Fyrirgefðu

Fyrirgefðu

Það sem þessi maður gerði, og er framandi fyrir alþingisfólk á Íslandi, er að hann baðst fyrirgefningar. Hann kom fram í fréttatíma, lagði sig fram fyrir alþjóð með kostum sínum og göllum, grét og sagði fyrirgefið mér. Viðbrögðin létu ekki á sér standa því símalínur á fréttastofu Stöðvar 2 voru rauðglóandi eftir vitalið. Fólk vildi rétta hjálparhönd. Honum var fyrirgefið.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
02. október 2010

Ég hef alltaf trúað á mátt fyrirgefningarinnar. Ég held að hægt sé að fyrirgefa nánast hvað sem er ef fólk sýnir sannarlega iðrun og biðst fyrirgefningar.   Engir þeirra ráðherra, sem Alþingisfólk kaus um hvort dregnir yrðu fyrir landsdóm, hafa beðist fyrirgefningar. Það hafa ekki nokkrir aðrir fyrrverandi eða núverandi alþingismenn, ráðherrar, bankastjórnendur eða aðrir höfundar hrunsins heldur gert.   Enda sáum við þegar Alþingi var sett í gær að fólk er brjálað!   Fátækt eykst. Bilið á milli ríkra og fátækra breikkar dag hvern í tíð vinstri stjórnar. Ráðherrar og alþingisfólk bendir á hvert annað og tekst á um sekt eða sakleysi samflokksfólks síns.   Ég hafði trú á þessari stjórn. Hún fer þverrandi.   Ekki að furða þó fólk sé brjálað, kasti eggjum og lyklum.   Í gær kom hugrakkur maður fram í fréttatíma Stöðvar 2 og baðst afsökunar. Hann hafði gengið berserksgang hjá félagsmálastofnun í Reykjavík vegna þess að hann átti ekki að fá greiddan húsaleigustyrk fyrr en eftir helgi.   Hann var við það að missa herbergið sitt og örvæntingin náði tökum á honum.   Það sem þessi maður gerði, og er framandi fyrir alþingisfólk á Íslandi, er að hann baðst fyrirgefningar. Hann kom fram í fréttatíma, lagði sig fram fyrir alþjóð með kostum sínum og göllum, grét og sagði fyrirgefið mér.   Viðbrögðin létu ekki á sér standa því símalínur á fréttastofu Stöðvar 2 voru rauðglóandi eftir vitalið. Fólk vildi rétta hjálparhönd.   Honum var fyrirgefið.   Hugsum okkur að ráðherrar í fyrrum ríkisstjórn hefðu gert slíkt hið sama, hefðu komið fram og beðist fyrirgefningar á meðvituðu eða ómeðvituðu aðgerðarleysi. Á því að hafa sett eigin hagsmuni og heiður ofar hagsmunum heillar þjóðar eða hvað það nú er sem þau mögulega geta verið sek um.  En þetta hefði krafist viðurkenningar á sekt og kjarki til þess að líta í eigin barm. Ég er nokkuð sannfærð um að ef þau hefðu gert það hefði verið auðveldara að ná sáttum.   Þjóðin hefði fyrirgefið.   Og þetta á ekki aðeins um þessa fjóra ráðherra. Þetta á um öll þau eru voru í síðustu ríkisstjórn. Um ráðherra og alþingisfólk í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar. Já og um öll þau er mögulega hafa á einhvern hátt tekið þátt í því að stefna fjármálakerfi og siðferði Íslendinga í voða.   Ég hef enn fulla trú á fyrirgefningunni. Ef fólk kemur fram sem manneskjur og biðst fyrirgefningar trúi ég að hægt sé að fyrirgefa næstum hvað sem er.   Burt með hroka og inn með iðrun og fyrirgefningarbeiðni. Fyrr verður ekki hægt að ná sáttum.