Kvennasaga Neskirkju

Kvennasaga Neskirkju

Það er kirkjusögulegt stórslys í lífi þessa safnaðar að kvenfélagið hafi lognast útaf og það er ekkert verkefni brýnna í Neskirkju en að endurvekja það. Neskirkja var ekki byggð af Ágústi Pálssyni heldur af kvenfélagi Neskirkju sem bókstaflega bakaði frá grunni það kirkjuskip sem við njótum í söfnuði okkar.

Sagnfræði nefnist á alþjóðamáli Historia en orðsifjar þess eru forn-grískar af hugtaki sem merkir bókstaflega „þekkingar aflað með rannsókn”. Sagnritun er ekki nútímafyrirbæri og þjóðhöfðingjar fornaldar létu hirðir sínar færa valdasögu heimsveldanna í myndir og letur og margar af merkustu forminjum heimsins eru slíkar frásagnir.

Sagnritun blómstraði meðal grikkja og rómverja og á tíma Jesú kepptust menningarbrot við að skrifa ‘sína’ sögu í samkeppni við hina rómversku sagnritun, en dæmi um slíka samkeppni eru rit Jósefusar um hina glæstu fortíð gyðinganna og skrif Fílons frá Alexandríu sem ögraði heimspekihefðum hellenismans með því að segja gyðinga hafa kennt grikkjum að lesa.

Guðspjöll Nýja testamentisins hafa verið rannsökuð í ljósi þessarar sagnritunar fyrstu aldar en sá söguskilningur sem þar birtist gerir tilkall til að vera í samkeppni við bæði hina glæstu fortíð gyðingdóms og hugmyndafræðilegan grundvöll hins rómverska heimsveldis.

Þó guðspjöllin séu ekki sagnfræði að skilningi hugvísinda, þá gerir sagnritun fornaldar ekki tilkall til að stunda hlutlausa sagnfræði, ef slíkt er þá til. Biblían gengur út frá sögulegri túlkun sem segir að Guð hafi gripið inn í söguna og valdeflt þjóð og einstaklinga sem voru undirokuð og beitt ofríki. Með þá túlkun að vopni ögruðu hinir fyrstu kristnu valdshöfum, oft með eigin blóði, og storkuðu jafnvel keisaranum sjálfum.

Guðspjöllin eru ekki einstök að formgerð og efnistökum, samanburður við samtíðabókmenntir hafa leitt það í ljós, en þau eru óvenjuleg að því að leiti að í lýsingum guðspjallanna af starfi Jesú Krists fá hópar umfjöllun og vægi sem ekki voru umfjöllunarefni almennt. Guðspjöllin segja ekki einungis frá valdshöfum síns tíma, trúarlegum og veraldlegum sem Jesús ögraði, heldur einnig almenningi sem bjó við bág kjör og sára fátækt. Fátækir, sjúkir, ekkjur og útlendingar eru miðlæg í allri þjónustu Jesú og eru umfjöllunarefni Nýja testamentisins með hætti sem sker sig frá þeirri sagnritun sem leggur áherslu á valdsmenn og átök um veraldleg völd.

Guðspjall þessa Pálmasunnudags endurspeglar þær áherslur. Jesús er staddur í þorpinu Betaníu að vitja hins líkþráa Símonar og situr til borðs með manni sem samfélagið hafði hafnað sökum veikinda sinna. Kemur þar ónafngreind kona, sem yngri guðspjöll segja að hafi verið María Magdalena, og smyr höfuð Jesú með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Viðstaddir, þekkjandi áherslur Jesú í garð fátækra býsnast á bruðlinu og segja að smyrslin hafi mátt selja fyrir 300 daglaun verkamanns en Jesús ver gjöf konunnar og segir: „Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt.”

Jesús er að undirbúa síðustu daga sína, vitandi hvað er framundan, og honum er efst í huga annarsvegar umönnun sjúkra og fátækra og hinvegar framlag kvenna til þess erindis sem hann á við heimsbyggðina alla: „Sannlega segi ég ykkur: „Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“”

Síðari tíma sagnfræði byggir á hinum fornu sagnriturum og áherslur í umfjöllun um kirkjusögu, jafnt sem veraldarsögu, hefur jafnan verið á karla sem takast á um embætti, áhrif og völd fremur en viðfangsefni guðspjallanna. Þegar kirkjan óx og breiddist út um heimsveldið komu fram embætti, sem upphaflega var jöfnum höndum skipt á milli kvenna og karla, auðmanna og almennings, en urðu með tímanum forréttindi karla af efri stéttum. Þegar kristni losnaði út úr ofsóknum og völd hennar jukust hófst jafnframt skeið byggingar- og listasögu sem einkennir hinn kristna menningarheim.

