Sáðkorn, einelti, ofbeldi

Sáðkorn, einelti, ofbeldi

Einelti og ofbeldi eru góð dæmi um það sem stendur guðsríkinu fyrir þrifum. Einelti og ofbeldi draga úr óendanlegum möguleikum fólks til að vaxa og dafna. Þessi hegðun er eins og illgresið sem skemmir fyrir sáðkorninu. Hún er steinninn í moldinni sem heftir vöxt mustarðskornsins sem vill verða tré.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins sem er Biblíudagurinn, annar sunnudagur í níuviknaföstu eru tvær undurfallegar af guðsríkinu. Þar er annars vegar talað um sáðkorn sem sáðmaður sáir í jörð og ber ávöxt og hins vegar um mustarðskornið smáa sem verður að stóru tré. Ríki Guðs á jörðu er eins og fræ. Þar sem kærleikur og ást ríkja, þar er Guð, því að Guð er kærleikur. Og þetta fræ vinnur í leynum og hefur óendanlega möguleika til vaxtar.

Hvor sagan um sig dregur fram ólíka þætti þessarar fallegu myndar. Fyrri myndin færir okkur hugmyndina um fræið sem starfar í leynum, vex og þroskast þegar við sofum, spírar í moldinni meðan við vinnum, vökvum og reytum arfa. Lengi vel er vinna sáðkornsins ósýnileg, það er ekki fyrr en á seinni stigum sem við sjáum afrakstur erfiðis okkar og fyrr en varir er kornið tilbúið til uppskeru. Guðspjallið undirstrikar þannig leyndardóm sáðkornsins sem vinnur óvænt og á leyndardómsfullan hátt.

Seinni myndin undirstrikar smæð og varnarleysi mustarðskornsins. Það er lítið fyrir korn að sjá en fái það til þess skilyrði getur það orðið styrkur stofn og fuglar himinsins hreiðra um sig í skugga trésins.

Báðar þessar grænu og lífrænu myndir af korni sem verður uppskera og stórt tré bera með sér bjartsýni og von, áherslu á þolinmæði, seiglu og sigurs hins jákvæða yfir öllu því sem dregur úr vexti þess og viðgangi.

Það er nokkuð skýrt að þessar myndir af ríki Guðs fjalla ekki endilega um lífið eftir dauðann, heldur ekki síður um lífið hér og nú, lífið eins og við lifum því, vöxtinn sem við eigum kost á. Ef guðsríkið eins og það kemur fyrir í líkingum guðspjallsins fjallar þannig um vöxt ástar, öryggis og hlýju í heiminum sem Guð skapaði, þá liggur næst við að spyrja:

Hvað er það sem hjálpar guðsríkinu að gróa?

Hvað getum við gert til að hjálpa guðsríkinu til að vaxa?

Og jafnframt varpa myndirnar til okkar áleitnum spurningum um það hvað geti ógnað sáðkorninu í jörðu. Hvað varnar því að uppskeran líti dagsins ljós í mannlífinu? Hvað varnar því að við og fólkið í kringum okkur geti átt gott og gjöfult líf? Hvað er það sem dregur úr vexti okkar og þroska, Hvað tekur frá okkur bjartsýnina? Hvað skemmir vonir okkar um kærleika, frið, sátt, öryggi? Hvernig getum við unnið að heilbrigðum samskiptum í umhverfi okkar, á heimili, í skóla og vinnustað, í hverfi, borg, landi og heimi?

Þannig spurninga er hollt að spyrja þegar við íhugum fræ Guðs sem liggur djúp í mannlífssverðinum og freistar þess að verða uppskera. Þannig spurninga er gott að hugsa til þegar við veltum fyrir okkur smáu mustarðskorni lífsins, sem hefur óendanlega möguleika á lífi í kærleika, ef við gefum því tækifæri, tíma og rúm.

II.

Ein af uppáhaldsbókunum mínum sem barn og unglingur var bókin um Gúmmí-Tarsan eftir Ole Lund Kierkegaard. Söguhetjan Gúmmí-Tarsan eða Ívar Ólsen er sjö ára gamall og líður illa í skólanum. Honum gengur illa að lesa, leikfimistímarnir hans eru martröð og hann er lélegur í fótbolta. Krakkarnir á skólalóðinni bleyta buxurnar hans á klósettinu. Þegar hann reynir fyrir sér í hrákakeppni rennur hrákinn út úr honum eins og litlar slefur. Og þegar hann kemur heim segir pabbi hans honum að hann sé alger vesalingur. Í sögunni kynnist Ívar Ólsen galdranorn sem gefur honum eina ósk. Ívar Ólsen óskar sér þess að fá allar óskir sínar uppfylltar og fær þessa risaósk uppfyllta í einn dag. Allir óskirnar hans Ívars fjalla um það að gefa honum kraft og styrk. Í þennan eina dag getur hann allt. Hann les stærstu bókina á bókasafninu og bókin sú er svo stór að það þarf að bera hana um í hjólbörum. Hann sigrar í fótboltanum, snýr á alla strákana sem stríða honum, brillerar í leikfimi, skyrpir lengra en nokkur annar og lætur pabba sinn loksins heyra það.

