Faglegt æskulýðsstarf

Faglegt æskulýðsstarf

Það er að mörgu að hyggja þegar standa á að góðu og faglegu æskulýðsstarfi. Það er sannfæring okkar að öflugt og vandað æskulýðsstarf sé eina leiðin til að tryggja framtíð íslensku Þjóðkirkjunnar.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
09. júlí 2012
Meðhöfundar:

Á Kirkjuþingi 2010 var afgreidd þingsályktun um heildarskipan þjónustu kirkjunnar (7. mál), þar sem megináherslur um þjónustu kirkjunnar voru samþykktar og Kirkjuráði falið að fylgja eftir framkvæmd hennar.  

Í þeirri skýrslu segir m.a.: “Sókninni ber að veita fræðslu í kristinni trú og sið og styðja þannig heimilin í trúaruppeldi þeirra með barnastarfi, fermingarundirbúningi og æskulýðsstarfi. Með því skal séð til þess að þau sem skírð eru fái kristið uppeldi og fræðslu, læri að biðja og verða handgengin Heilagri ritningu og hljóti leiðsögn, uppörvun og stuðning til að lifa trú sína í daglegu lífi og starfi.”

Í greinagerð með þessu þingmáli kemur margt ítarlegt og gott fram um þjónustu og þjónustuskyldur kirkjunnar gagnvart sóknarbörnum sínum, líkt og fjölda samverustunda flokkað eftir aldursskeiðum svo og hvaða menntunarkröfur beri að gera til æskulýðs- eða fræðslufulltrúa sem hafa umsjón með barna- og unglingastarfi í kirkjum landsins.*

Varðandi menntun og hæfni þeirra sem hafa umsjón með æskulýðsstarfi kirkjunnar segir í sömu skýrslu: „Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi hefur umsjón með og sinnir barna- og unglingastarfi eða annarri fræðslu við ákveðinn söfnuð eða söfnuði, samstarfssvæði, prófastsdæmi eða aðrar starfseiningar kirkjunnar.

Um menntun og þjálfun segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi skal hafa hlotið menntun á sviði guðfræði, uppeldis- og menntunarfræði, eða sambærilega menntun.

Um helstu verkefni segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi getur leitt barna- og fjölskylduguðsþjónustur og helgistundir í umboði og á ábyrgð sóknarprests. Hann skal stuðla að þátttöku barna og unglinga í helgihaldi safnaðarins.

Um boðun og fræðslu segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi hefur umsjón með eða sinnir foreldrastarfi, barnastarfi, fermingarstarfi, unglingastarfi og fullorðinsfræðslu í samstarfi við presta. Hann er í samstarfi við leikskóla/skóla, stofnanir og félagasamtök um heimsóknir og fræðslu. Kærleiksþjónusta, sálgæsla og hjálparstarf. Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi er vakandi yfir velferð skjólstæðinga sinna og vísar þeim til djákna eða prests hvað varðar sálgæsluviðtöl. Hann fræðir um hjálparstarf og kærleiksþjónustu og hvetur til þátttöku.

Um menningu og listir segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi skapar vettvang fyrir menningu barna og unglinga í kirkjustarfinu og kennir þeim að meta menningu og hefðir kirkjunnar.

Um staðbundna þjónustu og nýjar leiðir segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi er fulltrúi kirkjunnar í samskiptum við aðra aðila í samfélaginu sem sinna barna- og unglingastarfi á svæðinu og tekur þátt í að vinna að almennri velferð barna og ungs fólks. Æskulýðsfulltrúi/fræðslufulltrúi leitar nýrra leiða og lagar starf sitt að þörfum þeirra hópa sem eru á starfssvæðinu.

Um yfirmenn og samstarfsaðila segir: Æskulýðsfulltrúi / fræðslufulltrúi er ráðinn af sóknarnefnd eða héraðsnefnd og sinnir verkefnum samkvæmt starfslýsingu og ráðningarsamingi. Æskulýðsfulltrúar/fræðslufulltrúar starfa með presti, djákna og öðru starfsfólki safnaða eða innan þeirrar einingar sem þeir starfa í. Þeir hafa umsjón með launuðu og ólaunuðu starfsfólki í barna- og æskulýðsstarfi. Æskulýðsfulltrúar / fræðslufulltrúar sjá um samstarf við aðra aðila innan kirkjunnar sem sinna barna- og unglingastarfi, s.s. er varðar leiðtogafræðslu og önnur sameiginleg verkefni.“

Sé litið yfir stöðu mála í æskulýðsstarfi kirkjunnar hefur orðið mikil breyting á skömmum tíma og það er víðsfjarri að farið sé eftir ofangreindri samþykkt. Fullyrða má að niðurskurður sóknargjalda og forgangsröðun safnaða hafi kippt fótunum undan faglegum forsendum í æskulýðsstarfi kirkjunnar. Fyrir örfáum árum var í meirihluta kirkna í Reykjavíkurprófastsdæmum starfandi fagaðili sem hafði umsjón með og bar ábyrgð á æskulýðsstarfinu. Í dag eru starfsliðir í flestum tilfellum bornir uppi af verktökum sem hafa einungis viðveru í starfinu og hafa ekki tök á að sinna þeirri flóknu umsýslu sem faglegt barna- og unglingastarf krefst.

