Of hrædd til að hjálpa?

Of hrædd til að hjálpa?

Byggir þjóðfélag okkar raunverulega á því að öllum beri að hjálpa? Og jafnvel enn mikilvægara er að við spyrjum okkur hvert og eitt: Er það mitt lífsviðhorf að aðstoða alla, sýna öllum kærleika í verki, óháð stöðu þeirra í mannfélaginu, óháð því hvort lífsmáti þeirra eða fas fellur mér? Gerum við mannamun þegar kemur að því að veita hagnýta hjálp?

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista Jesú og mælti: „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“

Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Ger þú þetta og þú munt lifa.“

En lögvitringurinn vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn en sveigði fram hjá. Eins kom og Levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur.

Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og ger hið sama.“ Lúk 10.23-37

Í dag er til umfjöllunar hin velþekkta dæmisaga Jesú af miskunnsama Samverjanum (Lúk 10.25-37). Hún er sögð sem svar við sjálfsréttlætandi spurningum lögvitrings nokkurs, sem þóttist ekki vita hvað væri rétt að gera og gagnvart hverjum. Lögvitringar Gyðinga áttu það til að skilgreina orðið náungi þröngt – innan samfélags Gyðinga. Einstaka Rabbí reyndi meira að segja að halda því fram að það væri gegn lögmálinu að hjálpa heiðinni konu í barnsnauð þar sem það stuðlaði aðeins að hingaðkomu enn eins heiðingjans. Í þessu samhengi sést að spurning lögvitringsins átti fullan rétt á sér, þó okkur kunni að þykja hún óþörf, okkur sem alin eru upp við að allir menn eigi rétt á aðstoð, séu þeir hjálpar þurfi.

Eða er það svo? Byggir þjóðfélag okkar raunverulega á því að öllum beri að hjálpa? Og jafnvel enn mikilvægara er að við spyrjum okkur hvert og eitt: Er það mitt lífsviðhorf að aðstoða alla, sýna öllum kærleika í verki, óháð stöðu þeirra í mannfélaginu, óháð því hvort lífsmáti þeirra eða fas fellur mér? Gerum við mannamun þegar kemur að því að veita hagnýta hjálp?

Sumt fólk stendur hjarta okkar nær en annað Auðvitað standa sumir hjarta okkar nær en aðrir. Fjölskylda hvers og eins er eðlilega fyrsta viðfangsefni kærleikans og í framhaldi af því sá hópur sem maður tilheyrir, hvort sem það er kristin kirkja eða annað samhengi. Þetta sést greinilega í Jóhannesarbréfunum, þar sem áberandi er hvatningin til að elska bróður sinn, þ.e. sín kristnu systkini, þau sem tilheyra hópnum.

Þetta er eðlilegt í ljósi þeirra ofsókna sem yfir stóðu á þeim tíma, ofsókna heimsins, hinna utanstandandi, þar sem þörfin fyrir innri samstöðu varð öðru mikilvægari. Söfnuðirnir sem Jóhannes talaði til hafa þó án efa fylgt kærleiksboðorði Jesú í lífi sínu öllu, líka gagnvart þeim sem ekki tilheyrðu söfnuðinum, og verið reiðubúnir að rétta hjálparhönd, líka þeim sem ofsóttu þá.

Jesús talar gegn flokkun á fólki

Því hér í guðspjallinu talar Jesús gegn hvers konar flokkun á fólki þegar kemur að því að sýna kærleika í verki. Við eigum meira að segja að hjálpa þeim sem hafa sjálfir komið sér í klandur! Sá maður sem ferðaðist einn hina bröttu og hættulegu leið frá Jerúsalem ofan til Jeríkó gat auðvitað sjálfum sér um kennt að hann skyldi falla í hendur ræningja. Híerónýmus greinir frá því á 5. öld að vegurinn sé kallaður Rauða eða Blóðuga leiðin, og enn á fyrri hluta 20. aldar voru ferðalangar varaðir við að vera þarna á ferð í myrkri. Það var því óðs manns æði að ætla sér að fara þessa leið einsamall. Vel stæður hefur ferðalangurinn ekki verið, því þá hefði hann ekki verið þarna á ferð án fylgdar, og varla mjög annt um líf sitt og limi. Hann sýndi því áhættuhegðun.

Maður heyrir stundum við eldhúsborðin og í heitu pottunum athugasemdir eins og: Hvað ætli við séum að aðstoða þessa ræfla sem geta ekki bjargað sér sjálfir og eyða öllu í vitleysu! Dæmisaga Jesú mælir gegn þessu viðhorfi. Fólk tekur stundum rangar ákvarðanir sem gera það að verkum að það verður hjálparþurfi, stundum er því sjálfrátt og stundum ekki, stundum valda veikindi af ýmsum toga, en það breytir ekki því að við eigum að vera tilbúin að gera það sem í okkar valdi stendur til að aðstoða á sem eru í vandræðum, bæði sem þjóðfélag og einstaklingar.

Ýmsir verða útundan í íslensku þjóðfélagi

Miðað við umræðuna í þjóðfélaginu á liðnum misserum og líka það sem ég heyri í starfi mínu og vinahóp verða ýmsir útundan í íslensku þjóðfélagi. Fólk sem á við geðraskanir að stríða fær oft ekki þá þjónustu sem það þyrfti til að lifa mannsæmandi lífi. Sérstaklega virðast langtímaúrræði vera af skornum skammti og sömuleiðis eftirfylgd eftir sálræn áföll. Ungir fíklar með geðrænan vanda eru í sérstökum áhættuhópi og fá úrræði fyrir þá.

