Ávarp biskups við setningu Kirkjuþings

Ávarp biskups við setningu Kirkjuþings

Kirkjan er fólk á ferð. Þess vegna er það sístætt hlutverk kirkjuþings að huga að skipulagsmálunum og reyna að finna bestu lausnir á hverjum tíma. Skipulagsbreytingar bitna oftar en ekki á söfnuðum og starfsfólki og því nauðsynlegt að vanda vinnubrögðin.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
12. nóvember 2012

Innanríkisráðherra, forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskupar, góðir gestir. Síðastliðið ár hefur verið ár mannaskipta í yfirstjórn kirkjunnar.  Ég stend hér við setningu kirkjuþings í fyrsta skipti sem biskup Íslands ef frá er talið aukakirkjuþingið sem haldið var þann 1. september síðast liðinn.   Einnig hefur tekið við nýr forseti kirkjuþings.  Fyrir mína hönd og kirkjunnar í landinu þakka ég fráfarandi biskupi, herra Karli Sigurbjörnssyni fyrir biskupsþjónustuna sem og fyrrum víglsubiskupi á Hólum Jóni Aðalsteini Baldvinssyni, sem lét af embætti 1. september s.l.  Einnig Pétri Kr. Hafstein sem var forseti kirkjuþings sem og Margréti Björnsdóttur er tók við af honum í byrjun þessa árs.  Ég vænti góðs samstarfs okkar biskupanna þriggja Kristjáns Vals Ingólfssonar og Solveigar Láru Guðmundsdóttur og ykkar kirkjuþingsfulltrúanna. Þið eruð reynd sem og margt af því starfsfólki biskupsstofu sem undirbúið hefur þingið og vinnur hér á þinginu.  Ég þakka þeim undirbúninginn svo og þeim er flutt hafa tal og tóna hér í dag. 

Þið kirkjuþingsfulltrúar hafið setið hér áður, sum fleiri kjörtímabil.  Ég treysti því að ég deili með ykkur þeim skilningi mínum að við biskupar og kirkjuþingsfulltrúar séum að vinna sameiginlega að því að efla kirkjuna okkar, sem flytur þjóðinni erindi fagnaðar og kærleika. Eitt af hlutverkum biskups er að fylgja eftir reglum er kirkjuþing setur, sem og samþykktum þess og markaðri stefnu.  Nauðsynlegt er að sátt og eining ríki sem og traust og heiðarleiki okkar í millum.

Kirkjan okkar er ekki eyland í kirkjusamfélaginu.  Hún hefur samstarf við aðrar lúterskar kirkjur erlendis sem og kirkjudeildir hér á landi.  Það var ánægjulegt við biskupsvígsluna í sumar að aldrei hafa fleiri erlendir biskupar verið viðstaddir biskupsvígslu á Íslandi.  Við eigum því vini í nágrannalöndum okkar og samstarf við aðrar kirkjur.  Þar erum við ekki aðeins þiggjendur heldur höfum við einnig ýmislegt fram að færa.  Má þar nefna að námskeiðið „Konur eru konum bestar“ hefur nú verið flutt út ef svo má segja öðrum konum til styrktar, en þetta sjálfstyrkingarnámskeið miðar að því að byggja upp sjálfsmynd kvenna og sjá sjálfar sig í ljósi Biblíunnar.  

Á erfiðum tímum Kirkjunnar bar á því að sjálfsmynd hennar væri ekki sterk.  Í mótlæti er auðvelt að efast um sjálf okkur og það sem við höfum fram að færa. Það á jaft við um einstkalinga sem og samfélagið allt þar á meðal kirkjuna.  Um tíma var sem sjálfsmynd okkar væri brotin, fórum næstum með veggjum, eins og við værum með smitandi sjúkdóm.  Létum telja okkur trú um að nærveru okkar væri ekki óskað.  Samt vissum við innst inni að erindi okkar var brýnt, lífgefandi og bætandi.  En nú er sem aðeins hafi rofað til í kirkjunnar sál og eru eflaust nokkrar ástæður fyrir því.  Ein þeirra er að þjóðinni gafst kostur á því að tjá álit sitt á nokkrum atriðum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, þann 20. október s.l.  Ein spurningin fjallaði um þjóðkirkjuna en þar var spurt:  „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“  Niðurstaðan var að meira en helmingur þeirra sem kusu vildu áfram hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni.  Niðurstaðan kom einhverjum á óvart, mörgum þó gleðilega á óvart, en hún er liður í því að efla og styrkja sjálfsmynd kirkjunnar.  Í ljós kom að það góða starf sem unnið er í söfnuðum landsins er metið að verðleikum og þjóðin tók mark á ályktunum Kirkjuráðs, kirkjuþings, leikmannastefnu og fleiri aðila innan Þjóðkirkjunnar, sem hvöttu til þess að spurningunni væri svarað játandi. Þjóð og kirkja hafa átt farsæla samleið í gegnum aldirnar og sá kristni siður sem mótað hefur hugsunarhátt og mannlíf þjóðarinnar er sá trausti grunnur sem þjóðin kýs að standa á. 

