Himinn á „röngunni“

Himinn á „röngunni“

Það var barnið sem þorði, - sem afhjúpaði sannleikann og svipti hulunni af gervimennskunni.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen. Nú er hún komin aðventan, þessi góði tími, vikurnar þegar við undirbúum mikla hátíð, og næstu dagar og vikur fá eins lit af því sem í vændum er. Börnin búin að opna fyrsta gluggann í aðventudagatalinu og svo kveikt á aðventukransinum og aðventuljós komin í glugga, já svo margt sem minnir á tímann. Það hefur verið svo fallegur himinninn hér yfir okkur marga undanfarna daga. Myrkrið ekki verið svo mikið. Mér hefur oft verið hugsað til tveggja bræðra sem voru á síðkvöldi í haust að horfa upp í stjörnuhiminn. Þá segir annar: „Hugsaðu þér, hve fallegt það hlýtur að vera á himninum, þegar hann er meira að segja svona fallegur á röngunni“. Á aðventunni finnst mér stundum eins og við séum að reyna að snúa himninum við, svo við sjáum hann á „réttunni“. Svona geta börnin búið til sína guðfræði, jafnvel gefið okkur nýja sýn á himinninn, - himinninn á röngunni - þessi hlið sem snýr að jörðu. Börnin og gleðin og eftirvæntingin sem skín úr augunum þeirra, er alltaf ofarlega í huga á þessum tíma. Við minnumst okkar eigin bernsku og reynum að miðla því besta sem við munum til ungu kynslóðarinnar í dag. Föndra, baka, skreyta, já allt það sem var svo gaman að gera og hefur alltaf fyllt þessa daga einhverjum töfrum, breytt hversdegi í hátíð. Stundum þarf ekki mikið til. Mér verður hugsað til eigin barnæsku, uppáhaldssmákökur á diski og mjólkurglas eftir skóla á köldum degi, er ein af þessum hlýju minningum um aðventu á æskuheimili mínu, kær minning líka um móður mína sem kunni svo vel að gera þennan tíma að fallegum fjölskyldutíma. Það eru ekki endilega stórviðburðir sem geymast best í minningunni, heldur andinn og reynslan af ljósi, hlýju og kærleika. Í minningunni var aðventan einhvern veginn rólegri þá en nú. Það var ekki eins mikið um auglýsingar og áreiti sem gefa kröfuhörðu skilaboðin um að við þurfum einhvern veginn alltaf meira og meira, stærra og stærra til að geta haldið hátíð. En það er ekki alltaf það að eiga það stærsta og mesta sem færir endilega mestu gleðina. Vinkona mín ein, sagði um daginn við mig: Á aðventunni ætla ég að hugleiða með sjálfri mér, að glæða eitthvað gott með mér, sem ég get borið og gefið öðrum í heiminum. Þetta fannst mér vel mælt hjá henni. Einmitt þetta er inntak aðventunnar, föstunnar, tími til að íhuga, bæta og reyna eftir okkar mætti að leggja gott til lífsins, umhverfisins og samfélagsins. Það tákna skreytingarnar og margt sem við gerum á aðventunni, að fegra, bæta og hlúa að. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins. Við bíðum eftir konungi. Guðspjallið á 1. sunnudegi á aðventu sem ég las frá altarinu kallar okkur til síðustu daga Jesú, þegar hann kemur til Jerúsalem á asna. Samt er hann konungur og guðspjallið í dag minnir á jólaguðspjallið, minnir á hverjum við erum að taka á móti. Það er ekki aðeins lítið barn sem fæddist í fjárhúsi, heldur honum, sem er konungur. En það er eins og alltaf komi Jesús á óvart. Hann líkist sannarlega ekki þeim hugmyndum sem við höfum um konung þar sem hann kemur til Jerúsalem , kórónulaus, vopnlaus og án hermanna, - lítið hetjulegt þar á ferð - lítið að dást að. Flestir sem fylgdu honum fátækir bændur og fiskimenn, hann er á asna sem varla reisir haus frá götu og kemst vart úr sporum, enginn íburður þar , - heldur algjör andstæða, eiginlega frekar eins og skopmynd af konungi og háð. En fólkið í Jerúsalem fagnaði komu hans, það hafði beðið lengi eftir frelsara, konungi. Það beið eftir nýjum konungi sem kæmi ríðandi á asna, þannig átti nýr