Guðsmynd og mannskilningur

Guðsmynd og mannskilningur

Ég finn mig sannarlega vanmáttugan við hlið virtustu sérfræðinga sem hér fjalla um málefni sem er í miðdepli nútíma vísindarannsókna. Ég er þakklátur fyrir tækifærið að hugleiða með ykkur þetta mál. Trúarleg viðhorf eru oft nefnd í þessu sambandi. Mér finnst mikilvægt að í frumvarpi til þingsályktunar sem nú liggur fyrir alþingi og er hvatinn að þessu málþingi er ætlast til að hið trúarlega viðhorf komi til álita í því nefndarstarfi sem ætlað er að undirbúa lagasetningu um stofnfrumurannsóknir. Það er afar brýnt. Vegna þess að hin trúarlegu rök skipta máli. Þeir sem Vilhjálmur kallaði hér áðan „íhaldssama svartsýnismenn" gagnvart stofnfrumurannsóknum, sækja gjarna rök sín til trúarlegra viðhorfa til helgi lífsins.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
14. desember 2004

Ég finn mig sannarlega vanmáttugan við hlið virtustu sérfræðinga sem hér fjalla um málefni sem er í miðdepli nútíma vísindarannsókna. Ég er þakklátur fyrir tækifærið að hugleiða með ykkur þetta mál. Trúarleg viðhorf eru oft nefnd í þessu sambandi. Mér finnst mikilvægt að í frumvarpi til þingsályktunar sem nú liggur fyrir alþingi og er hvatinn að þessu málþingi er ætlast til að hið trúarlega viðhorf komi til álita í því nefndarstarfi sem ætlað er að undirbúa lagasetningu um stofnfrumurannsóknir. Það er afar brýnt. Vegna þess að hin trúarlegu rök skipta máli. Þeir sem Vilhjálmur kallaði hér áðan „íhaldssama svartsýnismenn" gagnvart stofnfrumurannsóknum, sækja gjarna rök sín til trúarlegra viðhorfa til helgi lífsins. Ég vil lyfta hér fram sjónarmiðum úr þeim ranni. Samt flyt ég hér ekki „afstöðu kirkjunnar“, hún liggur ekki fyrir og margvíslegar skoðanir uppi. Þjóðkirkjan er ekki sólórödd, heldur pólýfónkór! En ég er sannfærður um að trúarafstaða, guðsmynd okkar og mannsskilningur hlýtur að móta viðhorfin. Vegna þess að þær spurningar sem vakna andspænis stofnfrumum, spurningar um hvort rétt sé að nota fóstur og fósturvísa í rannsóknaskyni, eru mikilvægar og svörin gætu verið afdrifarík hvað varðar mannskilning og mennsku okkar og mótun samfélags og menningar. Og það er þegar öllu er á botninn hvolft spurningin um Guð. Spurningarnar krefjast gaumgæfni okkar allra, vegna þess að þær snúast um upphaf lífs og eðli, um tilgang og markmið lífsins, og það hvernig heim og framtíð við sjáum fyrir okkur. Þetta eru sem sagt siðferðisspurningar, sem ættu að snerta okkur öll. Og eins trúarlegar spurningar. Því að þegar við mætum spurningunum um eðli lífsins og grundvöll manngildisins, þá erum við komin í námunda við leyndardóminn, sem manneskjan hefur ávallt og ætíð leitað hins trúarlega orðfæris og túlkunarmynsturs til að varpa ljósi yfir. Hinn trúaði skynjar þar Guð að baki. Það er nú svo að við þörfnumst annars tungumáls en eingöngu vísindalegra útlistana, við þörfnumst tákna, mynda, athafna og frásagna. Og grunnstefin stóru, sjúkleiki og heilbrigði, tími og eilífð, líf og dauði hafa ávalt verið miðlæg stef í trúarlegri orðræðu, og eru mikilvæg í hinni guðfræðilegu nálgun.

Tækninni fleygir fram með undrahraða og möguleikarnir virðast nær takmarkalausir. En á það að ráða ferðinni hvað mögulegt er og tæknilega fært? Við þekkjum það, að iðulega gerum við mistök í góðri trú, að maður sé að gera gott og til hagsbóta. Það er auðvelt að sannfæra sig um að tilgangurinn helgi meðalið. Og nú spyr margur andspænis hinum margvíslegu landvinningum vísindanna: Erum við komin of langt, erum við að leika Guð? Erum við að fikta svo við grunnþáttum lífsins að við erum að setja okkur í Guðs stað? Vitum við hvert við viljum stefna?

