Sláumst í för með hirðunum

Sláumst í för með hirðunum

Við sláumst þá í förina með hirðunum og finnum Jesúbarnið liggjandi í jötu í umhverfi, sem að við könnumst við, í okkar nánasta umhverfi hjá nágrannanum, nú eða þá í okkar eigin húsi.

Ritningarlestrar: Jes 52,7-10 og Tít 2.11-14 Stólvers: Jóh 1.1-14 Texti: Lúk 2.1-14

Við skulum sameinast í bæn með orðum Ólínu Andrésdóttur:

Ó, Jesús, láttu jólastjörnu þína með jólabirtu í öllum sálum skína, og sendu á jörðu jólaengla bjarta með jólagleði í sérhvert mannlegt hjarta. Amen.
 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi og gleðileg jól.
Ég vildi vera í Betlehem og sjá það sem hirðarnir sáu, fjárhúsið, dýrin og umfram allt jötuna, þar sem Jesús var lagður. Fátækt barn í fjárhúsi og himnarnir fylltust af söng, því englarnir vita að hann er Guðs son, Guð og maður í senn.
Þannig yrkir biskupinn okkar, Herra Karl Sigurbjörnsson er hann kemur í huganum sem pílagrímur, hirðir að jötu frelsarans. Það er einfaldleikinn og helgin sem allt umlykur, sem er aðalatriðið í ljóðinu, svipað því að horfa á kerti, finna friðinn og ró sem flöktandi logi gefur, og finna hvernig hann umlykur, lýsir upp andlitið. Það er aðeins birtan af kertinu sem er þarna og himneskur söngur. Það þarf ekki meir. Guð þarf ekki prjál heimsins. Hann biður aðeins um rétt hugarfar. Í einfaldleikanum liggur fegurðin.

Guð kom í heiminn á þeim tíma sem hann hafði valið og á sínum eigin forsendum. Þeim sem fyrst var tilkynnt það voru ómenntaðir hirðar úti í haga við Betlehem og það var að nóttu til, þegar flestir íbúar landsins sváfu.

”Förum upp til Betlehem,” sögðu hirðarnir eftir að þeir höfðu séð undrið á Betlehemsvöllum. Þeir höfðu orðið vitni að einstökum atburði. Himininn hafði opnast fyrir þeim í dýrðlegum himnasöng og þeir höfðu séð og fundið hjá sér hátíð í hjarta. Engillinn hafði sagt þeim, að ”í dag væri þeim frelsari fæddur í borg Davíðs.” Þeir litu upp, heim til Betlehem og sáu stjörnuna yfir borginni og fylgdu henni. Hún leiddi þá inn í útihúsið, þar sem barnið lá, vafið reyfum í jötunni. Þar féllu þeir fram og þökkuðu Guði fyrir að hafa mátt eiga þessa upplifun þessa nótt. Eftir þetta yrði líf þeirra ekki það sama og áður.

”Förum upp til Betlehem,” hljómar enn til okkar í dag og kallar á okkur að taka mal okkar og finna útihúsið með barnið í jötunni. Hvert eigum við að halda? Hvar er stjörnuna að finna?  Við erum vissulega mikið fjarri einfaldleika hirðanna á Betlehemsvöllum í okkar nútímalegu tæknivæddu veröld í dag, en þetta einfalda ákall, bendir okkur þó enn á, að horfa fram hjá öllu glysi, kunna okkur hóf í því að gera jólin að jólasveinajólum og leita á þessari helgu stundu, afmælis frelsara okkar, í hinu einfalda og sanna í sálum okkar. Fara sem pílagrímur í hjarta okkar upp til Betlehem að líta undrið. Við skulum fylgja kalli engilsins og fara upp í útihúsið til að sjá hann.

Í Mið-Evrópu er þekktur sá siður, að gera sér líkan af atburðum jólanna. Kirkjur keppast um að setja upp í horni hjá sér líkan af útihúsinu með Maríu og Jósep og dýrunum að ógleymdu Jesúbarninu í jötunni. Þangað streymir fólk að. Hver kirkja reynir að slá hinum við í gerð þessara líkana, og fólkið kemur að horfa á og njóta og ef til vill um leið að drekka inn í sig þessa einföldu og fallegu sögu af fæðingu frelsarans. Og menn gera meira. Þeir fara heim og gera sér sitt eigið líkan. Þá er húsið sem María, Jósep og barnið eru látin dvelja í þessa jólanótt, gjarnan þekkt hús í bænum, nú eða þá eigið hús smiðsins sem gerði líkanið. Þessi líkön eru sankölluð listaverk og nostrað við sérhvert smátriði. Smiðurinn leggur sál sína í verkið.

