Hversdagsleg trú

Hversdagsleg trú

Ein vandræðin með Jesú og veru hans hér á jörð voru þau að umbúðirnar voru ekki nógu fínar. Hann gekk ekki um jörðina í skínandi klæðum, umkringdur fornum spámönnum og með rödd Guðs þrumandi yfir sér af himnum ofan. Nei, hann birtist okkur bara sem venjulegur maður. Sjálfsagt var hann meðalmaður í útliti og líkamlegu atgervi.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
24. janúar 2010
Flokkar

Maður nokkur var eitt sinn fenginn til að spila á fiðlu á göngum lestarstöðvar í Bandaríkjunum og viðbrögð fólks sem átti leið þar hjá voru skráð. Skömmu eftir að maðurinn byrjaði spila, staldraði miðaldra maður við í  nokkrar sekúndur og hlustaði - en hélt svo leiðar sinnar. Nokkrum mínútum síðar hætti barn að ganga við hlið móður sinnar og horfði á manninn. Mamman togaði óðar í barnið og forðaði því frá manninum og fiðlunni. Einhver henti pening í hattinn. Annað barn stoppaði og mamman togaði óðar í barnið. Fleiri smápeningar flugu í hattinn en varla nokkur manneskja lét á sér sjá að hún væri að hlusta eða nyti tónlistarinnar. Eftir 45 mínútur af samfelldum leik, hætti maðurinn að spila. Lófatak heyrðist ekki, enginn kallaði BRAVO. Maðurinn taldi peningana, hann hafði fengið 32 dollara   Tilraun á vegum Washington Post-blaðsins var lokið. Hún sýndi hverju fólk missti af. Maðurinn sem spilaði var Joshua Bell, einn mesti fiðlusnillingur heims. Hann hafði leikið 6 verk eftir Bach sem öll þykja einstaklega falleg og tæknilega erfið. Fiðlan hans kostaði 3,5 milljónir dollara (ekki króna!). Tveimur kvöldum áður hafði hann fyllt tónleikasal í Boston þar sem hver miði hafði kostað 100 dollara. - Af hverju stoppaði enginn til að njóta? Hversvegna þakkaði honum enginn? Voru allir á hraðferð á leið í vinnu eða annarra mikilvægra verka?   Ég fékk þessa frásögn senda í tölvupósti um daginn og sjálfsagt hafa fleiri fengið hana og lesið. En þetta er ekki uppspunnin skröksaga heldur lýsing á tilraun sem sannarlega var gerð. Hægt er að skoða myndbandsupptöku af fiðluleikaranum á heimasíðunni YouTube, þar sem hann er að spila á lestarstöðinni.

Umbúðir

Þurfa umbúðirnar að vera „réttar“, áberandi og fínar til þess að innihaldið sé metið að verðleikum?  Og getur verið að flottar umbúðir geti blekkt okkur og talið okkur trú um að innihaldið sé betra en það raunverulega er?   Svarið við báðum þessum spurningum getur verð JÁ og er því miður oft jákvætt.   Ein vandræðin með Jesú og veru hans hér á jörð voru þau að umbúðirnar voru ekki nógu fínar. Hann gekk ekki um jörðina í skínandi klæðum, umkringdur fornum spámönnum og með rödd Guðs þrumandi yfir sér af himnum ofan. Nei, hann birtist okkur bara sem venjulegur maður. Sjálfsagt var hann meðalmaður í útliti og líkamlegu atgervi.   Hann sinnti ekki suði fólks um að sanna hver hann væri með stórkostlegum kraftaverkum og táknum og flest kraftaverkin vann hann án margra vitna. Og oft bað hann þessi fáu vitni að þegja yfir því sem þau höfðu orðið vitni að.   Í dag fáum við, í kirkjum landsins, að heyra söguna af því þegar Jesús opinberaði fyrir vinum sínum hver hann var.   Þessi reynsla hefur verið ólýsanleg fyrir þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Það kemur fram að þeir urðu óttaslegnir og ekki er að undra. Pétur vildi dvelja sem lengst í þessu stórkostlega, þessu heilaga. Hann vildi fara að byggja og þjóna hinum háu herrum. Hann var líka svo glaður yfir því að hafa verið valinn í þennan hóp. Hann fann til sín.   En hann fékk ekki að vera um kyrrt og þegar þeir komu aftur niður af fjallinu sigldu þeir beint inn í raunveruleikann. Það þurfti að lækna fólk, reka út illa anda, rökræða við hin vantrúuðu, boða trú og betra líf í ljósi og sannleika. Þetta var vinna sem tók á taugarnar og þreytti líkamann.   Þeir fengu bara að dvelja í því heilaga eitt augnablik.   Hversu mikilvægar eru umbúðirnar fyrir þig? Getur þú notið fegurðar sem ekki er pakkað inn í umbúðir hinnar „réttu“ tónlistar, menntunar, útlits eða ættar? Getur þú það? Get ég það?   Jesús Kristur gerði og gerir þær kröfur til okkar að við gætum það.   Mér virðist sem að umbúðirnar og umgjörðin öll verði mikilvægari í minni samfélögum en stærri. Fjölbreytileiki fær ekki jafn mikið rými í litlum samfélögum þar sem margir þekkjast og í stórum samfélögum. En auðvitað er þetta ekki alltaf svo einfalt því þú tilheyrir yfirleitt einhverjum minni hóp innan stærri samfélaga. En hóparnir eru þó fleiri og stærri sem gefur meira rými.

