Hvað er sannleikur?

Hvað er sannleikur?

Við eigum öll rétt á virðingu, elsku, öryggi, frelsi og réttlæti. Það væri lifaður sannleikur.

Flutt 11. mars 2018 · Langholtskirkja (útvarpað á Rás 1)

Ég heilsa ykkur kæri söfnuður með orðum postulans : Náð sé með ykkur og friður !

Vikan sem var að líða er sannkallað þakkarefni. Enn eina vikuna fékk ég að þjóna í Langholtssókn. Athafnir gleði og sorgar, sálgæslusamtöl um flóknustu verkefni lífsins. En líka gleði og skemmtun í stórum hópi sjálfboðaliða. Núna strax eftir messuna er kökubasar kvenfélagsins í anda Hnallþóru og svo stórtónleikar að hlakka til um næstu helgi.

Hér í kirkjunni er alltaf kaffi og margt er rætt yfir kaffibollunum. Fólkið talaði um prestana sem hafa þjóna þeim fallega, ræddi sjálfboðaliðastarfið í kirkjunum, dáðist að kórum og sögðu frá kirkjunni þar sem þau voru skírð eða fermd og er fallegust allra.
Það var ekki síður þakkarefni að heyra að fólk er ekki hrætt við að gagnrýna. Gagnrýna það sem því þykir miður, þverrandi traust kirkjunnar og vandræðagangur í fjölmiðlum. Það var grátið og hlegið þessa viku sem og aðrar vikur í kirkjunum, og þið eruð hér þrátt fyrir breyskleika okkar sem störfum í ykkar umboði.

Eitt samtala vikunnar var við konu sem að er mædd yfir því hvernig tekið hefur verið á kvörtunum um kynferðislega áreitni og einelti innan kirkjunnar að undanförnu. Hún sagði mér í einlægni að hún væri að hugsa um að segja sig úr kirkjunni.
Ég sagði við hana það sama og ég segi við þig :„Kirkjan er vettvangur þinn til að rækta tengsl við hinsta veruleika lífsins, það gerum við í söfnuðunum og þangað fara sóknargjöldin okkar. Í kirkjunni starfar fólk sem brýtur af sér og gerir mistök og segir einhverja vitleysu líkt og annarstaðar. Ekki láta því misvitrar og breyskar manneskjur flæma þig burt frá því dýrmæti sem tengslin í söfnuðunum eru. Þetta er kirkjan þín “, sagði ég við konuna og ég segi við ykkur þetta er kirkjan ykkar. Grasrótarhreyfing sem þarf að ljúka þeim skrefum að standa á eigin fótum og axla ábyrgð á eigin málum að fullu. Minnka yfirbygginguna, fækka silkihúfunum og breyta innan frá.

Í dag er spurt í guðspjallinu : Hvað er sannleikur ?

Hvað ferðu að hugsa um þegar að ég endurtek þessa frægu spurningu ?
Hvað er sannleikur ?

Ég giska á að þú farir að hugsa um það sem hvílir þyngst á þér. Þegar þú upplifðir : Órétt, eitthvað sem særði og jafnvel eitthvað sem þér þótti nær óbærilegt. Allt það sem skoraði þig á hólm hvað varðar tengsl og tengingu þína við sannleikann.

Við þekkjum að upplifun tveggja af sama atburði getur verið ólík. Við hlægjum sem dæmi að því heima hjá mér þegar sjálfskipað miðjubarnið talar um uppvöxt sem við hin á heimilinu könnumst lítið við. Þetta er drengurinn sem að eigin sögn, sá um sig sjálfur næstum frá fæðingu, smurði alltaf nestið sitt, gekk einn í endalausum hríðarbyljum langar vegalengdir og komst heill frá þessu öllu, eingöngu af eigin rammleik.

Við erum svo sem alltaf að endurskrifa minningar okkar, í samræmi við þroska, lærdóm og hæfni til að skilja, hlusta, tjá og tengjast. Svo það sem miðjubarnið er að tjá er tilfinning sem þarf að hlusta eftir, skilja og tengja við í stað þess að rengja.

Það að standa frammi fyrir ólíkum upplifunum af sama atburði er stundum fyndið eins og í þessu tilviki en á stundum alveg grafalvarlegt svo sem þegar við upplifum á okkur brotið. Við segjum aftur og aftur frá því sem er satt en á sama tíma segja hin frá allt öðru og segjast líka segja satt. Útskýra jafnvel fyrir okkur að það sem við erum að upplifa sé rangt.

Svo það er ekki að undra að við þurfum stundum að nema staðar og velta því fyrir okkur hvað sé eiginlega sannleikur ! Förum jafnvel að halda að sannleikurinn sé afstæður.

Hvað er sannleikur ?
Líklega er spurningin kolröng því sannleikur er ekki atburður. Atburðir eru atburðir, sem við skiljum og upplifum með ólíkum hætti.

Spurningunni um hvað er sannleikur er því ekki svarað af Jesú með lýsingu á atburði sem er sannleikurinn heldur er því svarað hver er sannleikurinn og ekki aðeins það heldur sannleikurinn og lífið.

Svo spurningin er frekar hver er sannleikur ?

Sannleikurinn er fólginn í lóðréttu tengslunum milli Guðs og manneskju og þeim láréttu milli manneskju og manneskju, sannleikurinn er því þar sem þetta tvennt mætist í kærleikstákni krossins. Svarið við spurningunni; hvað er sannleikur er þá tengsl, samtenging, samábyrgð, elska og kærleikur.

