Sumarvaka í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta

Sumarvaka í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta

Látum það ekki verða örlög komandi kynslóða „að þekkja hann ei sem bæri“. Að þekkja ekki Jesú og kærleiksboðskap hans. Biðjum þess að við og komandi kynslóðir eigi þess kost að fagna friði á jörðu og fenginni sátt.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
25. apríl 2019

Komiði sæl og gleðilegt sumar.  

Sumardagurinn fyrsti er runninn upp.  Í riti Árna Björnssonar þjóðháttafræðings segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.“

Þráin eftir sumrinu er okkur Íslendingum í blóð borin.  Móðuramma mín sem var fædd árið 1893 og fæddist á Leiru í Leirufirði, sem er undir Drangajökli og er innstur fjarðanna í Jökulfjörðum á norðanverðum Vestfjörðum orti á sumardaginn fyrsta fyrir margt löngu:

Sumardagur fyrsti sólskin færir mér

áður grimmur gisti gustur á húsum hér.

Eftir vetrarharða hríð

kemur sumartíð 

og seður allan lýð.

Það er fallegur siður sem þið hafið tekið upp í Heydalakirkju að minnast sr. Einars Sigurðssonar sem var prestur hér í lok 16. aldar og fram á þá 17.  Það er greinilega gott að þjóna sem prestur hér því prestar hafa margir hverjir setið hér lengi.  Sr. Einar þjónaði hér í 37 ár sem mér telst til að séu aðeins fleiri ár en núverandi sóknarprestur sr. Gunnlaugur.  Á landsvísu er sr. Einars minnst sem sálmaskáldsins góða, einkum fyrir fallega jólasálminn Nóttin var sú ágæt ein. Sr. Einar Sigurbjörnsson sem nú er nýlátinn, blessuð sé minning hans, segir í grein frá árinu 2012 „Á næsta ári verða liðin 400 ár frá útgáfu Vísnabókar Guðbrands sem var gefin út fyrsta sinni árið 1612. Höfuðskáld þeirrar bókar var séra Einar Sigurðsson í Eydölum (1538-1626). Þekktasta ljóð hans og væntanlega jafnframt þekktasta ljóðið úr Vísnabókinni er jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein,“ sem er nr. 72 í Sálmabókinni. Í Vísnabókinni heitir ljóðið „Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði“. Í heild er kvæðið 28 erindi auk viðlags en í Sálmabókinni eru valin 7 vers úr kvæðinu til að mynda sálminn. Kvæðið birtist fyrst í Sálmabók árið 1945 en þá var komið fram lag við kvæðið eftir Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) sem hann hafði samið nokkrum árum áður.“ (http://tru.is/pistlar/2011/12/nottin-var-su-agaet-ein)

Ég sagði systur minni fyrir nokkrum dögum frá því að ég væri að fara hingað austur í Heydali og sagði henni frá sumarvökunni og tilefni hennar.  Hún fór samstundis að tala um kynsæld prestsins og skáldsins sem eins og við vitum er talinn forfaðir allra Íslendinga.  Síðan rakti hún ætt okkar í beinan karllegg til sonar Einars, Gísla sem var m.a. prestur á Stað á Reykjanesi en hann mun vera forfaðir okkar í 10. lið.  Þessi þula sem hún fór með í ættartalinu minnti mig óneitanlega á ættartöluna í Matteusarguðspjalli, Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans og svo framvegis.

Sr. Einar hlýtur að hafa borið sterkar taugar til staðarins og fest hér djúpar rætur enda kenndi hann sig við Eydali, eða Heydali eins og við segjum núna.  Það er þekkt að maðurinn vill vitja róta sinna og margar sögur til af því.  Til dæmis minnist ég einnar fallegrar sögu þegar Íslendingur hitti franskan ferðamann á Vesturlandi fyrir nokkrum árum þar sem hinn síðarnefndi stóð við tóftir og virti þær fyrir sér.  Aðspurður sagðist hann hafa orðið að leita staðinn uppi því þarna hefði langafi hans fæðst.  

