þess að verið sé að fara í skólaheimsóknir í önnur “bænahús” en þau kristnu. Ekki sitja forstöðumenn ólíkra trúfélaga með sína ólíku menntun og bakgrunn í áfallaráðum borgarinnar í krafti síns embættis, heldur prestar og djáknar Þjóðkirkjunnar. Tillögur Mannréttindaráðs frá því um miðjan október fjalla þannig um að greina með skýrari hætti á milli Þjóðkirkju og skóla. Er ekki einfaldara bara að segja það og velta því í framhaldinu fyrir sér hvort þetta sé góð eða vond þróun og þá fyrir hverja?

Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið.

Ég veiti því eftirtekt að rómverski búningurinn sem höfundur Efesusbréfs færir okkur hefur á að skipa merkilegum fótabúnaði. Við eigum að vera skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Rómverska heimsveldið byggðist á rómverskum friði, Pax Romana, sem fólst í því að allar þjóðirnar beygðu sig undir stjórn Rómar og fengu ýmis fríðindi í staðinn, frið sem byggðist á undirgefni. Er það svoleiðis friður sem við viljum? Eða er friðurinn sem við boðum alvöru friður, fagnaðarboð, þar sem réttlætið ríkir og sannleikurinn og fólk leggur niður vopnin af því að það treystir hvert öðru fyrir lífi sínu? Friður og mannréttindi þar sem fólkið kemur fagnandi til Síon og unir því jafnframt að aðrir vilji fara eitthvað allt annað?

Ég er ekki að segja að mér finnist allt gott í tillögum Mannréttindaráðsins. Mér finnst orðalagið stundum klúðurslegt og óþarflega gildishlaðið. Mér finnst skorta á í tillögunum að réttur foreldra til að fá frí fyrir börnin sín til fermingarferðalaga sé virtur til jafns við foreldra sem eiga börn sem fara í handboltaferðalög. Mér finnst að foreldrar eigi að hafa rétt á að taka ákvörðun um að barnið þeirra fari í trúarlega frístundaiðju rétt eins og íþróttaskóla eða tónlistarskóla í frístundaheimilinu. Ég tel að prestar með fimm ára háskólanám og margir enn lengra sálgæslunám séu fagaðilar engu síður en sálfræðingar og félagsráðgjafar. Ég er ekki viss um að það standist mannréttindi að amast við frjálsri, trúarlegri listsköpun barna í skólum og frístundaheimilum. Þessar tillögur þarf að ræða og skoða með mannréttindi og mannvirðingu að brynju og með friðarskó á fótum. Hvenær erum við að tala um skólaskyldu og hvenær um frístundaiðju? Hver eru mörk mannréttinda til trúar og frelsis frá trú? Hverju mega foreldrar ráða fyrir börn sín og hvað eiga nefndir og ráð og ríkisvald að ráða?

Það eru miklar breytingar að verða á þjóðfélagsskipan Íslendinga og gömul hefðarrök eru á undanhaldi. Kannski er það góða sem getur komið út úr kreppunni og fátæktinni að við öðlumst nýja trú á gildi lýðræðisins og mikilvægi þess að við leggjumst öll á eitt við að stjórna þessu landi og finna lausnir á því hvernig við getum deilt kjörum. Til þess að svo verði þurfum við að horfast í augu við breytingar og nýja samfélagsgerð. Kirkjan, söfnuður hinna trúuðu er að verða sjálfstæðari og hin gömlu tengsl skóla og kirkju sem haldist hafa frá því að kirkjan annaðist alla fræðslu í landinu eru að rofna smátt og smátt. Það er að verða meiri aðskilnaður ríkis og kirkju og við getum valið hvort við ætlum að æpa og öskra og láta henda á eftir okkur ferðatöskunni og sjónvarpinu eða taka þátt í að gera upp búið í sátt og friði með framtíðina í huga.

Kirkjan, söfnuður hinna trúuðu á hús og hjartahlýju til að annast uppfræðslu æskulýðsins í kristnum gildum. Kirkjur hinna kristnu safnaða í landinu geta auðveldlega tekið fagnandi móti Gídeonmönnum og opnað þeim leiðir til vitnisburðar og bænar með skólabörnum og foreldrum þeirra þegar Nýja testamentin eru afhent. Er það svo sjálfsagt að litla fallega bláa bókin sé endilega afhent í skólanum? Gídeonmenn vinna frábært og óeigingjarnt starf fyrir trú sína. Ef þeir gæfu börnum Nýja testamentið í kirkjunni frekar en skólanum gætu þeir beðið með fjölskyldunum og vitnað um trú sína, í stað þess að ganga inn í þann þrönga stakk sem þeim er skorinn innan skólahússins. Heimilið og kirkjan þarf að axla frekari ábyrgð á trúaruppeldinu, ekki skólinn og þess vegna les ég tækifæri frekar en ógnun út úr þessum skjölum. Og því er að mínu viti mál að leggja frá sér sverðið og geyma heimsslitaorðaforðann en tala meira saman trúlaust fólk og trúað um það hvernig við getum virt sérstöðu og mannréttindi hvers annars.

Styrkist því í Drottni og krafti máttar hans.

Við sem trúum því að andi Krists lifi meðal okkar og styðji okkur í að íklæðast friðarskóm og hjálpræðishjálmi þurfum ekki að óttast slíkt samtal eða hrökkva í baklás. Mannréttindi eru málefni allra og við eigum að taka þau alvarlega.