Tjaldbúðir trúarreynslunnar

Tjaldbúðir trúarreynslunnar

Sá frækni og margþjálfaði björgunarleiðangur, sem fór frá Íslandi til hjálpar í Port au Prince, kom heim reynslunni ríkari, reynslu sem varla er þó hægt að segja að nokkur sækist eftir. “Ég verð aldrei samur eftir þetta”, heyrðist sagt úr þeim hópi, “en væri ég á morgun beðinn um að fara aftur, færi ég strax”.....

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“ Mt. 17:1-9

“Ef Jesús að þér snýr með ástarhóti, líttu þá hjartahýr honum á móti.” Ps. 12:23 Það var fallegt af prestum og sóknarnefnd hér að leyfa okkur að koma í heimsókn frá Hallgrímskirkju, þegar söfnuðurinn þar er í vandræðum með sjálfan sig út af tiltektum og viðgerðum. Við sem erum hér gestir í dag erum þakklát og líka svolítið ánægð með okkur að því leyti, að hingað eru nú drengirnir komnir, sem byrjuðu hér fyrir mörgum árum að syngja í kór. Þeir tóku fljótt miklum framförum og nú eru þeir enn í framför, því svona kór er upphafinn yfir tímann og lifir hvert andartak og hvern hljóm, út af fyrir sig. Allt er hulið í stund augnabliksins, en um leið er tilvera kórsins eilíf. Hann Friðrik okkar S. Kristinsson er, held ég, samt ekki eilífur, nema auðvitað í kristnum skilningi, en hann er sannarlega það sem hann er og drengirnir eru sannarlega það sem þeir syngja. Sá sem hefur verið í svona drengjakór lifir undir handleiðslu kórstjórans frá degi til dags, hlýðir afdráttarlaust og syngur án afláts. Það verða til undursamlegir tónar, sem hríslast um áheyrendur í gleði og upphafningu augnabliksins. Stund tónlistarinnar líður undurhratt og ylur hennar snerti hjartað ákaft. Andartak hlustunarinnar fer djúpt og það sem verður numið lifir innra í brjóstinu ótrúlega lengi, þannig að það á samsvörun við þann tíma sem yfirskyggir fáfengileika þess konar vellíðunar, sem aðeins finnst í augnablikinu. Þess vegna finnst okkur svona gott að hlusta á börnin syngja, af því að þau eru í svo náinni snertingu við eilífðina. Og þeir sem syngja í slíkum kór geta sagt alla ævi sína, ég er í þessum kór, þetta er kórinn minn. Æ, mikið er það gott.

Hvernig haldið þið að þetta hafi verið hjá þeim þarna uppi á fjallinu með Jesú, þegar hann ummyndaðist, eins og sagt er í guðspjallinu. Þar var enginn söngur, heldur aðeins blásið úr nös, því þetta er enginn smáræðis gangur þarna upp á þennan 3 þúsund metra háan fjallgarð, Hermon, nyrst í Judeu, þar sem drögin að ánni Jordan liggja. Það skiptir ekki máli í sjálfu sér, hve hátt þeir fóru eða hvar þeir voru í fjallinu, heldur það hvað birtist þeim og hvernig þeim varð við, lærisveinunum þremur. Ásjóna Jesú skein sem sól væri, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Sannarlega voru þeir hissa, gagnteknir, hugfangnir. Sá sem er hugfanginn er eins og uppnuminn yfir rými og raunveruleika og það er erfitt að lýsa því eftir á, þegar allt er gengið yfir. En eftir situr samt tilfinningin dásamlega og þá er eins og andvarp eilífðarinnar hafi hvíslað að þér einhverjum dýrmætum og yndislegum skilaborðum, sem þú mátt eiga og varðveita. Þeir heyrðu að sagt var: “Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann.” Mt. 17:5. Og þeir urðu hræddir! Þetta voru orð, sem tilheyrðu spádómunum um komu Messíasar, spámanninum eina og sanna, opinberun Guðs. Messías var öllum öðrum spámönnum fremri og meiri og það er eins og nærvera Móse og Elía, sé því einmitt til staðfestingar. Þannig er alla vega upplifun þeirra þriggja. Jesús var auðvitað fyrir löngu búínn að uppgötva það í sjálfum sér hver hann var og hvaða hlutverk honum var ætlað. Að koma fram, uppfylla fyrirheit Guðs, sem fram kom af munni spámannanna, boða orð Drottins - og vera það sjálft, frammi fyrir vonsku þessa heims. Hann var sjálfur erindi Guðs í lífi manneskjunnar, til þess að vekja athygli hennar á því, hverju mætti treysta og hvað skyldi elska. Lærisveinar Jesú höfðu ekki þann skilning enn, nema í hugskoti sínu, óljóst og í þögulli spurningu. En nú fengu þeir nýja sýn og urðu snortnir að ýtrustu taugarót, svo að þeir höfðu aldrei fundið annað slíkt á sjálfum sér. Þeir fundu líka fyrir því að þeir höfðu hlutverki að gegna og fannst þeir vera reiðubúnir til að fylgja þeirri köllun? Þeir vissu bara ekki hvernig. “Ég vil gera þér þrjár tjaldbúðir” sagði Pétur verkfús að vanda. Sú tjaldbúð átti sannarlega eftir að rísa, en þó í öðru formi en þá grunaði á þessu augnabliki. Kirkja Krists á jörðu hér vitnar um það.

