Að rjúfa ekki hefðina - dæmisaga

Að rjúfa ekki hefðina - dæmisaga

Nefnd á vegum forsætisráðherra lauk störfum og beindi þeim tilmælum til Þjóðkirkjunnar að hún vígi karla sem presta. Í skýrslu um réttarstöðu karla segir: Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til að breyta afstöðu sinni á prestvígslu karla þannig að karlar geti fengið vígslu eins og konur.

Nefnd á vegum forsætisráðherra lauk störfum og beindi þeim tilmælum til Þjóðkirkjunnar að hún vígi karla sem presta.  Í skýrslu um réttarstöðu karla segir: Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til að breyta afstöðu sinni á prestvígslu karla þannig að karlar geti fengið vígslu eins og konur.  Nefnd um kynleg málefni Þjóðkirkjunnar hefur fjallað um málið á fundum sínum.  Fyrir Alþingi var á haustdögum lagt fram stjórnarfrumvarp til laga um réttarstöðu karla.  Lagafrumvarpið sem felur í sér auknar réttarbætur körlum til handa var samþykkt á vordögum á Alþingi.  Lögin fela ekki í sér breytingar á skilgreiningu á prestsembættinu og vígslu.

Meginviðfangsefni til umræðu innan kirkjunnar

Ljóst er að víða í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu, er fjallað neikvætt um stöðu karlsins og hefur þeim ritningarstöðum verið beitt gegn körlum.  Sumir túlka þá ritningarstaði þannig að þarna sé karllegt eðli fordæmt sem slíkt.  Aðrir telja þá ritningarstaði standa í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu samhengi síns tíma og beri að skilja þá út frá því. Að mati nefndar um kynleg málefni snerta þessir ritningarstaðir ekki trúargrundvöllinn svo að ágreiningur um túlkun þeirra sundri einingu kirkjunnar.  Aðkoma kirkjunnar að prestvígslu byggir á því að ríkt hefur samskilningur menningar, löggjafar og trúar hvað varðar skilgreiningu á prestvígslu svo að umræðan á endurskilgreiningu prestvígslu og prestembættis varðar samstöðu kirkju og samfélags.  Kirkjan viðurkennir önnur form kirkjulegrar þjónustu til viðbótar prestvígslunni.  Kirkjan er kölluð til að þjóna og bera frelsaranum vitni í heiminum.  Karlar og fjölskyldur þeirra hafa oft mætt andúð og fordómum.  Þeir þurfa því sérstaka umhyggju og stuðning  hins kristna samfélags til að endurheimta og varðveita sjálfsmynd sína sem Guðs börn og hluti hans góðu sköpunar.  Öll eigum við að lifa samkvæmt kærleiksboðinu:  ,,Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og náunga þinn eins og sjálfan þig.”

Ályktun og verkferli

  1. Þjóðkirkjan viðurkennir að kyn fólks sé mismunandi og ítrekar að karlar eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindi hans.
  2. Þjóðkirkjan vill styðja allt kristið fólk í viðleitni þess til að temja sér ábyrgan lífstíl og hvetur alla, jafnt konur sem karla, til að hlýða köllun Krists til náungakærleika og ábyrgðar í kynlífi, sambúð og fjölskyldulífi.
  3. Þjóðkirkjan styður prestvígslu sem kvenlega þjónustu á forsendum hins kristna kærleika.  Þjóðkirkjan styður ennfremur önnur þjónustuform á sömu forsendum.
  4. Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af karlkyni sem vilja taka þátt í helgri þjónustu af ást og trúmennsku og staðfesta þjónustu sína og skuldbindingar. Þjóðkirkjan heimilar prestum sínum að blessa kirkjulega þjónustu karla samkvæmt þar til ætluðu formi.
Þetta verkferli verður kynnt á Prestastefnu og Kirkjuþingi.  Helgisiðanefnd kynnti á prestastefnu þrjár tillögur að formi fyrir blessun staðfestrar kirkjulegrar þjónustu karla og verða þær tillögur til reynslu innan kirkjunnar í eitt ár.

Prestastefna – túlkun og helstu niðurstöður

Tillaga um prestvígslu karla var kolfelld á Prestastefnu.  Tillaga um að ganga skrefinu lengra en ályktun nefndar um kynleg málefni var ekki borin upp til atkvæða vegna dagskrártillögu sem fól í sér að málinu yrði vísað beint til biskups.  Var það samþykkt naumlega.  Sú tillaga fól í sér vígslu en þó ekki prestvígslu.  Ályktun nefndar um kynleg málefni var hins vegar samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.  Sú samþykkt felur í sér mikilvægan grunn að áframhaldandi samtali.  Viðurkennt er að ekki er hægt að nota Biblíuna til að vinna gegn réttindum karla.  Og jafnframt er ljóst að kirkjan er tilbúin að blessa karla í staðfesta kirkjulega þjónustu.  Ekki er talið ráðlegt að svo komnu að gera prestvígsluna kynhlutlausa enda mundi það rjúfa aldagamla hefð kirkjunnar og samhljóm sem verið hefur í menningu og löggjöf frá öndverðu.  Ljóst er því að tillaga um prestvígslu karla var með öllu ótímabær. Mikilvægt er að taka svo róttækt skref í fullri sátt því eining kirkjunnar er í húfi.  Stórstígar breytingar eru til þess fallnar að rjúfa eininguna og góðir hlutir gerast hægt.

Byggt á fjölrituðu hefti, ,,Þjóðkirkjan og staðfest samvist.  Drög að ályktun kenningarnefndar...”, og raunverulegum atburðum.