Vöxtur guðsríkisins

Vöxtur guðsríkisins

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
11. nóvember 2007
Flokkar

Guðspjall: Matt. 28. 16-20 Lexia: Jes. 12. 2-6 Pistill: Róm. 8-17

Einu sinni voru ferðamenn að skoða olíuhreinsunarstöð. Leiðsögumaðurinn sagði þeim í smáatriðum frá flóknu hreinsunarferlinu. Hann sýndi þeim hina gríðarstóru tanka, leiðslurnar, hitakerin og allt hitt sem notað var við olíuhreinsunina. Í lok ferðarinnar spurði einn ferðamaðurinn einfaldrar spurningar. „Þú sýndir okkur allt nema dreifingardeildina. Olíuhreinsunarstöð af þessari stærð framleiðir mikið magn jarðolíu og breytir henni í bensín og smurolíu. Fáum við ekki að sjá hvar þetta er sett í tunnur og svo flutt á sölustaði?“ „Sjáðu til,“ sagði leiðsögumaðurinn, „hér er engin dreifingardeild. Öll framleiðslan fer í að halda hreinsunarstöðinni gangandi.“ Kirkjan er ekki að störfum fyrir sjálfa sig, heldur fyrir heiminn. Kirkjurnar eyða allt of miklum kröftum í að vera með dagskrá sem miðar að því að halda kirkjunni gangandi. Tilgangur kirkjunnar er ekki að viðhalda sjálfri sér, heldur að færa heiminum það sem hún hefur upp á að bjóða að boði Jesú Krists sem sagði lærisveinum sínum að fara út um allan heim og prédika fagnaðarerindið öllu mannkyni: Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skíra þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðað yður.

Tvisvar á ári er kristniboð í brennidepli í starfi kirkjunnar. Annars vegar á hvítasunnu á vorin og hins vegar á kristniboðsdegi á haustin. Í dag er kristniboðsdagur íslensku Þjóðkirkjunnar. Kristniboð er mikilvægt og hluti af köllun kirkjunnar.

Vissuð þið að tæplega 40 íslenskir kristniboðar hafa starfað í Afríku? Vissuð þið að kristniboðarnir gera sér far um að læra tungumál og menningu fólks í Afríku? Vissuð þið að kristniboðið hefur byggt 70 skóla í Pókothéraði í Keníu? Vissuð þið að kristniboðið hefur byggt um heilsugæslu víða í Eþíópíu og Keníu? Vissuð þið að kristniboðið hefur tekið þátt í uppbyggingu öflugra innlendra kirkna. Vissuð þið að kristniboð er ekki aðeins boðun og fræðsla heldur einnig heilsuvernd og menntun, þróunar-og neyðarhjálp?

Í kvöld minnist ég heimsóknar minnar til Pókot héraðs í Kenía árið 1999 ásamt kristniboðsvinum frá Íslandi. Þar stóð ég sem skrælnað strá, áveðra og lémagna af hita og þurrki niðri á sléttunni í Akiriamet sem þýðir ármót. Hitastigið var 37 gráður og lognið var algjört. Ég fann hvergi vatn nema í brúsanum mínum en þarna hafði víst ekki rignt í margar vikur og árfarvegirnir voru uppþornaðir. Kyrrðin var öðru hvoru rofin með þróttmiklum söng sem barst mér til eyrna frá moldarkofa sem var þarna inn á milli trjánna og þurra rótarkvistanna sem voru skrælnaðir úr þurrki að mér fannst. Það óx ekkert gras við þessar aðstæður, samt gaf Guð vöxtinn í þessu hjartnanna samfélagi af holdi og blóði sem lofaði Drottinn af öllum lífs og sálarkröftum, þó með þeirri mýkt og lotningu sem hæfir. Ég skildi ekki eitt einasta orð en hjartnæm lofgjörðin sem barst frá litlu kirkjunni í námunda var ósvikin og bræddi strax hjarta mitt. Þarna var andi Drottins Jesú Krists að verki. Ég öðlaðist aukinn þrótt fyrir vikið og gat gengið á hljóðið með samferðamönnum mínum. Þá gekk út mótttökunefnd úr kirkjunni sem bauð okkur hjartanlega velkomin. Áður en við gengum í guðs hús þá var okkur vísað að gamla kirkjustæðinu skammt frá. Þar hafði staðið kirkja en eitt sinn var ráðist á þá sem þar voru saman komnir til þess að lofa Drottinn og þeir barðir sundur og saman og kirkjan brennd til grunna. Kirkjufólkið slapp út við illan leik og fór heim til sín Þá voru öldungar svæðisins kallaðir til og þeir úrskurðuðu að ný kirkja skyldi byggð skammt frá hinni eldri. Þeir úrskurðuðu jafnframt að það ætti að láta kirkjuna í friði og að ekki mætti áreita þá sem hana sæktu.

