Umræðan um samstarf kirkju og skóla

Umræðan um samstarf kirkju og skóla

Að mínu mati er tvennt ólíkt að hafa virka boðun inn í sjálfu skólastarfinu og kennslunni og svo að bjóða kirkjustarf sem valkost meðal annarra að skóla loknum í frístundaheimilum. Ef sá valkostur er tekinn út, er verið að gefa þau skilaboð til barnanna og samfélagsins alls að kirkjan sé óeðlileg og utangátta.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
21. október 2010

Umræðan um samstarf kirkju og skóla er í raun tvíþætt að mínu mati. Ég hef lengi verið því sammála að trúaruppeldi eigi heima innan kirkjunnar og eigi ekki að vera innan veggja skólanna. Það að kenna börnum bænir og kenna þeim um trú á Jesú Krist er hlutverk heimilisins, sunnudagaskólans, kirkjuskólans, TTT og æskulýðsfélaga og er raunverulegt tilboð kirkjunnar til þeirra sem hafa áhuga á þessu starfi.

Valmöguleiki í frístundastarfi

Ég var svo lánsöm að fá að starfa um tíma í kirkju í Reykjavík, þar sem við áttum samstarf við frístundaheimili. Þar var kirkjuskóli einn af möguleikum, sem var í boði, á sama hátt og það var í boði að taka þátt í starfi tónlistarskóla og íþróttaskóla á tíma frístundaheimilisins.

Kirkjan var einn af valmöguleikum og ég minnist þess aldrei á þeim þremur árum sem ég vann við þessa kirkju að nokkur vandamál hafi komið upp í þessu samstarfi. Mörg börn völdu kirkju í fullu samráði við foreldra, önnur fóru að leika sér, enn önnur í tónlistina og restin í íþróttir. Þarna var um raunverulegt val að ræða milli fjölda verkefna innan frístundaheimilisins. Börnin lærðu það að kirkjan var einn af valmöguleikunum í okkar samfélagi, en það var engin skylda að velja kirkjuna. Samstarf við frístundaheimilið var gott og við skólann að auki, en við fengum að kynna starfið og senda skráningarmiða heim án vandkvæða á sama hátt og ég hygg að mörg íþróttafélög og aðrir tómstundaaðilar fá að gera. Mér finnst það rangt að taka þetta val af frístundaheimilunum.

Að mínu mati er tvennt ólíkt að hafa virka boðun inn í sjálfu skólastarfinu og kennslunni og svo að bjóða kirkjustarf sem valkost meðal annarra að skóla loknum í frístundaheimilum. Ef að þessi eini valkostur er tekinn út, þá er augljóslega verið að gefa þau skilaboð til barnanna og til samfélagsins alls að kirkjan sé óeðlileg og utangátta, hún sé eitthvað sem ekki er í lagi að velja sér sem hluta af þeim tómstundum sem í boði eru. Er það rangt að barn geti valið í frístundaheimilinu hvort það fari og spili fótbolta með íþróttafélaginu sínu eða fari í kirkjustarf í hverfiskirkjunni sinni?

Hver er munurinn á þessu tvennu? Er ekki um að ræða stigsmun á aðstöðu, hvort að um sé að ræða boðun inni í skólastarfi eða kirkjustarf sem valkost inn í frístundaheimilum skólanna. Ef það á að taka einn valkost út er þá ekki eðlilegast að taka allt annað utanaðkomandi starf út, til að gæta þess hlutleysis sem verið er að reyna að vernda.

Prestar í áfallateymum

Ég set einnig spurningamerki við að prestar verði ekki lengur hluti af áfallateymum í skólum. Ég þekki enga aðra starfstétt sem hefur jafnmikla reynslu af því að ganga inn í erfiðstu aðstæður sem manneskjan upplifir. Aðstæður sorgar eru aðstæður sem mörg okkar kvíða fyrir að takast á við og mörg vitum við ekkert hvað við eigum að segja við fólk sem er í djúpri sorg og hvernig við styðjum við í þeim aðstæðum. Sálfræðiþjónustan er góð og gild og ég er ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr þeirri þjónustu, hún vinnur meira með áföll til lengri tíma, en ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hvort að þessi þjónusta geti algjörlega tekið yfir sorgar- sálgæsluhlutverk presta. Í prestastéttinni hefur myndast hafsjór af reynslu í sorgarferlum og erfiðleikum og hvers vegna hyggst stjórnkerfið taka þann þátt í burtu með einu pennastriki. Er þetta ekki eitthvað sem að skólar ættu að geta tekið ákvörðun um sjálfir á sjálfstæðan og upplýsandi hátt? Það hlýtur að mega að vera val skóla að geta kallað í prest ef að djúp áföll dynja yfir í skólastarfi.

Umræðan um þessi mál er eitthvað sem þarf að takast á við á heiðarlegan og opinskáan hátt og það þarf að taka þessi mál fyrir af alvöru vegna þess að þau snerta okkur sjálf, hverju við trúum í lífinu og hvernig við viljum sjá samfélagið okkar. Þetta innlegg mitt er eitt af mörgum sjónahornum á erfitt og oft sársaukafullt málefni.

Það er von mín að það verði hægt að komast að niðurstöðu þannig að allir hópar fari sáttir frá borði. Það getur ekki verið tilraun til sátta að senda einn hóp samfélagsins svona algjörlega út af, eins og nú stendur til að gera í Reykjavík, ef þessar nýju tillögur ná fram að ganga.