Sr. Einar Sigurðsson tók við prestsdómi hér á stað þegar siðbótin var að festa rætur í íslenskri kirkjusögu.  Oddur sonur hans biskup skipaði föður sinn til embættis hér, en Oddur var fjórði íslenski lúterski biskupinn og sat í Skálholti sem kunnugt er.  Oddur þótti mjög ættrækinn, bæði hvað varðaði skipanir í embætti og töku nemenda í Skálholtsskóla, en svo virðist að á hans tíma hafi fáir nemendur úr skólanum farið utan til frekara náms. Í ævisöguflokki sínum yrkir Einar:

Herra Oddur

kom heim að bragði

urðu að nýju

fagnaðarfundir,

setti hjónin

í sín herbergi,

en alla bræður strax

inn í skóla.

Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti okkar sagði:  “Engin framtíð er til  án fortíðar.   Æskan er framtíðin.  Besta veganesti hennar til mannvits og skilnings er að þekkja vel það sem á undan er gengið, kjör og athafnir þess fólks sem áður lifði í landinu.” (Margrét Hallgrímsdóttir:  Þjóðminjar,   útg. Þjóðminjasafn Íslands)

Þessi tilvitnun á vel við á stundum sem þessum þegar við heiðrum minningu sr. Einars prests og sálmaskálds hér í Heydölum.  Mannsins sem lifði hér og dó og hafði mjög mikil áhrif á menningu okkar og arfleifð allt til okkar daga.  Hér þjónaði hann sóknarbörnunum og var einnig prófastur.  Á hans tíð var kirkjuvaldið að líða undir lok en konungsvaldið að hefja innreið sína.  Þessi breyting hafði að sönnu gríðarleg áhrif á kirkjuna og skipulag hennar allt.  Þjóðkirkjan okkar er byggð á því sem var.  Hugtakið þjóðkirkja var ekki til á dögum sr. Einars, það kom ekki til fyrr en með stjórnarskránni árið 1874 þó rætur þess og inntak megi rekja allt til daga Lúthers.   

Nú um stundir er mikið rætt um aðskilnað ríkis og kirkju.  Í skoðanakönnunum er ekki skilgreint hvað átt er við þegar talað er um þennan aðskilnað.  Einnig eru áhöld um það hvort kirkjan geti kallast þjóðkirkja þegar alltaf fækkar í henni eins og þjóðskrá er dugleg við að kynna okkur.  Samt er fólksfækkunin í þjóðkirkjunni síðast liðin 20 ár aðeins rúmlega 10.000 manns þó prósentuhlutfallið sé annað því samsetning íbúanna er önnur en var þegar margir hafa flust til landsins sem eru annarrar trúar eða tilheyra öðrum kirkjudeildum.  Enn tilheyra nærri 80% þjóðarinnar kristnum kirkjudeildum.  

Samkvæmt bók doktors Sigurjóns Árna Eyjólfssonar héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Ríki og kirkja, á hugtakið þjóðkirkja sér sögulegar forsendur og hefur verið notað til þess að skilgreina ákveðna þjóðfélagsstöðu kristinnar kirkju.  Sr. Sigurjón Árni segir að samkvæmt skoðun þýska guðfræðingsins Karls-Fritz Daibers sé „hugtakið notað um þann kristindóm“ þar sem „stór hluti þjóðarinnar væntir andlegrar leiðsagnar kirkjunnar og hún veitir einstaklingum og fjölskyldum þeirra samfylgd í lífinu.  Hún snertir líf þeirra á helstu tímamótum og tengir það athöfnum sínum eins og skírn, fermingu, brúðkaupi og jarðarför.  Hún styður manninn á gleði- og sorgarstundum.“  

