Pílagrímafélagið

Pílagrímafélagið

Það sem gerist við Biblíulestur gerist á afar breiðu tíðnisviði, ef svo má að orði komast. Það eru ekki bara augun sem lesa og heilinn sem vinnur úr heldur hlustar maður og bragðar á með öllum líkamanum. Ég held að sannleikur Biblíunnar felist ekki síst í því að þegar maður iðkar lestur hennar í bæn og virkri hlustun langar mann minna og minna til þess að ljúga. Ég segi það fyrir sjálfan mig að lygin í mínu hjarta hefur minna slagrými eftir að ég hóf gönguna.

Ég þekki konu sem fékk athyglisverða áskorun frá vinum sínum á nýju ári. Það var skorað á hana að ná því að geta staðið á annari hendi uppi við vegg með höndina ofn á ketilbjöllu. Hún tók áskoruninni og núna er hún langleiðina komin með að ná þessu. Þær eru margar og misjafnar áskoranirnar sem hægt er að taka. Hví í ósköpunum skyldi einhver vilja geta staðið á hannari hendi ofan á ketilbjöllu? Í sjálfu sér hefur þessi líkamsstaða auðvitað engan tilgang en leiðin að markmiðinu getur verið mjög áhugaverð. Við vitum að Vilborg Arna pólfari kynntist sjálfri sér ekki síður en suðurpólnum á göngunni frægu og okkur hefur örugglega flestum þótt áhugavert að sjá og heyra viðtöl við þessa einbeittu og glöðu manneskju sem kemur full af orku úr verkefni sem maður hefði haldið að kostaði bara orku. Hefur þú einhverntíman tekið áskorun? Við förum ekki öll á pólinn eða leysum akróabtíksar þrautir, samt geta áskoranir sem við tökum skipt miklu máli. Það er eitthvað sem gerist þegar maður tekur áskorunum og einbeitir kröftum sínum. Vinkona mín með ketilbjölluna er einmitt mjög öflug og lífsglöð manneskja sem tekur sjálfa sig ekki hátíðlega en nýtur þess að lifa af alefli. Mig langar að segja ykkur frá áksorun sem ég tók í haust. Ég tók áskorun um að lifa ósviknu andlegu lífi. Þetta hljómar ögn offsatrúað og það verður bara að hafa sig. Við vorum tveir í byrjun, ég og félagi minn, sem hófum að hittast reglulega til íhugunar og bænar með Biblíuna í hönd. Hvern dag lesum við í ritningunni eftir einföldu kerfi og skuldbindum okkur líka til fyrirbæna samkvæmt samráði hópsins. Það er dálítið átakanlegt að viðurkenna það verandi í minni stöðu að það hefur komið mér á óvart hvað gerist þegar maður les Biblíuna reglubundið. Auðvitað hef ég lesið Biblíuna reglubundið þannig séð af því ég vinn við að prédika, en þessi iðkun hefur komið mér á óvart á máta sem ég bjóst ekki við. Biblían er erfitt bókasafn. Við lifum á ritstýrðum fótósjopperuðum tímum þegar enginn gefur út texta nema hann renni smurt. Öll grafík á að gleðja augað og sé eitthvað röff verður það líka að vera töff, því við kaupum bara stílíseraðan ljótleika. En Biblían er frekar illa ritstýrð og engar myndir fylgja. Textinn er oft leiðinlegur og stundum mótsagnakenndur. Samræmi skortir í stíl milli bóka að ekki sé nú talað um allt ranglætið sem látið er óátalið; þrælahald og kvennakúgun í bland við hernaðarhyggju... og innan um saman við þetta allt koma síðan bókmenntaperlur og fagrir kaflar um ást og trúmennsku þar sem krafan um réttlæti og sannleika bergmálar milli veggja að ekki sé talað um frásagnirnar af Jesú og öllu sem hann sagði og gerði sem toppar allt annað. Við köllum okkur Pílagrímafélagið. Núna erum við orðinr þrír en vitum af nokkrum fleiri sams konar hópum úti í bæ. Einn hittist m.a.s. á kaffiúsi. Undanfarið höfum við verið að lesa bréf Páls postula. Þar er nú aldeilis margt sem engin útgáfa léti frá sér fara. En það sem mér þykir eftirtektarverðast er breytingin sem á sér stað í sjálfum mér við þessa iðkun. Við tölum um að lesa með eyrunum, lesa og hlusta.

