Sannar játningar

Sannar játningar

Hefurðu velt því fyrir þér hver er þín trúarjátning, hvernig játar þú Jesú Krist, það er forvitnileg og krefjandi hugsun í raun og veru fyrir okkur öll, að færa okkar eigin trúarjátningu í orð.

Ég var að ráfa um daginn á netinu, geri það stundum þegar stund gefst milli stríða og rakst inn á erlenda heimasíðu sem ber heitið á íslensku „Sannar játningar“ eða „True confessions“. Í stuttu máli sagt gengur síðan út á það að þú getur opinberlega játað alls konar hluti sem þú átt erfitt með að gera annars, játningin er nafnlaus og þú getur alveg örugg eða öruggur, játað hvað sem er og það sem liggur þér helst á hjarta. Ég fór að lesa, forvitnin rak mig áfram eins og oft gerist í netheimum og það var alveg ótrúlegt hvað fólk var að setja inn og játa.

Ég viðurkenni það reyndar líka að stundum flaug í gegnum hugann að eitthvað af þessu væri sett inn í gríni, slíkar voru játningarnar en sumar voru einlægar og virtust koma beint frá hjartans rótum. Ég fór í framhaldi af þessu að velta fyrir mér af hverju það væri orðið þannig að fólk hafi þörf fyrir að játa alls konar hluti á netinu, ætli það sé þannig að um leið og þú ert búin að varpa því sem hvílir á þér út í loftið, þá sé það ekki lengur þitt að bera, sama hvort að það sé skilgreindur viðtakandi við játningunni eða óskilgreindur hópur lesenda á erlendri heimasíðu og játningin þín ekki undir nafni? Þannig berir þú ekki lengur ábyrgð á því sem þú hefur gert eða orðið fyrir?

Það er einhvern veginn þannig að allt lífið erum við að játa eitthvað. Alveg frá því að við vöxum út grasi er okkur kennt að játa og gangast við því ef við gerum eitthvað rangt, viðurkenna vanmátt okkar, læra af mistökum og gera betur. Börnum í dag er kennd sú mikilvæga lexía að ekkert barn á að bera leyndarmál heldur alltaf að segja frá ef eitthvað óeðlilegt á sér stað, finna einhvern sem það treystir til að bera með sér og gera eitthvað í málinu ef barnið verður fyrir því að brotið er gegn því. Það að geta játað fyrir öðrum og treyst sjálfu sér fyrir öðrum. Játning og traust fer nefnilega saman. Þú getur ekki játað hluti sem liggja á þér fyrir öðru fólki nema vera viss um að manneskjan sem tekur við því sé traustsins verð og standi með þér. Hún sé þinn haukur í horni þegar á bjátar.

Það erfitt að treysta annarri manneskju fyrir sínu, þegar sú manneskja reynist ekki traustsins verð. Þegar traustið er brotið og jafnvel mikilvægar upplýsingar eru allt í einu komnar á ferð milli fleiri einstaklinga en til stóð í upphafi. Þegar slíkt traust er brotið skapar það aðstæður fjarlægðar og vantrausts. Fólk smátt og smátt hættir að þora að segja hluti, hættir að treysta öðrum fyrir því sem það er að ganga í gegnum, hættir að játa og fjarlægist. Kannski einn daginn eru einmitt farnar að birtast nafnlausar játningar á erlendum vefsíðum, vegna þess að þungi þess að bera erfið mál einn fer að sliga og síga í, vegna þess að við höfum öll á einn eða annan hátt þörf fyrir að játa og við höfum öll á einn eða annan hátt þörf fyrir að eiga viðtakanda sem fer vel með það sem við þurfum að játa, hann sé traustsins verður.

Mér finnst ég ítrekað sjá þá tilhneigingu að fólk kjósi að játa alls konar hluti opinberlega, tímarit og dagblöð eru iðin að birta alls konar játningar fólks um hluti og vanda sem það hefur gengið í gegnum, stundum sigrast á og stundum ekki. Ég er ekki að segja að þetta sé alslæmt en það er oft vandrataður hinn gullni meðalvegur og stundum fær maður á tilfinninguna að verið sé að játa og segja hluti of snemma og að fólk geti síðar séð eftir að hafa komið fram með ákveðin mál sem ekki var búið að vinna fyllilega vel úr. Það er þó þannig að lífsreynsla fólks getur haft fyrir okkur hin alveg gríðarleg mikilvæg skilaboð og fólk sem hefur unnið vel úr ákveðnum atburðum í sínu lífi geta verið okkur hinum mikilvægir kennarar. En þarna þarf að finna hinn áðurnefnda gullna meðalveg og það er alltaf gott að leita sér ráðlegginga og leiðbeiningar hjá góðu fólki áður en hlaupið er af stað í blöðin, inn á netið, fésbókina jafnvel eða í tímaritin með viðkvæmar játningar og lífsreynslusögur.

Kirkjan okkar á játningar, við fórum með eina þeirra hér áðan en það er Postullega trúarjátningin, einnig eigum við Nikeujátninguna sem er lengri og Aþanasíusarjátninguna og Ágsborgarjátninguna svo eitthvað sé nefnt. Biblían okkar geymir líka játningar, þær eru ekki eins langar og þessar kirkjulegu játningar. Þær eru yfirleitt ekki lengri en ein setning. Tómas postuli játar Krist upprisinn eftir að hafa efast og viljað snerta sárin til að trúa, þegar hann sér Krist fellur hann á kné og játar: „Drottinn minn og Guð minn“.

