Seðlabanki og lífið

Seðlabanki og lífið

Umhyggja, samfélagsábyrgð, samtryggingarafstaða hafa verið töluð niður. Á okkur hvílir nú sú afstaða að tala upp, hugsa upp, byggja upp siðvit og biðja upp von og gleði. Skilaboð “seðlabankans,” hagstefna himinsins og stefna kirkjunnar fara saman og varða hamingju og velferð.

Við eigum að “kenna börnum mun á réttu og röngu og bæta siðgæði þjóðar.” Við eigum að “hlúa að börnunum og þeim sem eru andlega veikir. Veita öldruðum félagsskap.” Við eigum að “styrkja fjölskylduböndin....” Ég ætla að “brosa meira, hrósa meira.” Ég ætla að “taka tíma frá fyrir náunga minn.”

Hvaðan koma þessi skilaboð og til hvers eru þau sett fram? Reyndar eru þetta álktanir ykkar, Neskirkjusafnaðar. Fyrir páska var gerð könnun á viðhorfum þeirra, sem komu í kirkju, hvað við gætum gert og viljum gera til að bæta samfélag okkar. Allir, sem komu til kirkju þennan dag, fengu gula miða til að skrifa á. Eftir að athöfn lauk fór messufólkið og límdi þá síðan á rúðurnar í brúnni milli kirkju og safnaðarheimilis. Margir stöldruðu við og lásu seðlana, íhuguðu og ræddu málin. Margt var sagt á þessum miðum og verkefnin með ýmsu móti. Þetta eru hollar ábendingar, hugvekjur og brýningar um hvað er hægt að gera.

Nokkur benda á mikilvægi siðferðis, afstöðu og endurnýjaðs gildismats. Áhersla á jákvæðni og skapandi afstöðu kom skýrt fram. Mörg nefna, að þau vilji efla trúarlífið, bænaiðju og þjónustu við annað fólk. Einn seðillinn, sem er dæmi um þetta er: “Elska, biðja, gefa” og það er nú góð afstaða. Nessöfnuður verður orðinn sem himnaríki ef við iðkum það öll.

Andvörp um samfélagsþróun Íslendinga koma fram eins og seðillinn sem segir: “Gef að Ísland megi rísa aftur, og forði okkur frá græðgisliði sem gert hefur okkur óskunda, með Guðs hjálp.” Og fordæmi Jesú kemur þar með við sögu. Einn vill: “Vera eins og Jesús. Vera góður maður.” Svo eru þarna yddaðir seðlar sem tjá vanda margra. Þar segir um verkefni viðkomandi: “Vinna, púla, pæla, þræla!”

Stefna seðlabankans

Hvað heldur þú að langflestir miðarnir í þessum seðlabanka Nessafnaðar hafi fjallað um? Hvað heldur þú að hafi verið efst í huga sóknarfólks? Það var afstaðan til annarra, umhyggja, kærleikur og ást. Dæmi um ásetning og hvatningu seðlanna eru:

Að sýna elsku til allra manna og hjálpa öllum sem maður getur. Auka tengsl, væntumþykju og ást. Elskið náungann. Ég vil elska fólkið mitt fordómalaust. Ég vil að Drottinn veiti mér náð til þess að ég elski náunga minn eins og sjálfan mig. Sækja kirkju til að styrkja stoðir kærleikans og miðla honum til annarra. En nú varir trú, von og kærleikur og þeirra er kærleikurinn mestur. Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður svo skulið þið og þeim gjöra.

Svona voru þessar elskutjáningar fólks hér í Vesturbænum.

Jesúboðið

Í febrúar og mars voru í prédikunum prestanna hér í kirkjunni íhuguð boðorð tíu í Gamla testamentisins. Jesús dró saman trúar- og siðvit þjóðar sinnar og sendi sinn ástarmiða til veraldarinnar sem er guðspjall dagsins. Þar segir: “Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.”

Jesús hvikaði ekki frá elskuafstöðunni og hann var hið eiginlega ástarbréf Guðs til veraldar. Guð á erindi við veröldina. Guð hefur frumkvæði sem ræktandi lífsins.  Uppeldi Guðs á mönnum, ræktunarstarf himinsins er með sama hætti og allt gróðurstarf í veröldinni, puðið hefur það markmið að að ávöxtur verði til. Í guðspjalli dagsins segir einnig: “Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.”

Hlutverk okkar er að starf okkar sé elskulegt, ávaxtasamt og gjöfult. Engin veik planta skilar góðum ávexti. Enginn maður gerir gott nema vera heilbriðgur hið innra.