„Einhver segir: „Kalla þú,“og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“„Allt hold er grasog allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.Grasið visnar, blómin fölnaþegar Drottinn andar á þau.Sannlega eru mennirnir gras.” Þetta er lexía Biblíudagsins sem er í dag. Heyrir þú samtalið sem er í textanum? „Einhver segir: „Kalla þú,“og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“„Allt hold er grasog allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.Grasið visnar, blómin fölnaþegar Drottinn andar á þau.Sannlega eru mennirnir gras.” Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“ (Jes 40.6-8) Það sem gerist við Biblíulestur gerist á afar breiðu tíðnisviði, ef svo má að orði komast. Það eru ekki bara augun sem lesa og heilinn sem vinnur úr heldur hlustar maður og bragðar á með öllum líkamanum. Ég held að sannleikur Biblíunnar felist ekki síst í því að þegar maður iðkar lestur hennar í bæn og virkri hlustun langar mann minna og minna til þess að ljúga. Ég segi það fyrir sjálfan mig að lygin í mínu hjarta hefur minna slagrými eftir að ég hóf gönguna með Pílagrímafélaginu. „Hvaða synd þarftu að játa?” spyrjum við hver annan m.a. þegar við hittumst. „Hvaða synd þarftu að játa?” Biblían er eins og ég og þú. Hún er mótsagnakennd. Hún er bæði myrk og björt, leiðinleg á köflum en gjörsamlega dýrleg þess á milli. Svo er í rauninni ekki búið að skrifa hana og það sem gerist við lestur og virka hlustun er það að maður kynnist sjálfum sér og einhverjum... einhverjum sem segir: „Kalla þú,“og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“ Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að Biblían sé lifandi Orð. Það er röddin. Það er samtalið sem verður til. Þú heyrir það ekki með eyrunum en finnur það í veru þinni og þig hættir að langa til að ljúga. „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt.” (Mrk 4.26) Þessi orð Jesú úr Guðspjalli dagsins þykja lýsa reynslu manna í þessum efnum. Það er eitthvað við Guðs Orð sem felur í sér líf, líkt og fræ felur í sér líf. En pössum okkur á einu. Biblían er ekki Guðs Orð í bókstaflegum skilningi. Það er haft eftir Churchill að lýðræði sé versta stjórnarfar sem menn þekki, - að frátöldu öllu öðru sem reynt hafi verið. Það er dálítið þannig  með Biblíuna. Hún er ferleg og það er fyrirhafnarmikið að vera samferða henni og jaðrar á köflum við að vera klúrt. En þau sem gera hana að dagbók sinni skygnast inn í frelsi sem áður var óþekkt og í dýpstu veru sinni byrja þau að heyra einhvern. „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt.” Ég talaði um áskoranir hér áðan. Samt gerist þetta ekki með átaki, ekki fyrir dugnað eða gáfur, næmni eða neina hæfileika heldur sjálfkrafa af því að sannleikurinn býr í Orðinu. Og dag einn áttar þú þig á því að þú ert fyrir löngu orðin(n) aðili að samtali. Einhver segir og þú spyrð og svörin sem þú færð birtast í friði og gleði og leiða til farsældar. Pistill Biblíudagsins er ekki valinn af handahófi. Hann lýsir þessari reynslu frá sjónarhóli ófullkominnar manneskju: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. (Heb 4.12-13) Ég veit ekki með þig, en ég þekki sjálfan mig það vel að ég þarf á þessu Orði að halda. Orðinu sem smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar og dæmir hugsanir og hugrenningar hjarta míns. En það er bara vegna þess að ég á svo erfitt með að vera sjálfum mér samkvæmur. Ég þarf þetta Orð, þetta tvíeggjaða sverð, til þess að týnast ekki í gremju og áhyggjum. Og svo þarf ég líka, og raunar enn fremur, að fá að heyra Orðið þegar það hrósar mér og huggar mig og segir mér að ég sé dýrmætur og elskuverður og að ég skuli ekki gefast upp heldur treysta og trúa. Loks bendir Orðið mér út fyrir sjálfan mig og krefur mig um að bera ávöxt. „Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt” segir Jesús „fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“ Uppskeran! Hún er ekki það að ég hætti að lifa í gremju og áhyggjum. Uppskeran er ekki heldur sú að ég eigi frið í sjálfum mér og stígi út úr óttanum. Hið fullvaxna hveiti í dæmisögu Jesú, - hvað skyldi það vera? Ég get bara talað um sjálfan mig. Ég nota líkingu Jesú þannig fyrir mig að ég læt stráið tákna feginleikann yfir því að þurfa ekki að styðjast við gremju, axið læt ég tákna reynsluna af ást Guðs eins og hún snýr að mér og byggir mig upp í Orðinu, en að því leyti sem ég mæti öðrum af sanngirni og eyk á frelsið í umhverfi mínu, - að því leyti trúi ég að orð Jesú um fullvaxið hveiti í axinu eigi við mitt líf. Já, að því marki sem aðrir sjá Krist í mér, að því leyti sem ég lifi öðrum til góðs er ávöxturinn fullþroska. Maður þarf ekki að ganga í formleg félög til að lesa og þekkja Guðs Orð. Orð Guðs finnur sér farveg og vinnur sitt verk í veröldinni hvað sem öllu öðru líður. En það hjálpar mér að eiga samferðamenn eins og vini mína í Pílagrímafélaginu, líka í 12 sporavinnunni Vinum í bata og eins hér í okkar reglubundna helgihaldi í kirkjunni. Það hjálpar mér að hafa tekið áskorun um að lifa ósviknu andlegu lífi og vera rukkaður um það vikulega. Þess vegna langaði mig að segja ykkur frá. Amen. Textar: Jes 40.6-8 Heb 4.12-13 Mrk 4.26-32