Það sem er hins vegar sorglegt við söguna um Gúmmí-Tarsan er að þegar sigurdagurinn mikli er liðinn fellur allt í sama farið. Galdranornin er horfin og Ívar kemur heim með blautar buxur. Og þannig heldur hringrás eineltisins áfram hjá Ívari Ólsen. Sem barn vildi ég aldrei lesa síðustu blaðsíðurnar í bókinni. Mig langaði svo til að lífið hjá Ívari breyttist og að hann gæti komist út úr sínum ömurlegu aðstæðum. Mig langaði til þess að mustarðskornið Ívar Ólsen fengi að verða tré.

III.

Í nýliðinni viku spunnust miklar umræður um einelti og ofbeldi í samfélaginu. Sum okkar hafa orðið fyrir einelti. Önnur okkar hafa beitt einelti. Og mörg okkar hafa bæði orðið fyrir og beitt einelti, því í mannlegum samskiptum geta tengsl milli fólks orðið flókin og margbreytileg. Einelti og ofbeldi eru einmitt góð dæmi um það sem stendur guðsríkinu fyrir þrifum. Einelti og ofbeldi draga úr óendanlegum möguleikum fólks til að vaxa og dafna. Þessi hegðun er eins og illgresið sem skemmir fyrir sáðkorninu. Hún er steinninn í moldinni sem heftir vöxt mustarðskornsins sem vill verða tré.

Einelti og ofbeldi er ekki það sama, því að ofbeldi er víðara hugtak en einelti. Orðið ofbeldi þýðir samkvæmt Vísindavefnum of mikill ákafi, því að beldi þýðir ákafi og er skylt lýsingarorðinu að vera baldinn. Ofbeldi er því orð sem hægt er að nota um hverja þá hegðun þar sem hegðun í garð annarra verður stjórnlaus og full af ýgi. Hún getur gert aðra hrædda og oft af fullri ástæðu. Hún verður ofbeldin.

Einelti kemur fram á mismunandi hátt og tekur á sig ýmsar myndir. Einelti getur þannig falist í að einstaklingur eða hópur sé oft og iðulega hafður að skotspæni. Það er gert lítið úr þeim, þau eru úthrópuð og niðurlægð með ljótum og niðrandi orðum. Önnur eru gerð ósýnileg, það er ekki tekið mark á þeim, allar leiðir liggja framhjá þeim og verk þeirra eru ekki metin að verðleikum. Þriðji hópur þeirra sem verður fyrir einelti upplifir beint líkamlegt ofbeldi. Og svo eru þau sem verða fyrir einelti vegna litarháttar, vegna þess að þau passa ekki inn í kynhlutverk eða hneigjast til annars kyns.

Einelti eitrar líf þess sem fyrir því verður. Einelti tekur frá fólki sjálfstraust og öryggi, rænir það vextinum í leynum. Langvarandi einkenni eineltis eru líka þau að við getum festst í eineltisforritinu löngu eftir að sjálfu eineltinu er hætt. Þegar við upplifum mynstur sem minna okkur á gamla eineltismynstrið sem við kynntumst í barnaskóla, á gamla vinnustaðnum eða á heimilinu, þá tekur þetta forrit völdin. Okkur er fleygt aftur í tímann til tímans sem við vorum varnarlausust og smæst. Þessar gömlu minningar gera það stundum að verkum að við eigum erfitt með að takast á við gagnrýni og reiði sem fullorðnar manneskjur. Okkur gengur þannig illa að setja okkur í spor annarra og festumst í fórnarlambshlutverkinu sem við höfum þó barist við að koma okkur upp úr. Ívar Ólsen tekur yfir, Ívars tímabilið sem flest okkar sem einhvern tímann höfum upplifað einelti viljum helst af öllu gleyma í stað þess að lifa það aftur og aftur.

Einelti er þannig samfélagslegt vandamál, sem hefur langvarandi áhrif á þau sem fyrir því verða, gerir þau öryggislaus, ósjálfstæð, hrædd og gjarnan í mikilli vörn.

Einelti er líka samfélagslegt vandamál í þeim skilningi að mörg okkar hafa þróað með sér blindu fyrir einelti. Þau sjá ekki niðurlæginguna og sársaukann, eða leggja sig fram um að burtskýra hana. Einelti er líka oft túlkað sem fyndni og grín. En brandarar sem brjóta niður fólk eru ekki fyndnir. Lífssýn sem miðar að því að niðurlæging og smán séu talin eðlileg er ekki góð lífssýn. Fordómar gagnvart þjóðfélagshópum og einstaklingum eru mannskemmandi. Og á meðan hlaðast upp steinar í jarðveginum og arfi í moldinni, sem gera sáðkorninu erfitt um vik við vöxtinn sinn.