Kirkjusagnfræði í gegnum aldirnar hefur lagt áherslu á embætti og veraldlega hluti og til eru ítarlegar lýsingar á átökum um auðæfi kirkjunnar, embætti og valdastöður. Samhliða þessari hlið sögunnar hefur kirkjan sinnt sálgæslu við syrgjendur, hjúkrun sjúkra og aldraðra og stuðningi við fátæka, sem sjaldan vekur athygli en hefur verið órofaþjónusta hennar í klaustrum og leikmannahreyfingum hins trúaða almennings.

Á seinni hluta síðustu aldar hófu feminískir fræðimenn að fjalla um kvennasögu með þeim hætti að reyna að lesa í gegnum línurnar í hinni karllægu sagnritun, sem þær kölluðu his-story eða hans-saga og reyndu að segja her-story eða sögu kvenna. Í ljós kom að það voru ekki einungis konur sem höfðu orðið undir í sagnritun, heldur í raun réttri öll þau sem ekki tilheyrðu yfirstétt karla. Sama fólkið og er viðfangsefni guðspjallanna.

Spádómur Jesú í guðspjalli dagsins um að hennar yrði minnst gekk þó eftir og þegar Neskirkja var vígð á pálmasunnudag 1957 minntist biskup Íslands, herra Ásmundur Guðmundsson, konunnar sem smurði höfuð Jesú. Ásmundur lagði áherslu á ilminn sem fyllti húsið af nardusarsmyrslunum og sagði „að lotningin fyrir helgidómi lífsins væri undirstaðan að því að geta framkvæmd þau verk [Neskirkju] sem yrðu til blessunar.”

Vígsla Neskirkju var ávöxtur 16 ára starfs en Neskirkjusöfnuður hinn nýji var stofnaður árið 1940. Ári síðar var fyrsti sóknarprestur Neskirkju settur í embætti, en sr. Jón Thorarensen var kosinn úr hópi níu umsækjenda. Miklar umræður og blaðaskrif voru í kringum prestkosningarnar. Mun minni athygli fékk stofnun kvenfélags Neskirkju en það var stofnað 23. nóvember 1941. Þegar kom að byggingu kirkjunnar var sömuleiðis áberandi í fjölmiðlum fréttaflutningur og blaðaskrif varðandi þær tillögur að nýrri kirkjubyggingu sem komu fram en menn kepptust við að lofa of lasta þessa fyrstu kirkjubyggingu landsins sem byggð var í nútímastíl.

Áhersla fjölmiðla og síðar sagnritunar um fyrstu ár Neskirkjusafnaðar hefur einkennst af sömu lögmálum, fjallað er um baráttu um embætti og byggingar.

Fyrsti formaður kvenfélagsins var prestfrúin Ingibjörg Thorarensen en hún gerði grein fyrir sögu þess í bók um Bandalag kvenna í Reykjavík. Ingibjörg var öflugur leiðtogi sem sat í stjórn kvenfélagsins frá upphafi og þar til maður hennar lét af störfum árið 1971. Ingibjörg var virk í starfi eiginmanns síns og tók á móti öllum sem sóttu prestverk á heimili þeirra hjóna, hún var áhugamanneskja um guðfræði og andlegt líf og þýddi m.a. rit hins indverska jógameistara Paramhanska Yogananda á íslensku. Í lýsingum hennar kemur fram sá stórhugur sem var í þessum hópi kvenna en allt starf þeirra var fyrstu árin rekið frá heimilum þeirra í Vesturbænum og síðan voru ýmis salarkynni leigð og fengin að láni undir skemmtanir og fjáraflanir.

