Við og hinir

Við og hinir

Lekamálið svonefnda er þannig miklu meira heldur en persónulegt vesen um framtíð stjórnmálamanna og það er heldur ekki hægri-vinstri mál. Það fjallar ekki síst um viðhorf okkar gagnvart útlendingnum, smæsta og fátækasta útlendingnum, þess sem býr við takmörkuð réttindi og á hvorki greni né hreiður frekar en Mannsonurinn.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Mig langar til að rifja upp minningu sem er næstum þrjátíu ára gömul. Ég stóð þá á tvítugu og var að læra hebresku í sumarskóla Háskólans í Jerúsalem ásamt íslenskri vinkonu minni. Við bjuggum á Vesturbakkanum og gættum húss fyrir kristið fólk sem var í sumarfríi og dag hvern héldum við af stað með arabískum strætó klukkutíma ferð inn í Jerúsalem. Það var yfirleitt alltaf þröng á þingi í strætisvagninum, þrísetið í sætunum og fólk stóð þétt upp við hvert annað, enda yfirleitt ekki haldið af stað fyrir en búið var að troða almennilega í vagninn. Vagninn stoppaði á stóru malbikuðu bílastæði í Jórsalaborg, og svo merkilega vill til að einhvers staðar þar á Golgatahæðin að hafa staðið þar sem Jesús var krossfestur forðum tíð. Þá tók við nokkur ganga yfir í háskólann og á þessari göngu breyttist borgarskipulagið verulega. Húsin urðu ríkmannlegri eftir því sem við gengum lengur og allt umhverfið bar merki velmegunar.

Í skólanum, milli þess sem við greindum hebreskar sagnir og beygðum þær með forskeytum og viðskeytum kynntust við líka fjölda fólks. Námsmennirnir voru útlendingar eins og við, komnir til að kynna sér landið helga. Flestir voru þeir gyðingar frá Bandaríkjunum, sem voru komnir til að læra mál formæðra sinna og feðra og ganga um fyrirheitna landið. Tveir strákar urðu góðir vinir okkar og einn daginn buðum við þeim heim til okkar á Vesturbakkann. Í fyrstu leist þeim stórilla á hugmyndina.

„Við verðum örugglega drepnir,“ sagði annar. „Hvað er þetta, auðvitað verðið þið ekki drepnir,“ sögðum við. „Það eru allir mjög kurteisir við okkur í þessum strætisvagni, menn á tíræðisaldri standa upp fyrir okkur í vagninum og við höfum ekki orðið fyrir neinni áreitni.“ „Það er annað með ykkur,“ sögðu strákarnir æstir. „Þið eruð bara venjulegar stelpur. Við erum gyðingar.“ „Hvað heldurðu að þeir fatti að þið séuð gyðingar?“ sögðum við. „Auðvitað sjá þeir það,“ sögðu strákarnir. „Þeir sjá á okkur stóra nefið, hvað það er stutt á milli augnanna á okkur og hvað við erum með þéttar krullur. Þeir sjá þetta strax og þeir drepa okkur.“

Svona þrefuðum við áfram, en strákana langaði líka yfir á Vesturbakkann. Og það varð úr að næsta föstudag á eftir stóðu fjórir nemendur úr hebreska háskólanum í Jerúsalem á hinni malbikuðu Golgatahæð, tvær næpubleikar stelpur frá Íslandi og tveir amerískir strákar með krullað hár og stór nef. Við þurftum að bíða lengi í vagninum vegna þess að strætisvagninn gekk ekki eftir leiðaáætlun, heldur lagði af stað þegar ekki var lengur hægt að koma neinum fyrir í vagninum. Leiðin var löng, það var heitt og við svitnuðum öll í þessari þvögu og undarlegu nánd sem myndast milli ókunnugs fólks í strætisvagni, sem stendur nær hvert öðru en það myndi nokkurn tímann gera undir öðrum kringumstæðum. Við þessar kringumstæður þar sem líkamar fólks næstum því bráðna saman í hita og nánd inn í luktu rými getur skynjun manns breyst. Það eru ekki lengur skýr skil á milli okkar og hinna, hin verða við og við þau. Strákarnir voru taugaóstyrkir og sögðu ekki orð. Það losnaði sæti og maður horfði í augun á öðrum þeirra og bauð honum sætið. Einhver brosti til hins og hann brosti hikandi á móti. Við fórum úr vagninum, keyptum í matinn í lítilli búð með arabískri áletrun og spjölluðum saman alla leiðina heim. Um kvöldið bjuggum við um þá siðsamlega í stofunni og þar sváfu þeir, tveir glaðir Gyðingar sína fyrstu nótt á Vesturbakkanum.

II. Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn. Þannig hljóðaði bæn faríseans í dæmisögunni sem Jesús sagði lærisveinum sínum og stendur milli annarra ræðubrota í 18. kafla Lúkasarguðspjalls. Í næsta ræðubroti á eftir er boð Jesú um að leyfa börnunum að koma til sín og varna þeim eigi. Af uppröðun þessara brota má sjá það samhengi að það er mikilvægt að biðja og gefast ekki upp á bæninni. Og jafnframt er okkur ætlað að biðja í einlægni barnsins, eins og barn sem á ekki neitt og hefur ekkert afrekað, en er algerlega upp á ást og miskunn foreldra sinna komið.

Faríseinn í sögunni biður ekki eins og barn. Hann biður eins og sá sem á eitthvað undir sér, sá sem veit að hann er í sérflokki, öðruvísi en hinir. Hann gengur út frá því að Guð elski sig á sama hátt og hann gengur út frá því að Guð elski ekki hina. Og þarna í musterinu þar sem hann er að gera bæn sína telur hann þau upp sem er hinir en ekki við og þar með ekki sér og Guði velþóknanlegir. Hann nefnir þau sem eru ræningjar og ranglát, hafa sýnt af sér lausung í kynferðismálum og nefnir svo sérstaklega þennan mann þarna í musterinu sem honum verður starsýnt á og er uppsigað við, tollheimtumanninn. Guð vertu mér syndugum líknsamur , segir tollheimtumaðurinn í bæn sinni. Hann er ekki upptekin af öðru fólki og gerir engan greinarmun á sjálfum sér og hinum. Hann einfaldlega þarf á Guði að halda, þarf líkn og hjálp og þarf að fá að tala við þann sem fyrirgefur og skilur þegar enginn annar gerir það. Seinna átti Páll postuli eftir að enduróma svipaða hugsun í Rómverjabréfinu þegar hann skrifar það sem lesið var fyrir okkur sem seinni ritningarlestur dagsins: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.

Í guðspjallinu er talar Jesú um mikilvægi þess að sýna auðmýkt. Auðmýkt heitir humilitas á latínu og þegar ég velti fyrir mér þessu orði þá hugsa ég um orðin sem hógværðin er tengd og orðið humilitas er dregið af, humilis, það að vera lítill og smár og humus sem er jörð og jarðvegur.

Auðmýkt fjallar um það að gera ekki greinarmun á okkur og hinum. Auðmýkt snýst um það að taka sér stöðu með þeim sem eru litlir og smáir, lítilmagnanum í veröldinni. Auðmýkt fjallar um það að finna til samstöðu með jörðinni og lífverum hennar, á þann almennasta hátt sem til er. Auðmýkt er að vita að maður er lítill og smár og af jörðu, að kannast við varnarleysið í sjálfum sér. Auðmýktin sem Jesús vísar til er tengd auðmýkt barnsins sem veit ekki að það er auðmjúkt. Auðmýkt felst í trausti og öryggi til annarra manneskja, til framtíðarinnar, til draumalandsins sem nærir okkur, til Guðs sem skapar, frelsar og helgar. Auðmýkt fjallar um tengsl og æðruleysi frammi fyrir því sem er okkur andstætt og mótdrægt.

III. Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar strætisvagnaferðar frá borginni helgu yfir á Vesturbakkann sem ég nefndi hér í upphafi. Mér finnst þessi stutta stund hafa kennt mér svo mikið um auðmýkt. Það er eins og maður þurfi stundum að taka sér far með einhverjum andlegum strætisvagni til að komast að því að annað fólk er ekki endilega skrímsli, heldur mennskar verur, sem brosa til manns og gefa manni rými, þegar maður á von á höggum og spörkum.