Trúarleg upplifun er yfirleitt mjög persónuleg. Oft er hægt að greina frá þeim hughrifum sem hún er, oftar er hún þó þannig að hún verður aðeins reynd og meðtekin á persónulegan hátt. Trúarlíf sérhvers manns er hins vegar nær að kalla vitnisburð og kemur m.a. fram í því hvernig við lesum úr þeim atburðum, sem við sjáum, finnum og reynum í eigin veruleika. Þegar Halldór Elías djákni sendi kveðju heim til Íslands frá hörmungarsvæðinu á Haiti á dögunum, var sú kveðja í senn átakanleg, ógnandi, en þó afar vekjandi og áhrifarík. “Hærra minn Guð” heyrði hann sungið úr rústum fallinnar borgar, þar sem hvert hús er brotið og hrunið að meira eða minna leyti. Þvílík ógn, þvílík skelfing, þvílík sorg. “Mér finnst ég aldrei hafa lært neitt fyrr í guðfræði,” sagði hann, margreyndur þó á því sviði, “nema ef það væri núna hér á þessum stað”. Sú ummyndun, sem hann upplifði var þó greinilega allt önnur, en sú sem gerðist á Hermon fjalli, en hún opnaði ungum manni algjörlega nýja sýn. “Hærra minn Guð”, ´”Ó, Jesús að mér snú, ásjónu þinni”, segir Hallgrímur Pétursson (Ps. 12).

Sá frækni og margþjálfaði björgunarleiðangur, sem fór frá Íslandi til hjálpar í Port au Prince, kom heim reynslunni ríkari, reynslu sem varla er þó hægt að segja að nokkur sækist eftir. “Ég verð aldrei samur eftir þetta”, heyrðist sagt úr þeim hópi, “en væri ég á morgun beðinn um að fara aftur, færi ég strax”. Er þetta mögulegt. Spurningin hangir yfir, en upplifun þess er sá og reyndi er svo sterk, að hún yfirskyggir allt annað. Þeir fóru og reistu tjaldbúð, sannarlega, og hún varð vitnisburður um það sem kristin trú snýst um: Að bregðast við ljósi elskunnar í ásjónu Drottins, að taka aðra að sér, eins og Kristur tók okkur að sér. Við sem þjóð höfum af litlum mætti veitt stuðning þjáðum íbúum Haiti. Það er gott. Og það er rétt eins og ekki sé hægt að sjá hinn eiginlega tilgang þessa lífs, nema í skuggsjá þjáningarinnar, þar sem allt virðist brotið og ónýtt. Það er nú líklega fullmikið sagt, en við erfiðar aðstæður og mótsagnakenndar, þar sem áþján og sorg mætir okkur í sinni sárustu mynd, bærist oft ljós og tilgangur, sem gefur tilverunni gildi og lífinu markmið, - og sameinar, þegar allt virðist sundrað.

Páll postuli glímdi við þessa hugsun, því ekkert í hugarheimi trúarreynslunnar var honum hulið eða ókunnugt:

Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna. Róm. 12:2.

Kærleikur Guðs er ávallt til staðar og á sífellt aðgang að okkur, hvort sem okkur er það ljóst, verðum snortin af því eða ekki. En sá sem hefur verið t.d. viðstaddur skírnarstund, eigin barns eða annarra, gæti einmitt hafa fundið til hinnar djúpstæðu gleði og sterku upplifunar. Hvað ber betur vitni kærleika skaparans, en ljóminn í augum ungrar móður við skírnarsá, eða gleðin í hjarta þess annars, sem er viðstaddur svo einfalda og fagra stund. Þar er enginn tilbúningur, heldur aðeins andsvar trúarinnar í hreinni bæn um návist Guðs, blessun hans og náð til handa litlu ómálga barni. Eitt dæmi sem margir þekkja.

Ummyndunin á fjallinu var dásamleg gjöf Guðs lærisveinum Jesú til hughreystingar og trúarstyrkingar:

Því að Guð sem sagði: Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2Kor 4.6).
Þess njótum við í dag.

Mannlegri takmörkun okkar er um megn að skilja það, nema fyrir hjálp Guðs í anda sínum.

Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.” 2. Pét. 1:20-21.
Syngjum saman, biðjum saman, treystum spámanninum æðsta í Jesú Kristi, megi ljós vonarinnar umlykja okkur og frelsi Guðs anda leiða okkur og efla til allra góðra verka. Amen.