Ég vissi ekki...

Ég vissi ekki...

Lítið vissi ég. Ég vissi ekki að þú, svo lítill og ósjálfbjarga, þakinn fósturfitu og blóði, varst máttugri en ég. Ég vissi ekki að þú varst minn frelsari en ekki ég þinn.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
25. desember 2010
Flokkar

Ég horfði á þig koma í heiminn. Augnablikið ætlaði aldrei að taka enda, svo grátur. Svo lágvær grátur. Þú titraðir og skalfst,varnarlaus og smár. Augun þín lokuð munnurinn leitandi. Ef enginn hefði vafið um þig ábreiðu, ef engin hefði nært þig, þá hefði þú dáið. Þú þurftir á mér að halda.   Þú varst svo lítill og hjálparlaus. Agnar smár lófi þinn greip fast um fingur minn. Fast. Þú treystir mér fyrir lífi þín. Þú vildir ekki sleppa. Þú áttir ekkert val.   Lítið vissi ég. Ég vissi ekki að þú, svo lítill og ósjálfbjarga, þakinn fósturfitu og blóði, varst máttugri en ég. Ég vissi ekki að þú varst minn frelsari en ekki ég þinn.   Ég vissi ekki að ég yrði að treysta þér fyrir mínu lífi, litla barn. Að ég yrði litla skjálfandi barnið, að þú myndir reifa mig og leggja mig í jötu. Næra mig.   Nú er ég  litla barnið og ég held í fingur þinn af öllum kröftum. Líf mitt liggur við. Ég á ekkert val.   Skynsemi og hjarta Sagan um fæðingu Jesú, jólaguðspjallið er svolítið eins og falleg glansmynd stráð glimmeri eða falleg mynd inni í kúlu sem við getum hrist og snjókornin þyrlast upp. Það er svo margt í henni sem höfðar til okkar innstu tilfinninga, eittvað sem við eigum flest sameiginlegt, hvaðan sem við komum og hvort sem við erum kristin eða ekki.   Jatan og gripahúsin eru eitthvað sem við öll tengjum við hvort sem við erum úr sveit eða borg, frá Afríku eða Íslandi. Við vitum öll hvað þetta er hvort sem við höfum fundið fjárhúsilminn í eigin lífi eða ekki.   Stjarna er eitthvað sem við öll sjáum þegar við erum úti á dimmu kvöldi hvar sem við erum í heiminum, hvort sem við erum rík eða fátæk, trúuð eða vantrúuð.   Englar eru líka verur sem við höfum öll okkar hugmyndir um, hver sem við erum. Þeir eru svo krúttlegir og friðsælir að ekki er hægt annað en hrífast með í englasögum.   Ungir foreldrar að eignast sitt fyrsta barn er nokkuð sem stór hluti mannkyns getur skilið og hefur sjálft upplifað.   Að vera ekki útvalin og hafa enga möguleika á því að bóka hótelherbergi fyrirfram og ljósmóður á staðinn eru aðstæður sem margt fólk þekkir.   Og að lokum, litla barnið. Það gerist eitthvað inni í okkar innsta og viðkvæmasta rými þegar við sjáum lítið nýfætt barn. Þegar þetta litla barn fæðist á kaldri nóttu í gripahúsi af barnungri móður, þá getum við ekki hert hjarta okkar eða varið tilfinningar okkar á nokkurn hátt fyrir þeim atburði.