Einnig má minna á að hátíðir kirkjunnar og helgir dagar hennar hafa áhrif á vinnulöggjöf, skólatíma og fleira í þjóðfélaginu.  Ég var einn vetur í Svíþjóð og voru með mér þar 2 yngri börnin mín.  Við bjuggum í hverfi þar sem mikill meirihluti íbúanna var erlendur og flestir frá múslímskum löndum.  Sumar stúlkurnar í skólanum gengu með slæður svo ekki fór á milli mála hverrar trúar þær voru.  Það var tekið tillit til þessara erlendu barna og trú þeirra virt.  Þau fengu frí á sínum helgu dögum en önnur börn þurftu samt að mæta í skólann, enda var ekki almennt frí í skólanum.  En þegar jólin komu og páskarnir og hvítasunnan þá var gefið jólafrí, páskafrí, hvítasunnufrí.  Kristnir hátíðisdagar voru frídagarnir.  Hvers vegna?  Væntanlega vegna þess að kirkjuárið okkar mótar lífstaktinn og hingað til hefur ekki verið hreyft við því að breyta því.  Það virðist vera hægt að styðjast við takt kirkjuársins þó ekki sé lengur óskað eftir nærveru kirkjunnar í mörgum skólum, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. 

Þjóðkirkjan hefur þéttriðið þjónustunet um allt land.  Eðlilega hafa orðið breytingar í kirkjunni í takt við samfélagsbreytingar og tækniframfarir.  Það er búið að brúa árnar, bora göt í gegnum fjöllin, tengja staði saman með fjarskiptum og fleira mætti telja.  Nú er að verða breyting hér á þessu svæði sem ég vona og bið að verði til þess að bæta og auka þjónustu kirkjunnar og auka gleði prestanna þó ég viti að gleði hefur verið hér í prestahópnum.  Þar á ég við sameiningu prestakalla.  Auðvitað er það þannig að þegar breytingar verða þá fylgja því einhverjar fæðingarhríðir.  Ég hef kallað þessar breytingar þróunarverkefni.  Það breytist ekkert á einum degi.  Náið samstarf prestanna á svæðinu á eftir að þróast og mótast.  Það verða líka miklar breytingar þegar fjórir nýir prestar koma á svæðið og taka við þjónustunni af þeim sem staðið hafa vaktina í áratugi.  En eitt breytist ekki.  Hér í Breiðdalnum verður prestssetur í Heydölum eins og verið hefur um aldir.  Og þó að vinur minn sr. Gunnlaugur segist ekki vera hagur maður í höndunum þá hefur hann lagt metnað sinn í það að gera staðnum til góða svo arftaki hans tekur við góðu búi þó engar séu skepnurnar.  

Lífið í landinu hefur breyst mjög, ekki hvað síst síðustu áratugina.  Þórir Kr. Þórðarson Gamla-testamentisguðfræðingur sem nú er látinn, blessuð sé minning hans, orðaði þetta svo vel í grein sem hann skrifaði og nefndi „Í leit að lífsstíl:  Formáli að siðfræði Gamla testamentisins“. (Ritröð guðfræðistofnunar)

„Fyrr á öldum rann líf manna í kyrrlátum farvegum.  Atferli þeirra fylgdi fyrirframgerðu mynstri, viðbrögð við atburðum dagsins voru nær sjálfkrafa, lífið allt var bundið föstum háttum.  Öll viðhorf manna til annars fólks, til sjálfs sín og þjóðfélagsins, til merkingar og tilgangs lífsins voru fyrirfram mótuð í undirvitundinni, og í undirvitund kynstofnsins.  Í stuttu máli, og tjáð á tölvumáli:  einstaklingar og þjóðfélög voru prógrammeruð fyrirfram.  Forritið var reynsla aldanna.

„Hér á landi byggðum við áður fyrr á sterkum, ómeðvituðum siðgæðisgrunni og meðvituðum lífsstíl.  Líf fólksins á sveitabæjunum var háttbundið, og atferlið risti djúpt í sálargrunninn, jafnvel svo að vinnulúið fólk endurnærðist við kvöldlestrana, en þó sérstaklega vegna sunnudagshelginnar.“  (Ritröð Guðfræðistofnunar)

Þessi mynd sveitasamfélagsins eins og það var á fyrri tíð, enda ekkert bæjar- eða borgarsamfélag til hér á landi, er liðið undir lok.  