Hanna og elskan

Hanna Johannessen, vinur okkar og velgerðarkona Neskirkjufólks, var borin til grafar fyrir tveimur dögum. Hún þjónaði þessum söfnuði með óhvikulli elsku. Hún var ekki aðeins í sóknarnefnd kirkjunnar í meira en tvo áratugi og fulltrúi sóknarinnar í nefndum og ráðum á vegum þjóðkirkjunnar og kirkjulegra hjálparsamataka. Hún tók virkan þátt í starfi líknar- og menningarfélaga. Hún var mannvinur, eins og stórmóðir allra þeirra sem hún kynntist. Velferð fólks var alltaf efst í huga hennar, heilsa og gæfa smárra sem stórra. Hún var einstaklega vökul gagnvart yngri kynslóðinni, og vildi allt á sig leggja og styrkja starf í þágu barna og ungmenna. Líf hennar var sem samfelld prédikun. Hanna var eins og engill af himni. Enginn gat verið ósáttur við Hönnu, hver svo sem skoðun hennar var í einstökum málum. Hanna elskaði fólk, umbar öll frávik, sá alltaf gullið í soranum. Hún hafði lært að horfa á veröldina með augum Guðs.

Elskið segir Jesús – elskið hvert annað. Við getum skilið hvað Jesús átti við með því að hugsa um Hönnu. Og við megum minnast Hönnu með því að gera það sama og hún, iðka hið góða, sneyða hjá því sem letur fólk til lífshamingju og gæða, efla samsemd, hlægja með þeim sem hlægja, styrkja þau sem eru höll, hlusta eftir beiðnum og styrkja lífið. Blessuð sé minning Hönnu og blessum hana með því að læra af afstöðu hennar og lífsháttum.

Erindi kristninnar

Í dag höldum við aðalfund Nessóknar. Hver er stefna safnaðarins á þessum umbrotatímum? Hvað getum við best gert sem kirkja þegar samfélag, stofnanir, heimili og einstaklingar berjast við að halda stöðu, heilsu og lífi? Hvernig getur endurvinnsla gæðanna orðið og efling samfélagsins þar með? Gildi græðginnar hafa reynst eyðingarvopn. Sjálfhverf afstaða, nærsýn nautnasókn og starsýni á eigin hag hefur slitið sundur vef samfélagsins og laskað gildafestur. Umhyggja, samfélagsábyrgð, samtryggingarafstaða hafa verið töluð niður. Á okkur hvílir nú sú afstaða að tala upp, hugsa upp, byggja upp siðvit og biðja upp traust, von og gleði. Við þurfum að rækta það og iðka sem verður til góðs, sem skýlir þeim sem verst standa, huggar þau sem líða og eflir þau sem eru veik. Við eigum að vera kirkja.

Köllun okkar til mennsku er til hlutverks umhyggjunnar. Okkar söfnuður sem og samfélagið allt verður að þola að endurskoða forsendur og afstöðu, ekki aðeins í fjármálum og pólitík, heldur einnig í stóru málum gildanna. Í þeim efnum ættum við að temja okkur anda símenntunar og stöðugrar stælingar. Við höldum ekki í heilbrigði okkar nema við sinnum heilsurækt. Siðvit og þar með lífsvit verða við stælingu og iðkun. Nú þurfum við að skoða með opnum hug lífið og lífsverkefnin.

Það voru ástarbréf sem söfnuðurinn límdi upp á rúðurnar – bréf um afstöðu til annarra, hvatar til lífsgæða þvert á ástand þjóðfélagsins. Gulu seðlarnir voru um hvað gerir lífið gott. Afstaða fólks hér í kirkjunni eru um að líf okkar er til kærleika, til að elska og efla ástina meðal fólks.

Á aðalfundardegi er við hæfi að við íhugum með hvaða hætti við viljum starfa. Söfnuðurinn hefur í raun talað og tjáð afstöðu sína: Elskið, tjáið kærleikann, breiðið út umyggjuna. Síðasti ástarmiðinn er svona: “Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi! Sýna skilning! Tala saman! Enginn er eins! Hlustaðu – elskaðu!”

Haf elskunnar

Í ljóðabálki Matthíasar Johannessen Sálmar á atómöld segir:

Óendanlega smátt er sandkornið á ströndinni. Óendanlega stór er kærleikur þinn. Ég er sandkorn á ströndinni, kærleikur þinn hafið.

Í því er samhengið skýrt. Um veröldina fara öldur elskunnar. Það er hið guðlega upphaf og samhengi lífsins. Hinn kirkjulegi seðlabanki auðugur, hagstefna hans er skýr og afleiðingarnar stórkostlegar fyrir alla. Köllun okkar sem safnaðar, köllun okkar sem kirkju og verkefni okkar sem einstaklinga er að elska – elska hvert annað – elska fólk – efla þar með lífið.

Amen

Prédikun í Neskirkju 10. maí, 2009.

Textaröð:  B

Lexía:  5Mós 1.29-33 Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.

Pistill:  1Jóh 4.10-16 Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

Guðspjall:  Jóh 15.12-17 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.