Þegar ég heyrði þetta þá gerði ég mér fyrst grein fyrir því hversu jákvæð áhrif kristniboðið hafði haft á þetta strjálbýla sléttusvæði. Jafnvel öldungar á svæðinu sem eru lögregla og dómarar svæðisins, sáu hag fólksins að miklu leyti borgið með þvi að leyfa kristniboðum að starfa á svæðinu. Eftir þennan úrskurð öldunganna var kirkjan endurreist og þarna var hún. Við gengum nú til kirkju undir hrífandi söng kirkjugesta og virtum bygginguna fyrir okkur. Hvorki var marmari á gólfi né parket heldur slétt og sópað moldargólf. Engar þungar eikardyr féllu að stöfum í henni né heldur voru rúður í gluggafögum. Það var gott að ganga í guðs hús inn enda var svalara þar en úti. Lofgjörðin yfirgnæfði suðið í drekaflugunni sem flaug sína leið inn um dyragættina og út um gluggana. Bárujárnið á þakinu og þaksperrurnar báru vitni um að ekkert hafði verið sparað til þess að gera kirkjuna varanlega. Karlarnir sátu flestir í kór kirkjunnar á trébekkjum með útveggjunum en konurnar notuðust við bekki í kirkjuskipinu sjálfu. Prédikarar af svæðinu leiddu samkomuna og fólkið stóð á fætur eitt af öðru og gaf sinn vitnisburð milli þess sem það lofaði Guð af öllu hjarta, líkama og sál. En athygli vakti þegar konurnar hófu að stökkva upp í loftið undir lofgjörðinni og fettuðu sig og beygðu í loftinu, ógleymanlegt sjónarspil. Það var enginn sem spilaði á dýrindis pípuorgel heldur var leikið á heimatilbúna hristu sem gerði sitt gagn.

María steig fram á sjónarsviðið, frekar lágvaxin kona með fíngert andlit og gaf sinn vitnisburð. Saga hennar rifjaðist upp fyrir mér sem hún stóð þarna og vitnaði. Hún giftist, varð ófrísk en gat ekki fætt barnið og var að því komin að örmagnast þegar tókst að bjarga henni en barnið dó. María gat ekki eignast fleiri börn og var því álitin svikin vara upp frá því. Hún örvinglaðist og ákvað að stytta sér aldur eins langt frá foreldrum sínum og hægt var. María var orðin sljó eftir daglanga göngu er hún fann tré í vegkantinum sem henni fannst nothæft til verksins. Allt í einu staðnæmdist vörubíll hjá henni og hún var spurð að því hvert för hennar væri heitið. Hún sagðist þá vera á leið til Kacheliba sem er þorp við ána Swam. Hún fékk far með vörubílnum og gistingu á næturstaðnum. Fyrr en varði varð hún önnur kona manns sem ekki var kristinn. Sá drakk mikið og fór hún að drekka með honum. Eitt sinn stálu þau kú og slátruðu henni og bjuggust til að fá sér bita af henni og kveiktu eld. Hann var óðara slökktur þegar bíll renndi í hlað sem hafði kristniboða innanborðs sem bauð þeim á kvöldsamkomu. María fór á samkomuna og það sem hún heyrði þar sat í henni og Guð gaf vöxtinn í trúarlífi hennar. Hún varð kristin kona og mátti fyrir vikið þola margt mótlæti. Þó hún hafi ekki getað eignast börn þá eignaðist hún mörg andleg börn. Prédikarinn Tómas talaði tíl kirkjugesta. Hann er ættaður frá Sekerr sem er fjallendi í 1900 metra hæð yfir sjávarmáli. Hann hefur sérstaka útgeislun og mikla hæfileika á sviði prédikunar en hann tekur mikið dæmi úr daglegu lífi er hann talar til fólksins og það leyndi sér ekki að fólkið lagði við hlustirnar eftir útleggingu guðs orðs er hann talaði í kirkjunni og var vel með á nótunum.

