Hjartaspjöld og mannauður

Hjartaspjöld og mannauður

Starfsmannastefnan er óendanlega mikilvæg og við eigum að flagga henni, glíma við hana, uppfæra hana og fara eftir henni. Starfið er til vegna boðskaparins og stjórnsýslan er til svo að starfið sé gott. Ég tel að það eigi að vera forgangsmál nýs biskups að endurskoða starfsmannastefnuna í samtali við þau sem þjóna í kirkjunni. Í þetta skiptið þurfum við að láta það fylgja með hvernig stefnunni verði best framfylgt.
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
29. febrúar 2012

Í stefnumótun þjóðkirkjunnar 2004 til 2010 voru margir kallaðir til að marka framtíðarsýn fyrir þjóðkirkjuna. Stefnumótunin er öll hin áhugaverðasta og hana má nálgast hér. Þar var heilum lið varið í að ræða um starfsmannamál og sýnir það framsýni stefnunnar. Markmið starfsmannastefnunnar er sett fram á stuttan og greinargóðan hátt svohljóðandi:

Þjóðkirkjan vill hafa á að skipa hæfu og áhugasömu starfsfólki. Hún vill skapa því góð starfsskilyrði og möguleika til að vaxa og dafna í starfi. Kirkjan vill vera góður vinnustaður, þar sem gott starf er unnið af áhugasömu, samstilltu og ábyrgu fólki í anda jafnræðis.
Síðan eru dregin fram átta atriði sem tryggja eiga að markmið starfsmannastefnunnar nái fram að ganga. Þau eru: 1) aukin áhersla á samstarf, 2) efld afleysingaþjónusta, 3) aukið sjálfboðaliðastarf, 4) starfsmannaviðtöl á hverju ári, 5) að lögð sé vinna í starfsþjálfun, endur- og símenntun, 6) að tekið sé tillit til fjölskylduhags þeirra semt vinna í kirkjunni, t.d. með sveigjanlegum vinnutíma, 7) útbúin verði starfslýsing fyrir hvert starf og 8) að ágreiningsmál verði leyst fljótt og vel.

Allir þessir málaflokkar eru gagnlegir útgangspunktar um það sem brennur á þeim sem starfa í kirkjunni. Níunda atriðið hefði að ósekju mátt fjalla um prestssetramál, því að fátt markar eins vellíðan eða vansæld prestsfjölskyldna í strjálbýli eins og sá staður sem þeim er gert að byggja.

Auk þeirrar stefnumótunarvinnu sem ég hef hér getið var starfsmannastefna þjóðkirkjunnar samþykkt á kirkjuþingi 2002. Stefnumótunarvinnan átti að endurskoðast 2010 og starfsmannastefnan “eftir þörfum”. Starfsmannastefnu þjóðkirkjunnar má nálgast hér. Í upphafi þeirrar stefnu er getið meginmarkmiða sem eru nánast samhljóma þeim markmiðum sem seinna birtust í stefnumótun þjóðkirkjunnar. Síðan koma undirkaflar þar sem rætt er um: 1) ábyrgð og skyldur stjórnenda og starfsmanna, 2) upplýsingar, boðmiðlun og samskipti, 3) Jafnrétti, starf og fjölskyldu, 4) skipun og ráðningu starfsmanna, 5) starfsþjálfun, 6) símenntun og handleiðslu, 7) starfsmannaviðtöl, 8) launamál og orlof, 9) siðareglur og starfsaga, 10) starfsaðstöðu og starfsumhverfi og 10) loks framkvæmd og gildistíma.

Af öllu þessu má ráða að þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu í starfsmannamálum og er það vel. Öðru máli gegnir um það hvernig hefur gengið að framfylgja því sem ákveðið hefur verið. Sýnir það veikleika stefnumótunarvinnunnar að hún birtir markmiðin og verkefnin, en leiðirnar til úrlausnar vantar. Í þessi mikilvægu skjöl vantar að tilgreina hver eigi að sjá um að stefnunni sé framfylgt, hvernig það verði best gert og hver eftirfylgdin eigi að vera.

