Að elska og fyrirgefa

Að elska og fyrirgefa

Hversvegna í ósköpunum er svona mikið gert til þess að firra fólk ábyrgð? Líka á því sem það skammast sín fyrir og ætti að skammast sín fyrir? Hver er orsökin? Það er óttinn við að engin fyrirgefning sé til. Það er óttinn við að horfast í augu við villu síns vegar. Það er óttinn við refsingu. Og óttinn við refsinguna blindar augun svo maður þorir ekki að trúa á fyrirgefninguna. Fyrr en það er ekkert eftir. Hin blinda uppgjöf frammi fyrir vandanum setur mann á hnén.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
04. september 2011
Flokkar

Guðspjallið Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“ Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“ Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“ „Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“ En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Predikunin. Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen

Vakna, lifna, lífið kallar, ljóssins ríki frelsarans, bróðurfórnin brúað hefur bilið milli Guðs og manns. Opna hjartað, elska, þjóna anda, vilja, kærleik hans. (Sb 734/3 Sigurbjörn Einarsson)

Drottinn Guð, gef þú okkur opið hjarta til að til að læra um vilja þinn í Orði þínu, og elska og þjóna í kærleika þínum. Í Jesú nafni. Amen.

Kæri söfnuður.

Hversu mörg börn læra að skilja orðið HEITT án þess að brenna sig fyrst, eða í það minnsta finna sáran sviða? Líkast til frekar fá.

Hversu margt er það á sviði hins háskalega í lífi okkar hinna fullorðnu sem við lærum þá fyrst þegar undan svíður? Áður en lengra er haldið inn í efni guðspjallsins og þeirra texta sem okkur er falið að hugleiða á þessum degi, verður að minna á það augljósa samhengi textanna og atburða sem hafa legið þungt á kirkjufólki nú um alltof langa hríð. Við höfum fengið fregnir af þungum ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart konum og börnum, það hefur verið gerð rannsóknaskýrsla um sama efni og verið er að gera fleiri, og þjóðkirkjan hefur greitt konum sanngirnisbætur vegna þess sem þær hafa mátt þola. Við höfum lært nýtt um kirkjuna og einstaklinga innan hennar. Nýtt sem við vildum sannarlega ekki þurfa að læra. Sá lærdómur varð til með miklum sársauka. Þess vegna heyrum við lexíu dagsins úr sálmi 32 með allt öðrum hætti nú en áður.

Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin. Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda. Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju.

Kæri söfnuður: Meðan ég þagði tærðust bein mín.

Við höfum lært að misgjörðin sjálf sé jafnvel ekki hið versta heldur hitt að þurfa að þegja, og að þess vegna sé það að fá að segja frá svona mikil blessun og leið til lausnar. Við höfum lært að það að fá að horfast í augu, bæði við það sem gerðist, við brotamanninn og við alla aðra, sé nauðsynlegur hluti hreinsunarinnar og lausnarinnar frá því sem var og gerðist.

Sálmurinn sjálfur fjallar reyndar ekki fyrst og fremst um þann sem brotið var gegn, heldur um þann sem braut.

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína.

Ofbeldi á þessu sviði mannlífsins er margskonar. Og allt einhvernvegin í felum.

Og nú færum við okkur nær efni guðspjallsins. Vændi er ein grein á þessum meiði ofbeldisins.

Dettur nokkrum í hug að þessi kona sem guðspjallið greinir frá hafi sem barn átt sér þann framtíðardraum að verða vændiskona? Það er alveg sama hvað vöru er verið falbjóða. Ekkert selst án kaupanda. Það sem viðheldur vændi í heiminum eru kaupendurnir. Vara sem er falboðin er til sölu jafnlengi og hún er keypt. Vændi verður ekki lengur til þegar enginn kaupir. Vændi verður ekki upprætt meðan það er í felum eða látið svo sem það sé ekki til.

Í fyrradag var opnað í Reykjavík nýtt heimili fyrir konur sem hafa verið í vændi. Stígamót þurfa að færa út kvíarnar vegna þeirra. Hversu lengi höfum við ekki viljað trúa sannleikanum? Og til vara, höfum við bara trúað því að það væru í það minnsta ekki okkar systur og dætur og mæður, heldur kæmu þær erlendis frá, eins og þær konur væru eitthvað minna dætur okkar og systur. Þar sem er reykur, þar er eldur, segir máltækið. Auðvitað eigum við þá afsökun að við verðum að lifa af . Með því að stara í hyldýpi óhamingjunnar byrjum við að deyja að innan og missum lífskraftinn. Hvað er þá til ráða annað en feluleikurinn?