Súsanna er leiðtogi í kvennastarfi kirkjunnar. Hún gaf sinn vitnisburð. Á meðan hún tjáði sig þá rifjaði ég upp sögu hennar með sjálfum mér sem er á þessa leið. Hún er frá Kunyao, þorpinu þar sem biskup Íslands Herra Karl Sigurbjörnsson skírði rúmlega sextíu manns í heimsókn sinni til Kenýa skömmu eftir biskupsvígslu sína. Eitt sinn komu kristniboðar þangað og héldu samkomu. Súsanna fór á samkomuna og hlustaði á guðs lesið og túlkað og ákvað í framhaldi af því að gefa sig heilshugar að fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Eiginmaðurinn varð ekki hrifinn og ákvað sjálfur að flytja fjölskylduna á brott en eiginkonur eru bara vinnudýr í augum heiðinna karla sem eiga margar konur allt eftir efnum. Súsanna ákvað að gefast ekki upp og hélt fótgangandi langan veg til sömu kirkjunnar á hverjum sunnudagsmorgni. Þá ákvað eiginmaður hennar að flytja fjölskylduna enn lengra í burtu. Þá tók Súsanna til bragðs að fara af stað til þessarar sömu kirkju á laugardegi og gekk þann dag og nótt og fram til hádegis næsta dag því að hún vildi ekki fyrir sitt litla líf missa af að heyra og meðtaka orðið sem var í hennar huga og hjarta dýrmætara en allt sem hún átti fyrir. Karlinn hennar brjálaðist og barði hana til óbóta svo að hún lá eftir í blóði sínu I kofanum. Hann tók allar eigur þeirra og yfirgaf hana þar sem hún lá illa haldin.Hún sagðist hafa beðið bæn á gólfinu og sagt við Drottinn: "Jesús, ég hef lent í þessu vegna þess að ég þekki þig, hjálpa þú mér nú Drottinn". Súsanna tók sig upp í blóði sínu og gekk einn og hálfan dag eftir hjálp sem hún fékk. Og hún hélt áfram að sækja kirkjuna sína. Einu ári síðar eða svo sneri maður hennar aftur og hann sagði við hana: "Þinn Guð er sterkari en mínir guðir". Þá viðurkenndi hann að hafa kastað seiði á hana í því skyni að ganga frá henni en seiðurinn virkaði ekki vegna þess að Jesús hefur allt vald á himni og á jörðu. Trúin hefur gefið Súsönnu mikla gleði, hún er þjónn Drottins, boðberi fagnaðarerindisins og heimsækir konur vítt og breitt um Pókot hérað og hefur mikil áhrif á þær.

Þegar kom að altarisgöngunni eftir tveggja og hálfs tíma lofgjörð í tali og tónum þá fól leiðsögumaðurinn, Kjartan Jónsson mér að útdeila sakramentinu með sér til Maríu, Súsönnu, Tómasar og allra hinna sem hér eftir munu skipa ríkan sess í hjarta mínu í minningunni. Ég komst við í anda þegar ég mælti viðeigandi orð á swahilí, "Damo da Yesú", blóð Krists við þann sem þáði því að sakramentið var meðtekið af svo mikilli lotningu og virðingu að ég mun aldrei gleyma því. Og gamalkunna bænaversið öðlaðist nýtt líf fyrir augum mínum: "Jesús sem að dauðann deyddir, dauðlegum gafst lífið mér, / þú að borði lífs mig leiddir,/ lausnarpantur fenginn er. Efl þú mína ást og trú, / auk mér sálarrósemd nú, / þig mitt lífið heiðri í heimi, / hjálp veit þér ég aldrei gleymi". Þarna laukst það upp fyrir mér að það dýrmætasta sem þetta fólk átti var eilífa lífið sem það vissi ekki að væri til, er það áður var ofurselt myrkri og lygi heiðindómsins. En dýrð Drottins skein nú úr augum þessa fólks, undursamlegur friður og fögnuður fylgdi því. Sannleikurinn hafði gert það frjálst. Líf þess hafði öðlast nýjan tilgang sem fólst í því að vera á einhvern hátt verkfæri Guðs á akri lífsins með því að lífa í trú, von og kærleika til allra manna.

Mér fannst útgangan úr kirkjunni á sléttunni stórbrotin þegar kirkjugestir gengu syngjandi út og heilsuðu öllum með handabandi og mynduðu röð sem endaði í hring og allan tímann var Drottinn lofaður við takfastan hljóm trommunnar sem er kirkjuorgel Afríku. Þennan hljóm heyrðum við langar leiðir er við nálguðumst kirkjuna á sléttunni fyrir messuna. Leiðsögumaðurinn Kjartan Jónsson sagði okkur að messan hefði hafst þegar fyrstu kirkjugestirnir gengu þar inn fyrir dyr jafnvel klukkustund áður en okkur bar að garði.