Við höfum heldur ekki hugað nægilega vel að sumum hópum þeirra útlendinga sem koma hingað til lands í leit að öruggum stað til að búa á, svo sem hinn síberíski læknir og blaðamaður dr. Ot Alaas hefur jafnvel hætt lífi sínu til að vekja athygli á með hungurverkfalli sínu í júlí. Þá hafa margir lýst undrun sinni í ræðu og riti yfir brottvísun Kenýjamannsins Paul Ramses, en eiginkona hans og barn dvelja hérlendis, eins og flestir vita. Vonandi er lausn í sjónmáli fyrir þessa litlu fjölskyldu sem gjarnan vill eiga heimili hér með okkur á Íslandi.

Spurningin: Hver er þá náungi minn? virðist vera sístæð spurning sjálfsréttlætingarinnar, óháð tíma og þjóðfélagi. Eru flóttamenn náungar okkar? var spurt á Akranesi fyrr í sumar og þeirri spurningu var svarað játandi, Guði sé lof. Allt er til reiðu fyrir hópinn sem þangað fer, segja okkur fjölmiðlar. Hver er náungi okkar? Eru það geðfatlaðir? Hvað með öryrkja? En óreglufólkið? Hvað virðist þér?

Látum ekki hræðsluna ráða för

Og jafnvel þó við séum tilbúin að líta á hvern mann sem náunga okkar, óháð þjóðerni, kynþætti, þjóðfélagsstöðu eða trúarbrögðum, kann að vera að við bregðumst við neyð annarra eins og presturinn og levítinn í dæmisögu Jesú. Presturinn var augljóslega hræddur við að maðurinn við veginn væri látinn og ekki gat hann gengið til helgiþjónustunnar næstu sjö daga eftir að hafa snert lík, svo sem lögmálið greindi (4M 19.11). Hann óttaðist um starfsöryggi sitt og mat það ofar kærleiksverki.

Levítinn lét líka hræðsluna ráða för. Hann kann að hafa verið hræddur við að þetta væri gildra – að maðurinn sem lá þarna hreyfingarlaus væri í raun ræningi og félagar hans spryttu upp allt um kring ef hann kæmi of nálægt. Levítanum fannst það ekki áhættunnar virði að aðstoða manninn. Hann mat sitt eigið öryggi ofar lífi slasaða mannsins. Þegar hræðslan fær að ráða kemst kærleikurinn ekki að. En ótti er ekki í elskunni, segir Jóhannes bréfritari (1Jóh 4.18), og hann heldur áfram: Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.

Látum ekki hræðslu stýra lífi okkar og valda vöntun á kærleiksverkum, hræðslu við almenningsálit, ógn við starfsöryggi, jafnvel ekki óttann við að týna lífinu. Verum hvorki niðurlút eða þung á brún eins og Kain sem neitaði að gangast við ábyrgð sinni og þyrma lífi bróður síns (1Mós 4. kafli).

Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Gerum rétt og verum upplitsdjörf. Þannig framgöngum við í elsku.

Hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð

segir Jóhannes í pistli dagsins (1Jóh 4.7-11). Þetta eru stórkostleg orð. Hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Þú sem elskar – þú ert af Guði fæddur. Þú þekkir Guð, því að Guð er kærleikur. Þessi þrjú orð, Guð er kærleikur, hafa verið bróderuð á púða og veggmyndir og prýða mörg heimili, einkum eldri kynslóðanna. Án efa hafa þessar litlu myndir og hugurinn sem að baki útsaumnum lá haft sitt að segja til að móta heimilisbraginn til hins betra og minna heimilisfólkið á hlýjan faðm Guðs.

Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað.

Guð elskar að fyrra bragði. Í því felst kærleikur hans að hann gaf sjálfan sig í Jesú Kristi, okkur til lífs. Svar okkar við því ætti að vera að elska Guð – en ekki síður að elska hvert annað, sýna umhyggju og nærgætni í daglega lífinu, vera elskusemin uppmáluð í öllu okkar fasi.

Kristilegu kærleiksblómin bróderuð á hjartað

Því miður er það svo að þegar við horfum yfir líf okkar sjáum við flest ýmislegt sem við hefðum viljað vera án. Við sjáum kærleiksleysi annarra í okkar garð – og því miður einnig kæruleysi okkar í garð samferðafólksins. Því veldur óttinn um eigið öryggi sem ég ræddi um áðan, en líka bara þægindahneigðin sem við eigum líklega flest sameiginlega. Innan um kristilegu kærleiksblómin okkar spretta nokkur grös sem ekki eiga heima í fallegum jurtagarði.

Illgresið skýtur rótum ef ekki er að gáð og er oft erfitt að uppræta það. Nokkur sumur í röð komst ég ekki mikið í garðinn minn, þar sem ég var með lítið barn, átt von á barni eða var í burtu lungann úr sumarfríinu. Þess vegna fékk illgresið að vaxa óáreitt, fíflar, sóleyjar, hlaðkolla og fleiri óværur. Og eins og við vitum verður illgresi óviðráðanlegra því lengur sem það fær að vaxa óáreitt.

Þannig er það líka með kærleiksleysið í lífi okkar. Því lengur sem það fær að vaða uppi því erfiðara verður að breyta því. Við þurfum að biðja Guð hvern dag að fyrirgefa okkur vanrækslusyndirnar, brot okkar gegn kærleikanum, stór og smá, og fela honum líf okkar allt.

Guð er kærleikur. Mættu orðin þau vera bróderuð á hjarta okkar og huga, vera yfirskrift lífs okkar. Okkur ber að elska hvert annað í orði og í verki, upplitsdjörf, óttalaus.