„Sú bylting sem orðið hefur í þessum efnum er hin örlagaríkasta sem við þekkjum:  Hin háttbundna hrynjandi lífsins hefur raskast.  Og þegar mannkynið á stórum pörtum jarðarkringlunnar er búið að týna þessari hrynjandi fara menn að spyrja:  Hver var hún?  Við svörum með því að segja að líf manna hafi fylgt tilteknum lífsstíl.  Einnig mætti kalla lífsstílinn atferlismynstur.  Það leiðir til sömu niðurstöðu.

Það er nýjung í sögu kynstofnsins að þurfa að leita að lífsstíl.“  „Hrynjandi þjóðfélagslífsins hefur raskast í byltingu samtímans.  Þess vegna er sú óvænta staða upp komin, að ungt fólk þarf að líta yfir alla mögulega lífsstíla eins og marglit leikföng í krambúðarhillu og velja sér lífsstíl.“  (Ritröð Guðfræðistofnunar) 

Svo mörg voru orð dr. Þóris.  En nú hefur komið upp enn ein staða sem er farin að hafa áhrif á okkur og líf okkar hér á landi.  Áhrif loftslagsbreytinganna eru farin að hafa áhrif.  Það breytir hugsunarhætti okkar þegar við horfumst í augu við það að jörðin okkar getur orðið óbyggileg á ýmsum stöðum innan fárra ára ef við bregðumst ekki við.  Við erum farin að hugsa til baka að sumu leyti.  Við erum farin að hugsa um að nýta en ekki henda.  Margir hafa tileinkað sér einfaldan lífsstíl og sú hugsun er ofarlega í huga hvaðan hlutirnir koma, fæðan og klæðin.   

Bómull er mikið notuð í föt.  T.d. eru gallabuxur úr bómull.  Það þarf um 8,3 fermetra til að rækta bómull sem nægir í einar gallabuxur og á vef Sorpu kemur fram að hægt er að endurnýta gallabuxur allt að 5 sinnum.  

Ekki veit ég hvort gámagrams er tíðkað hér fyrir austan en í Reykjavík stunda sumir það að hirða úr gámum verslana heilan mat sem hent hefur verið.  Er það samkvæmt fréttum umtalsvert magn.  Gámagrams er ekki talið stundað af fátæku fólki eða svöngu heldur fólki sem blöskrar það að henda heilum mat sem hefur verið ræktaður af jörðinni sem nú stynur undan ágangi okkar íbúanna eða hefur nært þær skepnur sem við leggjum okkur til munns.  

Annað sem hefur mikil áhrif á samfélagið og hugsunarhátt fólks er aftenging sífellt fleiri við náttúruna, sköpun Guðs.  Börn í bæjum og borgum vita ekkert hvaðan varan kemur sem þau kaupa úti í búð.  Vita t.d. ekki að mjólkin í hyrnunum kemur úr skepnum sem heita kýr og fiskurinn sem þau borða er veiddur af sjómönnum sem oft á tíðum leggja líf sitt í hættu til að við hin fáum að borða.  

Hið sama á við um siði okkar og venjur.   Kristni og kirkja eru ekki lengur eini áttavitinn í siðferðilegum efnum.   Nú er það samfélagið sjálft sem ákveður gildin og viðmiðin en samt er það svo að þegar grannt er skoðað þá eru gildin kristin bæðin manna í milli og sem grundvöllur laga okkar.  En það má ekki nefna það enda virðist vera bannað að nefna trú og kirkju í opinberri umræðu. 