Sem minnir á að synd er heldur ekki atburður heldur ástand þar sem tengslin hafa rofnað. Við vitum að tengslin geta rofnað á mörgum sviðum lífsins; tengslin við okkur sjálf, við annað fólk, við æðri mátt og tilgang lífsins. Því tengsl merkja að heyra líðan og geta tjáð og tengt við, bæði okkar og annarra.

Jesús gekk í sporum þeirra sem á hefur verið brotið, í sporum þeirra sem mæta óréttlæti, þeirra sem standa frammi fyrir dómstólum sem þau treysta ekki, þeirra sem vita að valdið hefur tilhneygingu til að standa vörð um vald sitt fremur en réttlæti.

Leiddur til dauða, og á þeirri göngu minnir Jesús á að valdi verður ekki mætt með valdi.

Pílatus stendur fyrir valdið, hervalds og dómstóla.
Mitt ríki er ekki af þessum heimi segir Jesús hins vegar. Hvað merkir það ? Vald sem er af öðrum heimi og er beitt með öðrum hætti.

Með elsku og kærleika. Þau sem heyra skilja er sagt, svo við neyðumst til að velta því fyrir okkur hvort að við heyrum og skiljum.

Það hefur gustað hér í prófastsdæminu í vetur vegna kjarks fimm kvenna til að segja frá upplifunum af kynferðislegri áreitni og markaleysi af hálfu eins kollega okkar. Það hefði verið þægilegast fyrir mig, og ykkur líklega líka ef að ég hefði látið það vera að minnast á þetta óþægilega mál en það lét mig bara ekki í friði þar sem ég sat og skrifaði.

Á slíkum málum þarf að taka. Það sem hefur hins vegar ekki látið mig og fleiri í friði er hvernig kirkjustofnunin hefur látið þessar hugrökku konur sem að sögðu frá upplifunum sínum, bera ábyrgðina á því sem þær urðu fyrir. Þær þurftu að ráða til sín lögmann, þurftu að marg endurtaka frásagnir sínar og aftur og bíða mánuðum saman eftir rýrri niðurstöðu nefndar sem þó gerði sitt besta miðað við þann ramma sem henni er settur. Jafn stolt og ég er af þessum hetjum og þeim farvegi sem Fagráð þjóðkirkjunnar er þá skammast ég mín fyrir að ábyrgðin liggi hjá þolendunum um framhaldið.

Því við spurningunni um hvernig við lifum í sannleika er bara eitt svar það er í kærleika.

Svo næst þegar að manneskja stígur fram og segir frá því að farið hafi verið yfir mörk hennar í samskiptum þá verður svarið að vera annað en að manneskjan sjálf beri á því ábyrgð að verja sig. Að hún beri sjálf á því ábyrgð á að tekið sé á aga og siðferðisbrotum og stjórnendur skýli sér á bak við það. Að hún beri á því sjálf ábyrgð að njóta öryggis á vinnustað sínum. Við getum ekki eins og prestarnir í guðspjallinu skýlt okkur á bak við Pílatus og haldið að með því berum við ekki ábyrgð. Við verðum alltaf samsek þar sem óréttlæti er ekki stöðvað.

Spurning guðspjallsins er einnig: Hvern við viljum frelsa í heimi og hjarta ?
Hvern viljum við láta lausan Jesús eða Barrabas ?
Veljum við umbreytandi elsku og kærleika Guðs sem gekk inní kjör og þjáningu mannlegs lífs og berum því vitni. Eða er þessi sannleikur afstæður svo við veljum frekar eitthvað notalegra eitthvað sem krefst ekki jafn mikils og vísum ábyrgðinni annað.

Veljum við sannleika sem er án ofbeldis eða sættum við okkur við félagskap ræningja og tökum áhættuna á að verða ræningjar sjálf.

Mörg verðum við fyrir því að fara yfir mörk eða særa með orðum eða gjörðum. Öll, bæði við sem særum aðra og við sem erum særð, þurfum á leiðum að halda, sem styðja okkur til að taka ábyrgð á gjörðum okkar, bæta fyrir, vaxa, þroskast. Að við fáum nýtt tækifæri og getum haldið áfram reynslunni ríkari.

Við eigum öll rétt á virðingu, elsku, öryggi, frelsi og réttlæti.
Það væri lifaður sannleikur.

Miðjubarnið mitt heima mun halda áfram að halda því fram að hann hafi alið sig upp sjálfur, það verður bæði grátið og hlegið í kirkjunum í þessari viku sem þeirri síðustu. Við þurfum að taka á mörgu innan kirkjunnar og samfélagsins alls. En en vegna vonarinnar og upprisunnar á hverjum degi munum við geta tekist á við það allt.

Líka Hnallþórurnar sem bíða hér frammi…..

Amen.

Sálmur 145: 10-13
Öll verk þín lofa þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir vegsama þig.
Þau segja frá dýrð ríkis þíns
og tala um mátt þinn
til að boða veldi þitt,
hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.
Konungdæmi þitt varir um allar aldir
og vald þitt stendur frá kyni til kyns.

Jóhannes 18: 28-40
Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“ Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“ Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“
Þeir svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ Þannig rættist orð Jesú þegar hann gaf til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.

Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Eru þetta þín orð eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“
Pílatus svaraði: „Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gert?“
Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“

Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“

Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“

Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“ Að svo mæltu gekk Pílatus aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum. Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“
Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi.