Vatnssósa ást

Vatnssósa ást

Framan við kórinn var búið að saga stóran hring í gólfið og koma þar fyrir stórri laug með rennandi vatni. Það var hægt að fara í stóran pott - í kirkju.

Lítið barn var fært til skírnar. Fallegur drengur og fyrsta barn foreldra sinna og aðeins eins dags gamall. Drengurinn var ausinn vatni og hvert var nafnið? Ekki nafn úr fjölskyldunni, ekki nafn afa eða frænda. Nei, hann átti að bera nafn dýrlings dagsins. Og hver var dagurinn? Það var 11. nóvember – ekki í ár þó margir drengir verði skírðir í dag. Nei, árið var 1483 og drengurinn var sonur Hans og Margrétar Lúther. Og skírnardagurinn var 11. nóvember og því fékk drengurinn nafn dýrlings dagsins, sem er heilagur Marteinn frá Tours. Það var reyndar góður dýrlingur, rómverskur hermaður sem var svo frómur að hann minnti í framferði sínu á boðskap Jesú. Marteinn dýrlingsefni bjargaði t.d. fátækum manni frá því að verða úti í vetrarveðri með því að skera yfirhöfn sína í tvennt og gefa hinum klæðlitla. Og Marteinsmessa var hin evrópska þakkargerðarhátið þegar uppskera var komin í hús og þá var ærið tilefni til að halda veislu. Þetta var líka tími vinnuskila, fardagar vinnufólks á hausti og þegar leitað var nýrrar vinnu og vistar.

Marteinn Lúther var skírður á þessum degi. Hann fæddist 10. nóvember svo það var ekki verið að bíða með skírn, enda engin ástæða þegar mikil réttindi og dýrmæti eru í boði. Börnin voru rétt komin úr móðurkviði út í þennan litríka heim þegar þau voru líka tekin í ljósheim himinsins. Þau voru þa borgarar í veröldinni og borgarar í himnaríki.

Í Eisleben Ég kom í ágústlok til borgarinnar Eisleben, fæðingarborgar Marteins Lúthers. Þar lést hann reyndar einnig. Það var heillandi að ganga gamlar götur, snerta lífsreyndra húsa aldanna, fá tilfinningu fyrir lífi og sögu fólks, hugsa um tilfinningar, vonir og örlög, gleði og harma – upplifa stóra festi lífsins. Svo var lækurinn enn ofanjarðar sem rann skammt frá bernskuheimili Lúthers.

Við, samferðafólkið, gengum á milli helstu húsa og helgidóma. Þegar við höfðum skoðað fæðingarstað Lúthers röltum við að skírnarstaðnum. Ég var að íhuga hvað hefði gengið á í bænum á Marteinsmessu á þessum skírnardegi. Kannski var verið að slátra nauti í einhverjum húsagarðinum til að undirbúa veislu uppskeru og fardaga. Kannski höfðu einhverjir komist í bjórtunnurnar og söngur hljómaði í húsasundum. Með veislu í huga nálgaðist ég kirkju Péturs og Páls sem var skammt frá heimili Lúthersfjölskyldunnar.

Kirkjan var ekki fullbyggð þegar Lúther var skírður og hefur í tímans rás verið endurbætt. En áratugir andkristinnar kommúnistastjórnar voru kirkjuhúsinu vondir. Kirkjurnar í Austur-Þýskalandi voru fórnarlömb tímans eins og fólk og ýmis önnur dýrmæti menningarinnar. En nú var viðgerð hafin. Við fórum inn í kirkjuna og ég var altekin undrun. Ég bjóst við að þegar svo gamalt guðshús væri viðgert væri reynt að gera það sem næst upprunalegu útliti. En ekki aldeilis. Jú, kirkjan var gömul, en haldin hafði verið samkeppni um hvernig ætti að gera við og byltingarkennd tillaga var samþykkt. Þar sem þetta var skírnarstaður Lúthers var ákveðið að skírn fremur en upprunaútlit mótaði viðgerðina. Þrenna skírnarinnar?

Og hvernig leggur maður áherslu á skírn? Og þá er ráð að spyrja: Hvað er skírn og hvað er samhengi hennar? Í skírninni er tjáð að Guð elskar, elskar börn og allt líf. Guð kallar til athafnar sem tjáir ást, er ástarjátning Guðs og manna, athöfn faðmlags ástarinnar, gagnvirk tenging lífshöfundar og lifenda. Guð gefur orð til þessa veruleika skírnar, orð um að Guði er óendanlega umhugað um þig. Guð vill gefa líf, viðhalda lífi, bjarga lífi og gera það líf undursamlegt og eilíflega hreint.

Og ást er aldrei aðeins huglæg heldur líka efnisleg. Í skírninni eru ekki bara orð sögð heldur er skírn tengd við heim efnis, við raunveruleikann. Þess vegna er vatn notað og það er hið skynjanlega efni umhyggju Guðs. Líf manna er háð vatni. Og svo hefur vatnið einnig margar táknrænar víddir sem skipta líka miklu og tja ýmsar víddir sem vert er að taka eftir. Við lifum ekki án vatns, hvorki bókstaflega né táknrænt.