Kæri söfnuður. Margir listamenn hafa spreytt sig á því að mála mynd af þeim atburði sem guðspjallið greinir frá. Það hefur líka verið viðfangsefni fræðimanna að gera tillögur að því hvernig svona máltíð fór fram, og hvernig menn sátu eða lágu til borðs. Eins hefur verið hugleitt hvernig þessi kona gat komist inn. Hvort ekki voru dyraverðir, eða hvort húsið var opið. En það hefur enginn svo ég muni velt því fyrir sér hvort hún var kannski bara vön að vera við vinnu sína í húsinu, eða var sérstaklega boðuð á staðinn til þess. Allar þesskonar umþenkingar forðast að horfa dýpra í söguna og á konuna sjálfa með þeim hætti sem guðspjallið þó gerir.

Það sem fyrst vekur athygli við lesturinn er þetta: Jesús er boðinn til veislu í húsi farisea. Fáa hafði hann gagnrýnt harðar. Farisearnir höfðu sjálfir fitjað uppá nefið þegar Jesús gekk inn í hús tollheimtumanna, af því að lærðir leiðtogar leggja ekki lag sitt við slíka. Nú hafa sjálfsagt aðrir furðað sig á því að hann tók boði fariseans. Eins og þegar menn segja: Er ekkert að marka það sem hann segir? Er hann ekki búinn að gagnrýna fariseana fram og aftur? Og hann blandar geði við þá? Þiggur heimboð!

Og hér í húsi Símonar kemur þetta óvænta fyrir, sem er þungamiðja guðspjallsins. Húsið er opið, eins og venja var við veislur og kona kemur inn. Allir sem sáu hana þekktu hana og vissu að hún lifði lífi sem lögmálið hafnaði sem opinberri synd. Hún var syndari fyrir allra augum. Vændiskona. Þeir sem opinberlega lifðu heiðvirðu lífi myndu láta stjaka henni frá, og hefðu ekki sjálfir snert hana til að óhreinkast ekki samkvæmt lögmálinu.

Konan sýnir Jesú virðingu, eins og sýnd er konungum og æðra settum, og sérstökum heiðursgestum í veislum. Og hún gerir meira en það, hún grætur og sýnir öll merki dýpstu vanlíðanar. En hún segir ekki neitt, og hún stígur ekki fram fyrir auglit Jesú, það er, hún stígur ekki út úr eigin skugga. Allt fas og yfirbragð konunnar segir þetta: Lausn mín er hér, en ég voga ekki að biðja um hana. Ekki ætla ég að bera saman Stígamót og Jesú sjálfan. En það er augljóst að Stígamót eru að bregðast við eins og konan vænti frá Jesú.

Það þarf ekki að fylgjast lengi með því sem Jesús segir og gerir á jarðvistardögum sínum til að uppgötva að hann breytir viðteknum venjum og gildismati. Hann gefur þeim rétt sem höfðu engan. Hann gaf mátt þeim sem voru minni máttar. Það voru ekki bara þau sem á einhvern hátt voru sett til hliðar, eða beinlínis útskúfað, eins og til dæmis tollheimtumenn og vændiskonur, það voru líka útlendingar, og það voru konur og það voru börn. Í dag er það kona sem lífernið plagar. Hún er syndari í neyð.

Þegar Símon farisei vekur máls á því hvort Jesús viti ekki hvaða kona þetta er, svarar hann með dæmisögum um skuldara og uppgjöf skulda, og síðan ber hann saman móttökur Símonar sjálfs þegar Jesús kom í hús hans, og þeirrar virðingarþjónustu sem konan veitti honum.

Það væri hægt að draga þá ályktun af textanum að fyrirgefningin sé mælanleg eftir stærð og umfangi. Reyni maður það, lendir maður vafalítið á villigötum. Mestu villgöturnar eru þó af öðrum toga.

Stærsti vandi þessa guðspjalls í nútíma samhengi er að nútíminn nálgast það vandamál sem hér er til umræðu með allt öðrum hætti en guðspjallið. Eða öllu heldur hann nálgast vandann ekki.

Nú til dags ber engin ábyrgð heldur lendir hann í einhverju. Við höfum heyrt að maður nokkur hafi lent í innbrotum. Konur lenda í vændi.

Fyrirgefningin hefur ekkert gildi nema hjá þeim sem hefur þörf fyrir hana, og þörfin verður ekki til nema hjá þeim sem horfast í augu við brot sín og yfirsjónir og sjá eftir þeim.

Hvað þýðir það að segja mér að ég hafi ekki gert rangt, ef ég veit það? Hvað þýðir að segja mér að ég beri ekki ábyrgð á því sem henti mig ef ég veit það? Hvað þýðir að segja mér að ég skuli ekki hafa sektarkennd, ef ég hef hana?

