Mottumessa í Mottumars

Mottumessa í Mottumars

Laugarneskirkja er keppandi í Mottumars og verður að segjast að helgidómurinn tekur sig vel út með yfirvaraskegg. Með gleðina að vopni stuðlar átakið að því að veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf til þeirra sem greinst hafa með krabbamein og forvarnir til okkar hinna.

Það mottuæði sem gripið hefur heimsbyggðina á uppruna sinn í Ástralíu. Árið 1999 fengu félagar á bar í Adelaide þá hugmynd að safna yfirvaraskeggi til að vekja athygli á starfi dýraverndunarsamtaka þar í landi og urðu þjóðþekktir fyrir vikið. Í kjölfarið var sagt frá því að bandarískir mottu-unnendur með Tom Selleck í hópi meðlima hefðu lögsótt vinina fyrir að nota nafngiftina Movember, sem þeir töldu sig eiga einkarétt á, en sú umfjöllun var líklega hluti af uppátæki vinanna. Fimm árum síðar var uppátækið endurtekið, þá í Melbourne, sem fræðsluátak um karlmenn og krabbamein og söfnun fyrir fræðslu og rannsóknum á krabbameini í blöðruhálskirtli. Átakið 2004 náði að safna 450 mottum og andvirði um 5.000.000 króna, en það hefur á áratugi orðið að alþjóðlegri hreyfingu og stærsta bakhjarli krabbameinsrannsókna á sviði blöðruhálskirtils og eistnakrabbameins í heiminum.

Vinirnir í Adelaide höfðu hugsað sér að safna yfirvaraskeggi í mánuði sem byrjar á M-i en fannst of langt að bíða fram í mars og völdu því Nóvember, með tilheyrandi orðaleik. Krabbameinsfélagið hafði hinsvegar tíma til að bíða fram í mars og frá árinu 2010 hefur Mottumars safnað fé til forvarna, fræðslu, ráðgjafar og rannsókna á krabbameini í körlum. Álega greinast um 750 karlmenn með krabbamein á Íslandi og eru algengustu tegundir krabbameins í körlum, blöðruhálskirtilskrabbamein og krabbamein í ristli og lungum. Þökk sé starfi krabbameinsfélagsins og hugrekki þeirra sem fjallað hafa opinberlega um glímuna við þennan dýrkeypta sjúkdóm er krabbamein ekki lengur feimnismál í okkar samfélagi.

Það er mikið áfall að greinast með krabbamein og í kjölfar slíkrar greiningar þurfa krabbameinssjúklingar stuðning, fræðslu og ráðgjöf, sem meðal annara Krabbameinsfélagið veitir. Forvarnarstarf Krabbameinsfélagsins heldur á lofti tengslum heilbrigðra lifnaðarhátta og sjúkdóma, en með fjölbreyttu og hollu matarræði, markvissri hreyfingu og með reglubundnum skoðunum má lækka mjög áhættuna á því að fá krabbamein. Þessi vitneskja um tengsl lifnaðarhátta við tíðni sjúkdóma veldur því að sjúklingar glíma oft við sektarkennd yfir að hafa ekki sinnt heilbrigði sínu betur í kjölfar greiningar og það getur aukið á andlegt álag þeirra.

Tengsl heilbrigðra lifnaðarhátta og varna gegn sjúkdómum hefur verið þekkt frá fornöld og grikkir stunduðu lækningar sem fólu í sér að borða rétt, hreyfa sig og baða. Á tímum Jesú var þekking á starfsemi líkamans og orsökum sjúkdóma lítið þekkt og gyðinglegir trúarleiðtogar þess tíma héldu á lofti tengingu sjúkdóma og fötlunar við syndir manneskjunnar. Þeim viðhorfum mótmælti Jesús harðlega og frásagnir guðspjallanna fjalla margar um átök hans við trúarleiðtoga sem fordæmdu sjúklinga á þeim forsendum að þeir hefðu gert eitthvað til að verðskulda veikindi sín. Í stað fordæmingar stundaði Jesús lækningar, en þriðjungur frásagna guðspjallanna fjalla um samskipti hans við sjúklinga, og sú áhersla á umhyggju fyrir sjúkum hefur verið órofa hluti kristinnar kirkju frá stofnun hennar. Pistill dagsins er úr Jakobsbréfi en það bréf, sem kennt er við Jakob bróður Jesú, er dýrmæt heimild um áherslur safnaðarins í Jerúsalem á árunum eftir dauða hans, þar sem störfuðu hinir svokölluðu máttarstólpar, Jakob, Pétur og Jóhannes. Í pistlinum segir:

Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.

