Frá Sýrlandi til Íslands

Frá Sýrlandi til Íslands

Viðhorfsvakningu þurfum við að fylgja eftir með fjárhagsaðstoð og trúarbragðafræðslu. Hvetjum fjölmiðlafólk á RÚV og frjálsum fjölmiðlum til að taka höndum saman um að safna fé, líkt og DR1 og TV2 gerðu um liðna helgi, og menntamálayfirvöld til að stórauka fræðslu um trú- og trúarbrögð til að sporna gegn fordómum.

Ein af merkari fræðibókum sem komið hafa út á íslensku á þessari öld heitir Frá Sýrlandi til Íslands, eftir íslenskufræðinginn Þórð Inga Guðjónsson og Jón Ma. Ásgeirsson heitinn, prófessor í nýjatestamentisfræðum við Háskóla Íslands.

Titillinn vísar ekki til þeirra flóttamanna frá Sýrlandi sem vonandi eru væntanlegir til Íslands von bráðar, heldur um meið Tómasarkristni sem rekur upphaf sitt til bernskuára kristindómsins í Sýrlandi. Miðaldarþýðingin Tómas saga postula er ein af perlum íslenskra trúarbókmennta og sýnir svo ekki verður um villst þann metnað sem íslenskir menntamenn á 13. öld höfðu fyrir að lesa og gera aðgengilega trúarlega texta.

Sýrlensk kristni er með elstu meiðum kristindómsins og útbreiðsla trúarinnar til Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, er sveipuð ljóma í frásögn Postulasögunnar af trúaskiptum Páls, sem Jesús mætti á veginum þangað. Þó Postulasagan færi í stílinn er það talið áræðanlegt að kristnir menn hafi verið í Damaskus fyrir tíð Páls og borgin var mikilvæg miðstöð í frumkristni. Enn merkilegra þó er sú staðreynd að kristindómurinn hefur haldið velli í Damaskus frá upphafi en meira að segja Jerúsalemborg getur ekki státað sig af því. Múslimar hertóku Damascus árið 635 og múslimar hafa verið í meirihluta frá þeim tíma en sambúð kristinna, gyðinga og múslima í Sýrlandi hefur verið að mestu farsæl í yfir 1300 ár.

Það er fyrst nú við uppgang herskárra íslamista að sýrlensk kristni er í útrýmingarhættu en ofsóknir og ofríki ISIS hefur hrakið á flótta öll þjóðarbrot og trúarbrögð í landinu, ekki síst múslima.

Sú rödd heyrist víða í umfjöllun um þann flóttamannavanda sem við stöndum nú frammi fyrir að Sýrlendingar séu okkur menningarlega framandi og að koma þeirra til vesturlanda muni ríða Evrópskri menningu að fullu. Það er vissulega ástæða til að óttast þá atburðarás sem er að eiga sér stað en það er mikilvægt að árétta að sýrlensk menning og átrúnaður er okkur ekki framandi, heldur hefur Sýrland verið órofahluti þeirrar menningar- og trúararfleifðar sem við tilheyrum.

Raunar er Sýrland með elstu menningarsvæðum sem hafa skilið eftir sig ritmenningu og byggingarlist og þær fornminjar sem hersveitir ISIS hafa lagt í rúst fyrir framan augun á okkur er óskiljanlegur harmleikur og heimssögulegur missir.

Sú samhyggð sem íslenska þjóðin hefur sýnt flóttamannastraumnum að undanförnu hefur ekki látið neinn ósnortinn og hefur vakið verðskuldaða athygli. Frumkvæði einstaklinga, hvatning biskupa Þjóðkirkjunnar til að safna fé til styrktar málefninu og ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stuðning eru mikilvægar aðgerðir og þessi söfnuður hefur ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum.

Um liðna helgi stóðu dönsku sjónvarpsstöðvarnar DR1 og TV2 fyrir sameinlegum söfnunarþætti þar sem safnað var fé til styrktar 12 hjálparsamtökum sem starfa að neyðaraðstoð til Sýrlendinga, þar með talið Hjálparstarf dönsku kirkjunnar. Alls söfnuðust á þessu eina kvöldi 86 milljónir danskra króna frá einstaklingum og fyrirtækjum og eru það yfir 1600 milljónir íslenskra króna.