Almenningsálit

Nú hefur ímynd Íslands beðið hnekki. Umbúðirnar sem landinu okkar er pakkað inn í eru ekkert sérstaklega fínar lengur. Gullpappírinn er allur rifinn og tættur.   Nú hefur ímynd Íslands beðið hnekki. Umbúðirnar sem landinu okkar er pakkað inn í eru ekkert sérstaklega fínar lengur. Gullpappírinn er allur rifinn og tættur. Nú keppast fjölmiðlar alla daga við að birta hvað fjölmiðlar erlendis segja um Ísland og íslendinga. Þeir birta gjarnan hvað mis viturt og valdamikið fólk úti í heimi vill um okkur segja. Stuttu eftir bankahrunið sá ég meira að segja fjölmiðlamanneskju ganga um torg bæjar í Þýskalandi og spyrja fólk á förum vegi hvað því þætti um Ísland.   Höfum við alltaf verið svona upptekin af áliti annarra á okkur eða er þetta eitthvað nýtt?   Kannski ættum við (og þá ekki síst fjölmiðlafólk) að, í stað þess að vera sífellt á nálum yfir því hvað öðrum finnst um okkur, að skoða hvað okkur sjálfum finnst. Ef við sköpum hér réttlátt og heiðarlegt samfélag sem við getum verið stolt af þá þurfum við ekki stöðugt að vera svo áhyggjufull yfir áliti annarra þjóða á okkur.   Ef við byggjum upp góða sjálfsmynd þá hættir hún kannski að byggja á umtali annarra þjóða.   Vandinn er bara sá að við höfum hagað okkur illa. Um nokkurt skeið var hér var samfélag sem byggði að miklu leyti á spilaborgum græðgi og spillingar. Þessar spilaborgir hrundu og nú er að taka afleiðingunum, bretta um ermarnar og vinna saman að uppbyggingu. Ekki rífast um hver er duglegastur og með bestu samböndin. Heldur vinna saman að uppbyggingu og læra af reynslunni.   Við breytum ekki áliti annarra á okkur fyrr en við breytum okkur sjálfum.   Við, íslenska þjóðin, erum voðalega sérstök en það er ágætt að við áttum okkur á því, að við erum ekkert meira sérstök en aðrar þjóðir. Allar þjóðir eru sérstakar á sinn hátt og allar þjóðir eiga eitthvað undur fallegt og merkilegt sem vert er að sjá og upplifa. Við erum hluti af stærra samhengi. Við erum hluti af stærri heimi en rúmast hér á þessari litlu eyju. Ef við viljum láta taka mark á okkur verðum við þá ekki að vera kurteis og bera virðingu fyrir öðrum þjóðum? Við getum ekki endalaust metið vini okkar út frá því hvaða þjóðir tala best um okkur og hvaða þjóðir eru tilbúnar að lána okkur mestan pening án skilyrða.   Þegar við stöndum okkur vel í alþjóðasamhengi og sendum björgunarsveit til lands þar sem náttúruhamfarir hafa geisað, þá má aðalfréttin ekki vera hversu mikla athygli það hefur vakið hjá umheiminum. Aðalatriðið er að við gerðum skyldu okkar og tókum þátt í að hjálpa fólki í neyð og það voru fleiri en við sem gerðu það.   Hvernig virkar þjóð sem stöðugt er að velta sér upp úr áliti annarra þjóða á sér? Er það gestrisni að byrja á því að spyrja gestinn  hvernig honum finnist við vera, hvað honum finnist um landið okkar? Er ekki eðlilegra að spyrja gestinn hvernig ferðin hafi gengið og hvernig hann hafi það?   Hversdagsleikinn

