Heiðarleiki

Heiðarleiki

Þjóðkirkjan er í raun ótrúlega öflug en hún minnir stundum á sofandi risa. Fyrir áratug fékk hún skýr skilaboð um að heiðarleikinn væri sú dygð sem hún ætti að tileinka sér.

Þjóðfundur var haldinn síðustu helgi. Fólk var kallað saman til hugmyndavinnu og ræddi um það sem þarf að hugsa og gera til þess að enduheimta samfélag sem er laskað bæði á líkama og sál. Tilgangurinn var að finna leiðir inn í nýja tíma og að fyrirbyggja að þjóðin fari jafn heiftarlega út af réttri braut eins og gerðist á síðustu árum.

Misstór orð

Á heimasíðu fundarins má sjá orð sem eiga að lýsa þeim gildum sem þjóðin þarf að hampa og eru þau letruð stærra letri eftir því hversu oft þau voru nefnd af þessum fulltrúum þjóðarinnar sem þarna sátu að rökstólum. Við lesandanum blasir aragrúi orða – sum þeirra svo smá að þau eru varla læsileg en önnur, þau sem hafa oftar borið á góma hjá fundarmönnum standa stærri stöfum.

Eitt orð yfirskyggir hin sem í kringum það standa – svo að þau verða nánast eins og skreyting í kringum það eina. Þetta orð er heiðarleiki. Þjóðfundurinn sem haldinn var setti orðið heiðarleika í fyrsta sætið. Þetta er framlag fólksins sem kemur saman eftir skipbrot samfélags, skipbrot yfirborðsmennsku, sýndarmennsku, auglýsingamennsku og alls skrumsins og segir: Við metum heiðarleikann mestan allra þeirra gilda sem ráða eiga förinni í samfélagi okkar.

Heiðarleikinn

Heiðarleikinn er leiðarljósið, segir fundurinn og vill að hann fái meira vægi á Íslandi en verið hefur.

Það merkilega er, eins og Salvör Nordal heimspekingur benti á í umfjöllun um fundinn, að nákvæmlega sama niðurstaða fékkst fyrir áratug þegar kirkjan gerði samsvarandi könnun á gildismati Íslendinga. Það var fyrir kristnitökuafmælið og skoðanakönnun var gerð á því hvað landsmenn meta dýrmætast. Fólk svaraði með sama hætti: Heiðarleiki .

Þetta var vegarnestið sem kirkjan fékk í upphafi þjónustunnar í upphafi þjónustu sinnar á nýju árþúsundi. Vertu heiðarleg! Þetta segir fólk við kirkjuna sína. Og nú fá stjórnvöld á öllum stigum sömu skilaboðin: Verið heiðarleg.

Og kirkjan kann að spyrja með sama hætti og stjórnvöld ættu að gera – hvað eigið þið við? Hvað er að vera heiðarlegur? Er það að segja sannleikann? Já, vissulega. Heiðarlegt fólk segir sannleikann. Á því leikur enginn vafi. En heiðarleikinn nær lengra. Hann snýst ekki bara um það sem við segjum, þótt það skipti sannarlega gríðarlega miklu máli. Sá sem lætur nægja að segja það sem satt er og rétt, en gerir ekki það sem þarf að gera, fer ekki eftir eigin orðum – sá er ekki heiðarlegur. Heiðarleikinn fjallar ekki síður um það sem við gerum.

Þegar menn agnúast út í óheiðarleg vinnubrögð kvarta menn undan því að íslensk stjórnsýsla sé ekki gegnsæ, og víst má finna mörg dæmi um það. En íslensk tunga er gegnsæ og orðið heiðar-leiki felur það í sér að leika, breyta, hegða sér í þeim anda sem heiðvirður er og er laus við það sem flekkar og skaðar.

Nýtt upphaf

„Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð“ segir hinn mergjaði spámaður Jesaja í fyrri texta dagsins. Að baki er hörmung og þrældómur. Þjóðfundir fara fram innan um þrælahaldara og erlenda harðstjóra. Ísraelsmenn öxluðu Icesave samninga síns tíma þar sem spillt yfirstétt hafði kallaði yfir þá áratuga þrældóm fyrir erlenda sigurvegara. Þá reis upp þessi spámaður sem hvatti fólkið áfram og horfði fram til nýrra tíma þar sem er nýr himinn og ný jörð.

Og postulinn talar til litla safnaðarins í Rómarborg með huggunarríkum orðum þess efnis að þjáningarnar sem hann má þola séu lítilvægar miðað við dýrðina sem bíður. Aftur er horft til þess sem framundan er. Þrautirnar og erfiðleikarnir sem standi yfir eru ekki annað en undanfari mikillar sigurgöngu. Sá spádómur átti eftir að rætast með margvíslegum hætti. Kirkjan varð að endingu fjöldahreyfing sem teygði sig út í allar álfur og fylgendur Krists eiga sér vísan samastað í dýrðinni í ríki hans.

En hvað er það sem einkennir þessa nýju tíma í kristinni trú? Þegar Kristur byrjar þjónustu sína samkvæmt Lúkasarguðspjalli lýsir hann hlutverki sínu svo að Guð hafi sent hann til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drotttins.

Náðarárið

Náðarár Drottins er ríkjandi núna, hér mitt á meðal okkar. Þetta er tíminn þar sem ríki Guðs er í nánd og sigurgleðin framundan ómar inn í okkar tíma. Náðarár Drottins er tíminn sem við eigum til að vinna verkin sem Guð felur okkur. Og hugsið ykkur – Kristur lýsir í upphafi þjónustu sinni með þessum orðum að hann flytji fátækum gleðilegan boðskap.