Enginn er að flýta sér heim á leið eftir samkomuna. Allt hefur sinn tíma í Afríku Þar sem komið er saman og hlustað á Guðs orð, þar er beðið saman, Drottinn lofaður og tilbeðinn í þrjá, fjóra og jafnvel fimm tíma. Allir vilja komast að til að gefa vitnisburð sinn. Þeir eru margir einfaldir enda þarf ekki mörg orð til að segja að Jesús sé frelsari manns, að áður hafi vonleysi og andlegt myrkur bugað mann,að ákveðnir heiðnir siðir hafi fjötrað mann, að drykkjan hafi eyðilagt mann og fjölskyldurnar og svo framvegis.

Jesús fyrirgefur syndir, Hann gefur nýtt líf í samfélagi og samfylgd við sig. Við erum ekki ein og yfirgefin segja þeir sem vitnisburðina gefa. Vonin sem Jesús gefur er bæði fyrir þetta líf og hið komandi. Andspænis dauðanum erum við ekki lengur í óvissu, óttaslegin og hrædd. Jesús lifir og gefur eilíft líf. Supon nyo po kokai, á pókotmáli. Uzima wa milele á swahíli. Að heyra þessa vitnisburði, að sjá gleðina sem skín úr augum fólksins og að fá að taka þátt í gleðinni af öllu hjarta – það er gleði kristniboðans.

Það vakti óskipta athygli mína og samferðamanna minna frá Íslandi hversu innra líf safnaðanna er kröftugt og mikið. Fólk er ekki komið á staðinn til að njóta vistarveranna heldur til að eiga innihaldsríkt samfélag saman. Vissulega þrá söfnuðirnir að eignast sína eigin kirkju, helst rúmgóða og fallega kirkju. Vonandi rætist sú þrá og sums staðar hefur íslenska kristniboðssambandið getað rétt söfnuðunum hjálparhönd í því efni.

Krosstáknið á kirkjunum bendir okkur á dauða Jesú og minnir okkur á hann í hvert skipti sem við sjáum það. Eitt sjónarhornið á dauða Jesú er að Jesús fórnaði sér með dauða sínum á krossi. Hann var staðgengill okkar og tók á sig það sem eiginlega var okkar. Þetta er sagt með orðum Litlu Biblíunnar: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð gaf son sinn.

Fyrir flestum í Afríku er hugsunin um fórn fyrir synd lykilatriði og eitthvað sem allir kannast við, þó svo við höfum týnt þeirri hugsun okkar á meðal. Meðal flestra þjóðflokka eru skýr ákvæði og reglur um hvernig skuli fórna og hverju. Oft er það seiðmaður sem sér um þann þátt lífsins. Margir hafa greitt mikið, fórnað miklu. Einn af þekktustu söngvurum Tansaníu, Munishi, söng um allar fórnirnar fyrir nokkrum árum. Hann lýsti því hvernig hann fórnaði, bæði hænsnunum sínum, geitunum sínum, nautinu sínu og var í fjötrum fórnanna – þangað til hann kynntist Jesú, sem fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll, greiddi allt sem greiða þurfti og frelsaði hann. Krossinn bendir okkur líka á kærleika Guðs. Kærleikur Guðs birtist skýrast í Jesú Kristi, lífi hans, dauða og upprisu. Þann kærleika þurfum við að færa öðrum sem þekkja hann ekki. Um það snýst kristniboðsstarfið: Að leiða fólk á fund Jesú, að fólk læri að biðja til hans, treysta honum og lifa fyrir hann og með honum.

Tekið er við gjöfum til kristniboðsins. Upplýsingar um móttöku á gjöfum gefur t.d. vefsíða íslenska kristniboðssambandsins sik.is Við skulum minnast þessa mikilvæga starfs og biðja fyrir því vegna þess að uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Íslenska kristniboðssambandið leitast við að hlýða kristniboðsskipun Jesú Krists og færa heiminum fagnaðarerindi hans. Þannig er kristniboðssambandið “dreifingardeild” fyrir fagnaðarerindið, ekki aðeins fyrir Ísland heldur allan heiminn. Gerumst kristniboðsvinir í kvöld. Amen.