Að setja sig í spor annarra!

Að setja sig í spor annarra!

Hvernig líður náunga okkar? Hvernig líður þér? Hvernig hljóða bænirnar sem við eigum hvert og eitt, bænirnar á kvöldin fyrir svefninn, á morgnana og í dagsins önn?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
22. nóvember 2009
Flokkar

Biðjum: Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í gærkvöldi dvaldi ég kvöldstund í Gistiskýlinu, Þingholtsstræti 25. Það er athvarf fyrir heimilislausa karlmenn.

Skjólstæðingar Gistiskýlisins eru margir hverjir góðvinir okkar hér presta og starfsfólks Dómkirkjunnar. Við þekkjum þá suma hverja með nafni.

Ég hef stundum heilsað upp á starfsfólkið og þá sem þar dvelja. Slík tengsl og spjall er þáttur í viðleitni minni að setja mig í spor þeirra sem lifa í þeirri óvissu að eiga ekki heimili, eiga ekki öruggt húsaskjól, athvarf gegn veðri og vindum, eru félagslega á jaðrinum og hugsanlega háðir fíkninni.

En þarna sinnir borgin í góðu samstarfi við félagasamtök því að allir eigi kost á þaki yfir höfuðið, sem er lýsandi fyrir gildismat samfélagsins. Það gildismat að allir eiga rétt á húsaskjóli, eiga rétt á að grundvallarmannréttindi þeirra séu virt og þeim sinnt.

Margir sinna ásamt borginni hreint mögnuðu starfi á þessum vettvangi, Samhjálp, Hjálpræðisherinn með dagsetrið á Eyjaslóð, Rauði Krossinn og þannig mætti áfram telja.

Hjálparstarf kirkjunnar sinnir ómetanlegu starfi á þessum vettvangi með mataraðstoð, ýmissri aðstoð og ráðgjöf. Sú aðstoð og þjónusta er um land allt og öllum opin.

Öll þessi þjónusta trúfélaga, sveitarfélaga og annarra grundvallast á því að það sé hlustað á fólk og þarfir þess.

Öll þjónusta við fólk grundvallast á hlustun. Hlustun eftir því hvar skóinn kreppir. Hlustun með það að marki að setja sig í sporin, reyna að finna, upplifa hvað náungi manns gengur í gegnum og síðan bregðast við því með raunhæfum lausnum.

Ekki er þar með sagt að hlustunin eigi að vera gagnrýnislaus. Meðvirkni er sjaldan af hinu góða en þjónustan öll miðar að velferð þeirra sem hana þiggja.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast körlunum mörgum í Gistiskýlinu og aðstæðum þeirra núna og áður.

Það getur verið erfitt að setja sig í annarra spor, kannski er það aldrei að fullu hægt. En samkenndin og samhygðin sem við eigum öll er samfélaginu mikilvæg.

Hvernig líður náunga okkar?

Hvarvetna er fólk eins og við, þótt aðstæður geti verið misjafnar eins og við þekkjum.

Að setja sig í spor annarra er mikilvægt til að skilja aðstæður og skilyrði sem fólk býr við. Til að skilningur og virðing, kærleikur og þakklæti geti verið einkenni á samfélaginu og samskiptum fólks hvert við annað.

Hvernig líður náunga okkar? Hvernig líður þér? Hvernig hljóða bænirnar sem við eigum hvert og eitt, bænirnar á kvöldin fyrir svefninn, á morgnana og í dagsins önn?

Þjóð-kirkjan

Þjóðkirkjan er að störfum um land allt. Í þéttbýli og á ysti annesjum er eyra sem heyrir og hjarta sem slær og hendur sem vilja vinna kærleikans verk. Þar eru að verki prestar og starfsfólk kirkjunnar, en fyrst og fremst þjóðkirkjufólk sem lætur sig varða um náunga sinn. Margar frásögur þekki ég af kraftaverkum sem hafa gerst í okkar samfélagi og eru stöðugt að gerast. Þar sem fólk hjálpast að, leggur náunga sínum lið. Þar sem fólk leyfir öðrum að sinna sér og sínum, leyfir öðrum að leggja sér lið.

Þegar hörmungar og áföll ríða yfir þá erum við ekki ein. Þú ert ekki einn í þessum heimi, það er alltaf einhver sem er tilbúinn að hlusta og vera til staðar. Setja sig í þín spor og vera til staðar fyrir þig.

Eins þegar hátíðin er sem mest, til dæmis þegar barn fæðist og er borið til skírnar, ný manneskja verður til og við finnum fyrir þakklætinu í hjartanu, auðmýktinni og gleðinni. Eins þegar börnin þiggja skírnarfræðslu safnaðarins og taka þátt í starfi kirkjunnar með sérstökum hætti á fermingarvetri ásamt foreldrum sínum og fjölskyldu og ganga svo til fermingar. Góðar tilfinningar og minningar. Eins vakna þær við hjónavígslu og samhugurinn er mikill og bænirnar heitar til framtíðar á slíkum stundum. Tímamót, þar er kirkjan svo oft vettvangurinn, á tímamótum. Og við setjum okkur í annarra spor. Fáum að gleðjast saman, fáum að syrgja saman. Því kirkjan er samfélag fólks sem lætur sig varða.

Víðast hvar er það þannig í þjóðkirkjunni að kirkjustarf er í gangi alla daga vikunnar. Prestar, djáknar og starfsfólk sinna barna- og æskulýðsstarfi, víða er að finna mömmumorgna, prjónakvöld, opið hús, bænastundir, ofl ofl. Hér eru æðruleysismessur og Kolaportsmessur með reglubundnum hætti auk hins hefðbundna helgihalds, sálgæslu og þjónustu. Léttmessur og þjóðlagamessur og fleiri messur er hægt að finna víða í kirkjunni.