Andleg leit er mikil í samfélaginu.  Nær daglega má lesa um núvitunarnámskeið, yoganámskeið, námskeið um að lifa lífinu lifandi.  Við höfum þetta allt í kirkjunni en við erum ekki nógu dugleg að halda því á lofti.  Ástæðan er meðal annars sú að kirkjustarfið fer fram í sóknunum en ekki í fjölmiðlunum.  Þar er hin eiginlega kirkja, söfnuðurinn sem þangað sækir sína andlegu næringu.  Hvar sem ég kem í söfnuði landsins hitti ég fólk sem vill kirkjunni sinni allt það besta.  Er tilbúið til að hlú að henni og sjá til þess að allt geti farið þar fram sem á að fara þar fram, þarf að fara þar fram og óskað er eftir að fari þar fram.  Það er þakkarvert.  Kærar þakkir þið öll sem hafið lagt ykkar af mörkum til að þessi sumarvaka færi fram hér í dag.  Það gerist ekki af sjálfu sér að koma á fót slíkri samveru.  Það er samstarfsverkefni margra.  

Þjóðkirkjan mun halda áfram að boða trú á Jesú Krist samkvæmt lútherskri kenningu eins og hún hefur gert frá því Einar Sigurðsson var hér í Eydölum.   Hans guðsmynd birtist m.a. í sálminum „Nóttin var sú ágæt ein“ þegar hann yrkir:  

Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnarinn heimsins væri.

Jesús er lausnari heimsins.  Hann er sá sem bjargar og blessar.  Hann er fyrirmynd okkar og frelsari.  Okkar sem hér erum saman komin og þeirra allra er við hann vilja kannast um veröld víða.  

Að morgni páskadags bárust hræðilegar fréttir frá Kólombó höfuðborg Sri Lanka um að hryðjuverk hefðu verið framin í þremur kirkjum og á þremur hótelum í borginni.  Nýjustu fréttir herma að 369 manns hafi verið  drepin og hundruðir annarra særst.  Það er væntanlega ekki tilviljun að á mesta hátíðisdegi kristinnar kirkju, þegar þess er minnst að lífið sigraði dauðann hafi samtök illvirkja látið til skarar skríða í þeim tilgangi að hefna fyrir árás á Nýja- Sjálandi fyrir stuttu.  Þvílík fyrirlitning sem mannlegu lífi er sýnd.   

Fjölmiðlar hafa sýnt okkur syrgjandi ástvini, saklaust fólk, sem minna okkur á að það getur hver sem er verið á röngum stað á röngum tíma þegar grimmdarverk eru unnin.  Hugur okkar leitar því til allra þeirra sem eiga um sárt að binda, heimamanna sem ferðamanna sem koma færri heim en lögðu upp í ferðalagið.   

Oftast hefur verið litið á tilbeiðslustaði, kirkjur sem griðastaði.  Staði þar sem fólk getur komið saman og tilbeðið sinn Guð án utanaðkomandi áreitis.  Nú hefur verið ruðst inn í hið heilaga vé, í Kólombó, í Christchurch á Nýja-Sjálandi og á fleiri stöðum í heiminum.  Það er svo sannarlega ekki friðsamlegt í heiminum okkar.  Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ófriðarbálið breiðist út og það verður að taka alvarlega viðvaranir sem berast um yfirvofandi hryðjuverk.  Samkvæmt fréttum var það ekki gert í Kólombó.    

Páskarnir minna okkur á að lífið er sterkara en dauðinn.  Að hið illa hefur ekki síðasta orðið og að engin ástæða er til að leyfa því að stjórna göngu okkar á lífsveginum.  Fagnaðarerindið er okkar allra.  Við skulum halda áfram að boða það og breiða það út.  Það gerði sr. Einar Sigurðsson með prédikun sinni og ekki síður skáldskap.  Svo mikil áhrif hafði hann að enn í dag um 400 árum frá hérvistardögum hans syngjum við með hans orðum:  „það er nú heimsins þrautarmein að þekkja hann ei sem bæri.“  Látum það ekki verða örlög komandi kynslóða „að þekkja hann ei sem bæri“.  Að þekkja ekki Jesú og kærleiksboðskap hans. Biðjum þess að við og komandi kynslóðir eigi þess kost að fagna friði á jörðu og fenginni sátt.

Ég þakka áheyrnina.