Öðruvísi Guð

Öðruvísi Guð

Það er svo miklu erfiðara með Guð sem er allt öðruvísi. Guð sem kemur óvænt inn í hjörtu okkar eins og lítið barn, svo klókt, svo róttækt og öðruvísi. Gagnvart þeim Guði verðum við að læra að halda hjörtum okkar og hugum opnum fyrir hinu óvænta, læra að vænta þess að hvað sem er geti gerst. Fæðingasagan fallega sem við heyrðum í kvöld gefur ekkert í skyn um valdamikinn og sterkan Guð sem bjargar öllu í einum hvelli. Hún snýst um eitthvað allt annað.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
24. desember 2011
Flokkar

Eitthvað sameiginlegt Loksins er hann hér! Loksins er hann hér dagurinn sem við höfum undirbúið svo lengi, hlakkað til og kannski kviðið fyrir er runninn upp. Enn eitt árið höfum verið dugleg og gert okkar besta og allt er til reiðu. Við höfum fundið jólagjafir handa hvert öðru, verslað inn í desember-mannþrönginni ásamt öllum hinum. Maturinn er að verða tilbúinn, jólakortin komin í póstinn eða farin á veraldarvefinn og jólaboðin undirbúin.

Hver fjölskylda og vinahópar halda í sínar hefðir sem verða sérstaklega mikilvægar á jólum því þær bera vitni um það sem við eigum sameginlegt, fjölskyldutengsl, arfleifð eða vináttu.

Og hér í Borgarholtsskóla í hvöld mætast hefðirnar okkar. Við sem erum samankomin hér eigum nefnilega eitthvað sameiginlegt. Það er kannski ekki alveg skýrt hvað það er og ekki svo auðvelt að koma í orð. En það að við viljum deila þessari stuttu stund saman hér í þessum menntaskóla, sem við í kvöld höfum breytt í kirkju, og hlusta á jólaguðspjallið, sem við höfum heyrt svo oft, sameinar okkur á þessu aðfangadagskvöldi.

Jólahátíðin er tími tilfininga. Hátíð þess sem við þekkjum svo vel. Við höfum heyrt söguna um fæðingu þessa sérstaka en um leið venjulega barns, hundrað sinnum í það minnsta.

Við erum búin að vera að byggja um stemmingu allan desembermánuð með því að opna glugga jóladagatalsins, leita að jólagjöfum handa þeim sem við elskum og viljum gleðja hvernig sem efni okkar eru. Við leggjum þetta allt saman á okkur vegna þess að við eigum öll eina sameiginlega ósk. Við óskum þess öll að þessi jól verði gleðileg og friðsæl.

Væntingar og vonbrigði Sum okkar búast þó hvorki við friði eða gleði þessi jól. Jólahátíð margra einkennist af kvíða, einmannaleika, sorg og vonbrigðum. Á hátíð sem er jafn tilfinningaþrungin og jólin verður einmannaleikinn enn þyngri að bera þegar allt snýst um fjölskyldu og hefðir. Þjáningin í heiminum hverfur ekki á aðfangadagskvöld eða á jóladag. Það blæðir ekkert minna úr sárum heimsins í kvöld en önnur kvöld.

Kannski er það einmitt vegna þess að jólin eru hátíð gleðinnar, vonarinnar og kraftaverksins mikla sem gleðin verður vandfundnari en þegar við væntum hennar ekki.

Kannski kannast þú við það að finna til tómleika í lok aðfangadagskvölds þegar búið er að ganga frá umbúðunum utan af jólagjöfunum, vaska upp og lesa jólakortin. Þegar ekkert er eftir af verkefnum desembermánaðar annað en að njóta og slappa af.

Ég held að væntingarnar sem við höfum til jólahátíðarinnar, þessar blendnu og jafnvel andstæðu tilfiningar tilhlökkunnar og kvíða, vona og vonbrigða snúist um svo miklu meira en hvaða gjafir við fáum, hvernig maturinn bragðast eða kröfuna um að við finnum öll einlæga gleði í hjarta.

Jólin eru tími minninga. Um hver jól söfnum við saman minningum og tilfinningum frá fyrri jólum lífs okkar, frá fjölskyldustundum eða einmannaleika fyrri tíma. Æskujólin eru með okkur og blandast jólum þessa árs. Jólin bera okkur fyrirheit og drauma sem ýmist verða uppfylltir eða verða að engu.

Þegar jólagjafirnar liggja enn undir trénu, innpakkaðar og fínar, á meðan við enn bíðum eftir þeim sem við unnum og ætlum að eyða jólahátíðinni með og bíðum þess að aðfangadagskvöldið muni byrja, þá eru enn svo miklir möguleikar fyrir hendi, væntingar í loftinu. Óvæntir hlutir geta enn gerst og allt getur farið svo vel. Einmitt eins og lífið, lífið sjálft séð með augum barnsins.

