Kirkjur í Evrópu snúa bökum saman í ólgusjó umbreytinga

Kirkjur í Evrópu snúa bökum saman í ólgusjó umbreytinga

Hugsanir að loknum aðalfundi Kirknaráðs Evrópu (KEK)
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
07. maí 2019

Þjóðkirkjan hefur frá upphafi, árið 1959, verið aðili að Kirknaráði Evrópu (KEK) sem stofnað var í Kaupmannahöfn það ár. Aðalfundur ráðsins (General Assembly) fer fram á 5-6 ára fresti og nú síðast í Novi Sad í Serbíu dagana 30. maí til 6. júní 2018. Sem aðili að KEK á þjóðkirkjan tvö sæti á aðalfundinum, með málfrelsi, atkvæðis- og tillögurétt. Fundinn sóttu að þessu sinni séra Þorvaldur Víðisson, biskupsritari og dr. María Ágústsdóttir, héraðsprestur.

Þemu aðalfundarins og hápunktar, s.s. foreldralaus börn í Evrópu

Yfirskrift aðalfundarins að þessu sinni var: „Þér skuluð vera mín vitni(...)“, sem er tilvitnun í Postulasöguna 1:8. Dagskránni var skipt í þrjú þemu; gestrisni, vitnisburður og réttlæti. Biblíulestrar og dagskrárliðir tóku mið af þessu og var fjölmargt áhugavert þar að finna.

Rödd kirkjunnar þarf að heyrast betur og skýrar í hinu vestræna samfélagi nútímans. Kirkjudeildirnar þurfa að styrkja eininguna og þannig rödd hinnar sameiginlegu kirkju. Kirkjan verður að þora að berjast gegn óréttlæti hvar sem það birtist, því friðurinn grundvallast á réttlæti, sagði serbneski patríarkinn Irene er hann ávarpaði þingið.  

Frásagan af Nabót í fyrri konungabók var útlögð af dr. Elaine Neuenfeldt og fjallaði hún um textann á áhrifaríkan máta. Í sögunni er hebreska hugtakið „Nahalla“, miðlægt. Hugtakið vísar til fjölskyldulandsins og hefur djúpa merkingu og skírskotun til sögu fjölskyldunnar, hver maður er, og á hvaða arfleifð maður byggir líf sitt. Nabót vildi ekki selja landið, því það hafði verið gefið þjóðinni til frelsis. Sjálfsmynd Nabóts og fjölskyldunnar var byggð á þessu og sáttmálanum við Guð. Dr. Neuenfeldt fjallaði um textann í samhengi nýtingar landrýmis á Spáni um þessar mundir þar sem fjöldi ferðamanna sækir landið heim og einnig fjöldi fólks á flótta. Þar er á svæðum landið nýtt til tómataræktunar þar sem fólk á flótta fær stundum vinnu við að týna tómata, án þess þó að njóta fullnægjandi salernisaðstöðu né þess að fá almennilegan aðgang að hreinu vatni. Í þessu samhengi setti hún fram spurningar um það kerfi sem við búum við og hvort það byggi á réttlæti, frelsi og sanngirni. Hvernig er landið nýtt og í hvaða stöðu setur slík landnýting fólkið sem er að flýja erfiðar aðstæður?

„Hinar ólíku kirkjudeildir mega ekki vera uppteknar af því sem ólíkt er í sögu og hefðum, heldur því sem þær eiga sameiginlegt,“ sagði framkvæmdastjóri Alkirkjuráðsins, séra Olav Fykse Tveit í ávarpi sínu á fundinum.[i] Í svipaðan streng tók framkvæmdastjóri Kirknaráðs Evrópu, séra Heikki Th. Huttunen, og sagði að aukið samtal kirkjudeildanna leiddi kirkjurnar út á strætin, í þjónustu við fólk, kærleiksþjónustu. Hann sagði uggvænlega þróun í gangi í mörgum fátækari löndum Evrópu, þar sem börn væru víða munaðarlaus, því foreldrarnir væru erlendis í láglaunastörfum til að skaffa til heimilisins og skyldu börnin eftir í umsjá ömmu og afa, frænku og frænda eða einfaldlega hjá nágrönnum eða vandalausum.[ii]

Óttinn við „hina“ er okkar helsti vandi, sagði erkibiskupinn af Kantaraborg, Justin Welby. Kirkjan verður að leitast við að vera samfélag auðmýktar, þar sem sáttagjörð og friðarstarf eiga að vera á oddinum.[iii]