Varúðarrökin eru mikilvæg. En við þurfum ekki aðeins að sýna varúð, heldur umfram allt virðingu. Virðingu fyrir lífinu og höfundi þess.

Við hljótum að vera spyrjandi andspænis þeim væntingum og möguleikum sem stofnfrumurannsóknirnar vekja, vegna þess að sporin hræða. Á síðustu öld dæmdu vísindin ákveðnar manneskjur óæskilegar og meðhöndluðu þær sem tæki í þágu vísindarannsókna og framfara. Nú fordæmum við það harðlega. Þá var þetta stutt þungvægustu vísinda og hagkvæmnisrökum. Vísindin eru ekki óskeikul, né heldur nein kennivöld þessa heims.

Spurt hefur verið hvort yfirhöfuð sé hægt að samrýma kristinn mannskilning og frelsi vísindarannsókna. Ég er sannfærður um það. Okkur ber sem hugsandi, skynsemigæddum einstaklingum að greina andana, vega og meta og taka afstöðu. Andlegt líf snýst um hvað er gott, hvað er fagurt, hvað er heilagt. Hið andlega líf er listin og siðgæðið og iðkun trúarinnar. Og vísindin. Reyndar má halda því fram að raunvísindin séu mikilvægasta andlega afrek Vesturlanda samtímans. Grunnforsenda gyðing-kristinnar sköpunartrúar er trúin á Guð sem skapar líf og heim og kallar manninn til sérstakrar ábyrgðar, sem samverkamann sinn. Vísindin, raunvísindin, eru því eitt verkfæri í þágu skaparans, í því sköpunarverki sem heldur áfram að viðhalda lífi og reglu, hamla gegn upplausn, óreiðu og dauða. Manninum ber að vera samverkamaður Guðs, á bandi lífsins.

Trúin er ekki blindni, okkar kristni trúararfur krefst þess að manneskjan sé hugsandi, skynsemigædd og nálgist lífsgáturnar með opinn huga og opin augu og vitandi vits. Trúin leggur okkur þá skyldu á herðar að við tökum afstöðu með lífinu og í þágu lífsins, og ekki aðeins hins sterka og lífseiga, heldur líka því veika og varnalausa, jafnt við upphaf lífs og ævilok. Það er að segja, ef við höfum dregið einhvern lærdóm af jólunum, barninu í Betlehem og hvað hann, sem þar lá í jötu, sem barn kenndi okkur síðar um ást Guðs og ábyrgð manns og helgi og gildi jarðlífsins.

Okkur ber að hafa í huga siðgæði vísindanna og ábyrgð stjórnmálamanna og einnig þurfum við að hugleiða það hvernig varúð og gagnrýn skoðun er möguleg í ljósi þeirra togkrafta sem nú um stundir eru sterkastir, þar sem reginöfl takast á: auðmagn lyfjarisanna og rannsóknahagsmunir vísindasamfélagsins, pólitískir hagsmunir sem varða forgangsröðun í heilbrigðismálum td. , þarfir hins fátækari hluta mannkynsins, og margvíslegar væntingar almennings, og svo mannúðarsjónarmiðin og hagsmunir hinna sjúku og þjáðu og fötluðu sem oft virðast mega sín lítils í þeirri stórfenglegu, hraustu, nýju veröld sem við erum að móta.

Hvenær verður manneskjan til? Um það er td. deilt í því sambandi sem hér er til umræðu. „Maður verður til þegar unglingurinn flytur að heiman!” var eitt svar við þeirri spurningu. Hundrað ára kona sem rætt var við í sjónvarpi sagði aðspurð um líðan sína: „Ég er svo sátt við lífið, glöð og ánægð, og mest yfir því að nú eru öll börnin mín komin á elliheimili!” Þar með byrjaði lífið hjá henni!

Heldur vandast málið þegar svara þarf því við hvaða punkt í þroskaferli fósturs beri að sýna því virðingu sem manneskju ber. Og hvenær erum við komin út í að “dehúmanisera” fóstur, eða jafnvel barn, þeas meðhöndla það sem ekki-manneskju, ekki- persónu, massa eða hráefni? Mat á manngildi er breytilegt á ýmsum skeiðum sögunnar, og við getum bent á mörg dæmi þess að okkar öld sé hreint ekki verst hvað það varðar. En hitt er augljóst að í okkar samtíð er ekkert eins réttindalaust og hið ófædda líf, og fáir verða til að verja þann rétt.

