Gerum kröfur

Gerum kröfur

Við lifum í samfélagi sem þróast og breytist hratt, við höfum fjölmiðlalandslag, sem tekur jafnhröðum breytingum enda er það ekki nýr sannleikur að fjölmiðlaflóran endurspeglar á vissan hátt samfélagið okkar. Nú er svo komið að þetta litla íslenska nútímasamfélag okkar er orðið að litríku fjölmiðlasamfélagi.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
19. apríl 2006

Við lifum í samfélagi sem þróast og breytist hratt, við höfum fjölmiðlalandslag, sem tekur jafnhröðum breytingum enda er það ekki nýr sannleikur að fjölmiðlaflóran endurspeglar á vissan hátt samfélagið okkar. Nú er svo komið að þetta litla íslenska nútímasamfélag okkar er orðið að litríku fjölmiðlasamfélagi. Ný blöð, nýjar sjónvarpsstöðvar, frekari framfarir í netheimum skjóta upp kollinum á þvílíkum hraða að það er hægara sagt en gert að fylgjast með og reyndar meira en fullt starf ef vel á að vera.

Hér áður fyrr var meira litið á sjónvarp og aðra fjölmiðla sem ákveðin fyrirbæri, sem röskuðu tilveru fólks á vissan hátt, en í dag erum við að tala um fjölmiðla sem sjálfsagðan hlut í tilverunni, við erum orðin talsvert samdauna fyrirbærinu. Þess vegna þarf íhlutun og áhrif fjölmiðla síendurtekna umræðu og gagnrýni og þá ekki hvað síst í ljósi ungu kynslóðarinnar, sem erfir landið.

Sú staðreynd er augljós hverri manneskju að allur þessi aragrúi fjölmiðla er misjafn að gæðum. Þetta er samsvarandi stórum eplakassa, mörg frískleg og girnileg epli, en einnig skemmd innanum. Þá má búast við því, að skemmdu eplin smiti óvenju mikið út frá sér eins og gerist gjarnan í stórum eplakössum.

Það er því afar nauðsynlegt að vera á varðbergi, kynna sér í raun hvað allir þessir fjölmiðlar eru að bjóða upp á, tjá í orði og verki ánægju sína sem og vonbrigði. Það gerum við einfaldlega með því að halda áfram áskrift eða segja henni upp, við höfum val. Eitt er víst að það virkar ekkert að halda áfram að neyta, hrista bara höfuðið og hafa uppi stór orð. Gerum kröfur!

Það er gott að staldra reglulega við og gera sér grein fyrir hverju er verið að hleypa inn á heimilið. Full meðvitund í því samhengi verndar okkur sem og ungviðið okkar fyrir óæskilegum áhrifum, sem grafa undan lífshamingju og ala frekar á reiði og gremju.

Það má hafa það ávallt og eilíflega í huga, að á bak við fjölmiðla og öflugan samkeppnismarkað þeirra býr fátt annað en sölumennska og það er ekki í eðli sölumennskunnar að spyrja sérstaklega um líðan þína, heldur hvort þú viljir kaupa, öll siðferðisleg álitamál kafna gjarnan í þeirri staðreynd og meira að segja fermingardrengur sem fær í magann á annars björtum fermingardegi er ekki óhultur fyrir ágangi slíkrar sölumennsku. Ekkert er heilagt, það skal selja.

Það er tiltölulega ljóst, að ef gott siðferði fær ekki rúm að þá er eina leiðin að segja sölumennskunni stríð á hendur og það er gert með því að segja nei eins og við fíkniefnum. Í því ljósi kemur stóra spurningin: Liggur ábyrgðin ekki að stórum hluta hjá mér og þér, hjá okkur neytendum, getur verið að við getum haft áhrif á það hvort skemmdu eplin fái að liggja áfram í kassanum?