Það er freistandi að láta söguna um fæðingu Jesú Krists vera, greina hana ekki eða skoða á raunsæjan hátt, því þetta er saga sem höfðar meira til hjartans en til skynseminnar. Það er freistandi að láta englana bara vera engla og láta hreinar meyjar fæða börn.   En nú er raunsæi og skynsemi guðsgjöf eins og hjartað og þörfin fyrir hið dularfulla.   Fæðingasögur Jólaguðspjallið er helgisaga.   Jesús fæddist á þeim tímum þegar hreinar meyjar fæddu mikilvæga menn, valdamikla menn. Fæðingasögur mikilmenna voru prýddar ævintýraljóma. Þannig var það t.d. með fæðingasögur Alexanders mikla og Platóns en sögurnar voru sérstaklega ævintýralegar þegar um fæðingu konunga var að ræða.   Kannski er skýringin sú að þegar fólk vildi sýna að menn hefðu sögulega köllun þá þyrfti að sýna að þeir hefðu haft sérstöðu frá upphafi.   Sagan af því þegar María mey fæddi son er með öðrum orðum ekki alveg einstök fyrir fæðingasögur þess tíma. Sagan um fæðingu Jesú, er saga um fæðingu konungs.   Þegar guðspjallamennirnir Markús og Lúkas skrifa guðspjöllin þá segja þeir söguna af fæðingu Jesú Krists eins og fólk sagði sögur af fæðingum konunga. Þeir voru einnig undir sterkum áhrifum hebresku spámannanna. Jesaja spámaður hafði spáð fyrir um það hvernig unga konan yrði barnshafandi og myndi fæða son sem fengi nafnið Immanúel – sem þýðir, Guð er með okkur (Jes. 7.14)    En hvað varð þá um fallegu, dularfullu jólasöguna sem höfðar svo til hjartans?   Ég held að skynsemisgangan um jólaguðspjallið geti fært okkur til baka til hins heilaga því það mikilvæga í jólaguðspjallinu var ekki, að móðir Jesú var hrein mey eða að syngjandi englar hafi birst fjárhirðunum. Þetta voru atriði sem áttu að vera með í fæðingasögum stórmenna og konunga til þess að sýna að hér væri sannarlega um konung að ræða.   Það merkilega Það merkilega við fæðingarsögu Jesú var gripahúsið sem hann fæddist í. Það var staðurinn. Það var félagsleg staða foreldranna og varnarleysi barnsins. Það merkilega var boðskapur Jesú sem hann síðar prédikaði og lifði. Þar er hið stóra og dularfulla, glimmerkennda að finna. Þetta er það sem skilur á milli fæðingarsögu Jesú Krists og annarra konunga og stórmenna.   Aðrir konungar mældu völd sín í frama og ríkidómi, í hernaðarsigrum og stækkandi ríki. Þeir mældu frama sinn í auknum áhrifum og frægð. Ríki Jesú var af allt öðrum toga. Jesús var annarskonar konungur.   Hann var konungur friðarins.   Þrátt fyrir allt felst styrkleiki í fæðingarsögu Jesú Krists ekki í því hvort einstök smáatriði standist nútíma söguskoðun heldur táknar sagan boðskap fagnaðarerindisins – allt það er allt er Jesús síðar sagði og gerði.   Ef við skiljum jólaguðspjallið á þennan hátt heyrum við sögu sem segir okkur frá Guði sem birtist í heiminum. Að það sé ekki til nokkur staður sem er of ómerkilegur fyrir Guð að fæðast á, að saga mannkynsins er ekki eingöngu saga konuna og valdamanna heldur saga hverrar manneskju. Því það var í bakhúsunum, í fátækrakofunum, í gripahúsi sem konungur jólaguðspjallsins fæddist.   Þetta er það stóra í jólaguðspjallinu.   Þegar við sjáum þetta verður sagan eins og falleg Jesúmynd sem búið er að strá glimmeri yfir. Þá fyrst getum við farið að skoða okkur sjálf í þessari sögu þar sem hið smáa verður stórt, þar sem ríkidæmi reiknast ekki í veraldlegum gæðum heldur í kærleika og umhyggju, þar sem vald merkir ekki styrk og vopn og þar sem okkar eigin hjörtu fá hlutverk jötunnar þar sem konungur friðarins og kærleikans fær að vaxa og dafna.   Ég vissi ekki að þú varst minn frelsari en ekki ég þinn.   Ég vissi ekki að ég yrði að treysta þér fyrir mínu lífi, litla barn. Að ég yrði litla skjálfandi barnið, að þú myndir reifa mig og leggja í jötu. Næra mig.   Nú er ég litla barnið og ég held í fingur þinn af öllum kröftum. Líf mitt liggur við Ég á ekkert val. Amen.