Guð kemur á óvart Kannski var nóttin þessi fyrir rúmum 2000 árum ekki svo fullkomin heldur. Kannski varð María sjálf fyrir vonbrigðum yfir því að geta ekki boðið barni sínu öruggt umhverfi við sjálfa fæðinguna, hrein rúmföt og fallegt heimili.

Kannski urðu þau sem væntu frelsarans vonsvikin yfir því að hann kom í heiminn sem varnarlaust lítið manneskjubarn en ekki sem mikil vera á skýi með sverð í hönd og tilbúin til að reka allt illt burt úr heiminum í einum hvelli.

En til þess að upplifa vonbrigði verðum að hafa átt væntingar, vonir, trú eða óskir.

Vonir og drauma eigum við öll. Væntingar og vonir um betri tíð voru jafn raunverulegar í útihúsum fyrir tvöþúsund árum og í raðhúsi eða blokk í Grafarvogi í dag. Vonin um að allt muni fara vel og að vandamálin muni leysast er jafnstór hluti af veruleikanum hvernig sem við búum, hvort sem við höfum vinnu eða ekki, eigum fjölskyldu og vini eða erum ein á báti.

Vonin er það sem skiptir öllu máli.

Vonin verður hvergi eins áþreifanleg og við fæðingu barns sem á allt lífið framundan. Allir þessir möguleikar, áhyggjur, framtíðardraumar og vonir um bjarta framtíð – ekkert af þessu er í meðvitund litla barnsins en því meira í fólkinu sem umlykur það.

Litla barnið er svo varnarlaust og berskjaldað fyrir hættum heimsins og um leið svo hættulaust sjálft, að við sem erum eldri þorum að brjóta gat á eigin varnarmúra, þorum að láta vopnin falla og tökum áhættuna á að opna hjörtu okkar og elska.

Ég tel líklegt að Guðsmynd okkar flestra sé oft kraftmikil mynd af karllegri veru svo sem valdamiklum föður, kletti eða konungi. Fyrir þannig Guði getum við valið að beygja okkur fyrir í ótta eða að fela okkur fyrir svo að við þurfum ekki að mæta honum. Þetta passar einnig vel við myndina af Guði sem ríkir, sigrar, dæmir og stríðir. Þannig hlýtur Guð að vera og þannig Guð er auðvelt að hafa skoðanir á eða tilfinningar til.

Það er svo miklu erfiðara með Guð sem er allt öðruvísi. Guð sem kemur óvænt inn í hjörtu okkar eins og lítið barn, svo klókt, svo róttækt og öðruvísi. Gagnvart þeim Guði verðum við að læra að halda hjörtum okkar og hugum opnum fyrir hinu óvænta, læra að vænta þess að hvað sem er geti gerst. Fæðingasagan fallega sem við heyrðum í kvöld gefur ekkert í skyn um valdamikinn og sterkan Guð sem bjargar öllu í einum hvelli. Hún snýst um eitthvað allt annað. Hún snýst um eitthvað sem gerist í hjörtum okkar. Og í kvöld gerist hið stórkostlega. Guð mun koma okkur öllum á óvart. Því Guð er ekki eins og við gerum ráð fyrir.

Öðruvísi Guð Það var aðfangadagskvöld í Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni. Fólk var komið til kirkju, alveg eins og við nú. Allt var eins og það átti að vera. Fólk söng jólasálmana og jólagleðin ríkti í kirkjunni. Þrátt fyrir allan hryllingin sem átti sér stað í umhverfi fólksins sem sat í kirkjunni þetta kvöld þá tókst þeim að skapa fallega jólastemmingu inni í kirkjunni þetta eina kvöld. Presturinn lagði út af jólaguðspjallinu og stytturnar af hinni heilögu fjölskyldu stóðu á sínum stað í kirkjunni. Alveg eins og þetta hafði alltaf verið. Presturinn hafði rétt byrjað að leggja út af jólaguðspjallinu þegar hurðin opnaðist og inn gekk kona með tvö börn. Hún reyndi að láta lítið fara fyrir sér og settist á aftasta bekk. Á barmi þeirra allra lýsti gula Davíðsstjarnan sem allir gyðingar voru neyddir til þess að bera. Presturinn þagnaði og horfði illilega á öftustu bekkina. Hmmm ræskti hann sig. Konan og börnin hjúfruðu sig upp að hvert öðru. ”Út með alla gyðinga”, hrópaði þá presturinn hátt. Þegar hann sá að þau hreyfðu sig ekki, hrópaði hann enn hærra: ”Út með alla gyðinga”. Konan og börnin byrjuðu að gráta hljóðlega og reyndu að láta sem minnst á sér bera. Fólkið í kirkjunni var farið að horfa á þau pirruð á svip og presturinn var orðinn reiður og öskraði eins hátt og hann gat: ”Allir gyðingar út”. Þá gerðist hið óvænta. Í fjárhúsinu reis styttan af Jósefi á fætur og tók í hönd Maríu. ”María” sagði hann, ”það er best að við förum. Við erum ekki velkomin hér”. Hann hjálpaði henni varlega upp á asnann og með Jesú vafinn reifum gengu þau hægt og rólega út úr kirkjunni.