Hvað gerðir þú?

Hvað gerðir þú?

Við höfum flest mátt þola missi vegna rangrar hegðunar margra einstaklinga sem höfðu mikil völd. Slíkt er vitaskuld þungbært. Við erum hins vegar ekki eingöngu þolendur. Við getum líka verið gerendur. Við getum breytt og bætt.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
28. janúar 2009

Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Nóg hefur verið skrifað og skrafað um ástandið, svikin og kreppuna – nei, líklega ekki nóg en mikið er það! Nú skulum við hvíla okkur stundarkorn á þeirri umræðu og horfa til framtíðar. Horfum fram til þeirra tíma þegar hrunið 2008 verður komið í sögubækurnar eins og heimskreppan á fjórða áratugnum, hrun síldarstofnsins á þeim sjöunda og gosið í Eyjum 1973. Notum hægra heilahvelið og leyfum ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Í þeim leik erum við ekki dómararnir eins og við erum gagnvart atburðarásinni sem leiddi yfir okkur þessar skelfingar. Nei, þarna skiptum við um hlutverk og leyfum öðrum að setjast í dómarasætið yfir okkur. Þetta eru börnin okkar og barnabörnin. Hvernig dæma þau okkur? Hvers koma þau til með að spyrja?

Lífið felur í sér stöðugar áskoranir. Ein sú stærsta og mikilvægasta er að lifa á líðandi stundu. Þar fer jú öll tilveran fram. Það getur verið afskaplega þægilegt að dvelja í liðnum atburðum. Það er þægilegt vegna þess að við getum ekki breytt því sem er liðið. Það stendur utan áhrifasviðs okkar. Og þá skiptir engu máli hvað við gerum og hvað við gerum ekki – atburðarrásin er þegar orðin. Þess vegna eigum við það til að gleyma okkur í því tímarúmi því þar gerir enginn til okkar kröfur. Að sama skapi hættir okkur til þess að einblína á breyskleika annarra og velta okkur upp úr því sem aðrir gerðu rangt. Þetta á ekki síst við um þá „aðra“ sem eru valdamiklir.

Þetta er skiljanlegt og í einhverjum mæli eðlilegur hluti af tilverunni en getur líka rænt okkur sjálf frumkvæði og tækifærum til þess að gera það sem við gerum best – einmitt því að starfa hér og nú, með okkur sjálf. Um leið og við færum orkuna þangað og nýtum hugsunina við þá iðju skynjum við það hvernig við smám saman færum út kvíarnar. Við getum gefið öðrum gott fordæmi með verkum okkar og þar með bætum við umhverfið. Og með því að gefa, hjálpa og miðla góðum gildum höfum við bein áhrif á líðan annarra og velferð.

„Hvað gerðir þú í kjölfar hrunsins 2008?“ Svona kunna afkomendur okkar að spyrja. Já, horfum til framtíðar í því skyni að henda reiður á nútímanum, því hreinskilið svar við slíkri spurningu þarf langan undirbúningstíma. Undirbúningurinn hefst hér og nú. Við getum lagt okkar af mörkum til þess að bæta ástandið.

Það getum við til dæmis gert með því að leggja inn á Velferðarsjóð á Suðurnesjum, og slegist í hóp þeirra fjölmörgu einstaklinga og félaga sem hafa lagt til fé í sjóðinn. Sjóðurinn fór af stað í byrjun aðventu og um áramótin var hann kominn í hálfa sjöundu milljón. Það eru ekki háar tölur í samhengi efnahagshrunsins en þetta eru þó upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir margar fjölskyldur. Nú í ársbyrjun 2009 er farið að nýta fé úr sjóðnum.

Við höfum flest mátt þola missi vegna rangrar hegðunar margra einstaklinga sem höfðu mikil völd. Slíkt er vitaskuld þungbært. Við erum hins vegar ekki eingöngu þolendur. Við getum líka verið gerendur. Við getum breytt og bætt. Í Biblíunni flytur spámaðurinn Jesaja orð Drottins til þjóðarinnar:

„...lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar. Komið, vér skulum eigast lög við, segir Drottinn.“

Þessi orð eiga erindi til okkar enda er þar kominn boðskapur velferðarríkisins, settur fram löngu áður en það hugtak varð til. Þetta er líka hinn sanni tilgangur okkar – að vinna að því að bæta umhverfi okkar hér og nú, svo framtíðin verðir bjartari en fortíðin.