Að taka það hlutverk sem Guð velur þér

Að taka það hlutverk sem Guð velur þér

Hlutverkin breytast ekki þó umheimurinn breytist og fólk hafi ekki í heiðri það sama og við, er mikilvægt að láta það ekki taka yfirhöndina. Við getum haldið okkar siðum og haldið í það sem okkur er heilagt og kennt öðrum að virða og meta það. Við þurfum að varðveita trúna í hjartanu… geyma ljóma dýrðar Drottins þar og muna að fyrir Guði erum við, hvert og eitt okkar MJÖG dýrmætir þjónar í mjög mikilvægum hlutverkum.

2.Mós 3.1-8, 10-12, Opb 22.12-14 og Matt 17.1-9

Prédikun…. Að taka það hlutverk sem Guð velur þér

Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi.   

Hefur það ekki komið fyrir ykkur, að þið hafið ráðist út í eitthvað, sem þið voruð í raun og veru.... ekki í neinu stuði að gera.  Þá er engu líkara en að einhver “annar” ráði ferðinni.  Einhver sem ýtir þér áfram… eins og þú hafir ósýnilegan verkstjóra. Annars væri svo auðvelt að humma þetta verkefni fram af sér.  Njóta þess að hinir sjái um allt... Vera stikkfrí... án ábyrgðar... vera áhorfandi.  þetta á við svo margt á lífsleiðinni...  en hér ætla ég að tala um vinnu fyrir Guð, EÐA…  að hafa hlutverk hjá Guði.  Hver er betri en Guð sjálfur... til að meta... hvaða hlutverki ég (eða þú) eigum að gegna fyrir hann? 

Já, einmitt… það er Hans að velja hlutverkið. Enda er það þannig… að þegar Guð leiðir okkur áfram,.. er eins og allt komi af sjálfu sér.  Það gengur allt upp.

Við gegnum öll ákveðnu hlutverki hjá Guði. Þau eru bæði stór og smá, sýnileg og ósýnileg,.. sniðin... eða réttara sagt klæðskerasaumuð fyrir hvern og einn… þau eru öll jafn mikilvæg og þau fléttast öll saman í samfélaginu. Við höfum margoft heyrt að Guð leggi ekki meira á okkur en við getum borið... Hann veit nákvæmlega hvað við þolum… hvað við getum… hvað við viljum… og hvað við þurfum. Hann þekkir okkur og takmörk okkar betur en við sjálf.  Hann þekkir líka viðbrögð okkar, vandamál, hugsanir, og leyndustu þrár… og ekkert af því er honum óviðkomandi. Hann skilur þetta allt.

Í Biblíunni... eru að finna nokkrar lýsingar á því hvernig mönnum varð við þegar Guð knúði á... og vildi fá starfsmenn… og Móse var einn af þeim. Það eru mörg dæmi í biblíunni um röfl eða mögl hinna útvöldu en... Guð skiptir hvorki um skoðun...  né skilur hann viðkomandi eftir í reiðileysi, nei Guð styður og styrkir, stappar í þá stálinu, jafnvel leggur þeim orð í munn... Guð er með þeim sem hann útvelur.   Þú skalt ekki óttast, því að ég er með þér....segir Guð. Sagan af Móse er með þekktustu sögum GT… hann var alinn upp í höllu Faraós. Hann flúði frá Egyptalandi og gerðist fjárhirðir í Midean… Móse fékk náð fyrir augum Guðs og fékk þetta stóra hlutverk að leiða Ísrael út frá Egyptalandi…   Hann fékk að standa í návist Guðs oftar en einu sinni... en í frásögn dagsins segir, að Móse hafi rekið hjörðina óvenju langt og hann sér runnann sem virðist vera í ljósum logum en brennur ekki.

Guð talar til hans – drag skó af fótum þér... þú stendur á heilagri jörð... og svo að við séum með tímalínuna á hreinu, þá er þetta áður en Móse leiddi fólkið út úr Egyptalandi... áður en hann sótti boðorðin og lög Guðs upp á fjallið og áður en Guð lét útbúa musteristjaldið... en þar inni var einmitt heilög jörð... því þar var bústaður Guðs... svo við sjáum að þar sem Guð dvelur er jörðin heilög... Móse fékk að standa í návist Guðs á heilagri jörð. Við sjáum það í gegnum alla Biblíuna að Guð velur fólk meðal almúgans til starfa fyrir sig og þær persónur hafa kannski ekki mikið sjálfstraust en fyrir Guði er hver einstaklingur dýrmætur starfskraftur. Móse taldi sig hins vegar ekki vera rétta manninn fyrir verkið... því hann svaraði Guði: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ Guð sagði: „Ég mun vera með þér.

Fyrri ritningarlesturinn fullvissar okkur um að Guð sé með okkur, í seinni ritningarlestrinum segir Jesús að hann sé upphafið og endirinn, alfa og omega... og að þegar hann kemur aftur – hefur hann launin með sér... En hvert kemur hann?

Nú, á okkar tímum, er enginn staður á jörðinni ,,heilagur”... Þegar Jesús dó, og fortjald musterisins í Jerúsalem rifnaði í tvennt og hið allra heilaga var ekki lengur heilagt... þá flutti Guð aftur til himins... Hin heilaga jörð er nú á himni... í hinni nýju Jerúsalem... þar sem Guð er að búa okkur stað. Ef einhver staður hér á jörð gæti verið heilagur, staður þar sem Guð gæti dvalið þá er það í hjörtum okkar... Jesús sagði að líkaminn væri ,,musteri” sálarinnar og hvar annars staðar en í hjörtum okkar myndi Guð eiga stað hjá okkur.

Guðspjallið segir okkur frá því þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu. Pétur, Jakob og Jóhannes voru með Jesú og fengu það mikla hlutverk að bera vitnisburðinn áfram. Þeir fengu innsýn og staðfestingu á... að fyrir trúna á Jesú, biði trúfastra, ummyndun og dýrðarklæði.. í ríki Guðs.  

Enn í dag höfum við þetta sama hlutverk sem lærisveinar Jesú, að bera boðskapinn áfram...  hlutverk að segja öðrum frá. Hlutverkin breytast ekki þó umheimurinn breytist og fólk hafi ekki í heiðri það sama og við, er mikilvægt að láta það ekki taka yfirhöndina. Við getum haldið okkar siðum og haldið í það sem okkur er heilagt og kennt öðrum að virða og meta það. Við þurfum að varðveita trúna í hjartanu… geyma ljóma dýrðar Drottins þar og muna að fyrir Guði erum við, hvert og eitt okkar MJÖG dýrmætir þjónar í mjög mikilvægum hlutverkum.

Biðjum, Drottinn við þökkum þér fyrir kærleika þinn og umhyggju fyrir okkur.  Hjálpaðu okkur að elska og virða orð þitt. Hjálpaður okkur að halda í það sem er heilagt og lyfta upp þínu heilaga nafni. Drottinn hjálpaðu okkur að vera staðföst í trúnni á son þinn Jesú Krist. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen 

Net-messa, tekin upp í Bíldudalskirkju.

https://www.youtube.com/watch?v=lIy9oukf52M&t=191s