Símaskráin

Símaskráin

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem símaskrá íslendinga verður ein umdeildasta bók ársins og stór hópur fólks valdi að skrá sig úr Símaskránni vegna samvinnunnar við Gillz.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
09. júní 2011

Gillz og símaskráin

Nýlega kom ný Símaskrá Íslendinga út en eftir henni var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir að í ljós kom að Egill Einarsson sem kallar sig „Gillz“ yrði meðhöfundur.

Símaskráin er gefin út í 150 000 eintökum og er útgáfa hennar bundin í fjarskiptalögum. Það er Ja.is sem sér um útgáfuna og segir forstjórinn að þau séu ekki að tapa á þessu.

Mikil umræða og deilur urðu vegna ákvörðunarinnar um að Gillz tæki að sér að sjá um forsíðu þessarar mikilvægu bókar sem til er á flestum heimilum landsins. Stór orð féllu á báða bóga þar sem grafin voru upp ummæli Gillz þess efnis að feministar og nokkrar nafngreindar konur þyrftu á kynlífi og jafnvel nauðgun að halda. Til að milda ímynd hans kom móðir hans fram og sagði hann góðan dreng og taldi fólk misskilja strákinn sinn hrapalega. Margir vinir Gillz snerust til varnar og þá voru ekki síður stór orð látin falla.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem símaskrá íslendinga verður ein umdeildasta bók ársins og stór hópur fólks valdi að skrá sig úr Símaskránni vegna samvinnunnar við Gillz.

Nú er símaskráin komin út og á forsíðu hennar má líta áðurnefndan Gillz klæðalítinn í forgrunni og Evrópumeistara Gerplu í hópfimleikum kvenna í fimleikaæfingum í bakgrunni.

Ég velti fyrir mér burtséð frá öllum deilum, orðum sem hafa fallið og hvers konar fyrirmynd Gillz er fyrir ungt fólk, hvers vegna ja.is velji að gefa út símaskrá með hálfnöktum líkamsræktarþjálfara á forsíðunni.

Ég velti fyrir mér hvers vegna fullorðið fólk velji símaskrá með mynd af klæðalitlum strák á forsíðunni.

Nekt getur verið mjög falleg og það er engin ástæða til að setja út á fullkominn líkama Gillz. Öll erum við sköpuð í Guðs mynd og allir líkamar eru fallegir á sinn hátt. Ég átta mig þó engan veginn á tengingu vöðvabúntsins við Símaskrá Íslendinga. Kannski er tengingin: „Símanúmer eru eins og fallegir kroppar“ eða „á bakvið símanúmerin eru fullkomnir kroppur“.

Kannski er tengingin engin en hugsunin eitthvað í þessa áttina: „Ef við höfum beran Gillz á forsíðu þá virkar bókin meira spennandi en ella og við sem stöndum að henni virðumst frjálslynd og nútímaleg“.

Ætli forsíða Símaskráinnar segi okkur eitthvað um íslenskt þjóðfélag árið 2011?

Mig langar að hvetja öll þau er vinna með unglingum til þess að skoða fyrirbærið ”Gillzenegger”, taka afstöðu til þess er hann boðar og ræða það við unga fólkið í vetur. Fyrirmyndir skipta máli, ekki síst þegar þær prýða Símaskrána og birta í henni myndir af fólki sem því líkar.