Samskipti

Samskipti

Það dást margir að þessu tilboði Davíðs, sjá það sem mikið hugrekki, en horfa síðan til móðurinnar og hugsa þá fífldirfsku, sem hún sýnir að láta ókunnugan mann fara til kirkju með barnið sitt. Þegar betur er að gáð, að þá ætti þetta í raun að vera svo sjálfsagt, svo heilbrigt og eðlilegt, þetta að láta sig annað fólk varða og geta treyst öðru fólki.

Og Jesús sneri sér að lærisveinum sínum og sagði einslega við þá: „Sæl eru þau augu sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þér heyrið en heyrðu það ekki.“

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“

En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“ Lúk 10.23-37

Ung eiginkona, móðir og hugsjónakona var jarðsungin um daginn, kona sem hafði helgað líf sitt mikilvægu starfi í þágu blindra og sjónskertra. Við það tækifæri var sunginn sálmurinn og trúarljóðið “á föstudaginn langa” eftir Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi. Tilefnið krafðist þess að minnt yrði á söguna á bak við hið kunna trúarljóð, sem ber einmitt vitni um sterka hugsjón, umhyggju, elsku og virðingu fyrir lífi og náunganum, sagan sú lýsir t.d. vel inntaki sögunnar góðu um Miskunnsama samverjann.

Þannig var að skáldið frá Fagraskógi fylgdist eitt sinn með norska vorinu ryðja vetrinum burt, á þeim tíma kom hann auga á fatlað stúlkubarn þrábiðja móður sína um að fara með sig til kirkju að morgni föstudagsins langa. Móðirin var að hugsa um annað og stúlkan talaði fyrir daufum eyrum. Skáldið gaf sig á tal við móðurina og bauðst til þess að fara með stúlkuna í kirkju.

Því boði var tekið feginshendi og Davíð bar stúlkuna til kirkjunnar og þar sem hann sat með hana í fanginu var engu líkara en að sannur andi kæmi yfir hann og honum fannst hann sjá Krist í sýn. “Í gegnum móðu og mistur, ég mikil undur sé. Ég sé þig koma Kristur, með krossins þunga tré.”

Umrætt ljóð á sér þannig merkilega og fallega sögu og það skal ítrekað að sagan sú er sem birtingarmynd á hinu æðsta kærleiksboði, þar sem við erum hvött til þess að elska Guð og elska náunga okkar eins og okkur sjálf. Fegurðin í þessum viðburði forðum, birtist sér í lagi í því að láta sig fólk varða, frumkvæðinu, hvatningunni og þeim vegvísi, sem skáldið var ungu stúlkubarni og móður þess.

Það dást margir að þessu tilboði Davíðs, sjá það sem mikið hugrekki, en horfa síðan til móðurinnar og hugsa þá fífldirfsku, sem hún sýnir að láta ókunnugan mann fara til kirkju með barnið sitt. Þegar betur er að gáð, að þá ætti þetta í raun að vera svo sjálfsagt, svo heilbrigt og eðlilegt, þetta að láta sig annað fólk varða og geta treyst öðru fólki.

* * *

Nú hefur óttinn hreiðrað svo vel um sig, þeim fækkar, sem þora að grípa inn í aðstæður, núorðið eru það venjulegast aðilar, merktir viðurkenndum stofnunum eða samtökum, sem fólk leggur helst traust sitt á fyrir sér og sínum. Þess vegna hugsa ýmsir með sér, að það sé nú jafnvel allt í lagi að ganga framhjá, það eru til batterí, sem sjá um að ganga inn í raunaaðstæður fólks. Þetta er gríðarlega varasöm hugsun, því mínútur, sekúndur, skipta máli í mörgum málum, er upp koma og þar er frumkvæði sérhvers einstaklings gríðarlega mikilvægt.