Þegar einstaklingar og fjölskyldur líða og syrgja er Þjóðkirkjan vettvangur huggunar og heilsu. Þegar einstaklingar og fjölskyldur gleðjast á tímamótum er Þjóðkirkjan gjarnan vettvangur gleðinnar, þakklætisins og kærleikans.

Hvarvetna er Þjóðkirkjan að störfum, þótt á stundum fari það ekki hátt. Margt af því starfi er unnið í hljóði, án þess að um það sé talað eða um það rætt í fjölmiðlum. Allt miðar starfið að boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Allt miðar það að því að setja sig í spor annarra, líða og gleðjast með og í samfélagi.

Hjálparstarf kirkjunnar starfar um land allt. Þörfin hefur aukist og framlag hjálparstarfsins til innanlandsaðstoðar margfaldast nú síðustu mánuði. Hjálparstarfið og kirkjan þjónar öllum, er til staðar fyrir alla.

Að setja sig í spor annarra

Sú viðleitni að setja sig í spor annarra er okkur í blóð borin hér á landi. Við erum ein þjóð í einu landi og tökum þátt í gleði og sorg með náunga okkar.

Getur verið að Drottinn Guð okkar sem við eigum og þekkjum í Jesú Kristi, vilji setja sig í okkar spor?

Getur verið að Guð hafi fæðst í fjárhúsi í Betlehem fyrir rúmlega 2000 árum síðan einmitt til að ganga vegferðina með okkur hér í heimi?

Getur verið að Drottinn vilji ganga leiðina með okkur hverju og einu frá vöggu til grafar og jafnvel upprisu, setja sig í mannanna spor? Og þannig frelsa okkur frá neyð, dauða og synd?

Já, ,,því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” (Jh. 3:16) segir í litlu biblíunni svokölluðu í Jóhannesarguðspjalli. Sumir segja að í þessum texta birtist kjarni kristinnar trúar.

Það sem þessi texti segir er að það er Guð sem elskar okkur og alla menn að fyrra bragði. Það er hugarfar Drottins til okkar allra, í því er kærleikurinn fólginn.

Það er Guð sem vill leiða okkur til samfélags hvert við annað og samfélags við sig. Leiða okkur til iðrunar og sáttargjörðar, sáttargjörðar sem byggir á réttlæti og kærleika.

Guðspjall dagsins; Jesús, Guð og maður

Guðspjall dagsins í dag tónar í takt við þetta. Þar er að finna texta um stöðu Jesú Krists hér í heimi, þar talar Kristur til allra þeirra sem heyra orð hans. Hann gefur fyrirheit um líf, eilíft líf.

Í orðum Jesú ómar leyndardómur þrenningarinnar. Að Guð hefur þrjú birtingarform hér í heimi, hann er hinn æðsti faðir, skapari heimsins, hann er sonurinn Jesús Kristur frelsari og hann er heilagi andinn huggarinn og helgarinn.

Það er þrenningin sem við játum með signingunni. Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Við höfum mörg alist upp við atferli tengt signingunni. Að signa sig fyrir svefninn, þegar við vöknum. Sumir hafa vanið sig á að signa sig eftir bað eða sturtu, áður en farið er í fötin. Að signa sig í flugvél, skipi, eða þegar hætta steðjar að, þegar við hræðumst eitthvað.

Að signa yfir barnið nýfædda og fela það þannig algóðum Guði, signa yfir vögguna, rúmið. Slíkt atferli felur í sér bæn til Guðs að varðveita barnið gegn öllu illu, að allt hið góða verði reynsla þess, að Guð færi barninu sigurlag á lífsgöngunni og von um að lífsljós barnsins fái að lýsa sérhvern dag.

Slíkar bænir og atferli eru helgidómar. Þar er andinn heilagi að verki og þeir sem biðja verkfæri hans.

Þegar við setjum okkur í annarra spor og biðjum fyrir hvert öðru. Allt slíkt hefur áhrif til góðs. Skírnarvottar hafa einmitt þetta hlutverk meðal annars, að bera barnið á bænarörmum. Allir sem eru skírðir eiga skírnarvotta. Hverjir eru þínir skírnarvottar?

Og Jesús Kristur gefur þeim heyrir hans orð fyrirheit. Fyrirheitið er um líf og ljós, sá sem trúir og iðrast stígur frá dauðanum til lífsins.

Dómur Drottins

Í texta guðspjallsins er talað um dóm. Hvernig ætli dómur Drottins sé?

Frásagan af hórseku konunni gefur okkur ákveðna vísbendingu um það. ,,Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini…” sagði Kristur við þá sem voru að reyna hann og vildu grýta konuna til dauða.

Það er ekki okkar mannanna að dæma heldur Guðs því öll eigum við skugga í okkar lífi, öll erum við breysk og brotin, en Kristur Drottinn gerir okkur heil.

Og niðurstaðan varð sú að allir létu steinana frá sér og fóru burt og Jesús sagði… ,,Dæmdi þig engin af þeim, ég dæmi þig ekki heldur”. En svo bætti hann við, ,,far þú og syndga ekki framar…”

Náðin

Guð elskar okkur að fyrra bragði og vill að við setjum okkur á spor hvers annars. Hann þekkir mannsins spor, gleðina og þjáninguna, hefur gengið okkar leið. Hann vill að allir komist til iðrunar og trúar, velji ljósið og lífið. Í fjarska eilífðarinnar mun Drottinn síðan gera alla hluti nýja.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.