Jákvæðni

Jákvæðni

Ég hef því regluega frá hruni brugðið á það ráð að taka mér fréttafrí. Þegar mér finnst fréttirnar ætla að læðast aftan að mér og toga mig niður í áhyggjupott skuldafensins og svartnættisins þá fæ ég mér fréttafrí. Viti menn, ég snarhressist við það.
fullname - andlitsmynd Bára Friðriksdóttir
10. júní 2011

Jákvæðni, hvað er það? Það er von að spurt séá þeim tímum þegar endalaust er dregið fram neikvætt sjónarhorn á hinu og þessu bæði í fjölmiðlum og manna á milli. Reyndar hefur verið full ástæða til neikvæðni síðustu misserin en þá er þörfin fyrir jákvæðni enn meiri. Mig langar til að ræða um jákvæða og önnur gæði á næstu dögum. Eitthvað sem einblínir ekki inn í neikvæðnina heldur lítur í aðra átt. Bjartari átt. Það er ágæt lýsing á jákvæðni.

Hinn jákvæði vill horfa inn til ljóssins en ekki til myrkursins. Hvaða áhrif hefur það? Hver sem beinir sjónum sínum til ljóssins verður fyrir áhrifum þess. Það birtir upp í sálinni og viðkomandi getur betur tekist á við það sem bíður. Hinn sem rýnir lengi í myrkrið verður fyrir áhrifum þess. Ég botna ekkert í afhverju fréttirnar leita svona á mig! Við Íslendingar vitum hvaða áhrif þessar stöðugt neiðvæðu fréttir hafa á okkur. Í of miklum mæli þá draga þær okkur niður.

Ég hef því regluega frá hruni brugðið á það ráð að taka mér fréttafrí. Þegar mér finnst fréttirnar ætla að læðast aftan að mér og toga mig niður í áhyggjupott skuldafensins og svartnættisins þá fæ ég mér fréttafrí. Viti menn, ég snarhressist við það. Sumir gætu þetta ekki því þeir eru svo hræddir við að missa af einhverju. Ég hef komist að því að ef það koma einhverjar STÓRAR FRÉTTIR þá heyri ég þær þrátt fyrir fríið mitt. Hitt má jafn dautt liggja því ég er að hlaða batteríin og horfa inn í birtuna. Eða eins og íslenska orðabókin segir um jákvæðni þá er það m.a. að beina athyglinni fremur að verðmætum lífsins en skuggahliðum þess.

Jákvæðnin sér möguleikana í stöðunni en ekki aðeins hindrunina. Jákvæðnin finnur leið framhjá hindruninni og horfir til þess sem er handan þess er hindrar. Jákvæðni er heilmikið skyld voninni. Á meðan hinn neikvæði sér glasið hálftómt sér hinn jákvæði það hálffullt. Ég ætla að horfa inn í birtuna.