Undirbúningur

Undirbúningur

fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
18. desember 2014
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég var drengur starfaði faðir minn hinum megin á landinu um nokkurra mánaða skeið. Þegar heimkoma hans nálgaðist jókst eftirvænting okkar systkinanna og tilhlökkunin eftir því að fá að sjá hann. Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar stóra stundin rann upp og hann kom loksins. Aðventa merkir koma.

Í dag er 3. sd. í aðventu og aðeins rúm vika til jóla. Krafturinn í jólaundirbúningnum eykst með hverjum deginum sem líður. Það er mikið um að vera og mikil eftirvænting í loftinu. Margir nota aðventuna til að efla andann og fara á tónleika, aðventukvöld og ýmsa viðburði sem boðið er upp á á þessum árstíma. Þegar Þorláksmessa rennur upp byrjar jólahaldið hjá sumum. Ýmsum finnst mikilvægt að gera það sama ár eftir ár til að finna jólastemninguna, réttu hughrifin. Samvistir við vini og fjölskyldu eru í forgrunni. Nánd, hlýja og kærleikur skiptir miklu máli á jólum og mörgum finnst vont að vita af fólki sem er eitt á þessari hátíð. Börnin mín buðu oft eimana erlendum stúdentum að vera hjá okkur á aðfangadagskvöld, áður en þau fluttu að heiman, sem var mjög gefandi. Kirkjur eru aldrei betur sóttar en á jólum. Allir vilja finna nærveru Guðs og helgina sem hún veitir.

Við undirbúum okkur undir þetta á aðventunni, komu frelsarans, konungs konunganna. Aðventan hefur í gegnum tíðina verið kölluð jólafasta af því að hún er tími íhugunar. Í dag er Jóhannes skírari í forgrunni. Hann hafði það hlutverk að undirbúa komu messíasar, drottins smurða.

Öryggisverðir sem undirbúa ferðir þjóðhöfðingja stórvelda af kostgæfni kanna byggingar sem þeir eiga að dvelja í og ökuleiðir þeirra. Þegar ég bjó í Afríku kom það nokkrum sinnum fyrir að forseti landsins fór um sama veg og ég. Á undan bílalest hans fóru vopnaðir öryggisverðir sem skipuðu öllum bílum að leggja út við vegarbrún og bíða þar uns til forsetinn og fylgdarlið hans hefði ekið framhjá. Eftir nokkra stund ók bílalest forsetans fram hjá á mikilli ferð og þá var hægt að halda förinni áfram.

Undirbúningur Jóhannesar var ekki á sviði öryggismála heldur að undirbúa hugi fólks. Það gerði hann með því að tala gegn allri tvöfeldni, hræsni og sýndarmennsku. Hann sagði að það væri ekki nóg að vera skráður í trúfélag til að eiga samband við Guð heldur þyrftum við að rækta trú okkar og lifa í samræmi við hana. Hvatning hans til okkar í aðdraganda jóla er sú að við nemum staðar og skoðum líf okkar og tökum sinnaskiptum ef á þarf að halda, horfumst í augu við okkur sjálf en hlaupumst ekki undan því eins og nöðrur sem flýja sinuelda.

Það var hrífandi að fylgjast með fréttum af stórkostlegri björgun hjartalæknis og samstarfsfólks hans á unga manninum sem stunginn var með hnífi fyrr í mánuðinum. Undir venjulegum kringumstæðum hefði hann dáið af áverkum sínum en fyrir snarræði og snilli læknisins og hans fólks tókst að bjarga honum. Ungi maðurinn var afar þakklátur fyrir lífgjöfina og fyrir að hafa fengið annað tækifæri í lífinu. Hann sagði frá því í blaðaviðtali að hann ætlaði að haga lífi sínu á ýmsan hátt öðru vísi í framtíðinni og lifa af meiri alvöru. Þetta er það sem kallað er sinnaskipti. Sinnaskipti snúast um að snúa aftur til þeirra grundvallarviðmiða sem við viljum byggja líf okkar á ef við höfum vikið frá þeim. Mörg dæmi er um að fólk hafi líka kosið sér ný viðmið og skipt alveg um lífsstefnu. Við erum hvött til að hugsa okkar gang.

Mikilvægir ráðamenn þess tíma er Jóhannes skírari kom fram eru taldir upp í guðspjalli dagsins. Á þeim tíma voru hvorki til dómstólar eins og við þekkjum úr okkar samtíð, mannréttindi eða lýðræði. Yfirvöld eru ávallt nálæg í frásögnum guðspjallanna og höfðu mikil áhrif á framvindu sögunnar. Það voru einmitt ráðamenn sem létu taka frelsarann af lífi. Sumir þeirra voru illir og spilltir. En boðskapur Jóhannesar var til þeirra eins og allra annarra. Þeir áttu að fara vel með vald sitt. Hermenn áttu að láta sér nægja launin sín og ekki drýgja þau á óheiðarlegan hátt á kostnað annarra. Það kostaði Jóhannes að lokum lífið að benda Heródesi konungi á spillingu hans og valdníðslu. - Kristin trú tekur til alls mannsins og lífsins í heild. Hún verður ekki einskorðuð við einkalíf okkar. Kjarni hennar er samband okkar við Guð en hún er lítils virði ef hún birtist ekki í verkum okkar og lífi. Við eigum að vera heiðarleg í samskiptum okkar við annað fólk og í störfum okkar.