Ég þarf stundum í huganum að fara inn í þennan yfirfulla strætisvagn þegar ég er með fyrirframgefnar hugmyndir um fólk, viðbrögð þeirra, hegðun og skoðun þeirra á mér. Í þessum sveitta vagni sem leggur upp frá Golgata mýkist ég upp og man að það er ekki langt á milli mín og þeirra, svo sem eins og handarbreidd. Slík opnun móti náunganum er forsenda þess að hægt sé að gera upp deilumál, hvort sem er á heimili, vinnustað og við vinina sína, sem og í risavöxnum mæli, þar sem þjóðir og þjóðarbrot sættast. Það er hægt að sættast, en til þess þurfa báðir aðilar að sýna auðmýkt. Og gæska Guðs breiðist yfir okkur öll sem ekki höfum verðskuldað, gyðinginn, hinn kristna, múslimann, og öll þau önnur sem jörðina byggja.

Jafnframt hef ég oft hugsað hversu bláeygt viðhorf ég sýndi þegar við vorum að lokka strákana með okkur yfir á Vesturbakkann. Ég gekk út frá því sem vísu að ótti þeirra væri ástæðulaus, að fólkið annað hvort tæki ekki eftir því að þeir væru gyðingar eða væri alveg sama um það. Mér fannst að af því að ég er frá Íslandi og hef aldrei þjáðst fyrir hörundslit minn, andlitsfall eða uppruna að þá hlyti það sama að gilda um alla aðra. En þannig er það ekki í veröldinni. Og það þarf einhvern með mjög sterka forréttindablindu til að sjá það ekki, eins og t.d. hvíta stelpu af norrænum uppruna og með ríkisfang smáþjóðar sem engum ógnar.

Ég veit ekki hvað það er að vera gyðingur. Ég veit ekki hvað það er að hafa lifað landlaus með beiskju margra alda og oft verðskulduðu vantrausti á nágrönnum sínum og geyma þessar minningar næstum í erfðaefninu. Allnokkur hluti af þessari tortryggni er kristnu fólki að kenna eins og við vitum af sögunni. Gyðingahatur var útbreitt á Vesturlöndum og er enn. Kristnir prestar og kirkjuhöfðingjar ólu á gyðingahatri með því að kenna þá við farísea og minna söfnuðina á það að gyðingar hafi krossfest Krist. Á miðöldum var föstudagurinn langi ömurlegasti dagurinn í öllu kirkjuárinu í hinu kristna vestri, því að þá minntist kristið fólk gjarnan dauða frelsarans með því að lúskra á gyðingum. Gyðingar gátu átt á hættu að vera reknir úr landi og var víða safnað saman í ghettóum. Og frægt er að þegar krossferðirnar voru að hefjast þótti við hæfi að byrja á gyðingum áður en lagt var af stað í fjarlægar heimsálfur undir merki krossins. Gyðingar höfðu fyllstu ástæðu, jafnvel fyrir helförina miklu til að vantreysta nágrönnum sínum, og þá ekki síst hinni kristnu Evrópu.

En það að bera þunga sögu kúgunar og ofríkis leysir ekki ríki undan frumskyldum mannréttinda. Gagnrýni á stjórnmálastefnu og útþenslustefnu Ísraelsríkis verður ekki sjálfkrafa að gyðingahatri. Það er mikilvægt að gera greinarmun þar á.