Það er óhætt að fullyrða að Neskirkja hefði ekki risið án atbeina kvenfélagsins en þær voru óþreytandi við fjáraflanir. Varðveittar eru ítarlegar fundargerðir kvenfélagsins frá stofnun þess og við 50 ára afmæli Nessóknar ritar Hrefna Tynes, sem þá var formaður, eftirfarandi lýsingu: „Þegar lesnar eru frásagnir þessara frumherja í kirkjulegu kvenfélagi er auðséð að þar fer saman eldlegur áhugi, óbilandi kjarkur og takmarkalaus kærleikur til málefnisins. Fundir og fjáraflanir voru á hinum ólíklegustu stöðum. Það voru haldnar hlutaveltur, bögglauppboð, happdrætti, basarar, uppboð, merkjasölur og margt fleira.” Auk þess að leggja til söfnunarfé til byggingar kirkjunnar lagði kvenfélagið til orgelið, sálmabækur, stólana í kórnum, mósaíkgluggann í fordyrinu, ljósakross á turninn og margt fleira. Að baki þessum gjöfum til kirkjunnar liggja tugþúsundir klukkustunda í sjálfboðavinnu og fleiri tonn af bökunarefni sem heimilin gáfu til málstaðarins.

Samhliða þessu starfi gættu konurnar hagsmuna fjölskyldna í hverfinu, styrktu konur sem áttu undir högg að sækja fjárhagslega og studdu þær félagslega eftir formlegum og óformlegum leiðum. Þegar kirkjan var komin upp og vel búin tók kvenfélag Neskirkju að sér umönnun aldraðra í söfnuðinum og mætti þar brýnni þörf. Hér var starfrækt viðamikið félagsstarf fyrir eldri borgara og í safnaðarheimilinu var aðstaða til að veita eldri konum hárgreiðslu og fótsnyrtingu búið fullkomnum tækjum. Allt var þetta rekið í sjálfboðavinnu, þjónusta sem í dag er rekin á vegum borgarinnar. Þá var kvenfélagið hluti af Bandalagi kvenna í Reykjavík og tók sem slíkt þátt í söfnun fyrir sjúkrahús borgarinnar og safnaði fötum fyrir Hjálparstarf kirkjunnar.

Það er kirkjusögulegt stórslys í lífi þessa safnaðar að kvenfélagið hafi lognast útaf og það er ekkert verkefni brýnna í Neskirkju en að endurvekja það. Sjálboðið líknar- og safnaðarstarf, líkt og kvenfélagskonur inntu af hendi og gera enn víða, er ekki hluti kirkjulegs starfs - það er starf kirkjunnar. Prestar eru mikilvægir þjónar, sem fara með fagþekkingu í hópi jafningja og veita þjónustu á tímamótum lífsins, en prestar eru ekki kirkjan heldur söfnuðurinn. Neskirkja var ekki byggð af Ágústi Pálssyni, þó hann hafi verið fær á sínu sviði, heldur af kvenfélagi Neskirkju sem bókstaflega bakaði frá grunni það kirkjuskip sem við njótum í söfnuði okkar.

Kirkjan er samfélag um fylgjendur þess boðskapar sem Jesús Kristur hélt á lofti og lýst er ritum Nýja testamentisins. Þar lýsir hann vandlætingu á því þegar hús Guðs er ekki lengur nýtt í þjónustu við fólk og Jesús dæmdi enga harðar en prestana sjálfa, sem höfðu að hans mati týnt sjónar á því erindi sem þeim var treyst fyrir. Fátækir, sjúkir, ekkjur og útlendingar voru í forgrunni í allri þjónustu Jesú og ef þessir hópar eru ekki miðlægir í þjónustu okkar, þá höfum við einnig villst af leið.

Umfjöllun um samtíma okkar er líkt og til forna upptekin af valdsmönnum, embættum og byggingum og þannig verður það líklegast alla tíð, þar sem manneskjan er söm við sig. Samtímis heldur gangverk sögunnar áfram og í samfélagi okkar eru enn fjölskyldur að berjast í bökkum, konur í sárri neyð, sjúklingar sem þarfnast vitjunar og útlendingar sem eru látnir gjalda uppruna síns. Þessir hópar eiga það skilið að hér starfi sjálfboðin kven-, bræðra- og systkinafélög sem líta til þarfa þeirra og leggja sig fram um að sýna þeim kærleika Guðs í verki.

Guð veiti okkur náð sína til þess.