Fólkið á lestarstöðinni var að flýta sér. Það er líklegt að fólk hafi ósjálfrátt gert ráð fyrir að spilarinn væri auðnuleysingi, fiðlan gargan og best væri að forða sér frá betlaranum. Það gaf sér ekki tíma til þess að hlusta því umbúðirnar voru rangar. Af því fólkið var í neðanjarðarlestarstöð en ekki tónleikasal skynjaði það ekki fegurðina í tónlistinni. Af því tónarnir bárust óumbeðnir og kostuðu ekkert hurfu þeir með dragsúgnum  og náðu eyrum fárra.   Jesús gerði þær kröfur á samferðafólk sitt að það tryði sér, að það tryði á Guð án þess að fá litríkar og tilkomumiklar sannannir. Hann vildi að fólk kynntist sér. Að fólk hlustaði á sig. Að fólk gæfi sér tíma til þess að finna fyrir trúnni í hjarta sér. Hann vildi að trúin kæmi á réttum forsendum, af sannri þrá og kærleika. Þetta þráir Guð enn í dag.

Þetta er ein ástæða þess að trúin er ekki boðuð með flugeldasýningum og ljósasjói. Boðskapurinn stórkostlegi  um kærleikann stendur fyrir sínu þrátt fyrir hversdagslegar umbúðir. Trúin þarf að koma vegna sannrar þrár en ekki vegna umbúðumanna.   Kristin trú er nefnilega hversdagsleg trú. Guð er með okkur í hversdagsleikanum og Jesús vann sín störf fyrst og fremst í hversdagsleikanum.   Lærisveinarnir þrír fengu ekki, sér til nokkurs ama, að dvelja nema stutta stund uppi á fjallinu í öllum ljómanum og ljósinu, þar sem allt varð tært og skýrt. Jesús tók þá með sér niður aftur þar sem neyð fólksins og erfiðleikarnir biðu þeirra. Þar sem baráttan um brauðið hélt áfram.   Þrátt fyrir skort á ljósasjói og kraftaverkasýningum þá er kristin trú útbreiddasta trúin í dag. Það vekur von um að við erum kannski ekki alltaf svo yfirborðskennd og grunnhyggin og könnunin á lestarstöðinni gefur til kynna.   Ástæðan er sú að Kristin trú virkar. Boðskapurinn er sannur og krefur þig um heilindi. Þegar allt kemur til alls þurfum við ekki að fá hana í fallegum pakka á réttum stað og stund.   Til þess að skapa fallega mynd af landi okkar og þjóð í hinum stóra heimi þá ættum við kannski að fara að ráðum Krists og einbeita okkur að því að byggja hér sanngjarnara og heiðarlegra samfélag sem byggir á trausti. Við ættum kannski að einbeita okkur minna að umbúðunum og meira að innihaldinu. Sú vinna verður bara svo seinleg þegar nýjar upplýsingar um spillingu koma enn fram í hverri viku. Við erum sjálfsagt öll sammála um að ekki er hægt að byggja upp traust á meðan óheiðarleikinn er enn við lýði. Við þurfum að finna og geta sannarlega treyst því að verið sé að vinna í að grafa undan allri spillingu! Á meðan við ekki finnum það verða umbúðirnar okkar áfram tættar og ljótar og ekki sést í innihaldið fyrir gullpappírnum sem löngu er hætt að glampa á.  Fegurðin Einhversstaðar sá ég skrifað að þau sem kæmu hvað best út úr langri pínuvist eins og t.d. í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni ættu eitt sameiginlegt. Það var að geta útilokað ljótleikann fáein augnablik í einu. Að geta sameinast fegurð sólargeislans sem braust inn um rifu í veggnum. Notið andvarans við húshorn og fundið ferskleika fífilsins sem spratt í haugnum.  Hverju erum við að missa af í daglegu lífi sem kostar ekkert en auðgar það margfalt ef við aðeins höfum augu og eyru opin?  

Einhversstaðar sá ég skrifað að þau sem kæmu hvað best út úr langri pínuvist eins og t.d. í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni ættu eitt sameiginlegt. Það var að geta útilokað ljótleikann fáein augnablik í einu. Að geta sameinast fegurð sólargeislans sem braust inn um rifu í veggnum. Notið andvarans við húshorn og fundið ferskleika fífilsins sem spratt í haugnum.  Hverju erum við að missa af í daglegu lífi sem kostar ekkert en auðgar það margfalt ef við aðeins höfum augu og eyru opin? Ef við aðeins sleppum samanburðinum við aðra, auglýsingunum og ítroðslunni um hvað við eigum að eiga, hvað við eigum að vera, hvers við eigum að njóta þá eru meiri líkur á að við komum auga á það sem okkur er gefið en enginn hafði tíma til að pakka inn og merkja okkur. Kannski heyrum við þá fagra fiðlutóna sem ekki eru fluttir okkur á réttum stað og á réttum tíma. Amen.

Hér getur þú hlustað á prédikunina flutta í þjóðlagaguðsþjónustu í Borgarholtsskóla.