Guðspjallið horfir svo enn lengra fram og lítur fram til hinna efstu daga þegar dómurinn er kveðinn upp. Kristur horfir fram til hinnar nýju sköpunar þar sem dómarinn mætir heimi sem þekkir bæði hið fagra og dýra og svo hið spillta og falska. Já, hver er mælikvarðinn sem hann setur á það hver tilheyrir hvorum hóp?

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.

Þetta er leiðarljósið segir Kristur. Vegstikan á leiðinni sem sýnir okkur þá hegðun sem lofsverð er og svo hina sem er það ekki. Þeir sem vinna slík verk eru að sönnu að starfa í þágu Guðs ríkisins.

Heiðarlegur kærleikur

En við getum spurt í framhaldi og það hafa margir gert – erum við þá að létta undir með þeim sem minnst mega sín til þess eins að öðlast sæti í ríki Guðs? Er þá þjónusta okkar, já sjálfur kærleikurinn við náungann einungis til sýnis? Er það bara til þess að sjálf megum við upplifa dýrðina þegar tímar þrenginganna eru að baki?

Von er að svo sé spurt. En þá skulum við ekki gleyma því að hugtakið sem þjóðin hefur í tvígang valið merkast annarra gilda lýsir einnig upp texta Biblíunnar. Sá er ekki heiðarlegur sem gefur hungruðu mat og drykk eingöngu til þess að öðlast sjálfur einhverja umbun í staðinn. Nei, umhyggja hans er fölsk og óekta. Við þekkjum alltof mörg dæmi um þá sem hugsa um það eitt að vekja athygli í hvert sinn er þeir leggja gott af mörkum.

Nei, svarið frá þeim sem ganga inn í dýrðina lýsir því svo vel sem einkennir hinn sanna kærleika í anda kristinnar trúar:

Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

Einmitt þetta: þeir vinna kærleiksverkin aðeins af sannri umhyggju fyrir þeim sem þurfa á styrk þeirra að halda. Hugurinn var ekki við einhvern dóm eða mælistiku sem framundan væri. Þarna var engin eigingjörn hugsun að baki. Einungis sönn og einlæg ást til náungans og vilji til þess að rétta honum hjálparhönd í þeirri von að bæta megi kjör hans og velferð.

Velferðarsjóður

Þetta höfum við líka séð og upplifað á því ári sem Velferðarsjóðurinn á Suðurnesjum hefur starfað. Liggur nærri að safnast hafi milljón á mánuði í frjálsum framlögum í sjóðinn, en senn nálgumst við 12 milljóna heildarframlag í sjóðinn. Þegar gefendur hafa viljað vekja athygli á framlagi sínu er það einungis í þeim tilgangi að hvetja aðra til dáða og sýna þann siguranda sem er hér á svæðinu mitt í erfiðum þrengingum. Í þeim anda hvatti ég Lionsmenn í Njarðvík er þeir komu að máli við mig með gjöf sína, til þess að koma hingað til þessarar helgu stundar og afhenda hana fulltrúa stjórnar Velferðarsjóðsins. Í gærkvöldi mætti ég á samsæti starfsfólks fríhafnarinnar sem veitti að sama skapi rausnarlegan styrk til sjóðsins.

Allt til þess að bæta og græða, styrkja, hjálpa þeim að fá mat sem eru með tóman ísskáp, fatnað þar sem börnin eru vaxin upp úr flíkunum, koma til móts við fólks sem skuldar leigu, getur ekki leyst út lyf eða annað það sem er aðkallandi og brýnt hér á þessum slóðum. Þetta er heiðarleg afstaða, sannkristin enda er það kjarni kristinnar trúar að hugarfarið skipti meginmáli þegar kemur að framlagi okkar til samfélagsins. Fátæka ekkjan gaf meira en allir hinir því hún gaf af skorti sínum. Þó var framlag hennar aðeins nokkrir smápeningar. En hjarta hennar var stórt og kærleikurinn mikill. Hún gaf meira en allir hinir.

Sofandi risi

„Segið okkur satt!“, hrópar þjóðin til þeirra sem ráða. Verið heiðarleg. Þetta sagði hún líka við kirkjuna á sínum tíma. Og kirkjan stendur sjálf á tímamótum. Fjárhagurinn er þrengri en oft áður eins og svo víðar, en margt annað er jákvætt. Sjálfboðaliðar streyma að, fólk vill leggja starfseminni lið, hér er öllum aldurshópum þjónað og við hér í Keflavíkurkirkju erum stolt og hrærð yfir því hlutverki sem við höfum fengið að gegna í átakinu sem kennt hefur verið við Velferðarsjóðinn á Suðurnesjum. Hugmyndin að honum kemur einmitt úr leikmannasamfélaginu hér og sjálfboðaliðar í starfinu hafa lagt gríðarlega mikið af mörkum til þess að kynna sjóðinn og efla hann.

Þjóðkirkjan er í raun ótrúlega öflug en hún minnir stundum á sofandi risa. Fyrir áratug fékk hún skýr skilaboð um að heiðarleikinn væri sú dygð sem hún ætti að tileinka sér. Og auðvitað leitast hún í hvívetna við að gera það. En heiðarleikinn felst í því að breyta – vera virkur. Kirkjan hefur um of staðið á hliðarlínunni – þessi samtök sem eru þau fjölmennustu á Íslandi. Hún maldaði í móinn þegar græðgin læsti greipum sínum um samfélagið, en rödd hennar mátti heyrast hærra. Hún þarf að rísa fram í auknum mæli og benda á Krist, sýna fólki hversu dýrmætt það er að fylgja honum og ekki síst hvar hann er að finna.

Já, hvar finnum við Krist?

Því svarar hann sjálfur í guðspjalli dagsins:

Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Já, þarna mætum við honum – þegar við í kærleika og af heiðarleika vinnum hjálpræðisverk náunga okkar til heilla.