Það er ástæða til að hvetja forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og einkarekinna sjónvarpsstöðva að taka höndum saman með sama hætti og styðja þau innlendu hjálparsamtök, á borð við Hjálparstarf kirkjunnar, sem starfa erlendis á svæðum sýrlenskra flóttamanna. Slíkur samtakamáttur getur bjargað þúsundum mannslífa, sem nú hafast við í flóttamannaskýlum eða hafa lagt út á hafið í leit að því öryggi sem við eigum að venjast sem sjálfsögðum hlut.

Samhliða þeim röddum sem orða vilja sinn til stuðnings í verki við þau sem eru landlaus og á flótta undan ofsóknum gerast æ háværari raddir sem orða ótta í garð múslima á Vesturlöndum. Alhæfingar í þeirra garð eru tíðar, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, og raunar á það við um allar trúarhefðir að fordómar í þeirra garð færast í aukanna. Þar er Þjóðkirkja og kristni engin undantekning.

Á sama tíma og að skilningur á eðli, uppruna og samskiptum trúarbragða virðist æ mikilvægari þáttur í menntun ungmenna og uppfræðslu almennings, hefur kristinfræði og trúarbragðafræði orðið að olnbogabarni í íslensku skólakerfi.

Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði eru vissulega á aðalnámsskrá grunnskóla en fögin eru ekki kennd á framhaldsskólastigi, nema í undantekningartilfellum, og það er skortur á kennsluefni fyrir framhaldsskóla. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við er kennsla í kristinfræði og trúarbrögðum skylda til stúdentsprófs.

Hvað skýrir þessa feimni og vanrækslu við fagið á Íslandi? Með nokkurri einföldum má segja að félagsvísindi 20. aldar hafi gert ráð fyrir því að trúarbrögð væru hverfandi fyrirbæri og afgangsstærð í skýringarlíkönum mannlegrar hegðunar. Fræðimenn á sviði hugvísinda og félagsvísinda töldu því fæstir mikilvægt að leggja áherslu á trúarbragðafræði, nema sem einangrað fag eða í sögulegu ljósi, og biðu því eftir að spádómar sínir rættust.

Í dag eru þessi viðhorf jafn úrelt og trúarbrögðin voru talin, en trú og trúarbrögð eru daglegt fréttaefni og mótandi afl í allri umræðu bæði innan og á milli samfélaga. Trúin hvarf aldrei, heldur efldist með fólksflutningum, bættum samgöngum og samskiptum, brást við ógnum í þeim samfélögum sem vildu útrýma trúarbrögðum og þróaðist í takt við þjóðfélagsbreytingar, eins og hún hefur alltaf gert. Það sem hefur breyst er að þekking á trúarhefðum hefur minnkað og er orðið olbogabarn í skólakerfinu á tímum þar sem þekking á trú og trúarbrögðum hefur aldrei verið mikilvægari.

Eitt af því sem einkennir og hamlar umræðu um trú er sú staðreynd að fæstir sem tjá sig hafa burði til að gera það með ígrunduðum hætti. Alhæfingar og upphrópanir í garð trúarhefða eru áberandi, frá trúuðum jafnt sem ótrúuðum, og það á jafnvel við um þann sið sem hefur mótað menningu okkar hvað mest.

Trúarbrögð eru flókin veruleiki. Munur á milli kristinna kirkjadeilda getur verið svo mikill að ekki er hægt að leggja þær að jöfnu, að ekki sé talað um á milli ólíkra trúarbragða. Þá felst í þekkingunni á kristnum átrúnaði lykill að menningarlæsi okkar og slík þekking er grundvallarforsenda þess að sporna gegn fordómum í garð þeirra sem hafa annan menningar- og trúarbakgrunn en við sjálf.