Það er langt um liðið síðan ég lærði hebresku í Jerúsalem. Á þeim tíma ferðuðumst við víða um Ísrael og Palestínu og komum til hinnar fátæku Gazaborgar. Ég horfði í augun á litlum börnum sem ólust upp í fátækt á svæði þar sem íbúarnir njóta ekki ferðafrelsis og eru nú orðnir fullorðnir einstaklingar, sem búa við ömurleg lífsskilyrði og skert mannréttindi. Ísreal og Palestína er örsmá þúfa jarðar þar sem tvær ólíkar þjóðir gera tilkall til sama lands. Núningur og stríðsátök hafa vaxið síðan þá og upp hafi sprottið kynslóðir, sem þekkja ekkert annað líf en þetta innilokaða líf, fátækt, hungur og hatur. Átökin í júlí og ágúst hafa lagt þær litlu grunnstoðir sem voru til staðar á Gaza í rúst og talið er að það taki 20 ár að byggja þær upp aftur. Mörg hundruð palestínsk börn hafa dáið, 18 þúsund heimili eru eyðilögð, yfir tvö þúsund manns hafa dáið og um það bil 70 % þeirra eru óbreyttir borgarar. Ísraelsk börn og aðrir óbreyttir borgarar hafa líka dáið og báðum megin landamæranna lifir fólk við óöryggi, angist og tortryggni. Við eigum sem þjóð að bregðast við ástandinu á Gaza og styðja uppbyggingarstarf þar. Að taka sér stöðu með almennum borgurum á Gaza og sætta sig ekki við það hörmungarástand sem þar ríkir er ekki samnefnari þess að styðja Hamas og aðferðir þeirra. Börn deyja beggja megin landamæra og þjóðir heims eiga ekki að láta það afskiptalaust. Við slíkar aðstæður verða engar sameiginlegar strætisvagnaferðir til opnunar, kærleika og sameiginlegrar mennsku mögulegar. Það er ekki ásættanlegt í heimi sem þráir frið og lágmarkslífsskilyrði fyrir alla að horfa á hatrið malla ár eftir ár og áratug eftir áratug meðan fólkið þjáist í landinu helga og skiptir sér í flokka sem marka okkur og hina.

IV. Undanfarna viku hefur líka verið órólegt á gamla Fróni. Jörð skelfur undir Vatnajökli, í Holuhrauni er hafið eldgos að nýju og hraunelfar brjóta sér nýja farvegi í fjöllunum miðjum undir jökli. Það er engu líkara en að náttúran sjálf vilji minna okkur á vanmátt okkar sem manneskjur og hversu mikið við eigum undir öðru fólki og góðum Guði. Slíkar ógnarbyltur náttúrunnar undirstrikaði norðurnorska skáldið Petter Dass í lofgjörðarsálminum sem við sungum áðan og segir: Björgin hrynja, hamravirkin svíkja. Og svo heldur skáldið áfram og bendir á forsjón Guðs sem hjálpar og huggar í öllum aðstæðum og á efsta degi.

Ógnareldarnir undir Bárðarbungu eru góð áminning um humus, landið sem hógværð okkar tengist, því að við erum ekki ein og ráðum ekki öllu. Líf okkar er tengt þessum reginkröftum og mótað af þeim. Við sendum bænir okkar, kveðjur og hugsanir til íbúa Norðausturlands og biðjum þess að ólguna lægi, að menn, dýr og lífverur allar sleppi við frekari gos og friður komist á í undirdjúpunum. Og ljósið mun lýsa og ríkja, segir Petter Dass og sú bæn á einnig við hér.

Í vikunni hefur líka verið órólegt í íslenskum stjórnmálum og tekist á um lekamálið svonefnda, um að viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda á Íslandi hafi verið lekið til fjölmiðla úr Innanríkisráðuneytinu. Umræður tveggja síðustu vikna hafa fyrst og fremst fjallað um valdastofnanir, eftirlit og afskipti. Spurningar um ráðherraábyrgð og eftirlit með valdhöfum eru mikilvæg lýðræðisleg álitamál sem hverri þjóð er hollt að takast á um. En samt er eins og að upphaflegt viðfang lekamálsins hafi vikið í skuggann fyrir dramanu stóra um ráðherrann, aðstoðarmanninn, lögreglustjórann, umboðsmanninn og Alþingi. Upphaflegt viðfang lekamálsins er hælisleitandinn, lítilmagninn sem sækir um hæli á Íslandi. Íslensk þjóð þarf að takast á við spurningar um framtíð og hag þeirra sem til okkar leita réttindalaus með ónýt vegabréf. Þetta eru spurningar um það hvernig við sem þjóð komum fram við þau sem minnst mega sín í heiminum.