Marta vinkona Jesú gerir slíkt hið sama í Jóhannesarguðspjalli í frægu samtali hennar við Jesú þar sem hann mælir þessu mögnuðu orð:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

Marta segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Í guðspjalli þessa dags fáum við að heyra þriðju játninguna sem er játning Péturs, en hún kemur fram við spurningu Jesú til lærisveina sinna „Hvern segja menn mannsoninn vera“. Ýmis svör koma fram við þeirri spurningu en svar Péturs er þetta: „Þú ert Kristur sonur hins lifanda Guðs!“

Þrjár magnaðar játningar, trúarjátningar sem lýsa þeim veruleika og játa það sem er að baki komu Jesú Krists í þennan heim. Hann er sonur hins lifandi Guðs, hann er frelsari manna, huggari þeirra og skjól. Jesús hefur verið túlkaður á margan hátt í gegnum alla mannkynssöguna, talað er um hann sem sérstakt samfélagslegt afl sem kom hreyfingu á ástand sem var staðnað og sem vann gegn mennsku fólks, talað er um hann sem spámann, sem feminista, sem gyðing, sem grikkja, sem heimspeking og svona er hægt að halda endalaust áfram vegna þess að öll getum við fundið okkur stað í Jesú Kristi, af því að boðskapur hans er þannig að hann höfðar til okkar allra, kærleiksríkur, mannbætandi og fordómalaus. Við höfum öll þörf fyrir að gera hann að okkar eigin, það er bara mannlegt. Höfum samt í huga að kristinn boðskapur getur aldrei orðið framlenging á okkar fordómum, vegna þess að Jesús miðlaði veruleika sem skapar ekki aðgreiningu á milli fólks heldur sem sameinar og brýtur niður múra. Hann getur aldrei orðið til þess að viðhalda félagslegum múrum, af því að það er annar og flóknari veruleiki að baki honum en það er veruleiki hins lifandi Guðs, sannleikurinn sem gerir alla menn frjálsa.

Það er veruleikinn sem býr í öllum þeim þremur játningum vina Jesú sem ég hef nefnt hér í dag. Við eigum eflaust öll auðvelt með að játa Jesú sem spámann, sem heimspeking, sem samfélagslegt hreyfiafl, en eigum við öll jafn auðvelt með að játa af fullu hjarta þann veruleika sem tengist himnunum, að játa Jesú sem lifandi Guð, í efnislegum heimi þar sem allt vinnur gegn því að trúa á það sem ekki er sýnilegt, áþreifanlegt og snertanlegt. Þess vegna eru þessar játningar lærsveinanna mikil áskorun til okkar hér í dag, það er sú áskorun að þorfa að taka skrefið og trúa og treysta án þess að sjá, heyra og geta snert.

Hefurðu velt því fyrir þér hver er þín trúarjátning, hvernig játar þú Jesú Krist, það er forvitnileg og krefjandi hugsun í raun og veru fyrir okkur öll, að færa okkar eigin trúarjátningu í orð.

Og er það í raun ekki þannig í öllum samskiptum almennt, að öll verðum við á einhverjum tímapunkti að þora að taka það skref að trúa og treysta án þess að vita á endanum hvernig það fer, það gerist þegar við eignumst okkar fyrstu vini, þegar við eignumst okkar fyrstu kærasta/u, eignumst makann okkar, þegar við byrjum á nýjum vinnustað og svo framvegis. Við vitum í raun og veru aldrei að fullu hvernig fólk og lífið kemur til með að reynast okkur. En ef við reynum aldrei og þorum ekki að taka skrefin, þá verður lífið snautt og fátæklegt. Auðvitað rekur okkur einhvern tímann í vörðurnar, við mætum hindrunum, við verðum særð og beygð. En við verðum að halda áfram, bera krossinn okkar áfram leiðina á enda vegna á einum eða öðrum tímapunkti mætum við samferðafólki sem getur tekið við okkur eins og við erum, sem við getum játað okkur sjálf fyrir, sem eru raunverulegir viðtakendur að okkar lífssögu, ekki óskilgreindur, fjarlægur hópur í netheimum heldur viðtakendur sem sem geta horft í augun á okkur og í því augnaráði finnur þú að þú ert metinn og elskuð/aður eins og þú ert. Það er eitthvert mesta frelsi að finna það að þurfa ekki lengur að látast heldur að geta átt grímulaus samskipti við aðra samferðamanneksju í lífinu. Ég held satt að segja að það sé ekki til neitt dýrmætara.

Þannig samskipti getur þú líka átt við Jesú Krist, þegar þú tekur skrefið og játar hann sem manneskju og sem lifandi Guð í senn. Það er vegna þess að þó að krossbyrðin í lífinu sé oft þung þá býr að baki henni vonin, lífið og skilyrðislaus kærleikur okkur til handa. Þegar við játum þennan veruleika, þá er það einhver sterkasta og máttugasta játning sem hægt er að bera fram: „Ég trúi að þú sér Kristur, sonur hins lifandi Guðs“. Gerum þessar játningu að okkar, lifum hana í okkar lífi og þá um leið verður byrðin okkar léttari og auðveldari. Við eigum einn hauk í horni sem bregst okkur aldrei, það er Jesús Kristur og trúin á hann.

Amen!