Óttinn hjá mörgum felst í því að dragast inn í atburðarrás, þurfa að axla þar ábyrgð, þurfa að svara fyrir og eyða tíma sínum fyrir annað fólk, sem er bláókunnugt. Þó er það nú svo að fjöldi fólks hefur miðlað reynslu sinni af því hvernig það sé að koma öðru fólki til bjargar eða hjálpar, og í stærstum hluta, ef ekki 100% tilvika, er það nokkuð sem hefur haft óendanlega dýrmæt og jákvæð áhrif á líf bjargvættarins. Sjáið þið skáldið, sem settist niður og samdi eitt áhrifamesta trúarljóð, sem samið hefur verið á Íslandi, skömmu eftir að hafa uppfyllt ósk fatlaðrar stúlku í Noregi.

Það sem stendur svona löguðu líka fyrir þrifum er hið sérkennilega og oft og tíðum hið óeðlilega, sem gerist í samfélagi okkar, er vekur óhjákvæmilega tortryggni hjá fólki. Sjúklegir brestir eins og svívirðing gagnvart börnum, heimilisofbeldi, nauðganir, tilefnislausar árásir á helgarkvöldum, sem og um miðjan dag, allt þetta óeðlilega ástand kann að stýra hugsunum okkar frammi fyrir þeirri ákvarðanatöku, hvort rétt sé að við skiptum okkur af náunga okkar.

Það er sannarlega dapurlegt og það sorglegasta við það er sú staðreynd hvað sjúklegt ástand getur mengað út frá sér, smitað og lætt inn ótta og doða í samfélag, sem annars hefur alla burði til þess að lifa góðu og gefandi lífi.

Í þessu ljósi er það áhersluatriði að skoða málin út frá því m.a. hvað það getur gefið okkur mikið, að vera náunganum sá stuðningur, sem hann þarf á að halda, ég tala nú ekki um í neyð. Jafnvel örlítið viðvik, getur breytt lífi þess, sem það þiggur. Þess vegna er svarið við spurningu Kains, sem borinn var upp á sínum tíma í hyldýpi sektarkenndar, svo mikið já, að það hálfa væri nóg. “Á ég að gæta bróður míns?”

* * *

Skáldið frá Fagraskógi lifði vissulega öðruvísi tíma, en nú ríkja, en ofbeldi, misnotkun, stríð og annar óhugnaður var sannarlega fyrir hendi þá sem í dag. Hins vegar lifði Davíð ekki tölvur og aðra þá tækni, sem hefur breytt samskiptum fólks, og ekki bara breytt, heldur gjörbylt þeim, og þá með heldur neikvæðum formerkjum, þó svo að hin jákvæðu leynist þar líka, en málið er að fólk hefur á vissan hátt fjarlægst.

Samskiptin fara líka mikið fram í fjarlægð og á bak við tæki og tól, sem gefa líka, oftar en ekki tilefni til öðruvísi samskipta en annars yrðu, ef fólk þyrfti að hittast til þess að ræða saman, standa andspænis hvort öðru. Nú hefur t.a.m. dregið úr því að fólki finnist jafn sjálfsagt að banka upp á hjá öðrum eins og áður tíðkaðist, svona droppa við eins og sagt er á frekar slæmri íslensku.

Það eru send SMS skeyti, MSN tölvuboð, og hvað þetta allt heitir, og stundum í hita leiksins eru send skilaboð, sem erfitt er að leiðrétta og gera málin jafnvel miklu flóknari t.a.m. með það fyrir augum að hitta manneskjuna á ný, sem skilaboðin fékk, þannig dregur það virkilega úr löngun til að hittast, já sektarkenndin er vond tilfinning eins og Kain upplifði um árið og lenti fyrir það á hrakhólum.

Ungmenni eru t.d. að kljást við þessar aðstæður oftsinnis og það getur hreinlega orðið til þess að félagsleg einangrun verður veruleikinn, að ógleymdri þeirri staðreynd að innan unglingasamfélagsins og samfélags barna, eru ýmsir, þar með talið fullorðnir, sem nýta sér nútíma samskiptatækni, til þess að koma óeðlilegum hvötum og skilaboðum áleiðis, er sáir ennfrekar ótta og tortryggni í garð náungans.