Og þriðji fléttuþráður skírnarinnar er loforð Guðs um nánd, nærveru, alltumlykjandi gæsku. Ástvinir, sem lyfta barni sínu til skírnar, játast guðlegri blessun og fela hið unga líf góðum Guði. Og skírn á sér líka stórt samhengi í lifandi söfnuði og kirkjunum sem ætlaðar eru helgiþjónstu.

Laugin mikla Eislebenkirkjan var sláandi fögur í einfaldleika sínum. Kirkjan var öll hvíttuð að innan og afar björt. Þó þessi þýska kirkja sé minni en Hallgrímskirkja er ljósflæðið líkt nema í kórnum. Gólfflöturinn hafði verið endurunninn og vatnsgárur og bylgjur sagaðar í hann. Gólfið er rennislétt en í það hafði verið sagað svo að það var eins og hringbylgjur bærust út frá nokkrum stöðum í kirkunni. Og hringjunum er einnig skírnartúlkun. Skírn er máttarviðburður sem hefur og á að hafa áhrif á allt líf skírnarþegans. Gæska Guðs er ævimál hins kristna manns. Bylgjurnar frá skírn bernskunnar hafa áhrif á okkur og ættu eða mega móta lífsgöngu okkar alla tíð. Og geislar sólar skinu á gólfið og mynduðu mynstur með bylgjuhringjum gólfsins.

Venjulegur skírnarfontur var þarna í kirkjunni, stórt fat á hvítum fæti. Það var eðlilegt, en hins vegar var óvænt að framan við kórinn var búið að saga stóran hring í gólfið og koma þar fyrir stórri laug með rennandi vatni. Það var hægt að fara í stóran pott. Við skírnir er hægt að nota niðurdýfingaraðferð, þ.e. láta barn eða fullorðinn fara á kaf í vatnið. Sú er hin gamla kristna aðferð við skírn og við könnumst við af myndum af skírn Jesú í Jórdan. Innan á gólfbarmana, þ.e. efri barna þessarar stóru skírnarlaugar var skráð skírnarskipunin: „...gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda...“ Líf Jesú, fyrirmynd hans, orð hans er upphaf kirkju í heiminum og bylgjuvaldur menningar um aldir. Síðan hefur boðskapur hans hljómað og haft áhrif. Og enn gildir boðið. Farið - gerið allar þjóðir að vinum Jesú, lærisveinum hans, skírnarþegum, kennið þeim að skynja, skilja, iðka boðskap hans og vera farvegir hans til góðs og lífs. Í hvers krafi? Hans. „Ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Litli kúturinn sem hrein í kirkju Páls og Péturs í Eisleben átti eftir að glíma við alls konar samtryggingarpólitík tímans og sló í guðfræðihrúður kirkjunnar sem hafði endurmótað boðskap Jesú í eigin þágu. Það var og hefur aldrei verið einfalt eða auðvelt að bjóða stórkerfum valdsins byrginn. Lúther átti eftir að berjast við fordóma, heyja innri baráttu, tilbiðja dýrlinga, biðla til páfa, hlusta á konuna sína og börnin sín sér til visku. En alltaf var ljóst að einn var meistarinn, þessi sem kom sem fulltrúi Guðs, Guð sjálfur í heimi. Og hans er lífið sem drengurinn var skírður til. Hans er líf okkar sem þjónum í kristinni kirkju. Og það er sá veruleiki sem er erindi kirkju Jesú Krists í heiminum, hvort heldur er í Austur Þýskalandi, Vesturbæ Reykjavíkur, í Ossetíu, Kenýju eða Japan. Að lifa í þeim anda er að lifa kristni, vera í sambandi við Guð og vera kristniboði í lífi og starfi. Marteinn frá Tours gaf kyrtil sinn. Við megum gefa hluta af okkar skjóli til gæfu fyrir aðra. Og höldum þakkargerðarhátíð fyrir allt sem við njótum og leyfum öðrum að njóta með okkur. Við erum borgarar heims og himins erum kirkja og megum styðja kristni og gefa til stuðnings kristniboði.

Vatnssósa hjálpræði Hlustum á inntak lexíu dagsins. Hún er jafn efnisleg, bókstafleg og vatnssósa og annað í erindi þessa sunnudags: „Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Ég skírði barn í gær og skíri annað í dag. Tugir barna eru skírð þessa helgi á Íslandi og ótrúlegur grúi um heimsbyggðina. Kannski eru einhverjir Marteinar í þeim hópi? Foreldrar þeirra lyfta börnum sínum af elsku til að þiggja ást Guðs. Við erum forréttindafólk að fá að vera aðilar að lífi Jesú Krists. Í lífi og starfi megum við lúta því vatnssósa boði og vita að Jesús Kristur er með okkur, nærri okkur, í okkur, allt til enda veraldar. Amen.

Prédikun á Marteinsmessu, í Neskirkju 11. nóvember 2012.

Kristniboðsdagurinn - Annar sunnudagur í nóvember

Textaröð: A

Lexía: Jes 12.2-6 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði. Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina. Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín.

Pistill: Róm 10.8-17 Hvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. "Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;" því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða. En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu. En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum? Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

Guðspjall: Matt 28.16-20 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.