Köllun til þjónustu er ekki val þess sem kallaður er, því Jesús hefur fæðst í hjörtum þeirra sem bera fagnaðarerindinu vitni. Jesús er hinn róttæki kærleikur sem vinnur í okkur þrátt fyrir það hvernig við erum, sagði dr. Antje Jackelén, erkibiskup Svía í ávarpi sínu á fundinum. Vitnisburður kirkjunnar verður að vera drifinn áfram á heilagri undrun fyrir lífinu. Einnig velti hún fyrir sér hvort kirkjustarfið hentaði stúlkum betur en drengjum, hún spurði að því í ávarpi sínu, hvar drengirnir væru í kirkjustarfinu, hvort þeir skiluðu sér inn í starfið? Vitnisburður kirkjunnar verður að vera heilagur og opinber, kirkjan verður að þora að taka rými á almannasviðinu, taka þátt í umræðu um samfélagsleg málefni, láta sig varða málefni líðandi stundar og stóru tilvistarspurningar lífsins.[iv]

Flóttamannavandinn í dag laðar fram kjarna kristinnar trúar í samfélögum okkar, sagði Torsten Moritz. Það er okkar að bregðast við, þjóna og hjálpa þeim sem eru á flótta. Þegar ég hlustaði á Torsten velti ég fyrir mér hvort rót flóttamannavandans liggi m.a. í framgöngu Vesturlanda, með stuðningi okkar við innrás í Kuwait, Írak og Sýrland, svo nokkur dæmi séu nefnd? Á sama tíma og kristin kirkja þjónar fólki á flótta og er farvegur þeirra inn í vestrænt samfélag, getur þá verið að kirkjan verði á sama tíma að berjast fyrir því innanlands að vestrænar þjóðir breyti utanríkisstefnu sinni á þann veg að friður verði aðalmarkmiðið, friður án hernaðar aðgerða?

Áhrifarík kynning var á dagskrá af starfi lítillar evangelískrar kirkju í Grikklandi, sem hefur unnið gríðarlegt starf meðal fólks á flótta. Þar er það ekki spurning um stærð kirkjunnar eða fjölda meðlima heldur að kirkjan er vettvangur þeirra kærleiksverka sem bjarga náunga í neyð, sem bjargar mannslífum. Áhersla kirkjunnar í starfi sínu meðal fólks á flótta er einnig sú að vinna að því að fólk á flótta eigi þess kost að snúa aftur til heimalands síns. Sú áhersla kom fram í máli margra á fundinum.

Sundrung í Evrópu sem varð að brúa

Þegar járntjaldið reis í Evrópu í kjölfar síðari heimsstyrjaldar mörkuðu línur kirkjudeildanna þær línur sem þar voru dregnar. Christoffer Hill, anglíkanskur biskup í Stafford og fráfarandi forseti KEK, minntist þessa í ávarpi sínu á fundinum. Þetta ber hins vegar ekki að skilja svo að kirkjudeildirnar hafi beitt sér í þeim efnum, og þó, þær línur voru staðfesting á einhverri sundrungu sem náði jafnvel til þeirra sem vilja kenna sig við hinn kristna kærleiksveg.

Með stofnun KEK varð til eining kristinna í Evrópu, þvert á kirkjudeildir. Markmiðið var fyrst og fremst að brúa austur og vestur, með því að auka skilning, samskipti og einingu á tímum sundrungar. 

Áhugaverðar og fjölbreyttar frásögur eru til innan kirkjunnar í Evrópu af bænastundum, samtölum og samfélagi þvert á kirkjudeildir, þvert á múrinn, sem hafði sinn stóra þátt í því að múrinn skyldi falla árið 1989. Vitnisburðir um slíkt má heyra af vörum þátttakenda á aðalfundinum, þar sem rætt er saman yfir kaffibollum, í matartímum eða hvarvetna annarsstaðar sem færi gefst á að kynnast fulltrúum annarra kirkjudeilda og fulltrúum annarra þjóða. Slík tengsl og vinátta sem skapast er eitt af því dýrmætasta sem þátttakendur á svona fundum fá að njóta og taka með sér heim.

Við fall múrsins breyttist staðan og þörfin fyrir KEK varð ekki sú sama og fyrr.

Óljóst hlutverk

Ekki var nú lengur sama þörf fyrir hendi á að KEK brúaði austur og vestur Evrópu. Samt sem áður starfaði ráðið áfram, ný verkefni tóku við.

„Charta Oecumenica“, sem er leiðbeiningarit fyrir vaxandi samstarf á meðal kirknanna í Evrópu, var gefið út árið 2001. Innan KEK voru þá nær allar rétttrúnaðarkirkjur Evrópu, mótmælendakirkjur, anglíkanskar kirkjur, „Old Catholic“ kirkjur og sjálfstæðar kirkjur í Evrópu. Ásamt þeim tók evrópska biskuparáð rómversk kaþólsku kirkjunnar þátt í gerð „Charta Oecumenica“.