Tæknin spilar sem sagt inn í, og hæglega er hægt að brenna sig á henni, hún tekur líka tíma, sem er dýrmætur og leiðir oft til þess að við tökum jafn dræmt undir og Mikki refur þegar Lilli klifurmús hvatti hann til þess að fara í heimsókn forðum, farðu í heimsókn Mikki!

Núorðið tíðkast það að skipuleggja heimsóknir með löngum fyrirvara og mörgum símtölum, og þar sannast það að við erum alltaf að passa upp á tímann okkar og tíma annarra, tíminn deyfir þannig löngun, til þess að eiga samskipti og þá sömuleiðis úr þeim mikilvæga þætti samskipta, sem er ákjósanlegastur og það er að hittast og ræða saman augliti til auglitis.

* * *

Nú myndi einhver segja að klerkur sé orðinn heldur svartsýnn, ég persónulega er hallur undir það að fólk venji sig á bjartsýni, en það er hins vegar mikilvægt að vera meðvitaður um það hvernig þjóðfélagsbreytingar og tilvist tækninnar hefur breytt samskiptum, því það er ljóst að ef við erum ekki meðvituð um það, þá eigum við erfiðara með að bæta úr. Tæknin hefur vissulega haft þau áhrif að heimurinn hefur minnkað,fólk getur t.d. sinnt störfum í einu landi og búið í öðru, en aukaverkanirnar eru áberandi og nauðsynlegt að muna eftir þeim og vinna gegn þeim.

Það er líka vilji Guðs og skilaboð Krists að benda á það, með sögunni um Miskunnsama samverjann, láta sig fólk varða, ganga ekki dofinn framhjá, sýna frumkvæði og gefa öðrum tíma sinn, sem um leið gefur okkur mikið er við verðum vitni að ávextinum. Sagan af Miskunnsama samverjanum heldur okkur vakandi siðferðislega, að ég tali nú ekki um trúarlega.

Presturinn og Levítinn voru knúnir áfram af óttanum og þeir höfðu augljóslega fjarlægst það sem við köllum að kenna í brjósti um, fjarlægst samkenndina og hluttekningu og þar með höfðu þeir fjarlægst Guð og sjálfa sig. Þeir óttuðust verðandi atburðarrás og voru búnir að gera sér neikvæðar hugmyndir um hana þ.e.a.s. að þeir yrðu sjálfir rændir og barðir niður í götuna.

Í því ljósi var þeim fyrirmunað að sjá út fyrir sjálfa sig, hurfu inn í sig og héldu áfram, án þess að horfast í augu við aðstæður. Það er sársaukafull tilvera, því hún missir tilgang sinn, tilgangurinn er sá að sjá að við erum ekki ein í heimi, við höfum hlutverk gagnvart heiminum, gagnvart umhverfi okkar og náunga, við erum ráðsmenn í þessum garði Guðs, Hann hefur sent okkur af stað, blásið í okkur líf til þess að vera okkur sjálfum og öðrum gleði og gæfa, Hann sem sjálfur stendur ekki aðgerðalaus, er sískapandi, hann sem veldur ekki þjáningu og sorg, heldur hefur ávallt áhrif til góðs.

Samverjinn er Kristur, sem er í sterkri tengingu við Guð og sjálfan sig og sér því einmitt út fyrir sjálfan sig og finnur til með öðrum. Hann stoppar, bindur um sárin og gefur af tíma sínum, til þess að koma særðum manni á öruggan stað til aðhlynningar. Þetta er saga, sem við megum aldrei gleyma, aðstæður hennar koma aftur og aftur upp sbr. hjá skáldinu forðum í Noregi, er uppskar bros og hamingju barns og móður þegar upp var staðið. Hvað er betra í lífinu, já, þar er Guð að verki, þar snertum við á dýpt lífsins, þar getur þú orðið samverji?