Í upphafi Jakobsbréfs er tóninn settur með ákalli um að gleðjast í raunum, á þeim forsendum að við stöndum ekki ein andspænis erfiðleikum okkar, og í þessum texta er söfnuðurinn hvattur til að slá skjaldborg um þann sem glímir við veikindi, biðja fyrir honum og hvetja hann til að horfast í augu við sjálfan sig. Þó eiginleg læknismeðferð hafi ekki verið til staðar á ritunartíma Nýja testamentisins, eru auk áherslu á fyrirbæn, varðveitt í þessu bréfi mikilvæg verkfæri sem stuðla að heilbrigði þess sem glímir við líkamleg veikindi. Þau eru það að varðveita gleðina, að þiggja stuðning og að vinna úr tilfinningum sínum á ábyrgan hátt.

Gleði er mikilvægt vopn í baráttunni við alvarleg veikindi og lækningarmáttur gleðinnar er vísindaleg staðreynd. Hugsjónamaðurinn og Íslandsvinurinn Patch Adams, stofnandi Gesundheit stofnunarinnar, hefur sýnt fram á með rannsóknum mátt hláturs og gleði til að létta þjáningar sjúklinga og til að flýta fyrir bataferli þeirra. Þessa staðreynd boðar Jakobsbréf í upphafi bréfsins með orðunum: ,,Kæri söfnuður, álítið það mesta fagnaðarefni er þið ratið í ýmiss konar raunir. Þið vitið að trúfesti ykkar vekur þolgæði en þolgæðið á að birtast í því sem þið gerið, til þess að þið séuð fullkomin og alger og ykkur sé í engu ábótavant" (Jk 1.2-4).

Stuðningsnet er ekki síður mikilvægt og þar ber að hafa í huga að nánustu ættingjar hins veika eru ekki síður undir álagi en sá sem glímir við veikindi. Það álag er oft minna sýnilegt og aðstandendur leggja oft ríkari áherslu á að standa vörð um og styðja þann sem veikst hefur en að sækja sér sjálf stuðning. Það sem Jakobsbréf orðar að ,,kalla til sín öldunga safnaðarins” merkir í sinni einföldustu mynd að sækja sér stuðning til þeirra sem geta veitt slíka stuðning og hafa jafnvel staðið í sömu sporum sjálf. Ég varð síðastliðið sumar vitni að dýrmætu starfi Bergmáls líknarfélags í því samhengi. Forsvarsmönnum þess var bent á vinahjón mín, en sá maður lést úr krabbameini í nóvember síðastliðnum, og þeim boðið í vikudvöl á Sólheimum í Grímsnesi þar sem þau fengu lífsnauðsynlegan stuðning og umhyggju. Það getur skipt sköpum að finna að maður stendur ekki einn í erfiðleikum sínum.

Loks hvetur Jakobsbréf til iðrunar með því fyrirheiti að ,,Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar.” Sektarkennd og erfiðar tilfinningar geta truflað mjög bataferli og hindrað okkur í að njóta þess dýrmæta tíma sem okkur er úthlutað og þá er mikilvægt að orða slíkar tilfinningar við einhvern sem er traustsins verður. Farsæl úrvinnsla erfiðra tilfinninga er okkur öllum mikilvæg og sérstaklega þeim sem eru að ganga í gegnum erfið veikindi.

Allir þessir þættir koma saman í átaki Krabbameinsfélagsins Mottumars og því vill Laugarnessöfnuður taka undir með þessu mikilvæga átaki. Laugarneskirkja er keppandi í Mottumars og verður að segjast að helgidómurinn tekur sig vel út með yfirvaraskegg. Yfirvaraskegg klæða fæsta karlmenn vel, þó þau prýði einstaka menn, en þau geta vakið ómælda gleði á okkur sem líta hreint kjánalega út með mottu. Með gleðina að vopni stuðlar átakið að því að veita stuðning, fræðslu og ráðgjöf til þeirra sem greinst hafa með krabbamein og forvarnir til okkar hinna.

,,Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.” Einn stofnenda Movember átaksins sagði í fyrra að það væri sýn samtakanna að geta læknað krabbamein í blöðruhálskirtli eftir áratug. Það sem byrjaði með 450 mottum fyrir 10 árum er nú orðið að viðburði með yfir tveimur milljónum keppenda og í nóvember í fyrra söfnuðust 16 og hálfur milljarður króna á heimsvísu til krabbameinsrannsókna og forvarna. Ég trúi honum og vill leggja mitt af mörkum með því að taka undir slíka bæn og styðja í verki.facetache.jpg