Í ritinu er lögð áhersla á sameiginlega vegferð kirknanna í að feta í fótspor frelsarans. Í ritinu er höfðað til sameiginlegrar ábyrgðar og skuldbindingar kristinna manna í Evrópu og þátttöku þeirra í að byggja upp friðsamt samfélag í Evrópu og heiminum öllum.

Samningurinn um evrópska efnahagsstæðið (EES) og samstarfsviðleitni ríkja Evrópu með stofnun Evrópubandalagsins/Evrópusambandsins (ESB), voru merki um þörf fyrir nánari tengsl og samvinnu í Evrópu. Fjórfrelsið svokallaða hefur liðkað fyrir ferðum fólks á milli landa og auðveldað flutning fjármagns og vinnuafls þvert yfir landamæri. Evran var tekin upp. Ekki verður farið nánar út í þau atriði í þessum pistli, þó þau séu auðvitað áþreifanleg merki aukinna samskipta í Evrópu sem hefur einnig haft áhrif á gildismat og trúarlegar hreyfingar. Brexit er síðan vísbending um að framundan séu breyttir tímar.

Kristnin grundvöllur friðar

Fyrrum forseti Evrópuráðsins, Jacques Delors biðlaði á sínum tíma til kristinnar kirkju um að hún myndi veita Evrópu „hjarta og sál“. Væntingar þeirra sem voru í forsvari fyrir Evrópusambandið og unnu að stofnun þess voru m.a. þær að kirkjan hefði mikið fram að færa til þess anda friðar sem ríkja ætti í samfélagi manna og til þeirra grunngilda sem samfélagið skyldi byggja á. Laurens Hogebrink fjallaði um þessa hvatningu Delors í áhugaverðri bók sem Kirknaráð Evrópu gaf út árið 2015.[v]

Kristni í Evrópu á 21. öldinni

Nýjar áskoranir blasa við kirkjunni í Evrópu. Aukin hnattvæðing og síðnútími (post-modernismi) hafa leitt til þess að einstaklingar setja spurningarmerki við viðtekið gildismat og hefðir. Allar skoðanir virðast jafnréttháar og sameiginleg saga virðist missa merkingu sína, sem hefur blásið einstaklingshyggju byr í brjóst. Tengslin við hinar sameiginlegu sögur sem vestræn samfélög hafa byggt á, svo sem um náð og kærleika, réttlæti og bræðralag, rofna.

Slíkt siðrof hefur einkennt vestrænt samfélag, þar sem fólk tengir sem dæmi vel við dæmisöguna um miskunnsama Samverjann og hegðar lífi sínu í þeim sama anda, án þess þó að tengja þá breytni jarðveginum sem dæmisagan sprettur úr, þ.e.a.s. gerir sér ekki grein fyrir hinu stóra samhengi og forsendum sem lærdómurinn byggir á. Þetta virðist vera vandinn um alla álfuna, óháð kirkjudeildum, óháð landamærum.

Hætta að selja vopn til varnarlausra svæða

Á ný standa kirkjudeildir Evrópu frammi fyrir þeirri stóru áskorun að kristnir heyja stríð hver gegn öðrum í álfunni. Hvernig bregðast kirkjudeildirnar við? Réttlátt stríð, er ekki nálgun sem kirkjan getur samþykkt, heldur hlýtur kirkjan ávallt að berjast fyrir réttlátum friði, sögðu dr. Vilmos Filchl og dr. Johnston McMaster í einni af mörgum málstofum sem voru á dagskrá fundarins.  

Þjóðir heims verða að hætta að selja vopn til hinna varnarlausu svæða heims, og snúa heldur bökum saman í að biðja saman fyrir friði, og einnig vinna að og stuðla að friði með verkum sínum, sagði hans heilagleiki Efraím II, patríarki í Sýrlandi, sem hélt eina af aðalræðum fundarins.  

KEK og framtíðin, rödd friðsamlegra lausna?

Hvert er hlutverk KEK til framtíðar? KEK er vettvangur tengsla og samskipta, skilnings og vináttu. Sem slíkur vettvangur á KEK sannarlega enn hlutverki að gegna og erindi í dag.