Það dettur varla nokkrum í hug að þau sem bera á borð fyrir okkur fréttir af þeim sem lenda í innbrotum hafi hugsað sér að grafa undan viðleitni fólks til að axla ábyrgð í lífi sínu, en þau kunna að verða til þess óviljandi. Þegar svo mikið er gert til þess að firra manninn ábyrgð sinni þá má líka spyrja hverjum gæti gagnast það mest, nema þeim sem vill afvegaleiða fólk og spilla sálarheill þess.

Hann lenti í innbrotum, hann lenti á fylliríi, hún lenti í trryggingasvikum, hún lenti í framhjáhaldi, hún lenti í vændi. Gott ef hann lenti ekki líka í því að kaupa vændi. Svona er þetta. Maður lendir í öllu mögulegu.

Maður getur lent í óveðri ef það kemur fyrirvaralaust En hafi maður bara ekki trúað veðurspánni, eða ekki hlustað á hana, þá hefur maður hagað sér eins og flón þegar maður er lentur í veðrinu. Og hefur jafnvel kallað á margar björgunarsveitir. Hvaða rugl er þetta? Hversvegna í ósköpunum er svona mikið gert til þess að firra fólk ábyrgð? Líka á því sem það skammast sín fyrir og ætti að skammast sín fyrir? Hver er orsökin? Það er óttinn við að engin fyrirgefning sé til. Það er óttinn við að horfast í augu við villu síns vegar. Það er óttinn við refsingu. Og óttinn við refsinguna blindar augun svo maður þorir ekki að trúa á fyrirgefninguna. Fyrr en það er ekkert eftir. Hin blinda uppgjöf frammi fyrir vandanum setur mann á hnén.

Og þetta vitum við auðvitað. Hvað erum við til dæmis búin að heyra margar sögur af alkohólistum sem fóru í meðferð eftir meðferð og ekkert gagnaðist nema hin endalega uppgjöf. Ég get ekki meir. Mitt stóra ég er hjálparvana. Ég verð að fá hjálp, öðruvísi gengur þetta ekki.

Hvað er fyrirgefning? Sumir halda að það sé að sættast við það sem rangt var gert, rangindin sjálf og þann sem hið illa verk vann. Öðru nær. Þú sættist alls ekki við það. Þú tekur það í burtu. Það er ekki lengur til.

Kæri söfnuður. Þetta er auðvitað ekki þannig að predikari dagsins eigi aðgang að hinu fullkomna svari við þessu. Jafnvel ekki fræðilegri útlistun guðfræðinnar á vandanum. Það er vegna þess að við verðum öll að finna okkar eigin leið, en auðvitað þurfum við að hafa heyrt um þær leiðir sem aðrir hafa farið til að eiga frekar kost á að finna okkar leið.

Að horfa dýpra, er að horfa á kjarnann. Með vissum hætti má segja að þú horfir svo djúpt að þú sérð barnið sem enn veit ekki hvað orðið heitt merkir, og kann ekki skil á því sem brennir og meiðir. Þannig elskar maður burt það sem maður hatar. Í því er fólgin fyrirgefning.

Kæri söfnuður. Eg bið ykkur að fyrirgefa mér þó ég segi dálítið kjánalega dæmisögu í þessu samhengi. Það vill svo til að ég hef títanskrúfu í neðri kjálka vinstra megin. Kjálkinn sjálfur og líkaminn allur lítur svo á að þetta sé aðskotahlutur og innbrotsþjófur og muni valda mér skaða. Og líkaminn sem hefur sjálfstæðan vilja að sjálfsögðu, byrjar stríð gegn skrúfunni. Hann sendir alla sína góðu hreinsunarkrafta á staðinn með blóðinu. Óteljandi blóðkorn falla í þessari baráttu kærleikans gegn óvininum. Þau fara allt í kring og einnig undir með það markmið að þrýsta skrúfunni upp úr kjálkanum og hreinsa sárið. Þetta er þeim reyndar ofviða. Þau verða að fá hjálp. Frá tannlækninum.

Konan sagði ekki neitt við Jesús. Hún þurfti þess ekki. Hann sá í hjarta hennar. „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“sagði hann. Hann sá að einmitt það var mein hennar. Sjálfsásökunin. Syndavitundin. Hann tók það í burtu. Hann tók það sem var, allt sem liðið var og fjarlægði það. Og hún trúði því að hann gæti það. Þess vegna sagði hann: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ Þú ert heil og ný manneskja. Það sem er liðið það er farið og kemur aldrei aftur og framundan er hið heila, bjarta og góða líf.

Kæri söfnuður. Hversu klár sem við annars erum í því að sigrast á eigin vanda, getur alltaf komið að því að við komumst sjálf ekki lengra. Þá verðum við að kalla á hjálp. Og við fáum hana við fótskör Jesú Krists. Því að trúin frelsar.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.