Eins og við vitum er munur á innflytjendum og hælisleitendum. Innflytjendur og farandverkamenn flytja milli landa í leit að betri lífsgæðum og fleiri aðstæðna, Þeir hafa í flestum tilfellum val um að flytja heim aftur eða búa áfram í landinu. Hælisleitendur hrekjast yfir landamæri og biðja um hæli vegna þess að stjórnmálaskoðanir þeirra, þjóðerni, trú, kynhneigð eða aðrir þættir gera það að verkum að þeim er ekki lengur vært í landi sínu. Í hópi hælisleitenda er missjafn sauður í mörgu fé eins og alls staðar annars staðar í veröldinni, en langflestir þeir sem sækja um hæli gera það að brýnni og knýjandi þörf um skjól og frið. Hælisleitendur eiga ekkert land vegna þess að fólkið í landinu þeirra hefur sett upp skýr mörk milli okkar og hinna og beitir ofbeldi og þvingunum til að kúga þau sem ekki komast inn í vinahringinn.

Ég talaði áðan um orðið auðmýkt, og hvernig orðið humilitas er skylt orðinu humilis. Það er varla hægt að ímynda sér verri aðstæður í nútíma þjóðfélagi en þær að vera landlaus vegna þess að manni hefur verið úthýst af þeim sem landinu ráða. Jesús Kristur Mattheusarguðspjalls talar um sjálfan sig sem Mannsoninn og segir: Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla. Ef við viljum taka orð guðspjallsins um auðmýktina til okkar, ættum við að sýna þeim samstöðu, góðvild og gestrisni.

Lekamálið svonefnda er þannig miklu meira heldur en persónulegt vesen um framtíð stjórnmálamanna og það er heldur ekki hægri-vinstri mál. Það fjallar ekki síst um viðhorf okkar gagnvart útlendingnum, smæsta og fátækasta útlendingnum, þess sem getur ekki nýtt sér atkvæðisrétt í neinu landi, býr við takmörkuð réttindi og á hvorki greni né hreiður frekar en Mannsonurinn. Það er siðferðileg skylda okkar að axla ábyrgð okkar á náunganum, gæta þess að mál hans hljóti réttláta meðferð og að hann búi við mannréttindi í landi okkar af hendi ríkis, ráðuneyta, löggjafar og almennings. Það er ljótt, skammarlegt að leka upplýsingum úr ráðuneyti og þá ekki síst þegar brotið er á manneskju sem er hefur svo lítinn rétt í samfélagi okkar. Þau okkar sem játa kristni og leitar leiðsagnar í hinni helgu bók getum ekki svo auðveldlega að skauta fram hjá skylduboði hinna hebresku rita um að elska útlendinginn. Um hann og hana og börnin þeirra skulum við skjóta skjaldborg í mýkt hógværðarinnar, þar sem skiptingar í okkur og hina víkja og mennskan ein verður eftir. Að elska útlendinginn en líta ekki á hann sem vandamál er stærsti lærdómur sem íslensk þjóð getur dregið af lekamálinu.

V. Það er ólga í loftinu og ólga í undirdjúpunum. Það eru svo eðlileg viðbrögð við ólgu og hættum að við herpumst öll saman, förum í vörn og skiptum liðum eftir okkur og hinum. Varnarviðbrögðin eru okkur eðlislæg og oft lífsnauðsynleg. En þau eiga sér líka vondar hliðarverkanir sem leiða til beiskju og tortryggni sem erfitt er að uppræta og vinna með. Þess vegna þurfum við auðmýkt, mýktina sem minnir okkur á náungann, útlendinginn og jörðina sem við tengjumst órofa böndum.

Í minningunni er strætisvagninn að leggja af stað frá Golgatahæð. Líður að nóni og sólin er hátt á lofti og fólkið flykkist inn í strætisvagninn. Það er útsjónarsamt, finnur sér lítil skot og rými til að standa, sums staðar virðast handleggir, fótleggir og töskur jafn flækt saman og hjá Bakkabræðrum forðum. Í þessari rútu eru stelpur frá Íslandi í rósóttum kjólum og með brenndar axlir. Þar eru líka stórnefjaðir strákar frá Bandaríkjunum sem hafa ákveðið að taka áhættu af því að mæta öðru fólki. Þarna eru karlmenn með múslimskar bænahúfur og konur í síðum kjólum. Hlæjandi börn sitja á milli sætanna. Og við biðjum með orðum tollheimtumannsins: Guð vertu okkur öllum líknsamur.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.