Guð, tíminn og þú

Guð, tíminn og þú

Þegar nýtt ár skeiðar af stað finnur manneskjan fyrir því hvað hún er undarlega brothætt. Skynjar aldrei sem fyrr þennan dularfulla hjúp sem kallast tími og umvefur hana. Hún er háð tímanum og finnst á stundum sem hann sé herra hennar og húsbóndi. Oft vill hún helst rífa sig lausa frá tímanum eða krefst þess að hann nemi staðar.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
18. janúar 2006

Þegar nýtt ár skeiðar af stað finnur manneskjan fyrir því hvað hún er undarlega brothætt. Skynjar aldrei sem fyrr þennan dularfulla hjúp sem kallast tími og umvefur hana. Hún er háð tímanum og finnst á stundum sem hann sé herra hennar og húsbóndi. Oft vill hún helst rífa sig lausa frá tímanum eða krefst þess að hann nemi staðar. Og þær stundir banka einnig upp á að hún vill að tíminn æði áfram. En hvað sem óskum hennar og þrám líður þá heldur tíminn áfram göngu sinni og hirðir ekkert um manneskjuna. Hann gefur aldrei eftir. Lætur ekki múta sér né heldur sýnir hann miskunnsemi. Og allra síst vill hann setjast að samningaborði við manneskjuna.

Manneskjan þráir að fá botn í tilveruna, í tímann. Hún lifir og getur ekki ímyndað sér hvernig það er að vera ekki til. Svo bundin er hún sjálfri sér. Óttinn við þá stund sem hún er ekki sjálf til frásagnar um, mótar hana og hugsun hennar um heiminn. Hún vill ekki gleymast – finnst reyndar sem flestir gleymist og grafist. Það er henni óbærileg hugsun að gleymast að eilífu – verða tímaleysi að bráð. Þess vegna hefur hver kynslóðin á fætur annarri fyllst trega yfir illskiljanlegum örlögum í viðjum tímans sem og kenjafullri gremju yfir því að búa við tíma sem svo var ofinn og ekki geta neitt að gert.

Í veröldinni situr manneskjan eins og fugl á grein. Horfir yfir mannlífssviðið og sér hvernig einþykkur tíminn þrykkir fari sínu á allt. Skyndilega kemur Guð inn í þennan tíma sem manneskjan glímir einlægt við. Hún þekkir hann oftast. Samskipti þeirra hafa iðulega borið merki óvissunnar um það hver væri höfundur lífsins.

Guð birtist á ýmsa vegu – og axlar byrðar holdsins í meistaranum frá Nasaret. Guð í þessu tímanlega holdi skynjar hugrenningar manneskjunnar um að líf mannlegt endar skjótt, skynjar tilfinningu hennar fyrir líkamanum; veit hvernig hún horfir á tímans tönn narta í líkamann svo úr sléttri húð kvarnast og fjörlegt æskuaugað verður sem dökkur punktur aftan við langa sögu og hún virðir fyrir sér ellibláar hendur sínar – ef hún lifir – hvað fær hún gert andspænis glaðhlakkalegri og sigursællri ásókn tímans?

Við sjáum enn gulan sandinn þyrlast upp við mjúkt fótatak meistarans við Galíleuvatn – spyrjum um þennan sand og meistarann – orð hans sem óma í hugum okkar - núna. Gárurnar umvöfðu ekki aðeins strönd Galíleuvatns heldur berast þær einnig til okkar og ein bára getur verið mynd heillrar ævi.

Jesús í tímanum – á sínum tíma og á okkar tíma. Við sjáum fótspor hans enn. Lærisveinarnir og meistarinn voru rammaðir inn í tíma þeirrar stundar sem leið þar hjá en við sækjum þá stund heim þegar hugurinn leitar þangað – þeirra stund sækir okkur heim. En til góðs vinar liggja gagnvegir, segir í Hávamálum.

Um aldir hafa menn deilt um guðdóm meistarans frá Nasaret. Þau sem hafa fundið samsemd með honum og látið hans tíma vera sinn hafa séð dyr opnast. Þau eru ekki lengur lokuð inni í hverfulum tímanum. Beygja sig ekki heldur undir hann né heldur sættast við hann af undirlægjuhætti eða ólund. Hafa því síður blásið til stórsóknar gegn honum. Hvað þá? Fundið hið eilífa nú í honum, hinn eilífa tíma í honum. Hans tími er þeirra og þeirra er hans. Skynjað að í honum hefur eilífðinni verið dánlódað í brjóst þeirra: Jafnvel eilífðin er lögð í brjóst okkar, ritaði spekingurinn. En manneskjan skilur ekki verk Guðs. Skilur ekki af hverju hann ber umhyggju fyrir henni. Skilur ekki kærleika hans vegna þess að hún á hann ekki skilið.

Margur hefur staðhæft að manneskjan leiti til ímyndaðra krafta að baki veröldinni og séð þá í einsemd sinni sem æðri verur ekki ósvipaðar henni sjálfri. Það veiti henni öryggi sem bankar, tryggingafélög, stjórnmálamenn og jafnvel bílaumboð bjóða henni á hverjum degi. En trúuð manneskja finnur að hún er örugg þegar Guð réttir henni hönd sína í tímanum – núna. Hún finnur handtakið.

Það er traust og hlýtt hvað sem hver segir.