En aðventan er líka tími eftirvæntingar og biðar. Við bíðum konungsins sem koma mun á jólum. Þess vegna boðar hún von og hefur sterkan gleðitón. Fyrirheitin um komu frelsarans munu rætast.

Undanfarið hefur nokkur umræða verið um kirkjuferðir skólabarna á aðventunni.  Sumir gera alvarlegar athugasemdir við þær og telja þær vera trúboð og innrætingu. Svo virðist sem hættulegra sé að hlusta á jólasöguna í kirkjum en skólum. Eru jólin ekki hluti af menningu okkar og kristinni trú? Hafa sögur almennt ekki einhvern boðskap sem kalla má innrætingu? Er þá ekki varasamt að miðla gömlu þjóðtrú okkar Íslendinga til nýrra kynslóða eða segja sögur af þjófóttum jólasveinum og mannætunni Grýlu svo dæmi séu tekin?

Svo virðist sem sumir, sérstaklega ungt fólk, hafi gerst afhuga trúnni af ýmsum ástæðum. Sumum finnst hún stangast á við mannlega skynsemi og lærdóm.

Fyrir mörgum árum kom Eþíópi til landsins sem heimsótti kirkjur víða um land. Hann hafði doktorspróf frá bandarískum háskóla og hafði mikið að gefa. Það kom í minn hlut að vera bílstjóri hans og túlkur. Samvistirnar við hann voru mjög gefandi og við áttum margar djúpar samræður. Þær tvær vikur sem hann dvaldi hér á landi ríkti mesta vetrarríki sem ég man eftir hér á suð-vesturhorninu svo að götur Reykjavíkur og nágrennis urðu ófærar. Hann undraðist að sjá vinnuvélar ryðja götur og vegi linnulaust og halda þeim opnum. Eitt sinn er hann ávarpaði menntafólk tjáði hann sig um hve hrifinn hann væri af þessari fámennu og sterku þjóð sem hafði komið sér upp mörgum háskólum, öllum þeim stofnunum sem lýðræðisþjóðfélag þarf á að halda og skapað góðan efnahag fyrir almenning þannig að þjóðin lifði við velmegun. Hann hreifst af háu menntunarstigi þjóðarinnar en sagði svo: Þið menntaða fólk. Munið að allar uppgötvanir ykkar og ný þekking er ekki ný heldur eruð þið bara að uppgötva það sem Guð skapaði. Þetta hefur alltaf verið til. – Er ekki erfitt fyrir okkur að ímynda okkur að sá tími muni nokkurn tíma koma að sagt verði að nú sé búið að uppgötva allt og afhjúpa alla leyndardóma sköpunarverksins?

Guðleysi er trú. Guðleysinginn gefur sér margar forsendur. Ég las eitt sinn bók sem ber titilinn Ég hef ekki næga trú til að vera guðleysingi. Í henni rekur höfundur ýmsar forsendur sem guðleysinginn gefur sér. Þær eru margar. Öll trú og vísindi gefa sér forsendur sem gengið er út frá. Kristin trú gefur sér að Guð hafi skapað tilveruna og að farsælt sé fyrir okkur að lifa í samræmi við boð hans. Fyrir þeim sem ekki er kristinnar trúar er hún heimska en fyrir hinum trúaða er hún grundvöllur lífsins og varpar ljósi á tilveruna og gefur henni merkingu og tilgang. Trúin veitir aðgang að skaparanum, uppsprettu og höfundi kærleikans þannig að við getum umgengist hann í daglegu lífi. Að eignast trúna er eins og þegar ljós lýsir upp myrkur huga okkar og hjarta. Kristin trú stangast ekki á við vísindi.

Hugsaðu þér óravíddir alheimsins og allar milljónir sólkerfanna sem þar er að finna. Þar eru fjarlægðirnar mældar í milljónum ljósára og okkar sól er lítil miðað við margar aðrar. Við vitum hverfandi lítið um þennan bróðurpart sköpunarverksins og jörðin okkar verður lítil í þessum samanburði hvað þá við sem einstaklingar. Þess vegna er það undur að Guð skuli hafa áhuga á mér og þér og velferð okkar, að hann skuli hafa áhuga á að fá að deila lífi sínu með okkur og miðla okkur af kærleika sínum. Jólin fjalla um þetta. Amen.