Varðandi þróun á landsbyggðinni má nefna að Í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi var 50% skólaprestsstaða skorin niður á sama tíma og Kirkjuþing var að samþykkja ofangreinda þingsályktun. Smærri prestaköll í víðfeðmum prófastsdæmum þurfa sérstakan stuðning til þess að geta byggt upp æskulýðsstarf. ÆSKEY, æskulýðssamtök Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis hafa allt frá 2005 verið borin uppi af stóru söfnuðunum á Akureyri, meira og minna á eigin kostnað og starfsmenn þeirra kirkna unnið þessa vinnu í sjálfboðnu starfi. Án stuðnings frá starfsmanni í prófastsdæminu er það verkefni orðið söfnuðunum ofviða. Þetta hefur sérstaklega átt við um mót og námskeið á vegum ÆSKEY.

Breytinga er þörf og yfirstjórn kirkjunnar þarf að axla þá ábyrgð að hlúa að grunnstoðum æskulýðsstarfs kirkjunnar, til að uppbyggingarstarf undangenginna ára verði ekki að engu. Í þessari breyttu stöðu er jafnframt brýnt að minna forsvarsmenn safnaða og yfirstjórn kirkjunnar á þá ábyrgð sem hvílir á þeim aðilum sem standa fyrir félags- og tómstundastarfi með börnum og unglingum. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nýverið endurskoðað samantekt á þeirri ábyrgð, sem unnin er af Ragnhildi Helgadóttur prófessor, en hana má m.a. nálgast á skrifstofu ÆSKÞ.

Æskulýðslög frá 2007 segja til um að umsjónarfólk í skipulögðu æskulýðsstarfi þurfi að hafa viðunandi menntun, þekkingu, reynslu og þjálfun til starfsins. Jafnframt er óheimilt að ráða til starfa starfsfólk sem brotið hefur gegn hegningarlögum er varða líkamlegt ofbeldi, kynferðisofbeldi og fíkniefnabrot og á það jafnt við um sjálfboðaliða og launað starfsfólk. Sé þessa ekki gætt skapast skaðabótaskylda vegna vanrækslu, komi eitthvað fyrir. Söfnuðir geta ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð með því að fela utanaðkomandi aðilum umsjón með starfinu. Samstarf við kristileg æskulýðssamtök eru af hinu góða og ber að efla, en ábyrgð og skyldur hvíla fyrst og fremst hjá sóknunum sjálfum, eins og kemur fram í þingsályktuninni um heildarskipulag þjónustu kirkjunnar.

Þá er það á ábyrgð safnaða að búa æskulýðsstarfinu viðunandi starfsumhverfi og gilda í því sambandi þrenns konar regluvirki, lög um grunnskóla (nr. 90/2008 & 91/2008), lög um öryggi á vinnustöðum (nr.46/1980) og reglugerð um hollustuhætti í umhverfi barna (nr. 941/2002). Regluvirki þetta setur þær skyldur á söfnuði að gerðar eru meiri kröfur til þess rýmis sem barna- og unglingastarfið fer fram í, en gerðar eru til safnaðarheimila almennt. Sé aðstaða óviðunandi skapar það skaðabótaskyldu vegna vanrækslu, komi eitthvað fyrir. Þess ber að geta að í ferðum í barna- og unglingastarfi kirkjunnar bera söfnuðir ekki ábyrgð á húsnæði sem heimsótt er, einungis starfsumhverfi kirkjunnar sjálfrar.

Það er augljóst af ofansögðu að það er að mörgu að hyggja þegar standa á að góðu og faglegu æskulýðsstarfi. Það er sannfæring okkar að öflugt og vandað æskulýðsstarf sé eina leiðin til að tryggja framtíð íslensku Þjóðkirkjunnar. Nú þegar litið er fram á veginn í kirkjunni eigum við að sameinast um þá hugsjón að leggja æskulýðsvettvanginum lið og gera uppbyggingu ungmenna að forgangsverkefni kirkjunnar. Það mun skila sér margfalt til baka, Guði til dýrðar og kirkjunni og söfnuðum hennar til heilla og blessunar.

* Í þessari skýrslu kemur m.a. fram að: “Grundvöllur fræðslustarfs þjóðkirkjunnar er skírnarfræðslan sem hefur það að markmiði að styrkja og fræða hin skírðu á ólíkum æviskeiðum og í margvíslegum verkefnum. Til að ná betur utan um það er því skipt niður eftir aldurskeiði mannsins og um leið lögð áhersla á þau viðfangsefni lífsins sem þá blasa við hjá hinum skírða einstaklingi. Kristin kirkja hefur það hlutverk að fylgja boði Krists að gera þjóðirnar að lærisveinum og skíra þær í nafni föður, sonar og heilags anda og kenna þeim að halda það sem hann hefur boðið. Við skírnarfontinn heita þau sem eru viðstödd af hálfu safnaðarins hinum nýskírðu og fjölskyldum þeirra samfélagi og stuðningi til að takast á við tilveruna og lifa sem kristnir einstaklingar.Frumskylda kristins samfélags er að kenna þeim sem skírð eru að þekkja Guð, elska hann og tilbiðja og að elska náungann eins og sjálfan sig. Fræðsla kirkjunnar hefur það að markmiði að styrkja hvert og eitt okkar til þess að öðlast dýpri skilning á kristinni trú og þroskast sem manneskjur. Fræðsla þjóðkirkjunnar leitast við að þjóna þessu meginmarkmiði.“