Kirkjan hefur fengið byr í seglin og ljóst að meirihluti þjóðarinnar treystir henni til áframhaldandi góðra verka og forystu í þágu kristni hér á landi.  En ábyrgð hennar er  líka mikil.  Það verðum við alltaf að hafa í huga, bæði hér á kirkjuþingi sem og í söfnuðunum og hjá yfirstjórninni.  Þau sem kirkjunni þjóna, bæði leik og lærð, hafa tekið á sig byrgðar vegna niðurskurðarins sem orðið hefur.  Sóknargjöldin hafa lækkað umtalsvert svo nú stefnir í neyðarástand í sumum sóknum.  Fjárhagsstaðan er óviðunandi eins og  fram kom í ályktun aukakirkjuþings þann 1. september síðast liðinn.  Sóknirnar hafa tekið á sig skerðingu umfram stofnanir innanríkisráðuneytisins, sem nemur 25%.  Þetta hefur leitt til fækkunar starfsfólks í sóknunum eins og kunnugt er og álagið á þau er eftir eru er því meira.  Auk þess hefur Þjóðkirkjan tekið á sig skerðingu eins og aðrar stofnanir þjóðfélagsins eftir hrun fjármálakerfisins, en kirkjuþing hefur í þrígang samþykkt viðaukasamning við Samkomulag íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997. 

Bág fjárhagsstaða sem og ýmsir aðrir erfiðleikar er Kirkjan hefur gegnið í gegnum hefur þreytt kirkjunnar þjóna og að mínu mati gert okkur tilbúnari til að efast um hugmyndir og aðgerðir og aukið vantraust á þeim er eiga að fylgja þeim eftir og framkvæma.  Það örlar á ótta við hið óþekkta og framtíðina en það er afleit tilfinning og gerir engum gott.  Það er heldur ekki gott að gera öðrum upp hugsanir.  Við verðum að treysta því að hugmyndasmiðum gangi gott eitt til en ekki illt.  Við eigum að lifa í samræmi við boðskap Krists.  Hann talar oft um óttaleysið.  „Vertu ekki hrædd, litla hjörð“  „verið óhræddir“  „óttist ekki“.  Hversu oft skyldi vera nefnt í Biblíunni að við eigum ekki að óttast.  Við megum ekki ganga fram í ótta.  Við megum ekki láta óttann ná tökum á okkur.  Við verðum að treysta því að tillögur séu skoðaðar óttalaust svo besta mögulega niðurstaða fáist.  Stundum þarf að afgreiða tillögur fljótt, stundum má leyfa þeim að gerjast. 

Í gær var haldið kirkjuþing unga fólksins hér í Grensáskirkju.  Þar voru sex tillögur bornar fram.  Ein þeirra fjallaði um einelti og Kirkjan hvött til að leggja sitt af mörkum til að vinna gegn einelti og uppræta það.    Í fyrradag var minnt á að vinna gegn einelti.  Hvatt var til þess að kirkjuklukkum væri hringt af þessu tilefni og var klukkum hringt víða um land.  Einelti er alvarlegt vandamál sem víða hefur orðið vart við.  Nú hefur ungt kirkjufólk vakið athygli okkar á þessu vandamáli og vil ég fylgja eftir samþykkt kirkjuþings unga fólksins um þetta mál, því líklegt er að engin stofnun þjóðfélagsins sé laus við það, ekki heldur Kirkjan.