Fyrir rúmum áratug auðnaðist mér að fara á vegum evrópskra samkirkjusamtaka til Wuppertal í Þýskalandi á ráðstefnu sem fjallaði um samskipti og sambúð múslima og kristinna á Vesturlöndum. Á því svæði búa margir múslimar af tyrkneskum og kúrdískum uppruna og í borginni hefur ríkt spenna í þeirra garð, þó meginþorri íbúa séu nýtir þjóðfélagsþegnar.

Einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar var æskulýðsprestur sem hafði það starf að vinna með ungum múslimum og kirkjuleiðtogum til að auka vináttu þeirra á milli og sporna gegn fordómum á báða bóga. Mér er sérlega minnistætt það sem hann sagði vera helsta vandann við slíkt samtal en það var þekkingarleysi ungra Þjóðverja á eigin menningararfleifð. Ungu múslimarnir voru vel heima í eigin átrúnaði og menningarhefð og voru því vel í stakk búnir til að ræða og bera saman kristindóm og íslam, en kirkjukrakkarnir vissu of lítið um eigin trúararfleifð til að geta haft gagn af samtalinu.

Ég óttast að Íslendingar kæmu ekki betur út í slíku samtali. Sá opni faðmur sem Íslendingar hafa sýnt þeim sem eru á hrakhólum undan átökunum í Sýrlandi er sannarlega vonarglæta á varhugaverðum tímum og megi sá faðmur haldast opinn eins lengi og þörf er á. Þeir flóttamenn sem hingað hafa komið frá öðrum löndum og eru nú Íslendingar hafa sannarlega auðgað samfélag okkar með ýmsum hætti og það er ástæða til að halda að Sýrlendingar muni gera það einnig.

Til að hægt sé að þjóna þeim sem hingað koma vel þarf viðhorf og veraldleg gæði. Það er til lítils að veita fjárhagsaðstoð og húsaskjól ef fólkið sem hingað flytur er síðan útsett fyrir fordóma og útskúfun á grundvelli þeirrar fáfræði sem Íslendingar hafa í garð menningar- og trúarhefða.

Textar dagsins gætu ekki átt betur við sem hvatningarorð í viðleitni okkar til að verða að gagni þeim sem hrakin eru á flótta undan ófriði. Spámaðurinn Jesaja hrópar á þjóð sína: ,,lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða” og Páll postuli hvetur söfnuð Galatamanna til að líta ekki til trúarhefða, umskurnar eða yfirhúðar, heldur til trúar sem verkar í kærleika.

Loks er Jesús að vanda í guðspjalli dagsins umkringdur þeim sem samfélag hans mætti af fordómum og deilir kjörum þeirra, etur með þeim og drekkur. Það er okkar skylda sem kennum okkur við hann að leggja við hlustir og hlýða þeim gleðiboðskap sem Biblían boðar í kærleika við þau sem þarfnast aðstoðar við.

Þjóð okkar er að upplifa viðhorfsvakningu í garð þess vanda sem að Evrópu steðjar í þeim straumi flóttamanna sem flýr ófrið í sínu heimalandi. Frá Sýrlandi til Íslands gæti verið yfirskrift þess opna faðms sem íslenskur almenningur hefur orðað og stofnanir samfélagsins hafa tekið undir með.

Þeirri viðhorfsvakningu þurfum við að fylgja eftir með fjárhagsaðstoð og trúarbragðafræðslu. Hvetjum fjölmiðlafólk á RÚV og frjálsum fjölmiðlum til að taka höndum saman um að safna fé, líkt og DR1 og TV2 gerðu um liðna helgi, og menntamálayfirvöld til að stórauka fræðslu um trú- og trúarbrögð til að sporna gegn þeim fordómum og þeirri fáfræði sem gerist æ háværari í umræðunni.

“Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“

Ávextir gestrisni okkar verða þeir að samfélag okkar mun auðgast af hverjum þeim flóttamanni sem hingað flytur og fær til þess tækifæri að verða nýtur þjóðfélagsþegn í okkar fagra landi. Guð gefi okkur náð sína til þess.