Þessi fallegi siður, sem minnir nokkuð á altarisbríkur miðalda, þar sem þekktir atburðir úr ritningunni voru skornir í, minnir alla þá sem horfa á, hvert sé inntak jólanna. Við förum um leið og við horfum á, í huganum til Betlehem, inn í okkar eigið hús, að jötunni í stofunni okkar. Þar fæðist jólabarnið þessa nótt.

Við sláumst þá í förina með hirðunum og finnum Jesúbarnið liggjandi í jötu í umhverfi, sem að við könnumst við, í okkar nánasta umhverfi hjá nágrannanum, nú eða þá í okkar eigin húsi. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem að bærast í brjósti þegar horft er á líkanið. Jesúbarnið er komið inn á stofugólfið í húsi mínu og jólasagan lifnar öll við í umhverfi sem að ég þekki.

Hirðarnir vöktu yfir hjörðinni þessa nótt. Vaka næturinnar er vaka hjartans, þegar aðrir sofa. Allar nætur vakir Guð yfir hjörð sinni hér á jörðu. Vakið og biðjið sagði Jesús við lærisveina sína, því að þið vitið ekki hvenær stundin kemur. Hirðarnir áttu að gæta hjarðarinnar. Það er hinn venjulegi maður, sem að vakir þessa nótt við skylduverk sín. Hann tekur á móti því sem hann sér og skynjar með opnu hjarta. Hann fylgir boði engilsins. Eins stendur okkur opinn vegurinn til Betlehem að jötunni, ef að við lofum hjartanu að heyra og skynja.

Hirðarnir flýttu sér upp til Betlehem þessa nótt, sáu barnið í jötunni, féllu fram fyrir því og lofuðu Guð fyrir það sem þeir höfðu fengið að reyna.  

Mattheusarguðspjall greinir frá stjörnunni yfir útihúsinu og vitringunum þremur, en Lúkasarguðspjall kýs að sleppa öllu tali um vitringana og stjörnuna. Það breytir þó ekki öllu. Ef ekki hefði verið neitt ytri kennileiti eins og stjarnan fyrir fjárhirðana, þá hefði þetta barn sem þeir sáu verið eins og hvert annað barn, er þeir gengu inn í útihúsið og litu augum drenginn þarna í jötunni, vafinn reifum. Þeim var gefið tákn, sem að þeir fóru eftir.

Eins og hjá hirðunum kemur engillinn til okkar í dag og gefur okkur tákn. Hann segir okkur, að vera óhrædd, því að hann boði okkur mikinn fögnuð. Hann segir mér og þér, að okkur sé frelsari fæddur, sem er Jesús Kristur, Drottinn minn og þinn, í borg Davíðs. Í fögnuði yfir þessum tíðindum, þá syngjum við með englunum, sem birtast á himninum: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

Upplifum jólin, fæðingu frelsarans í hjarta, förum upp til Betlehem og gleðjumst. Gleðjumst í litlu barni og um leið í barninu í sjálfum okkur. Jesús á afmæli í dag.

Við sjáum í börnum okkar spennu afmælisdagsins, svipaða þeirri er við upplifðum sem börn fyrrum á jólunum, þegar við handlékum pakkana. Það var okkur hulið, hvað inni í þeim væru. Þegar stundin kom, og pakkinn var opnaður, þá slaknaði á spennunni. Svipað hefur gerst hjá hirðunum er þeir litu barnið í jötunni. Tökum á móti Jesú sérhvern dag komandi árs. Bjóðum honum að vera gestur hjá okkur. Hann er fundinn! Stjarnan í hjarta mér vísaði mér á hann.

Þetta er kjarni jólaboðskapsins, að enn eitt árið fæðist Jesú í hjarta okkar og dvelur þar með sinn endurleysandi boðskap, að Guð kom og er kominn til okkar mannanna í líkingu manns og sem slíkur vill vera sem hluti af okkar innra lífi, og vísa okkur þannig veginn til Guðs. Þannig vill Guð hafa áhrif á líf okkar allt, á hugsun og breytni í stóru sem smáu alla daga jafnt á komandi ári.  

Ljóssins barn er fætt í hjarta okkar og allt er orðið breytt. Guð er kominn til þín og mín og gefur okkur friðinn í gleðilegri jólahátíð.

Það er við hæfi að enda þessa hugleiðingu með erindi úr öðru jólakvæði Ólínu Andrésdóttur, sem er í raun bæn:

Ó herra, vertu hjá oss og hjörtun vermdu köld. Ef aldrei fer þú frá oss, mun friðar ríkja öld. Um alla himna og heima, í hjarta sérhvers manns, lát lífsins lindir streyma og ljósið kærleikans.
         

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen

Guð gefi okkur öllum þetta ár gleðileg jól. Amen