KEK hefur beitt sér varðandi þau málefni sem snúa að trúfrelsi í álfunni, til dæmis beitti KEK sér og nýtti tengslanet sitt er ráðstefna var haldin í Reykjavík um umskurn drengja. Tillaga að breytingum á almennum hegningarlögum lá fyrir Alþingi, þar sem flutningsmenn lögðu til bann við umskurn drengja og að slíkt yrði gert refsivert, með refsiramma að allt að 6 ára fangelsi. Gyðingar og múslimar höfðu líst áhyggjum sínum af því hverjar raunverulegar afleiðingar þessa yrðu ef frumvarpið yrði að lögum á Íslandi. Í samhengi sögu 20. aldar, anti-semetisma og útrýmingarbúða var spurt; verði tillagan samþykkt, mun það leiða til þess að gyðingdómur og múslimatrú verði bönnuð á Íslandi?

Málþing var haldið í Norræna húsinu á vegum samstarfsnefndar kristinna trúfélaga, með þátttöku KEK og ýmissa samstarfsaðila þeirra í Evrópu. Frumvarpið var ekki samþykkt á Alþingi.

Enn eru verkefni fyrir KEK er varða aukin tengsl austurs og vesturs, þar sem stríð stendur yfir í Úkraínu. Rússneska rétttrúnaðar kirkjan hefur ekki að fullu sagt sig úr KEK, en hefur verið óvirk síðustu ár. Nái KEK að laða fulltrúa rússnesku rétttrúnaðar kirkjunnar að bænasamfélaginu að nýju, eru tækifæri friðar enn ríkari.

Nú hefur helsti leiðtogi rétttrúnaðar kirkjunnar í heiminum, Íslandsvinurinn Bartholómeus I., samkirkjulegi patríarkinn í Konstantínópel, sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, tók á móti árið 2017, líst yfir sjálfstæði rétttrúnaðar kirkjunnar í Kiev í Úkraínu, sem er þá að kljúfa sig frá rússnesk rétttrúnaðar kirkjunni. Þar er um hápólitískt málefni að ræða.

Kirkjur í kringum Barentshaf, þar á meðal rússneska rétttrúnaðar kirkjan, hafa um árabil þróað samtal, „dialogue“. Sá vettvangur gæti nú haft friðsamleg áhrif á stöðuna og stuðlað að jákvæðum tengslum, skilningi og vináttu, nú þegar rússneska kirkjan virðist vera að einangra sig frá umheiminum. Á vettvangi KEK sem og Alkirkjuráðsins eiga kristnar kirkjur samstarf og samfélag yfir landamæri, milli kirkjudeilda, yfir hin stríðshræðu svæði.

Þeir sem rituðu fyrstu heimildir kristninnar vísa gjarnan í að Kristur birtist heiminum í samfélagi þeirra sem kalla sig kristna sbr. Kólóssóbréfið 1:24, 1. Kórintubréf 12:27 og Efesusbréfið 5:30. Áskorun kirkjunnar er því ærin, að láta af egóisma og hvers kyns persónulegri hagsmunavörslu, beita sér hvarvetna fyrir friði, einingu og virðingu fyrir einstaklingum, menningu og sögu. Vera ávallt gagnrýnin í eigin garð, tilbúin að bæta sig og breyta því sem þarf svo góðu tíðindin berist öllum.

Kirkjan er ávallt fólkið sem tilheyrir henni, hópur fólks sem vill framgang trúar, vonar og kærleika sem mestan. KEK hefur enn erindi að gegna, og svo virðist sem þörfin fyrir KEK sé frekar að aukast en hitt.

Hvers vegna erlend samskipti?

Í gegnum erlent samstarf finnum við áþreifanlega fyrir því hér norður í Atlandshafi að við erum hluti af stærri heild. Það er fyrst og fremst styrkur okkar og einnig tækifæri í erlendu samstarfi. Áskorun þeirra sem sækja fundi og ráðstefnur fyrir hönd þjóðkirkjunnar er síðan helst sú að finna leiðir til að miðla þekkingu og fræðslu, upplýsingum og tengslum inn í söfnuði kirkjunnar á Íslandi. Einnig er heilmikil áskorun fólgin í því að miðla reynslu okkar á hinum erlenda vettvangi. Þjóðkirkjan hefur miklu að miðla og hefur haft jákvæð áhrif.[vi]

Með þessu móti og ýmsu öðru getur þjóðkirkjan látið að sér kveða, til áhrifa á íslenskt samfélag sem og samfélag um heim allan, lífríki og menningu til heilla. 

Pistillinn birtist fyrst í Bjarma 1. tbl. 113. árg. apríl 2019


[ii]  Áherslur hans má nálgast hér: http://www.europe-infos.eu/you-shall-be-my-witnesses

[v] Hægt er að nálgast hana og fleiri áhugaverð rit sem KEK hefur gefið út, á heimasíðu ráðsins, www.ceceurope.org.

[vi] Sjá skrif Gunnþórs Ingasonar í 2. tbl. 2018.