Svarið við spurningunni um það hvenær líf verður til, hvenær lífsform verður manneskja, “lifandi sál,” eins og það heitir á máli Biblíunnar, hefur aldrei verið eins augljóst og ætla mætti. Hið sígilda svar er að það verði þegar til við getnað. Hvenær verður það manneskja? Íslam heldur því fram að karlfóstur fái sál 40 daga gamlir en kvenfóstur 120 daga. Við brosum að þessu - jafnvel þó að þeir hafi þetta frá ekki minna átoriteti en sjálfum Aristótelesi. En eru td. tímamörkin, sem fóstureyðing er leyfileg við samkvæmt lögum, einhver greinilegur vendipunktur í þroskaferli fóstursins? Einhver fegursta bæn Biblíunnar er 139. Davíðssálmur. Þar segir biðjandinn við Guð: „Augu þín litu mig, er ég enn var ómyndað efni...“. Orðasambandið „ómyndað efni“ mætti jafnvel þýða sem fóstur, eða jafnvel fósturvísi. Persónufornöfnin þín, mig, ég eru mikilvægust í þessu sambandi. Guð sér og myndar persónutengsl, ég - þú, við manneskjuna, jafnvel á frumstigi ævinnar, áður en maður veit af sjálfum sér. Og líka eftir að vitund manns lokast gagnvart umhverfi sínu, td. af völdum slysa, sjúkdóma td. Alzheimer. Það ætti að vera okkur umhugsunarefni, og hvatning til varúðar og virðingar.

Nú erum við farin að velja úr í móðurlífi „óæskilegt líf” - þar sem vísbendingar eru um afbrigði - og stilla mæðrum upp gagnvart þeim kosti að fá því eytt. Samtökin Þroskahjálp hafa ítrekað minnt á það hvernig það snertir stóran hóp fólks að samfélagið hefur dæmt það óæskilegt og því réttlætanlegt að eyða því, hvaða afleiðingar það muni hafa á samfélag og menningu til lengri tíma litið. Hvernig metum við lífið og manngildið, og hvert er vægi hins veika og fatlaða? Það ef til vill kjarni þessa máls. Samkvæmt okkar kristna mannsskilningi og guðsmynd er mannslífið eilífs gildis, óháð því hvað manneskjan áorkar, getur og gefur. Þessi frumforsenda hefur mótað evrópska siðmenningu. Nú er unnt að velja úr æskilega fósturvísa með sérstökum vefjaeiginleikum og rækta til þess að geta meðhöndlað td sjúkt barn. Hvernig á að vega saman hina margvíslegu hagsmuni í þessu sambandi? Er siðferðilega verjandi að geta og fæða barn til þess að verða varahlutur? Það hefur verið ein grundvallarregla í siðfræðinni að ekki sé heimilt að nota barn eða fóstur, manneskja má aldrei vera hráefni eða tæki til annarra gæða. Og hvað á að gera við aborteruð fóstur, og hvað á að gera við stofnfrumur þeirra fósturvísa sem verða til við tæknifrjóvgun? Sjálfum finnst mér þar vera munur á, að fremur sé verjandi að nýta „afgangsfósturvísa“ en fóstur sem eytt hefur verið úr móðurlífi. Afgangsvísum verður væntanlega eytt hvort sem er. En ættu ekki foreldrarnir að hafa eitthvað um það að segja? Og þarf ekki að setja skorður við því að markaðs og peningasjónarmið ráði þarna ferðinni?

Það er auðvelt að róta upp álitamálunum og spurningum á færibandi, en það verður fátt um svör. Spurningarnar eru margar, sumar sársaukafullar, allar erfiðar. Og eiga umfram allt að vera það. Manneskjan er þess verð, lífið er þess vert, sá undursamlegi og ótæmandi leyndardómur sem lífið er. Og eins og segir í bókinni góðu:„Hvílík djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!...Því að frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.“ (Róm.11.33,36).

Ég þakka Siðfræðistofnun fyrir þetta málþing, sem ég vona að skili þessari mikilvægu umræðu eitthvað áfram. Í Guðs friði.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt á ráðstefnú um stofnfrumurannsóknir, Norræna húsinu, 5. des.2004.