Flóttamenn og fjölmenning!

Flóttamenn og fjölmenning!

Þetta var ekki gert af skyldu, heldur af því að við fundum öll sameiginlega í hjartanu okkar, fullorðnir og unglingar, að við vildum leggja okkar af mörkum. Því þegar við erum snortin áþreifanlega á þennan hátt markar það upphaf að því, að við finnum að við getum haft áhrif og það sem við gerum saman skiptir máli.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
08. nóvember 2016
Meðhöfundar:
Jónína Sif Eyþórsdóttir framkvæmdastjóri ÆSKÞ og séra Eva Björk Valdimarsdóttir formaður ÆSKÞ

Helgina 21.-23. október var haldið á Akureyri Landsmót Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar. Þetta er mót er einn stærsti sjálfstæði viðburður sem haldinn er á vettvangi Þjóðkirkjunnar á ári hverju. Í ár sóttu mótið 450 þátttakendur og leiðtogar ásamt góðum hópi sjálfboðaliða sem sá til þess að mótið gengi vel fyrir sig.

Í ár var þema mótsins flóttamenn og fjölmenning. Í fræðslustund mótsins fengum við þau Reem Khattab al Mohammad 19 ára frá Sýrlandi í heimsókn til okkar og föður hennar Khattab al Mohammad. Einnig kom til okkar Muhammed Emin Kizilkaya frá Horizon samtökunum. Hann rappaði og sagði okkur frá samtökunum sem vinna að þvertrúarlegu samstarfi og hvernig það var að alast upp í Danmörku og því verkefni sem hann tókst á við að finna sjálfan sig sem Dana með Tyrkneskan bakgrunn. Reem og Khattab sem eru flóttamenn og hluti af sýrlensku fjölskyldunum sem komu til Akureyrar í janúar, þau sögðu okkur frá heimaborg sinni Aleppo og öll fundum við sterkt hve sárt það er að þurfa að flýja heimili sitt og allt sem maður þekkir og þurfa síðan að fylgjast með morðum og eyðileggingu úr fjarlægð. Þau sögðu okkur líka frá því hvernig múslimar og kristnir hafa lifað saman í Sýrlandi á friðsamlegan hátt í margar aldir. Í dag búa þau við öryggi og frið á Akureyri og eru þakklát fyrir það. Þau mótmæla stríðinu í Sýrlandi á hverjum laugardegi á Ráðhústorginu klukkan 16:00 og þennan laugardag 22. október gengu 450 unglingar á Landsmóti ÆSKÞ með þeim til þess að sýna þeim og Sýrlendingum öllum samstöðu..Allt var þetta gert með boðskap Jesú að leiðarljósi um það að elska Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti og náunga okkar eins og okkur sjálf. Í fræðslustundinni var sagan af miskunsama Samverjanum skoðuð en hún vekur upp spurninguna ,,Hver er náungi minn?“ Eru það aðeins samlandar okkar og þeir sem eru eins og við eða eru það bræður okkar og systur í Sýrlandi líka?

Eftir situr óneitanlega hvernig við upplifðum öll saman þessa mögnuðu fræðslustund og ákveðna töfra þegar Reem og Khattab Al Muhammad, faðir og dóttir stigu á svið. Það var einstakt að fá að upplifa hvernig við sameinuðumst á staðnum, öll sem eitt, um það að leggja þessari fjölskyldu lið og ganga með henni og öðrum sem búa við stríðsógnir í Sýrlandi, og að við getum staðið saman með mannréttindum, staðið með lífinu, staðið með friði og staðið með fólki þvert á öll trúarbrögð og þvert á það sem aðgreinir okkur í þessum heimi. Þetta var ekki gert af skyldu, heldur af því að við fundum öll sameiginlega í hjartanu okkar, fullorðnir og unglingar, að við vildum leggja okkar af mörkum. Því þegar við erum snortin áþreifanlega á þennan hátt markar það upphaf að því, að við finnum að við getum haft áhrif og það sem við gerum saman skiptir máli, lítil skref í einu en samt er það alltaf hreyfing fram á við í átt að örlítið betri heimi. Það er á þennan hátt sem við fáum lifað saman í friði, þegar við finnum það að við erum öll manneskjur og líf okkar allra skiptir máli auk þess sem þær aðstæður sem eru núna í Sýrlandi snerta okkur öll og koma okkur öllum við. Þessi samtakamáttur sem myndaðist þarna er stærsta gjöfin sem við tökum með okkur heim af þessu landsmóti, gjafirnar eru margar en þessi reynsla er upplifun sem mun lengi lifa í hjartanu okkar og huga og fæðir af sér von. Þar á unga fólkið okkar stærsta hrósið skilið.

Við erum þakklátar öllum fyrir að koma og vera með okkur þessa helgi. Takk Akureyringar fyrir að taka vel á móti okkur og takk allir sem lögðu sitt af mörkum til þess að gera þetta mót svona magnað. Þakklætið er okkar.