Fríkirkjan í Reykjavík afmæliskveðja

Fríkirkjan í Reykjavík afmæliskveðja

Ég minnist þess með mikilli hlýju og virðingu og blessa minningu þeirra góðu drengja og annarra sem borið hafa uppi helga þjónustu af virðingu, trúfesti og kærleika.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
21. nóvember 2009

Fríkirkjan í Reykjavík

Ég árna Fríkirkjusöfnuðinum í Reykjavík heilla í tilefni 110 ára afmælis safnaðarins. Í rúma öld hefur Fríkirkjan í Reykjavík laðað til helgra tíða, leitt fólk til að heyra fagnaðarerindið, borið börnin til skírnar, frætt hina ungu um Jesú Krist, signt hvílu hinna látnu. Guði sé lof fyrir það.

Ég þakka góðar stundir sem ég naut þar innan veggja sem barn og ungur maður. Þangað var gott að sækja, við fagran söng þegar Sigurður Ísólfsson sat við orgelið og leiddi kórinn sinn af metnaði og reisn, og þegar séra Þorsteinn Björnsson flutti messugjörð með sinni fögru söngrödd og nærandi prédikun. Ég minnist þess með mikilli hlýju og virðingu og blessa minningu þeirra góðu drengja og annarra sem borið hafa uppi helga þjónustu af virðingu, trúfesti og kærleika.

Tilkoma Fríkirkjunnar í Reykjavík var ekki síst óþol í ört vaxandi bæ vegna tregðu kirkjuyfirvalda að mæta þörfum breyttra tíma. Prestum fékkst ekki fjölgað í höfuðstaðnum og Dómkirkjan gamla annaði vart hlutverki sínu lengur. Enn heilli öld síðar á þjóðkirkjan okkar á Íslandi langt í land með að sýna sveigjanleika og snerpu andspænis örum breytingum og sviptingum daganna þótt margt hafi breyst og er það ekki við ríkisvald að eiga. Nú að öld liðinni ættu Fríkirkjan og þjóðkirkjan á Íslandi að ganga með djörfung og þrótti fram, saman sem samhuga systur í sömu þjónustu fagnaðarerindis Jesú Krists. Ekki í samkeppni um sálir heldur í samstöðu um markmiðið háa sem er fagnaðarerindið. Það er um sál íslenskrar þjóðar að tefla, að hún verði kristin þjóð í anda og sannleika. Og það gerist aðeins ef við leggjum okkur fram og leyfum orði Krists og anda að leiða okkur, við sem viljum vera kristin.

Þegar Fríkirkjusöfnuðurinn var stofnaður var mikil hreyfing í þjóðfélaginu í átt til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Margir töldu þá að dagar þjóðkirkjunnar væru taldir, leifar konungsvalds og úreltra þjóðfélagshátta. Svo hefur ekki reynst vera. Í söfnuðum þjóðkirkjunnar um land allt er unnið þróttmikið, lifandi kirkjustarf af trúum og vel menntuðum prestum og djáknum, sóknarnefndarfólki, tónlistarfólki, barnafræðurum og launuðu starfsfólki og sjálfboðaliðum sem þjóna þjóðinni, einstaklingum og samfélagi án manngreinarálits af virðingu og kærleika. Þjóðkirkjan hefur líka beitt sér fyrir samstarfi trúfélaga á grundvelli skilnings og virðingar, bæði meðal kristinna trúfélaga og annarra trúarbragða.

Enn og aftur er kallað eftir aðskilnaði ríkis og kirkju. Oft virðist þó óljóst hvað átt er við þegar rætt er um aðskilnað. Það eru nefnilega margskonar valkostir til. En ekkert þjóðríki sem við viljum bera okkur saman við lætur sig átrúnað landsmanna engu varða. Stjórnarskrárbundinn sess þjóðkirkjunnar á við söguleg og menningarleg og samfélagsleg rök að styðjast, en er fráleitt hafinn yfir gagnrýni. Öll Norðurlöndin búa við hliðstæð form sambands ríkis og kirkju og við, þó með ýmsum tilbrigðum sé. Þau ríki teljast vera í fremstu röð hvað trúfrelsi varðar. Skyldi það vera tilviljun? Íslenska þjóðkirkjan er um margt frjálsar tengd ríkisvaldinu en þær flestar, og ræður sér að mestu sjálf, og má segja að samband ríkis og kirkju sé umfram allt á grundvelli samstarfs.

Mér finnst skipta mestu að tilvera þjóðkirkju er tjáning samstöðu um grundvallar gildi, samstöðu um siðinn í landinu. Þar standa Fríkirkjan og þjóðkirkjan á sama grunni, og ættu að standa saman vörð um þann arf er vér bestan fengum. Hvað sem líður samskiptum ríkis og kirkju þá má okkur ekki vera sama um samskipti þjóðar og kirkju, að kirkjan geti mætt þjóðinni allri án manngreinarálits og innt af hendi þjónustu orðs og sakramenta, bænar, boðunar og þjónustu til sjávar og sveita um land allt.

Á fyrsta aldarfjórðungi ævi sinnar var Fríkirkjan stækkuð tvisvar og varð stærsta samkomuhús bæjarins. Okkur finnst undarlegt að sú hafi verið tíðin að kirkjur Reykjavíkur rúmuðu ekki þá sem þangað vildu leita til helgra tíða. En þannig var það. Skyldi sú tíð koma á ný? Skyldi sú stund koma að þorsti og þrá leiði fólk að lífsbrunni fagnaðarerindisins á ný? Við sem unnum orði Guðs og helgri kirkju hans ættum að sameinast í bæn til Drottins um slíka vakningu, og að hún byrji í hjörtum okkar!

Ljósmynd með pistlinum