Eineltisumræðan í samfélaginu í síðustu viku spratt upp í tilefni lýsingar borgarstjórans í Reykjavík á íbúafundi þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir einelti og ofbeldi. Margir brugðust við, og sjálf skrifaði ég grein sem fjallaði um að valdastaða fólks skipti máli þegar rætt væri um einelti. Ég fletti upp í athugasemdum við orð borgarstjórans sem rötuðu í fréttir flestra vefmiðla. Það var sláandi að sjá orðræðuna um einelti þróast yfir daginn. Sumir sögðu að maðurinn væri „dramadrottning“, vegna þess að hann hefði leyft sér að segja að hann væri beittur einelti. Aðrir leituðust við að draga stinginn úr orðunum sem særðu á fundinum, að þau hefðu ekkert verið svo ljót og þýddu eiginlega bara eitthvað fallegt, fjölskylda og heimilisfólk og eitthvað slíkt. Og svo voru þau sem sögðu að viðkomandi maður yrði bara að herða sig upp. Öllum þessum málflutningi svipaði til þess þegar börn á skólalóð eru gripin og skömmuð fyrir stríðni. Þar bendir hver á annan og kallar þann sem líður illa aumingja og dramadrottningu. „Það var hann sem stríddi okkur,“ hrópar einhver. Og svo mætir pabbi Ívars Ólsen á staðinn og segir honum að herða sig upp.

IV.

Sumir segja að þau sem verði fyrir einelti í æsku jafni sig aldrei.

Ég trúi því að það sé ekki rétt. Ég trúi því að sáðkornið geti vaxið í moldinni og unnið kærleiksverk sitt í leynum. Ég trúi því að við eigum öll möguleika á uppskeru, þau okkar sem hafa orðið fyrir þungum sorgum í æsku. Ég trúi því að jákvæðni, umræða og greining á einelti geti breytt miklu, að hver hafi möguleika á að líta í eigin barm og meta sinn þátt í ofbeldi og einelti. Og ég trúi því að gömul eineltisbörn geti horfst í augu við sínar sáru minningar og grætt sárin, svo að sára reynslan fylgi ekki einatt með inn í nýjar og nýjar aðstæður.

Eineltismynstur eru forrit í hausnum sem við þurfum öll að losna við. Við þurfum að losna við svipleiftur sem gera okkur varnarlaus og smá þegar þurfum á því að halda að hugsa skýrt og í jafnvægi. Glíma eineltisbarnsins getur beinst bæði að öðrum og þeim sjálfum. Sum verða reiðir, grimmir og bitrir við aðra. Önnur beina sársaukanum og ofbeldinu inn á við og verða sannfærð um að þau sjálf viti ekki neitt og geti ekki neitt. Við þurfum að losna við forritin sem gera okkur ónæm fyrir og blind á einelti.

Við þurfum að sýna sjálfum okkur samúð og umhyggju svo að sáðkorn okkar geti andað í moldinni. Við þurfum á því að halda að geta rætt um birtingarmyndir eineltis og ofbeldis, rætt um ólíkar myndir þessarar árásargjörnu hegðunarmynstra, horfast í augu við okkar eigin þátt í því hvers vegna þessi hegðun þrífst í samfélaginu. Við þurfum að sýna sársauka þeirra sem upplifa einelti virðingu, jafnvel þegar við erum ekki sammála þeim um það sem gerst hefur eða viljum benda á aðrar hliðar.

Á þann hátt getum við tekið höndum saman við að stinga upp mannlífssvörðinn og gera hann að stað þar sem fleiri mega dafna og þroskast í friði og gleði.

Á þeim stað þrífst Ívar Ólsen og þau öll okkar sem finnum til samhljóms með honum og aðstæðum hans.

V.

Ég ímynda mér lítið mustarðskorn.

Mustarðskornið getur svo auðveldlega staðið fyrir sál okkar hvers og eins sem þarf á góðum vaxtarskilyrðum að halda. Og saman mynda þessi mustarðskorn staðinn þar sem ríki Guðs nær fótfestu, því að kærleikur Guðs er eins og fræ. Í ríki Guðs ræður meðvirknin ekki ríkjum eða gömul ofbeldis- og eineltisforrit sem okkur voru innrætt forðum tíð. Í ríki Guðs er ofbeldið og eineltið er gert upp. Í ríki Guðs vex kærleikurinn og öryggið skýtur rótum. Í ríki Guðs koma fuglar himinsins saman og hvíla sig í skugga trésins.

Góði Guð, hjálpaðu íslensku samfélagi og okkur öllum að verða slík tré.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.