Boðskapurinn sem þjónar kirkjunnar flytja í sveit, bæ og borg, í vígðri þjónustu, launuðu og ólaunuðu starfi er það dýrmætasta sem sem kirkjan getur boðið öðru fólki. Það er vegna boðskaparins sem við erum send út til að sinna kærleiksþjónustu, fræðslu, menningarstarfi, helgihaldi og boðun. Sum gera það með því að skúra kirkjuna. Önnur skíra börn eða veita æskulýðsfélaginu forgöngu, rita fundargerðir sóknarnefndar, jarða, sækja héraðsfundi, vera með sunnudagaskólann eða dytta að kirkjunni. Allt miðar þetta í þá átt að við erum farvegur fyrir erindið sem Kristur sendi okkur með. Eða hvað segir ekki postulinn:

Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi. (2. Kor. 3:2-3).
Ef við sem erum lærisveinar Krists erum “hjartaspjöld úr holdi” og “bréf” eins og Páll segir, þá skiptir miklu máli að póstþjónustan sé í lagi. Það þarf að hlúa að bréfunum og halda utan um hjörtun á mjög skýran og markvissan hátt og í anda þeirrar stefnu sem kirkjan hefur markað sér og þarf að uppfæra og aðlaga að nýjum tímum.

Ég held að þessi póstþjónusta starfsmannanna skipti gríðarlega miklu máli á þeirri öld sem við lifum. Ég hef tvisvar upplifað það í starfi að komast nálægt því að bræða úr mér. Í annað skiptið voru það vönduð samtöl hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem hjálpuðu mér frá því að kulna í starfi, í síðara skiptið fékk ég stutt námsleyfi á heppilegum tíma. Kraftur, áhugi og brennandi trú eru ekki sjálfgefnar orkulindir, heldur eitthvað sem þarf að huga að vernda, varðveita og meta. Annars beyglast hjartaspjöldin og bréfið týnist í póstinum. Og það sem einu sinni hefur verið beyglað tekur tíma að rétta úr kútnum aftur.

Nú þegar biskupskosningar standa fyrir dyrum og framtíðarsýn kirkjunnar er rædd, þarf að byrja á því að huga að heilsu og starfsgleði prestanna og djáknanna, vegna þeirrar yfirsýnar sem þeir hafa yfir starfið í söfnuðunum og þeirrar sérstöku ábyrgðar sem að biskupinn hefur gagnvart hinni vígðu þjónustu. Þvínæst þarf að sinna vel um hina launuðu starfsmenn safnaðanna, t.d. með ráðgjöf við sóknarnefndirnar sem starfsmennirnir standa í vinnuréttarlegu sambandi við og með því að ítreka ákvæði starfsmannastefnunnar, t.d. um jafnrétti, að allar stöður séu auglýstar og að starfsmönnum beri ákveðin vinnuskilyrði.

Starfsmannastefnan er óendanlega mikilvæg og við eigum að flagga henni, glíma við hana, uppfæra hana og fara eftir henni. Starfið er til vegna boðskaparins og stjórnsýslan er til svo að starfið sé gott. Ég tel að það eigi að vera forgangsmál nýs biskups að endurskoða starfsmannastefnuna í samtali við þau sem þjóna í kirkjunni. Í þetta skiptið þurfum við að láta það fylgja með hvernig stefnunni verði best framfylgt. Virkja þarf prófastana til að skipuleggja í auknum mæli afleysingar og símenntun hinna launuðu starfsmanna. Ráð þarf menntaðan starfsmannastjóra til að fylgja málinu eftir, taka viðtöl við starfandi presta og djákna og leggja endurskoðaða starfsmannastefnu fyrir kirkjuþing. Ræða þarf við presta og djákna um það hvernig best er að koma fyrir faglegri handleiðslu í framtíðinni. Ég tel að brýnna sé að ráða starfsmannastjóra heldur en biskupsritara og mun beita mér fyrir því ef ég næ kjöri sem biskup. Hugsum um hjartaspjöldin og komum erindi Krists á framfæri, því bréfi sem okkur er treyst fyrir.

Síðasti liður stefnumótunarinnar gerði ráð fyrir því að “ágreiningsmál yrðu leyst fljótt og vel”. Kannski er það táknrænt að einmitt sama ár og stefnumótunin tók gildi var lögð fram tillaga á kirkjuþingi um stofnun handleiðsluteymis innan íslensku þjóðkirkjunnar, sem skyldi aðstoða við úrlausn ágreiningsmála. Tillagan var borin fram af sr. Guðjóni Skarphéðinssyni og sr. Sighvati Karlssyni, en auk þeirra unnu sr. Elínborg Gísladóttir og sr. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir að gerð hennar. Tillöguna má nálgast hér. Hún náði ekki fram að ganga á sínum tíma, sem er mikil synd, því að hún er gott innlegg inn í þessa umræðu um starfsmannamálin. Er ekki kominn tími til að taka hana upp aftur?