konungur að koma til þeirra skv. spámönnunum. Það hrópar fagnandi: Hósanna, - en þetta sama fólk varð sannarlega fyrir miklum vonbrigðum, hann hrifsaði ekki til sín veraldlegu völdin, eins og fólk hafði vonað og fáeinum dögum síðar í reiði sinni hrópuðu þau: Krossfestið hann. Ljós og myrkur speglast í sögu Jesú. Það rifjast upp ævintýrið þekkta eftir HC andersen. Nýju fötin keisarans. Ómerkilegir klæðskerar konungs sem höfðu brugðist hlutverki sínu, lugu því að keisaranum að fötin væru svo fín sem þeir höfðu ofið og saumað, að þau væru næstum ósýnileg. Og keisarinn trúði þessu og þeir þóttust klæða hann í fötin og svo fór keisarinn í nýju fötunum og sýndi sig meðal þegna sinna en var í raun allsnakinn,- og allir lofuðu fínu nýju fötin hans, enginn þorði að segja sannleikann, heldur tók fólkið þátt í lyginni. Nema litla barnið sem allt í einu sagði hátt og skýrt, svo allir heyrðu: En keisarinn er ekki í neinu, hann er nakinn. Það var barnið sem þorði, - sem afhjúpaði sannleikann og svipti hulunni af gervimennskunni. Sagan af nýju fötum keisarans er saga sem oft kemur í hugann og hefur endurtekið sig í raun hvenær sem við búum til loftkastala sem hrynja á einni nóttu, reynsla sem okkar íslenska samfélag kynntist vel fyrir nokkrum árum, þegar við íklæðumst gervimennskunni og hættum að leita sannleikans. Saga Guðs, saga Jesú Krists segir allt aðra sögu. Þar sem hann kemur inn í Jerúsalem, þar sem hann fæðist í fjárhúsi. Þar er ekkert gervi, heldur sönn mynd og sannleikur hans hvetur okkur til að horfa og sjá það sem við sjálf erum, okkar sönnu mynd. En sannleikurinn er ekki alltaf velkominn og hann getur verið sár. Einmitt þess vegna, er sem við eigum svo oft samleið með honum, ekki síst þegar við finnum þá líðan sem líkja má við afhjúpun, allsleysi, þegar ekkert er til að skýla - þar sem er einmannaleiki, kvíði og sorg, þegar við erum sannar manneskjur, sem eru ekki faldar í íburði, vegtyllum og froðu. Við reynum öll einhvern tíma að við þörfnumst hjálpar, þörfnumst kærleika hvert með öðru og vegvísa á vegferð lífsins. Þá birtist hin sanna mynd Guðs. Hann kallar okkur til að vera. Við erum hans elskuð börn. Það nægir. Við erum kölluð til að láta gott af okkur leiða, vera saman, huga að hvert öðru. Vera með hvert öðru. Og þakka það allt góða sem okkur er gefið. Aðventan er tími til þess. Gleyma ekki þeim sem eru meðal okkar sem eru allslausir og þurfa hjálp. Og hugsum og biðjum fyrir þeim sem eiga um sárt að binda meðal okkar. Guð gefi þeim ljós huggunar sinnar og vonar. Vinkona mín sagði að hún reyndi að láta glæðast eitthvað gott í sér um aðventuna og gefa og deila því með öðrum. . Það er góð hvatning. Að þroska með sér eitthvað gott og láta það vaxa. Saga Guðs er saga af bæði þjáningu, dauða og gröf, en hún er einnig saga af lífi og gleði. Og þá sögu segir einnig aðventukransinn okkar , sem við kveiktum á hér í dag, börnin kveiktu á spádómskertinu. Kransinn er tákn. Hann er grænn og hringlaga. Hann er grænn vegna þess að hann minnir á hið lifaða líf og hann er hringlaga sem þýðir Guðs líf, sem er án upphafs eða endis, aðeins líf. Og það standa 4 ljós á þessum græna kransi og þessi fjögur ljós eru hin 4 lífskeið: Barnæskan, unglingsárin, fulloorðinsárin og svo elliárin. Líf okkar brennur út, hvert lífskeið brennur út og að lokum, þegar öll okkar lífskeið eru útbrunnin , þá stendur kransinn stöðugur og er ennþá grænn. Hið sígræna tré er tákn um eilífan Guð, og Jesús Kristur sem sagði ég er hið eilífa líf. Og hann er ljós heimsins, sá sem trúir á hann lifir í honum og með honum. Þannig er saga Guðs og þannig er saga mannsins hún sameinast í kransinum. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.