Kirkjan er eins og heimili, þar sem fjölskyldumeðlimir eru margir og á öllum aldri.  Þar sem allir þurfa sitt rými og samheldni á að ríkja.  Heimilisfólk er ekki alltaf sammála, en markmiðið er að komast að niðurstöðu með málamiðlun.  Á þessu heimili þarf að taka til og það getur reynst mikið verk.  Þess vegna þarf að skipta með sér verkum til að verkið vinnist.  Það er ekki hægt að ætlast til þess að einn vinni fyrir alla, heldur leggi allir sitt af mörkum.  Á kirkjuheimilinu er nauðsynlegt að skipta með sér verkum.  Á tímum niðurskurðar og endurmats er nauðsynlegt að líta til þess að skipta með sér vekefnum og ábyrgð.  Það þarf ekki að vinna alla hluti í hundrað og einum.  Það er hægt að fela til dæmis prófastsdæmum ábyrgð á ákveðnum þáttum starfsins kirkjunni allri til gagns.  Það má líka fara að huga að því að leysa mál heima fyrir í nærsamfélaginu, þar sem fólkið þekkir aðstæðurnar best.  Þannig eflum við ábyrgðina í kirkjunni og skilninginn á því sem við er að etja.  Hlutverk kirkjunnar er það sama og áður.  Við stefnum öll að sama marki.  Störfum öll á sama vettvangi að boða trú á Jesú Krist.  Það er gert í orði og í verki.  Til þess að það gangi er nauðsynlegt að hafa gott skipulag og þjóna sem sinna því hlutverki.  Það er mikilvægt að muna eftir því að kirkjan er það fólk er henni tilheyrir.  Kirkjan er fólk á ferð.  Þess vegna er það sístætt hlutverk kirkjuþings að huga að skipulagsmálunum og reyna að finna bestu lausnir á hverjum tíma.  Það er ekki létt verk en nauðsynlegt.  Sú vinna tekur í raun aldrei enda.  Skipulagsbreytingar bitna oftar en ekki á söfnuðum og starfsfólki og því  nauðsynlegt að vanda vinnubrögðin.  Við skulum ekki óttast tillögur og umræður í þeim efnum en leggja okkur fram um að ná viðunandi niðurstöðu. 

Kirkjan hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.  Hún sameinar fólk á stundum gleði og sorgar.  Hún heldur á lofti lífsgildum sem eru grunnstoðir samfélagsins og hún viðheldur minningu og menningu þjóðarinnar.  Hún tekur þátt í lífi einstaklinga og fjölskyldna á tímamótum og mikilvægum stundum.   Kirkjan er gömul stofnun en samt síung því hún tekur mið af samtímanum hverju sinni.  Framundan eru mikilvæg minningarár.  Eftir tvö ár verður haldið upp á 200 ára afmæli Biblíufélagsins, elsta félags landsins og eftir fimm ár verða 500 ár frá því Lúther   negldi skjal með 95 greinum upp á dyr hallarkirkjunnar í heimabæ sínum þar sem hann mótmælti aflátssölu kaþólsku kirkjunnar.  Það er gott að nota tækifærin sem gefast til að minnast þeirra stoða er kirkjan okkar hvílir á, Orðs Guðs og kenninga Lúthers.  Lúther hafði engan áhuga á því að halda nafni sínu á lofti.  Fyrir honum var trúin aðalatriðið.   Fagnaðarerindið er aðalatriðið sagði hann og á það við enn þann dag í dag. Þetta skyldum við hafa í huga þegar við tölum um trú og kirkju í orðræðu dagsins.  Kirkjan er ekki aðalatriðið, heldur trúin, enda væri engin kirkja til ef trúin væri ekki fyrir hendi. Við sem kirkjunni þjónum erum hendur hans er leiðir, styður og blessar.  Hans sem sagðist ekki myndi skilja okkur eftir ein heldur senda okkur andann heilaga, sem enn er að verki í Kirkjunni og heiminum öllum.  Í þeirri trú skulum við starfa á þessu kirkjuþingi.  Í þeirri vissu að okkur verður leiðbeint og stýrt til góðra verka. 

Áfram því með dug og dáð, Drottins studdir ást og náð. Sé hann með oss, ekkert er óttalegt. Þá sigrum vér.